30. október 2020

177. EITT OG ANNAÐ UM TARZAN BLÖÐIN

Þegar SVEPPAGREIFINN var að byrja að huga að því, fyrir nokkrum árum, að skrifa blogg um eitt af áhugamálum sínum, teiknimyndasögur, þá tók það hann nokkurn tíma að ákveða og þróa með sér hugmyndir um efnið. Þær fransk/belgisku teiknimyndasögur sem gefnar voru út í bókaformi hér á landi á sínum tíma voru auðvitað hugsaðar sem helsta viðfangsefnið en að öðru leyti var hann svo sem ekki með neinar fastmótaðar hugmyndir. Fljótlega var hann þó ákveðinn í að vera einnig svolítið á sveimi í kringum þessar vinsælu myndasögur og fjalla líka um ýmislegt efni sem tengdust þeim og höfundum þeirra. Eitt af því sem SVEPPAGREIFINN var hins vegar alltaf ákveðinn í að skrifa EKKI um voru myndasögublöðin sem hér hafa verið gefin út. Af hverju, er ekki gott að segja en líklega hefur honum fundist það að einhverju leyti fyrir neðan hans virðingu að fjalla um Andrés önd, Gög og Gokke, Köngulóarmanninn og Tarzan. Já og svo ekki sé talað um Syrpurnar frá Disney samsteypunni sem Edda er enn að gefa út. Þær vasabrotsbækur eru orðnar líklega um 330 talsins! Þessar afurðir voru ekki alvöru og honum fannst myndasögublöðin aldrei falla í flokk með hinum eiginlegu (og alvöru) teiknimyndasögum. Sem er auðvitað alrangt. Allt eru þetta auðvitað myndasögur en í fljótu bragði virðist eini munurinn vera sá að annars vegar voru þær gefnar út í blaðaformi og hins vegar komu þær ekki frá franska málsvæðinu í Evrópu. Nú er því kominn tími á að söðla aðeins um og skoða svolítið myndasögublöðin um Tarzan (og auðvitað son Tarzans) sem hin goðsagnakennda Siglufjarðarprentsmiðja gaf hér út á sínum tíma.
En útgáfa þessara Tarzan blaða hóf göngu sína í apríl mánuði árið 1979 þegar fyrstu fjögur blöðin komu út á einu bretti. Það var Sigurjón Sæmundsson, eigandi gamallar prentsmiðju á Siglufirði, sem hafði veg og vanda að þessum myndasögublöðum en Siglufjarðarprentsmiðja hafði einhverjum áratugum áður byrjað að gefa út unglingabækur um Tarzan eftir bandaríska rithöfundinn Edgar Rice Burroughs. Þær bækur voru nokkuð vinsælar og góð eintök af þeim bókum eru reyndar nokkuð eftirsótt af söfnurum í dag. Sagan segir hins vegar að það hafi ekki verið áhugi Sigurjóns á myndasögum sem hvatti hann til útgáfu Tarzan blaðanna heldur hafi hann einfaldlega vantað eitthvað efni til að gefa út á dauðum tímum þegar útgáfa annarra verka prentsmiðjunnar lá niðri. Á árunum í kringum 1979 hafði verið mikil ládeyða í atvinnulífinu á Siglufirði, eins og reyndar annars staðar á landinu, og Sigurjón hafði því verið að velta fyrir sér ýmsum viðskiptahugmyndum og tækifærum. Hann komst að því að til væru myndasögur um Tarzan í blaðaformi og gekk í það verkefni að útvega útgáfuréttinn af þeim sögum. Sigurjón hafði samband við útgáfuforlagið Atlantis í Stokkhólmi en það fyrirtæki hafði réttinn af blöðunum á Norðurlöndunum og hann fékk leyfi til að gefa þessi myndasögublöð út hér á landi. Tarzan blöðin voru síðan fyrst og fremst seld í áskrift en einnig mun hafa verið hægt að panta heilu árgangana í póstkröfu eftir á. Þessa innpökkuðu árgangapakka hefur á undanförnum árum enn verið hægt að nálgast á Bókamarkaði félags íslenskra bókaútgefenda sem haldinn er undir stúkunni á Laugardalsvelli í byrjun hvers árs. Tarzan blöðin voru að jafnaði ekki að finna í hefðbundnum, virðulegum bókabúðum. Þau var hins vegar oft hægt að kaupa í litlum sjoppum, bensínstöðvum og í gömlu kaupfélögunum úti á landi þar sem reyndar fékkst yfirleitt allt milli himins og jarðar.
