18. febrúar 2022

199. ÖRLÍTIÐ UM SKEGG Í TINNABÓKUNUM

Í dag er boðið upp á frekar stutta en áhrifamikla færslu hér á Hrakförum og heimskupörum. En skegg er fyrirbæri sem virðist hafa verið Hergé, höfundi Tinna bókanna, nokkuð hugleikið af einverri ástæðu. Kannski tengdist þetta tísku eða tíðaranda þeim sem ríkti þegar sögurnar komu út en það virðist þó töluvert meira áberandi hjá Hergé en mörgum öðrum myndasöguhöfundum. Sjálfur bar Hergé ekki skegg, enda virðist hann alla jafna hafa verið afar snyrtilegur (jafnvel pjattaður) sem er vísbending um að honum hafi verið annt um útlit sitt og hugsanlega ekki viljað skapa einhverja óreiðu á því með villimannslegri ásýnd. SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á skegg Skaftanna í færslu sem birtist snemma á bloggferli Hrakfara og heimskupara en auk þess þarf ekki annað en að fletta aðeins í gegnum Tinnabækurnar sjálfar til að sjá hvernig Hergé hefur skreytt sögupersónur sínar með fjölbreytilegum tegundum skeggja. Flestir bera þó aðeins snyrtilegt yfirvaraskegg. Ekki ætlar SVEPPAGREIFINN að fara að kafa neitt mjög djúpt ofan í þessar pælingar en bendir þó á nokkur atriði, með aukapersónum úr Tinnabókunum, til stuðnings.

Sjálfur Tinni er hins vegar ekki með skegg enda á hann að vera svo ungur að honum hefur líklega ekki enn öðlast nægjanlegur þroski til að bera almennilega skeggrót. En það er ekki hjá því komist að taka eftir því að margar af föstu aukapersónunum sagnanna eru með skegg af einhverju tagi og það er eiginlega bara Jósef (og auðvitað Vaíla Veinólínó) sem ekki skartar þessu vinsæla andlitslýti. Áður hefur verið minnst á Skaftana en einnig verður að nefna Vandráð prófessor, Flosa Fífldal, Rassópúlos, dr Muller, Alkasar hershöfðingja og auðvitað Kolbein kaftein. 

Kolbeinn ber sitt skegg með mikilli reisn og má það vel. Hann er ímynd hinnar hraustu og hugprúðu sjómannastéttar, hokinn af reynslu í baráttu sinni við óblíð náttúruöflin og markaður á lífi og sál af harðneskjulegum þrekraunum. Og reyndar líka óhóflegrar drykkju! Það er því með svolitlu samviskubiti sem SVEPPAGREIFINN ákvað að gefa lesendum Hrakfara og heimskupara kost á að sjá hvernig Kolbeinn kafteinn gæti litið út sem venjulegur, litlaus karakter án skeggs.

 Og þá vitum við það!

2 ummæli:

  1. Allir alvöru karlmenn eru með skegg enda fátt sem undirstrikar karlmennsku meira. Kolbeinn Kafteinn er óttalega aumingjalegur svona skegglaus. Hjó eftir þessari setningu "þessu vinsæla andlitslýti". Þar þykir mér Sveppagreifinn taka furðulega afstöðu til fegurðar skeggsins. Ég gerði ráð fyrir að Sveppagreifinn væri með myndarlegt hvítt yfirvaraskegg lýkt og hann gerir í bókunum góðu um Sval og Val.
    Þakka annars fyrir góðan pistil eins og alltaf.

    SvaraEyða
  2. Já, þakka þér Rúnar.

    Ég stefni einmitt á eitt, hvítt yfirvara andlitslýti þegar rétt litaafbrigði þess stingur upp kollinum á sínum slóðum.

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!