13. nóvember 2020

178. EIN SVEKKELSIS FÓTBOLTAFÆRSLA

Vafalaust eru einhverjir þarna úti sem enn eru að gráta úrslit gærkvöldsins en þegar allir héldu að árið 2020 gæti ekki versnað þá ... uhhh... batnaði það alla vega ekki! Íslenska knattspyrnulandsliðið kemst sem sagt ekki á EM næsta sumar og nú væri líklega bara best fyrir alla ef keppninni yrði aflýst endanlega vegna helvítis drepsóttarinnar (Afsakið orðbragðið!). Liðið á reyndar líka eftir að spila tvo leiki við Dani og Englendinga í Þjóðadeildinni á næstu dögum en líklega er öllum skítsama um hvernig þeir leikir enda. Líkt og stundum hefur gerst hér áður er færsla dagsins tileinkuð íslenska landsliðinu og af þeirrri ástæðu hefur SVEPPAGREIFINN grafið upp myndasögu sem tengist knattspyrnunni svolítið. En í einni af bókunum um Sval og Val kemur fyrir fótboltatenging sem er algjörlega tilvalið að skoða í kjölfar svekkelsis gærkvöldsins.
Fimmta saga bókaflokksins heitir Les voleurs du Marsupilami og kom fyrst út í bókarformi árið 1954 en hún hafði áður birst í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU árið 1952. Sagan er eftir André Franquin og hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu en þess er þó vonandi ekki langt að bíða. Íslenskur titill þeirrar bókar yrði líklega þýddur sem Gormdýrinu rænt, Gormi stolið eða eitthvað á þá leið, en sagan gerist nokkurn veginn í beinu framhaldi af bókinni Spirou et les héritiers sem við þekkjum auðvitað sem Baráttan um arfinn og kom út hjá Iðunni árið 1980. En forsagan að þessari fótboltatengingu er sú að í byrjun sögunnar hefur Gormi verið komið fyrir í dýragarði. Svalur og Valur eru nýbúnir að heilsa upp á hann og komnir aftur heim þegar þeir fá símtal frá garðinum þar sem þeim er tjáð að Gormur sé dauður. Þeir drífa sig aftur í dýragarðinn en þegar dýralæknirinn ætlar að sýna þeim líkið af Gorminum er það horfið. Þá fer af stað ýtarleg leit í garðinum og allir útgangar eru vaktaðir en ekkert finnst. Þeir Svalur og Valur ákveða þó að vakta garðinn um nóttina, ef sá sem tók dýrið er þar enn, og þá lenda þeir í tíu blaðsíðna eltingarleik í dýragarðinum við þjófinn sem þó kemst undan. Sá er augljóslega íþróttamaður í góðu formi en þeim félögunum tekst að rekja slóð hans og koma heim til hans um morguninn. Þá kemur í ljós að hann er floginn til borgarinnar Magnana (hvar sem hún nú er) og þangað ákveða Svalur og Valur að fara líka.
Þeir Svalur og Valur eyða nokkrum vikum í Magnana án þess þó að finna neina vísbendingu um hvað gæti hafa orðið af Gorminum eða þeim sem stal honum. Þarna vita þeir raunar ekki einu sinni hvort hann er lífs eða liðinn en seinna kemur auðvitað í ljós að hann er sprelllifandi. En einn daginn rekast þeir óvænt á eiginkonu þjófsins
úti á götu, ásamt börnum þeirra, og elta hana áleiðis að stórum knattspyrnuleikvangi þar sem senn fer að hefjast leikur á milli heimaliðsins í Magnana og andstæðinga þeirra. Konan og börnin hennar eru augljóslega á leiðinni á völlinn og þeir Svalur og Valur bregða sér því þangað einnig. Það er síðan á blaðsíðu 32 sem þeir félagar gera þá óvæntu uppgötvun að þjófurinn og hlaupagikkurinn Valentin Mollet er í rauninni afar snjall knattspyrnumaður og spilar með fótboltaliðinu F.C. Magnana þarna í borginni. Og það er einmitt á þessum tímapunkti sem hin áðurnefndu og sjaldséðu knattspyrnutilþrif sjást í Sval og Val sögu.