Hasarblöð á íslensku höfðu fram til þessa verið algjörlega óplægður akur og það var því þessum fyrrverandi bæjarstjóra og heiðursborgara Siglufjarðar að þakka að nú varð breyting á. Útgáfan á Tarzan blöðunum varð fljótlega að nokkurs konar heimilisiðnaði því Sigurjón og fjölskylda hans komu að öllum þáttum og rekstri þessarar útgáfu. Eiginkona Sigurjóns, Ragnheiður Jónsdóttir, annaðist til dæmis áskrifendur blaðanna og sá einnig um að innheimta áskriftargjöldin auk annarra verkefna. Sonur Sigurjóns, Jón Sæmundur Sigurjónsson, hefur sagt frá því í viðtali hvernig hann minnist þess þegar faðir hans var að þýða sögurnar, ýmist úr ensku eða sænsku, oft langt fram eftir kvöldi. Hann hafi síðan setið við tölvuna og pikkað inn textann, prentað út þessar þýðingar, klippt textann niður í strimla og límt þær að lokum inn á talblöðrurnar á myndunum. Handavinnan við þetta allt saman var mjög tímafrek en þótt það væri Siglufjarðarprentsmiðja sem gæfi blöðin út, að nafninu til, voru þau þó ýmist prentuð í Ungverjalandi eða Finnlandi eftir aðstæðum. Í gegnum tíðina hefur mörgum verið tíðrætt um einkennilegar þýðingar eða frasa í þessum sögum. Jón Sæmundur hefur einmitt tekið undir það og gefið á því eðlilegar skýringar. Eftir að hafa setið löngum stundum við tölvuna hafi Sigurjón faðir hans oft verið orðinn ansi lúinn, enda hann þá kominn nokkuð á áttræðisaldurinn, og beinar afleiðingar þess hafi einfaldlega verið skrautlegri þýðingar. Þegar hann var óþreyttur komst efnið hins vegar ágætlega frá honum og oft kryddaði hann sögurnar með skemmtilegum húmor sem líklega engum öðrum hefði dottið í hug. Sem dæmi um það greinir Jón Sæmundur til dæmis frá því að einhverju sinni hafi komið fyrir tannlæknir í sögunum sem hann minnti að hafa heitið Wilson eða eitthvað í þá áttina. Sigurjón hafi hins vegar heimfært þennan tannlækni upp annan slíkan sem bjó á Siglufirði og nefndi hann án hiks Jonna! Og þar með var Jonni tannlæknir á Siglufirði gerður ódauðlegur í Tarzan blöðunum.
Næstu árin fylgdu fleiri myndasögublöð á íslensku í kjölfarið og þar má helst nefna léttara efni, eins og með Tomma og Jenna, Gög og Gokke og Alf, sem einnig varð nokkuð vinsælt. En af hasarhetjunum komu seinna út Súpermann, Leðurblökumaðurinn, Hulk og Köngulóarmaðurinn en það er reyndar önnur saga. Tarzan blöðin nutu hins vegar strax nokkuð mikilla vinsælda. Þetta fyrsta útgáfuár 1979 komu út tuttugu og fimm blöð en hvert tölublað kom út i um það bil þrjú til fjögur þúsund eintökum. Seinna þetta ár hóf einnig Sonur Tarzans göngu sína hjá Siglufjarðarprentsmiðju en þau myndasögublöð voru af svipuðum toga og urðu líka nokkuð vinsæl. Líklega var það þó þannig að Sonur Tarzans höfðaði meira til yngri kynslóðanna en sjálf Tarzan blöðin til þeirra eldri. Síðarnefndi hópurinn þekkti betur upprunalegu sögurnar um Tarzan og litu því frekar niður til Son Tarzans sem þeim þótti heldur léleg eftirlíking. Alls komu út fimm tölublöð af Syni Tarzans, sem fjölluðu um unglingspiltinn Kórak, á árinu 1979. Útgáfan á þeim blöðum varð heldur stopulli en Tarzan blöðunum en einstaka saga með syni Tarzans birtust þó einnig í aðalheftunum um Tarzan. Fyrstu þrjú árin komu út tuttugu og fimm Tarzan blöð á ári en næstu þrjú ár fækkaði þeim niður í tólf. Árið 1985 komu aðeins fimm blöð út og árið 1986 voru þau eingöngu orðin tvö en í þeim tveimur blöðum voru einungis sögur sem komið höfðu út áður. Smán saman lognaðist hin vinsæla útgáfa myndasögublaðanna um Tarzan því alveg niður. 
