19. febrúar 2021

185. Í ANDA VIGGÓS VIÐUTAN

Alltaf skal SVEPPAGREIFINN vera opinn fyrir ýmsum möguleikum þegar kemur að því að skreyta híbýli sín með einhverjum skemmtilegum myndasögutengdum hætti. Það versta við slíkar hugmyndir er að ekki er víst endalaust hægt að betrumbæta, það sem fyrir er, þó vissulega sé áhugi á slíku alltaf fyrir hendi. Rýmið á heimili hans er einfaldlega ekki lengur til staðar eftir nokkurra ára endurbætur og framkvæmdir. Þá er ekki um annað að ræða en að deila þessum hugrenningum og gefa einhverjum öðrum kost á að nota þær svo þær geti orðið að veruleika. 

Að þessu sinni fann SVEPPAGREIFINN skemmtilegt efni sem tengist þekktum brandara um Viggó viðutan sem að sjálfsögðu er runninn undan rifjum listamannsins André Franquin. Viggó hefur svo sem áður komið við sögu í færslu af heimilisskreytingavettvangi Hrakfara og heimskupara og þar er skemmst að minnast skemmtilegrar bókahillu sem SVEPPAGREIFINN fann eitt sinni á hinum fjölbreytilegu víðáttum Internetsins. En margir muna eflaust eftir tveggja mynda brandara sem birtist í Viggó bókinni Kúnstir og klækjabrögð, sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1988, í þýðingu Bjarna Friðriks Karlssonar. Þarna standa þeir Viggó og Valur saman, hugsanlega staddir á einhvers konar lítt spennandi listviðburði eða móttöku, þar sem báðir eru þeir spariklæddir auk þess sem Valur heldur á vínglasi í annarri hendinni. Við hlið þeirra á veggnum hangir stórgert, köflótt veggteppi með frekar einhæfu og litlausu taflborðsmynstri. Viggó rekur þar augun í lausan enda á jaðrinum á miðju teppinu og auðvitað stenst hann ekki freistinguna og kippir í þráðinn.

Þessi brandari Franquins er auðvitað frábær og er um leið svolítil ögrun fyrir augað. Fyrst og fremst hefur tæknilega vinnan hans falist í því að teikna hina afmynduðu reiti eftir að Viggó hefur kippt í spottann og að staðsetja teygjanleika þeirra á réttum stöðum. Teiknivinnan sjálf hefur þó verið tiltölulega einföld, ef vel er að gáð, og málið hefur líklega helst snúist um það að gæta þess að fjöldi reitanna á teppinu séu réttir. Og auðvitað varð Franquin ekki á nein mistök þar. En hugmyndin sem SVEPPAGREIFINN nefndi, í byrjun þessarar færslu, kemur til af ljósmynd sem hann rakst á fyrir skömmu og tengdi strax við þennan frábæra brandara. Þessi mynd er af flísalögðu gólfi og mögulega á það rætur sínar að rekja til myndar Franquins. Hér er um að ræða gólf á svolítið litlausum gangi en ekki koma þó fram upplýsingar um í hvers konar tegund af húsnæði hann er að finna. Reyndar er þarna varla hægt að tala lengur um mjög litlausan gang!

En þessi útfærsla á gólfinu er hreint frábær og einstaklega vel heppnuð. Ólíklegt er þó að þarna sé um að ræða alvöru flísar þar sem þær gólfflísar hefði þurft að steypa sérstaklega fyrir þetta verkefni. Það verða því að áætla að gólfið sé málað en það er engu að síður frábærlega vel útfært og þrívíddin kemur einkar vel út - að minnsta kosti frá þessu sjónarhorni. Það væri gaman ef einhver frjór og fórnfús flísaframleiðandi tæki að sér það verkefni að fjöldaframleiða svona púsluspil. Líklega væri þó ekki mjög stór markaður fyrir slíkum húmor - og þó. Eflaust væru einhverjir neytendur tilbúnir að fjárfesta í þeim húmor og skreyta einhver híbýli sín með þessum hætti. Flestir þeirra kaupenda kæmu vafalaust úr hópi aðdáenda Viggós viðutan og SVEPPAGREIFINN væri klárlega til í svona flísar. Það er að segja ef hann hefði eitthvað laust gólf á sínum vegum sem hentaði fyrir þær.

4 ummæli:

  1. Í Viggó nr 3 frá Froskinum er þessi mynd með Viggo þar sem hann kippir í spottann. En ég myndi pottþétt detta i þessum gangi.

    SvaraEyða
  2. Ég hafði ekki einu sinni rænu á að athuga hvort brandarinn væri í bókunum frá Froski, svo fastur er maður í gömlu útgáfunum frá Iðunni.

    Jú, líklega myndi maður bara hreinlega detta við að rölta um svona gang. Í það minnsta væri öruggara að fara mjög varlega!

    Kv.
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!