Þessi sjaldséðu knattspyrnutilþrif í teikningum Franquins eru stórmerkilegar og gaman að sjá hvernig hægt er að setja sig inn í belgíska fótboltastemmningu tæplega 70 árum seinna og það meira að segja í lit! Búningatískan, fótboltaskórnir, boltinn sjálfur, fólkið á áhorfendabekkjunum og völlurinn gefa lesandanum góða mynd af því hvernig belgísk knattspyrna var árið 1952. Þá er heldur ekki úr vegi að setja þessar myndaraðir svolítið í samhengi við þá stemmningu sem ríkti í íslenskri knattspyrnu á þessum sama tíma. Íslenska 1. deildin hafði aðeins að geyma fimm lið þar sem spiluð var einföld umferð á malarvöllum en KR og ÍA voru sterkustu lið landsins á þessum árum. Á sama tíma voru hin fornfrægu lið RFC Liège og Anderlecht best í sextán liða efstu deild í Belgíu og öll umgjörð í kringum knattspyrnuna þar var mörgum klössum ofar en á Íslandi. Og svo má þess geta að Ísland og Belgía mættust í tveimur leikjum árið 1957 í undankeppni HM '58 og hér fyrir neðan má sjá nokkur merkileg myndbrot úr þeim leik. Það gerðist einmitt í þessum leik að tveir leikmenn Belganna tóku sameiginlega vítaspyrnu og skoruðu úr frægt mark en fleiri hafa reynt það síðan með reyndar afar misjöfnum árangri. Vítið má einmitt sjá í þessu myndbandi.
En hvað Sval og Val söguna Les voleurs du Marsupilami varðar þá er líklega rétt að taka það fram að knattspyrnumaðurinn Valentin Mollet var í rauninni aldrei neinn alvöru bófi. Fjárhagsvandræði fjölskyldu hans neyddu hann hins vegar til að taka að sér þetta óheiðarlega verkefni fyrir Frísk forstjóra hjá Sirkus Sabaglíóní. Frískur kom síðan seinna fyrir í sögunni Valur á tryllitækinu (La Quick super) sem við munum auðvitað eftir sem aukasögu úr bókinni Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence). Seinna í bókinni Les voleurs du Marsupilami kemur í ljós að Gormur hafði orðið hluti af sýningu sirkussins áður en þeim Sval og Val tókst að bjarga honum úr klóm Sabaglíónís. Það gerðu þeir reyndar með aðstoð Sveppagreifans sem þeir hittu óvænt á förnum vegi í Magnana. Það er hins vegar allt önnur saga og kemur þessari færslu um knattspyrnu lítið sem ekkert við.
Franquin gerði reyndar nokkra skemmtilega brandara með Viggó viðutan snemma á áttunda áratug síðustu aldar og SVEPPAGREIFINN hefur einmitt gert þeim svolítil skil í öðrum færslum tengdum fótbolta. Þær færslur má lesa hér og hér og svo er hér ein í viðbót sem einnig er fótboltatengd. En EM næsta  sumar verður því víst að vera án okkar manna en það er þó alla vega hægt að fara að láta sig hlakka til jólanna í staðinn. Annars er voðalega tilgangslaust að vera að svekkja sig á þessu. Ísland hefur oft áður ekki komist á EM!

2 ummæli:

 1. Skemmtilegur pistill. Mér finns fótboltateikningarnar í Viggó alveg frábærar.

  SvaraEyða
 2. Takk Rúnar :)

  Alveg sammála þér, mér finnst fótboltateikningarnar með Viggó alveg einstaklega vel heppnaðar.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!