Útgáfa á öðrum myndasögum fyrirtækisins hélt reyndar eitthvað áfram en sala þeirra hafði þó dregist mikið saman árin á undan. Allra síðustu myndasögublöðin, sem Siglufjarðarprentsmiðjan sendi frá sér, voru um Leðurblökumanninn og geimveruna Alf árið 1992 en eflaust muna margir eftir þáttum um hann á árdögum Stöðvar 2. Siglufjarðarprentsmiðjan óð í skuldum og lenti í töluverðum fjárhagskröggum en fyrirtækið var þó starfrækt allt til árins 2005 þegar prentsmiðjustjórinn Sigurjón Sæmundsson lést. Alls voru gefin út hjá prentsmiðjunni hundrað og átján tölublöð af Tarzan og fimmtíu blöð af Syni Tarzans en einnig komu út þó nokkur bunki af aukablöðum og heftum af ýmsu tagi. Þannig voru gefin út fimm þykkari aukaútgáfur af Tarzan blöðunum, auk fimm sambærilegra Kórak blaða, tólf stór Tarzan hefti og tvö í viðbót um Son Tarzans. Þessi hefti tilheyrðu ekki hinum tölusettu eintökum úr hefðbundnu útgáfuseríunni. Alls komu út 192 hefti með Tarzan og Kóraki en ekki má gleyma einni lítilli vasabrotsbók um Tarzan sem var í sama broti og bækurnar um Ísfólkið og Morgan Kane. Þessi bók, sem er 128 blaðsíður að lengd, er afar fáséð og líklega má líkja tilurð hennar við hina sjaldgæfu Lukku Láka bók, Á léttum fótum. Til stóð að fleiri sambærilegar bækur kæmu út hjá útgáfunni en ólíklegt er að fleiri en ein slík hafi verið gefin út. Sennilega eru frekar fáir sem vita af þessari bók, og hún virðist hafa farið fram hjá mörgum, en bókin er þó nokkuð eftirsótt af íslenskum myndasögusöfnurum. Þessa vasabrotsbók er afar erfitt að nálgast, ólíkt flestum þeim Tarzan heftum sem komu frá Siglufjarðarprentsmiðju, en bókin poppar þó alltaf einhvers staðar óvænt upp annað veifið.
Mörgum ungum og kröfuhörðum lesendum hinna amerísku hasarblaða þótti reyndar ansi lítið til íslensku Tarzan blaðanna koma. Eðlilega fannst mörgum þýðingarnar á blöðunum nokkuð einkennilegar, eins og áður hefur verið minnst á, og sérstaklega þóttu hinar alíslensku nafngiftir margra sögupersónanna hallærislegar og óvandaðar. Þá hafa sumir einnig gert grín að sérkennilegum upphrópunum sem sögupersónur láta út úr sér í tíma og ótíma í hita leiksins. "Úh-oh!" og fleira sambærilegt hafa margir eflaust getað tengt við upphrópanirnar "Gisp!" úr dönsku Andrés blöðunum. Sjálfsagt hafa þessi blöð því af mörgum verið talin nokkuð hallærisleg að sumu leyti og líklega hefur sú skoðun verið réttmæt. Blöðin hafa án nokkurs vafa ekki fallið í kramið hjá öllum og líklega síst hjá þeim börnum og unglingum sem á þessum tíma voru sjálf byrjuð að versla ofurhetjublöð í áskrift og lesa þau á ensku. En hins vegar voru Tarzan blöðin klárlega líka frábær vettvangur fyrir þá krakka sem ekki höfðu kynnst amerísku hasarblöðunum áður. Með Tarzan fengu þau tækifæri til að kynnast þessum blöðum fyrst á íslensku og nota þau síðan sem stökkpall seinna fyrir vandaðri hasarblaðaútgáfur á ensku. Þessi blöð eru því í raun mjög skemmtilegt framlag til myndasöguútgáfunnar á Íslandi og reyndar þykir SVEPPAGREIFANUM nokkuð vænt um þessi blöð þó þau hafi til dæmis ekki alltaf verið vel teiknuð. Tarzan blöðin (og Sonur Tarzans) er jaðarefni sem hann hefur mikinn húmor fyrir, án þess að ætla að gera lítið úr því, og var bráðnauðsynlegt framlag í útgáfusögu íslensku myndasöguflórunnar. Sumir fíluðu ekki Tinna, Sval og Val eða Lukku Láka en gleyptu í sig Tarzan og seinna hinar ofurhetjurnar. Siglufjarðarprentsmiðja á því klárlega heiður skilinn fyrir þetta merkilega menningaframtak, til íslenskrar myndasöguútgáfu, þótt ekki hafi það fallið í kramið hjá alveg öllum. 
