5. febrúar 2021

184. NASHYRNINGUR Í KONGÓ

Hin umdeilda Tinni í Kongó (Tintin au Congo - 1930) kom fyrst fyrir sjónir íslenskra lesenda skömmu fyrir jólin árið 1976 og tiltölulega fljótlega eftir það eignaðist SVEPPAGREIFINN þessa alræmdu bók. Ekki getur síðuhafi þó stærst sig af því að hafa strax í bernsku áttað sig á hennar helstu göllum en líkt og með allar hinar Tinna bækurnar var þessi myndasaga lesin upp til agna eins og lög gera ráð fyrir. Tinni í Kongó var þó langt frá því að þykja skemmtilegasta sagan og tiltölulega snemma varð SVEPPAGREIFINN meðvitaður um að gæði bókarinnar væru ekki í samræmi við aðrar Tinna sögur. Hún var þó lesin áfram af sömu áfergju en kynþáttafordómar, dýraníð, umhverfisspjöll og hroðvirkislegur söguþráður var þá enn afar fjarlægur veruleiki. Sagan var auðvitað bara fyrst og fremst teiknimyndasaga en um leið líka barn síns tíma. Það uppgötvaðist reyndar ekki fyrr en löngu seinna og verður ekki uppistaðan í færslu dagsins að þessu sinni.

SVEPPAGREIFINN var því orðinn einlægur Tinna aðdáandi í æsku og þau bernskubrek eltust ekkert af honum þó hann næði að fullorðnast eitthvað. Þessi aðdáun beindist reyndar einnig að öðrum myndasöguseríum og með tímanum varð sú aðdáun meira samofin hinni meðfæddu söfnunaráráttu hans. Þannig hefur hann á sama hátt einnig haft ríkulega þörf fyrir það viða að sér sem mestum fróðleik sem tengist þessu nördalega áhugamáli sínu. Á fullorðinsárum sínum hefur SVEPPAGREIFINN því verið nokkuð duglegur við að versla sér ýmsar skemmtilegar bækur sem fjalla um Hergé og fræðast meira um Tinna bækurnar á margskonar hátt. Eflaust þekkja til dæmis einhverjir til hins breska Tinna sérfræðings Michael Farr sem skrifað hefur nokkrar áhugaverðar bækur um efnið auk þess sem hann hefur einnig þýtt sambærileg rit. Tintin - The Complete Companion eftir Farr og Tintin and the World of Hergé eftir Benoit Peeters þekkja líklega margir aðdáendur seríunnar. Í báðum þessum bókum eru serían um Tinna tekin fyrir í tímaröð og í þeim fjallað um ýmislegt fróðlegt efni (oft áður ókunn) sem tengist hverri sögu fyrir sig.

