Ja hérna hér ... það er víst komið að 200. færslu SVEPPAGREIFANS og í tilefni af þeim áfanga er tilvalið að skella hér inn eins og einni myndasögutengdri færslu svona til tilbreytingar. En efni dagsins má að mestu leyti rekja til Viggó bókarinnar Hrakfara og heimskupara, sem bloggsíða SVEPPAGREIFANS sækir sér einmitt nafn sitt til, en það var bókaútgáfan Iðunn sem gaf þessa myndasögu út árið 1979. Á blaðsíðu 22 í þeirri ágætu bók er að finna frábæran brandara úr smiðju André Franquins sem SVEPPAGREIFINN er hreinlega búinn að elska síðan hann las bókina fyrst fyrir rúmlega fjörtíu árum síðan. Þessi brandari birtist fyrst í 1796. tölublaði SPIROU tímaritsins sem kom út þann 14. september árið 1972 og meðal annars efnis, sem íslenskir lesendur gætu kannast við og birtist einnig í því ágæta tölublaði, má nefna einnar síðu strumpabrandara sem kemur fyrir á blaðsíðu 42 í bókinni Strumpastríð. Og nú fer örugglega einhver að fletta honum upp.
En aftur að bókinni um Viggó viðutan. Þarna er um að ræða brandarann þegar þeir Viggó og Júlli í Skarnabæ eru búnir að vera að standa í einhverjum framkvæmdum, að því er virðist heima hjá Júlla, og Viggó leyfir sér þann munað að skella sér í bað á eftir til að skola af sér mestu málninguna og önnur óhreinindi. Júlli bregður sér frá, Viggó slakar á og sofnar að sjálfsögðu í baðinu og framhaldið þekkja auðvitað allir sannir Viggó aðdáendur. Frábær brandari alveg hreint.
Hins vegar má auðvitað alltaf deila svolítið um hvernig slíkur atburður á að geta gerst og er þá eiginlega alveg sama frá hvaða sjónarhorni það er litið. Fæstar manneskjur, sem hafa yfir einhverri örlítilli skynsemi að ráða, færu líklega að geyma marga poka af sementi á heimasmíðaðri bráðabirgðahillu fyrir ofan baðker. Það sést greinilega hvernig hillunni er lauslega haldið uppi með priki sem skorðað er af við innri brún baðkarsins og þetta getur ekki endað öðruvísi heldur en að Viggó reki fót sinn í spýtuna þannig að hún láti undan og hillan hrinur niður. Þá færi heldur enginn að láta renna í bað fyrir sig vitandi af öllu sementinu fyrir ofan baðið, hvort sem það væri tryggilega fest eða ekki, enda myndi rakinn og gufan úr baðinu skemma sementið.
Og fleira gengur alls ekkert upp ef farið er að skoða hlutina svolítið á eðlilegan og raunsæislegan hátt. Þegar níu eða tíu sementspokar falla niður í baðkar úr meters hæð, sem manneskja liggur ofan í, þá kemst hún ekki hjá því að vakna - alveg sama hversu fast hún sefur. Þyngd pokanna og umfang þeirra kallar á ansi mikinn gusugang og læti auk þess sem þyrlast upp gríðarlegt ryk af slíkum hamförum. Ekki sést hins vegar eitt rykkorn á vettvangi uppákomunnar eða þar í kring. Rúmmál sementsins er einnig í því magni að það eitt myndi duga til að fylla baðið án vatns og myndi hugsanlega ná að þeyta mest öllu vatninu upp úr baðinu með krafti sínum. En löngu síðar vaknar Viggó og uppgötvar þessar óvæntu og óþægilegu aðstæður. Hann nær að lyfta sér upp úr baðkerinu og reynir síðan að skríða á fjórum fótum í áttina að símanum. Viggó hlýtur að vera gríðarlega mikið heljarmenni því það gæti aldrei nokkur maður náð að lyfta sér upp úr baði með svona steypuklump fastan á líkamanum. Til þess er risastór klumpurinn allt of stór og þungur.
Fljótt á litið gæti steypumassinn virðst vera um einn til einn og hálfur rúmmetri að stærð og það er enginn sem gæti lyft klumpi af slíkri stærðargráðu. SVEPPAGREIFINN er enginn sérfræðingur í eðlisþyngd steinsteypu en fljótt á litið myndi hann giska á að klumpurinn gæti verið á þriðja tonn að þyngd! Neibb, þetta gengur alls ekkert upp. En brandarinn er samt frábær! Það sem SVEPPAGREIFANN langaði samt aðallega að koma á framfæri, með þessari færslu, er að benda á annan mjög sambærilegan brandara sem hann rakst á í gömlu eintaki af tímaritinu Vikunni sem kom út þann 13. júní árið 1974. Eins og flestir eflaust muna birti Vikan myndasögur í blaði sínu til langs tíma og þeirra á meðal voru hin nafntoguðu Stína og Stjáni sem áttu fastan sess í hugum lesenda blaðsins í áratugi - þar á meðal SVEPPAGREIFANS. En hér má einmitt sjá svo til þennan sama brandara sem heimfærður hefur verið upp á heimilisaðstæður hjá þeim Stínu og Stjána.
Ekki er gott að segja til um hvor brandaranna sé eldri en líklega varð þó brandari Franquin til á undan því Stínu og Stjána brandarinn, sem heitir reyndar Blondie á frummálinu og var eftir bandaríska listamanninn Chic Young, er skráður 1973 á miðjumyndinni í næstneðstu röð. En Viggó brandarinn birtist hins vegar í október árið 1972 eins og áður sagði. Líkindi þessara tveggja brandara eru slík að Young hlýtur að hafa fengið kjarna hans lánaðan úr SPIROU blaðinu þó ekki séu þeir alveg nákvæmlega eins. Til gamans má geta að SVEPPAGREIFINN vinnur einmitt að smá færslu um myndasögurnar um Stínu og Stjána úr Vikunni og mun vonandi birta hér á síðunni á einhverjum af næstu mánuðum. Stefnan er sett á að klára hana einhvern tímann ef næði gefst.
Skemmtilegur pistill. Man eftir Stínu og Stjána.
SvaraEyðaTakk fyrir þa, Rúnar.
SvaraEyðaÞað gleymist stundum að myndasögurnar í Vikunni voru líka teiknimyndasögur :)
Bestu kveðjur,
SVEPPAGREIFINN