SVEPPAGREIFINN er reyndar á þeirri skoðun, eins og kemur fram snemma í þessari færslu, að ekki sé hægt að staðsetja þetta efni með þeim teiknimyndasögum í bókaformi sem voru hvað vinsælastar hér en tilheyri frekar einhvers konar jaðarútgáfu. Nú skal það tekið fram að SVEPPAGREIFINN átti í æsku þó nokkurn bunka af þessum blöðum. Líklega voru þetta um þrjátíu, fjörutíu blöð sem hann minnist þess að hafa keypt flest í hinni stórkostlegu Safnarabúð sem rekin var um árabil á Frakkastígnum á milli Laugavegar og Hverfisgötu. SVEPPAGREIFINN hafði lúmskt gaman að Tarzan blöðunum þau þótt ekki sé þetta beint eitthvað úrvals efni. Hann minnist þess að hafa flett reglulega í gegnum þennan bunka sinn, ásamt félögum sínum, af ýmsum tilefnum á unglingsárunum og þar voru jafnvel gripnir frasar upp úr blöðunum sem notaðir voru á hæðnislegan hátt við hentug tækifæri. Í einu þessara blaða um kappann má lesa sögu þar sem Tarzan er einu sinni sem oftar að eltast við einhvern bófaflokk og þarf nauðsynlega að stökkva upp í þyrlu sem er að stinga af með einhverja misindismennina. Hann nær að klifra inn í þyrluna, en hún er þá komin á fleygiferð upp í háloftin og baráttan heldur því áfram um borð í opinni þyrlunni á flugi. Tarzan nær þó að taka flugmanninn úr umferð á einhvern hátt en það gerir það auðvitað að verkum að þyrlan er skyndilega orðin stjórnlaus. Hún tekur því að snúast um uppi í háloftunum en Tarzan ýtir þá meðvitundarlausum flugmanninum til hliðar, sest sallarólegur í flugmannssætið og segir við sjálfan sig, "Heppni að ég lærði að fljúga þyrlu!" Þessi frasi hefur allt til dagsins í dag verið notaður af SVEPPAGREIFANUM og félögum hans við mörg hátíðleg tilefni.
Tarzan er mikil hetja. Það fer ekki framhjá lesendum þessara blaða. Og það þarf ekki nema að líta eitt augnablik framan á forsíðu nokkurra blaðanna til að átta sig á hvers konar svakalegt heljarmenni þar er að verki. Á þeim sést Tarzan til dæmis kyrkja risavaxinn krókódíl nánast með handakrikanum, Tarzan að berjast við kyrkislöngu sem er á stærð við strætó, Tarzan að verjast þungvopnuðum glæpamönnum berhentur og svo framvegis. Á einni blaðakápunni er hann jafnvel að berjast við einhvers konar fornsögulega flugeðlu frá risaeðlutímanum. Og alltaf skal maðurinn vera með hníf í hendinni, hvort sem hann er að sveifla sér á milli trjánna í frumskóginum eða á sundi. Í blöðunum virðist honum vera sérstaklega uppsigað við krókódíla og Tarzan er líklega eina manneskjan í allri veröldinni sem getur siglt báti í glóandi hraunstraumi. Tarzan kemur því sannarlega víða við og ávallt er hann jafn einbeittur og reiðilegur á svipinn. Hann virðist vera algjörlega laus við húmor eða gleði og virkar allt að því fráhrindandi. Honum til varnar virðist hann þó ekki eiga sjö dagana sæla með þetta erfiða líf í endalausri baráttu sinni við krókódíla, risaeðlur og ljón. Og svo ekki sé minnst á allar ættbálkaerjurnar og veiðiþjófana sem hann þarf einnig að kljást við. Þá er Tarzan vel að sér í ýmsum tegundum náttúrulækninga. Hann kann að verjast eitrunum með þar til gerðum seiðum, búa um sár með sérstökum tegundum græðandi laufblaða, er auk þess með innbyggða eðlishvöt sem varar hann við hættum en þess utan virðist hann sjálfur vera ósærandi. Hann kann bæði apa- og fílamál og er í raunar fær um að nota öll dýr frumskógarsins sem farartæki eftir þörfum. Þá á Tarzan auðvitað soninn Kórak og kærustunni Jane bregður einnig einstaka sinnum fyrir í blöðunum. Hún virðist þó vera duglegri en Tarzan að heimsækja siðmenninguna því hún er ýmist ljóshærð eða dökkhærð í þeim sögum sem hún birtist.