Í báðum þeim bókum eru einmitt greinar sem fjalla um hina frægu blaðsíðu 56 í Tinna í Kongó. En Tintin au Congo kom fyrst út í bókaformi í Belgíu árið 1931 og var þá ekki bara í svart/hvítu heldur einnig heilar 110 blaðsíður að lengd. Sagan var síðan endurteiknuð, lituð og stytt niður í hefðbundnar 62 blaðsíður fyrir nýja útgáfu árið 1946 og þannig hefur hún verið að mestu leyti síðan. Þegar hins vegar stóð til að gefa Tinni í Kongó í fyrsta sinn út á Norðurlöndunum, árið 1975, þótti hinum skandinavisku útgefendum helst til gróf atburðarás eiga sér stað, undir lok sögunnar, á blaðsíðu 56. Þar sást hvar Tinni röltir um slétturnar með myndavélina sína á þrífæti og sér hvar vörpulegur nashyrningur spókar sig um í nágrenninu. Tinni sér þarna tækifæri til að eignast glæsilegan veiðiminjagrip (sem hann hefur líklega ætlað að hafa uppstoppaðan hjá sér í stofunni!) og tekur að bauna á hann kúlum úr veiðibyssunni sinni. Ekkert bítur hins vegar á hinn brynvarða nashyrning. Tinni telur því þann kostinn vænstan að læðast að honum, bora gat á bakið á honum, stinga dínamítsstöng þar í og sprengja nashyrninginn síðan í loft upp. Þetta fannst hinum siðmenntuðu Norðurlandabúum helst til ofbeldisfull veiðiaðferð og fóru fram á við Hergé að hann myndi finna hentugri lausn fyrir hina ungu lesendur Skandinavíu. Þegar Tinni í Kongó hafði verið endurteiknuð árið 1946 hafði Hergé reyndar sjálfum verið töluvert misboðið með ýmislegt í sögunni. Hann tók þá verulega til í henni og lagfærði ýmsa vankanta. Og þegar norrænu útgefendurnir fóru fram á að hann myndi laga þessa áðurnefndu blaðsíðu, árið 1975, var hann meira en lítið til í að verða við ósk þeirra. Sjálfur var Hergé fyrir löngu farinn að átta sig á að sagan væri í engu samræmi við nútíma veiðihætti eða dýraverndarsjónarmið. Hann endurteiknaði því blaðsíðuna og í stað hinnar áðurnefndu atburðarásar sofnar Tinni undir tré. Þá krækir nashyrningurinn óvart í byssu hans, hleypir af skoti út í bláinn og flýr síðan af vettvangi alls ómeiddur. Þessa sakleysilegu atburðarrás þekktu íslenskir lesendur bókanna einmitt vel og SVEPPAGREIFNN las reglulega í sinni bók í mörg ár eftir að sagan kom fyrst út á íslensku.

Þessi 1. íslenska útgáfa bókarinnar Tinni í Kongó komst tiltölulega snemma í myndasöguhillur heimilisins eins og vikið var að í upphafi færslunnar. Bókin fékk þó ekki þá tilhlýðilega virðingu sem teiknimyndasögur eiga skilið frekar en aðrar sambærilegar eignir hins barnunga SVEPPAGREIFA. Upprunalega eintakið hans varð með tímanum afar snjáð enda lestur þess, og reyndar önnur notkun, engan veginn boðleg þessum sígildu heimsbókmenntum. Helstu útlitslýti bókarinnar fólust í snjáðum kili, hálfrifnum uppábrettum blaðsíðum og kyrfilega merktri fyrstu blaðsíðu þar sem fram kom nafn eigandans, heimilisfang hans (með bæjarfélagi og ríkisfangi) og að ógleymdu nafnnúmeri. Í minningunni var þetta án nokkurs vafa einnig párað með klunnalegum og allt of stórum skrifstöfum. En auk þess mátti eflaust líka finna kakóbolla-far á kápu hennar, bylgjóttar blaðsíður eftir að hafa hellt yfir hana djúsglasi og að sjálfsögðu lausan kjöl eftir hina illa viðurkenndu ólympíugrein, bókatennis! Öll þessi lýti voru að sjálfsögðu í samræmi við eðlilega notkun og vafalaust hafa margir aðrir íslenskir lesendur bókanna haft svipaðar sögur að segja um sínar bækur. Þegar SVEPPAGREIFINN komst síðan loksins á fullorðinsaldurinn (hvenær sem það var) fékk hann þörf á að endurnýja kynni sín við þessar eftirminnilegu myndasögur. Það einskorðaðist reyndar ekki bara við Tinna bækurnar heldur var markmiðið fljótlega sett á að sanka að sér sem flestum af þeim teiknimyndasögum sem gefnar voru út í bernsku hans - og helst meiru til. Þetta gekk vonum framar, enda voru þá enn nokkur ár í að fleira áhugafólk færi að hamstra þessar bækur hvar sem til þeirra náðist. Nýtt og vel með farið eintak af 1. útgáfu af Tinna í Kongó fannst fljótlega einhvers staðar og á fáeinum árum voru fullkomnar 2. og 3. útgáfa bókarinnar einnig komnar í hús, auk betri eintaka allra hinna Tinna bókanna. Enn á þó reyndar eftir að nálgast eitthvað af sjaldgæfustu útgáfunum af elstu bókunum og nýjustu útgáfurnar af sögunni sem Froskur útgáfa sendi frá sér fyrir síðustu jól.