Árið 1979, þegar fyrstu Tarzan blöðin komu út, voru myndasögublöð á íslensku auðvitað töluvert framandi því enn voru þá fjögur ár í að fyrstu Andrés blöðin litu hér dagsins ljós. Það var því einnig framandi að sjá baksíður Tarzan blaðanna sem fyrst um sinn höfðu að geyma upplýsingar um hvernig gerast mætti áskrifandi og þar mátti einnig sjá hvernig næsta tölublað liti út. Seinna fóru baksíðurnar svo að geyma ýmsan misáhugaverðan fróðleik sem þó var alls ótengdur sjálfri söguhetjunni Tarzan. Þar voru til dæmis birtar myndir og fróðleikur um þekktar persónur úr mannkynssögunni en einnig heimsfrægar íþróttastjörnur frá ýmsum tímum. Hver kannast til dæmis ekki við sænska skautahlauparann Eric Heiden, knattspyrnumennina Gunnar Gren, Gunnar Nordahl og Nissa Liedholm (hann spilaði með Valdimarsvik í Svíþjóð!), hjólreiðamanninn Eddy Merckx og hlaupakonuna Lindu Haglund? Líklega enginn. Augljóslega var þessi þjóðlegi fróðleikur ættaður beint frá Atlantis útgáfunni sænsku og átti lítið erindi við íslensk ungmenni en þýðingarnar á þessum greinum voru hins vegar svo hræðilegar að unun var að lesa. Framan á Tarzan blöðunum mátti einnig finna skemmtilega hluti. Áberandi og litríkum upphrópunum í fyrirsagnarstíl var ætlað að vekja athygli óharðnaða lesendanna, æsa þá upp í að opna virkilega þetta blað og lesa það helst hið snarasta. Lýsingarorðið "spennandi" var þó líklega ofnotað.
Á forsíðum blaðanna voru auðvitað einnig tíundaðir titlarnir á þeim sögum sem hvert hefti hafði að geyma og ekki vantaði dramatíkina á þá. Pigmearnir sem hurfu, Vondi svefninn, Guðinn frá dimmu hliðinni á mánanum, Spjót og demantar og Tennur ógnanna eru dæmi um það. Þessir áhugaverðu titlar bera bæði vísbendingar um að í blöðunum væri að finna stórkostleg bókmenntaverk og um leið afar slæmar þýðingar á þeim. Það var líklega nákvæmlega af þessari ástæðu sem SVEPPAGREIFANUM þótti svo vænt um þessa jaðarblaðaútgáfu um Tarzan. Stundum var konungur apanna kominn langt út fyrir bæði verksvið sitt og sögusvið en maður kippti sér ekkert upp við það. Ef minnið bregst ekki var frumskógarmaðurinn Tarzan jafnvel í einhverju blaðanna farinn að berjast við áhafnameðlimi kafbáts. En Tarzan blöðin lifa og SVEPPAGREIFINN skammast sín ekkert fyrir að viðurkenna að hafa endurnýjað kynni sín við þessi frábæru blöð. Undanfarin ár hefur hann verið að grípa þessi Tarzan hefti þegar hann hefur komist í tæri við góð og ódýr eintök og á nú á ný orðið einhverja tugi af þessum blöðum. Hann er ekki óður safnari en á þó án nokkurs vafa eftir að fylla betur upp í heildarmyndina áður en yfir líkur. Og þannig er það sjálfsagt hjá fleirum. Einhverjir sem tilheyra þeim kynslóðum sem flettu þessum gersemum í æsku hafa sjálfsagt reynt að kynna Tarzan blöðin fyrir afkomendum sínum og þau hafa jafnvel verið gerð ódauðleg í barnabókaflóru Íslendinga. Í unglingabókinni Brynhildur og Tarzan eftir Kristjönu Bergsdóttur, frá árinu 1997, leitar aðalsögupersónan djúpt í þessi blöð og á bókarkápu sögunnar má jafnvel sjá ákveðinn virðingarvott þar sem útlit Tarzan blaðanna fær einhvers konar heiðurssess. Tarzan blöðin hafa því augljóslega skilið heilmikið eftir sig og munu lifa áfram.

Þökk sé Siglufjarðarprentsmiðju fyrir Tarzan blöðin.

7 ummæli:

 1. Skemmtilegur pistill. Ég las mikið þessi blöð í æsku. Við á heimilinu höfum örugglega verið áskrifendur því það var mikið til af bæði Tarzan og syni hans. Ég var búinn að steingleyma litlu bókinni en það rifjast upp að við áttum hana. Nú verð ég að eignast hana. Ég las þetta upp til agna en fór aldrei yfir í amerísk hasarblöð en á mikið af þeim í dag sem ég hef fengið gefins. Hef m.a. skreytt með þeim.
  Ég hef aldrei spáið í það afhverju Tarzan var alltaf svona reiður á svip en eflaust hefur hann verið með áfallastreyturöskun eftir öll þessi átök.
  Ég fékk einusinni yfirlit yfir alla útgáfuna í gegnum grúbbuna Teiknimyndasögur á Facebook og það er merkilega lítið sem mig vantar uppá að eiga öll blöðin. Líklegast verð ég að klára þetta safn. Hef reyndar ekki lesið eitt einasta Tarzan blað í 35 ár. Líklegast verð ég að bæta úr því.

  SvaraEyða
 2. Ég las þetta ekki mikið, gluggaði í þetta ef ég rakst á. Las hinar Tarsan bækurnar mikið í æsku og dáði höfundinn, og las allt frá honum á ensku. Fyrir um 10 árum síðan þegar ég og konan fórum að útilegast rakst eg á slatta af þessum blöðum á nytjamörkuðum úti á landi og datt í hug að þau gæti verið ágæt afþreying í ferðalögum. Og ég ánetjaðist, hef pikkað þetta upp reglulega síðan. En les þetta enn bara í útilegum. Á orðið stóran bunka af þeim.

  SvaraEyða
 3. Þakka þér Rúnar.