Allar þessar myndasögur fóru hins vegar beint niður í kassa, á sínum tíma, enda þá enn ekki tímabært að flíka hálfkláruðu safni í vanbúnum og ófullkomnum íbúðaúrræðum. Fyrir nokkrum árum fjárfesti SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans síðan í litlu hreiðri, í formi einbýlishúss, og töldu sig loksins vera kominn á varanlega stað húsnæðislega. Myndasögurnar allar voru teknar upp úr kössum sínum og komið fyrir á góðum stað á heimilinu sem hæfir virðulegu myndasögusafni. Jafnframt hefur verið fjárfest reglulega í þeim bókum sem upp á vantar auk þess sem erlendar myndasögur hafa verið keyptar til að fylla upp í og krydda safnið. SVEPPAGREIFINN hefur því undanfarin árin sest reglulega niður, virt stoltur fyrir sér og dáðst að myndasöguhillunum sínum en einnig auðvitað gripið til einnar og einnar bókar til lestrar. Og fyrir ekki svo löngu síðan greip hann allar þrjár útgáfurnar sínar af Tinna í Kongó úr hillunum og velti þeim svolítið á milli handanna. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir það eitt að fyrir algjöra tilviljun uppgötvaði hann að í 3. útgáfu íslensku bókarinnar, sem gefin var út árið 2008, er að finna frávik frá fyrri útgáfunum tveimur. Skyndilega kemur nefnilega í ljós að þessi bók hefur að geyma 1946-útgáfuna af blaðsíðu 56 sem sleppt var úr norrænu útgáfunni á sínum tíma.

Þarna varð hinn stolti eigandi myndasögusafnsins nánast höggdofa. Hann var búinn að vita af þessari frægu blaðsíðu 56 í fjölda ára en hefur aldrei haft rænu á að kanna hvort hana væri að finna í einhverri af íslensku útgáfunum. Hvergi hafði neitt verið gefið út um það fyrirfram hjá Fjölva útgáfunni og það var ekkert sem benti til að gera ætti einhverjar breytingar á Tinna í Kongó í þessari 3. útgáfu. Og svo birtist blaðsíðan ofbeldisfulla nánast upp úr engu beint fyrir framan nefið á honum og líklega hefur enginn verið að velta fyrir sér þessa merkilegu staðreynd. SVEPPAGREIFINN fór auðvitað að kanna hvernig þessu væri háttað í nýjustu útgáfunni af bókinni frá Froski útgáfu og þá kom í ljós að þessa sömu 1946-útgáfu er einnig að finna þar. Sú útgáfa er því væntanlega komin til að vera. Auðvitað er skemmtilegast að sjá þessar sögur í sem upprunalegustu mynd og undanfarin ár hefur upprunalega sagan, sem gefin var út í bókaformi árið 1931, einnig verið að koma út í mörgum löndum. 

En gaman að þessu.

4 ummæli:

  1. Villi Kristjans5. feb. 2021, 14:59:00

    Ég vissi ekki af þessari breytingu á sögunni en hún skýrir upplifun mína eitt sinn sem ég var að lesa söguna á netinu, ég var kominn á bls 56 og kannaðist ekki við þessa fléttu. Opnaði eigið eintak og þá var þar allt önnur flétta. Ég stansaði við þetta og pældi töluvert í þessu en skildi ekki en nú veit ég söguna á bak við.

    SvaraEyða
  2. Það er líka gaman að báðar þessar útgáfur skuli vera til á íslensku.

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Þetta er fróðlegt. Ný búinn að lesa Frosks útgáfuna og fattaði ekkert að þarna væri misræmi. Alveg magnað. Takk fyrir þennan fróðleik.

    SvaraEyða
  4. Þakka þér sömuleiðis,

    mjög skemmtileg uppgötvun :)

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!