  Ég man að maður kíkti svolítið á þessi blöð þegar maður komst í þau en eignaðist þau ekki fyrr en líklega stuttu áður en þau hættu að koma út. Þá náði ég að safna einhverjum tugum blaða og hafði nokkuð gaman af, eins og fram kemur í færslunni, en svo losaði maður sig við þetta. Mig rámar aðeins í þessa vasabrotsbók um Tarzan en átti hana aldrei. Minnist þess þó að hafa rekið augun í hana nokkrum sinnum fyrir um 15 - 20 árum en hafði ekki vit á að kaupa hana. Dauðsé auðvitað eftir því eins og svo mörgu sem tengist myndasögusöfnuninni! Stefnan er að eignast þetta allt saman en ég er ekkert að stressa mig - þessi hefti koma öll smán saman af sjálfu sér.

  Amerísku hasarblöðin höfðuðu aldrei til mín en þó man ég eftir að við bræðurnir höfum átt svolítið af þeim blöðum - það hefur líklega verið fyrir 1980 og er auðvitað löngu glatað. Í dag á ég hins vegar um 20 heilleg blöð með Denna dæmalausa (Dennis the Menace) sem mér áskotnaðist og eru frá 7. áratugnum. Þau tími ég ekki að láta frá mér og trúi að þar hafi ég einhver verðmæti í höndunum með tíð og tíma.

  Villi, bækurnar um Tarzan (sem Siglufjarðarprentsmiðjan gaf líka út) minnist ég ekki að hafa lesið. Man þó alltaf eftir þessum bókum og hef stundum velt fyrir mér að eignast þær söfnunargildisins vegna. Ég á til dæmis orðið allar Bob Moran, Frank og Jóa og Enid Blyton bækurnar ofl. með hlífðarkápunum. (Ok. ég veit að ég er klikkaður!)

  Fyrstu Tarzan blöðin sem ég eignaðist nú í seinni tíð greip ég einmitt með mér af handahófi sem afþreyingu í sumarbústaðnum fyrir um tólf, fimmtán árum. Síðan gleymdi ég þeim þar í kassa í nokkur ár og rakst á þau aftur fyrir um tveimur árum, tók þau með heim og er búinn að vera að fylla aðeins upp í götin síðan. Enn er þó fullt eftir. Svipaða sögu má segja um Disney syrpurnar. Fann einmitt líka fyrstu 25 bækurnar í kassa í bústaðnum sem ég var búinn að gleyma.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 4. Er einhversstaðat til listi yfir þessi blöð? Ég á helling af þessum blöðum, en ekki öll, og langar til að komast af því hvað mig vantar.

  SvaraEyða
 5. Sæll Valýr

  Samkvæmt mínum kokkabókum er þessi listi um það bil svona; Tarzan blöðin: 1979 25 stk, 1980 25 stk, 1981 25 stk, 1982 12 stk, 1983 12 stk, 1984 12 stk, 1985 5 stk og 1986 2 stk. Aukahefti: stór 12 stk, lítil 5 stk, vasabrotsbók 1 stk. Samtals 136.

  Og Sonur Tarzans; 1979 5 stk, 1980 12 stk, 1981 12 stk, 1982 6 stk, 1983 6 stk, 1984 6 stk og 1985 3 stk. Aukahefti: stór 2 stk, lítil 5 stk. Samtals 57.

  Vona að þetta komi að gagni :)

  Kveðja,
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk fyrir Sveppagreifi! Já, þetta kemur sko að gagni.

   Eyða
 6. Hrafnkell Gíslason3. jún. 2022, 19:52:00

  Ég á slatta og meða annars átta frá 1979. Gallinn er sá að það vantar númer á blöðin sum frá 1979. Ég á 2, 4 og 8. En svo sex sem eru ónúmeruð. a) Eyðimörk dauðans b) Gíslarnir c) Stórt hefti d) Spennandi ævintýri e) Óði apinn f) Brotlending. Er einhver sem veit númeraröðina.


  SvaraEyða

Út með sprokið!