15. apríl 2022

203. GRÚSKAÐ Í GÖMLU PÁSKABLAÐI SPIROU

Þá er kominn föstudaginn langi og þar með er orðið ljóst að páskahelgin alræmda er gengin í garð. Og eins og stundum hefur gerst áður reynir SVEPPAGREIFINN að tengja færslu dagsins við einhver tilefni og í dag er því eðlilega komið að sérstakri páskatengingu. Páskablað belgíska myndasögutímaritsins SPIROU árið 1971 er því viðfangsefni dagsins en þetta blað skartaði sérstöku Franquin þema. Ekki tókst SVEPPAGREIFANUM reyndar að finna út af hvaða ástæðu var verið að heiðra Franquin einmitt á þessum tímapunkti en líklegt má þó telja að þar hafi verið að halda upp á að 25 ár voru þá liðin frá því að hann hóf að teikna þá félaga Sval og Val fyrir blaðið.

SPIROU blað þetta var númer 1721 í röðinni og kom út fimmtudaginn 8. apríl árið 1971. Tímaritið, sem að þessu sinni var hvorki fleiri né færri en 100 blaðsíður að lengd, var því troðfullt af efni helgað þessum frábæra listamanni. Og sem dæmi um það má nefna að fyrstu tuttugu blaðsíður Sval og Val sögunnar Tembo Tabou (Tembó Tabú) voru þarna birtar í fyrsta sinn í tímaritinu en þær tíu blaðsíður sem upp á vantaði var síðan dreift á næstu tvö tölublöð á eftir. Sagan hafði aðeins birst áður í dagblaðinu Le Parisien árið 1959 og var því í rauninni orðin tólf ára gömul þegar hún loksins komst á síður SPIROU tímaritsins en hún hafði þá heldur aldrei komið út í bókarformi. 

Þessi síðbúna birting gerði það að verkum að margir lesenda blaðsins, sem ekki þekktu til sögunnar, töldu Tembó Tabú glænýja og væri þar með síðasta Sval og Val sögu Franquins. Það var hún þó alls ekki. Sagan hafði bara einhvern veginn lent á milli og gleymst. En í þessu páskablaði SPIROU mátti til dæmis einnig finna tólf blaðsíðna grein um sögu og tilurð seríunnar um Sval og Val, í tíð Franquina, allt fram til þess dags sem Jean-Claude Fournier tók við honum. Þá voru í blaðinu ýmsar áhugaverðar greinar um listamanninn en auk þess var sögupersónum og tilvísunum úr myndasögum hans fléttað inn í sögur annarra höfunda blaðsins honum til heiðurs. 

En ein skemmtilegasta leiðin til að heiðra Franquin í þessu tölublaði SPIROU var sex blaðsíðna Sval og Val saga sem einmitt arftaki hans af seríunni, Fournier, hafði teiknað í tilefni tímamótanna. Sagan fjallar í stuttu máli um það að heima hjá þeim Sval og Val stendur mikið til, með töluverðum gestagangi, en tilefni er þó nokkuð óljóst til að byrja með. Ýmsar sögupersónur úr bókaflokknum flykkjast í heimsókn til þeirra félaganna og ýmislegt gengur á - enda flóra þessara persóna ansi margbreytileg. Þarna mæta auðvitað nafntogustu borgarar Sveppaborgar, helstu persónurnar sem komu fyrir í bókinni um Bretzelborg, olíufurstinn Ibn Maksúd og rússneski eðlisfræðingurinn Níkolaj Ínofskéff, svo fáeinir séu nefndir. En allar persónurnar sem koma fyrir í sögunni, fyrir utan íbúana frá Sveppaborg, komu úr sagnaheimi Franquins og birtust aldrei í þeim níu sögum sem Fournier teiknaði. Meira að segja Bitla kemur fyrir á síðustu tveimur blaðsíðunum en hana treysti Fournier sér aldrei að teikna almennilega inn í sínar sögur. Þess í stað skapaði hann nýja kvenpersónu sem kallaði Óróreu en hún kemur fyrir í nokkrum bóka hans. Það má reyndar alveg taka undir það álit Fourniers að hann hafi ekki getað teiknað Bitlu því hún er ekki vel heppnuð í þessari sögu. Og sömu sögu má einnig segja um aðrar persónur sem koma þarna fyrir. Íkorninn Pési er sögumaður myndasögunnar og birtist öðru hvoru á svart/hvítum myndarömmum þar sem hann skýrir jafnóðum frá þeim aukapersónum sem mæta og aðkomu þeirra að sögunum í seríunni. Það er ekki fyrr en á lokamyndinni sem Pési birtist síðan loks í lit.

Enn á ný freistast síðuhafi til að birta hroðvirkislega þýðingu af myndasögu sem hann hefur eflaust engan rétt á að birta en það er bara svo gaman að sjá gamalkunnar persónur og  umhverfi lifna við úr óskiljanlegu hrognamáli yfir í teiknimyndasögu á íslensku. Hin franska þýðing úr upprunalegu SPIROU útgáfunni vafðist að sjálfsögðu töluvert fyrir SVEPPAGREIFANUM en vonandi verður honum fyrirgefið það. Það létti því töluvert vinnuna þegar hann uppgötvaði söguna í hinni þýsku Sval og Val bók númer 0, Am anderen ende angst, sem er samansafn úr SPIROU tímaritinu af nokkrum stuttum Sval og Val sögum. Þýðingin er því unnin úr bæði frönsku og þýsku útgáfunni af sögunni, auk fáeinna frjálslegra dæma um skáldaleyfi, og endanlega niðurstaðan er því algjörlega samkvæmt því. Það er víst ekki á hverjum degi sem SVEPPAGREIFINN stelst til að birta heila sex blaðsíðna myndasögu með þeim Sval og Val á myndasögublogginu sínu en það eru nú einu sinni páskar og lesendur geta dundað sér við að skoða þetta í rólegheitunum ef þeir nenna.


Í lok sögunnar birtist síðan André Franquin sjálfur, klæddur eins og Viggó viðutan. Þar með kemur loksins skýringin á heimboði aukapersónanna til þeirra Svals og Val og þá um leið hver þessi HANN var en það þurfti nú svo sem engin geimvísindi til að átta sig á því. Franquin er hylltur sem hetja af karakterunum sem hann sjálfur skapaði og kjánahrollurinn nær hámarki, á lokamynd þessarar samhengissnauðu sögu, þegar stirðbusalegar sögupersónurnar stilla sér upp á kauðslega hátt fyrir framan hann. SVEPPAGREIFINN hefur aldrei farið í felur með dálæti sitt á hinum áreynslulausa teiknistíl Franquins og hefur því alltaf átt svolítið erfitt með sig þegar hann sér aðra listamenn teikna þær sögupersónur sem hann átti mestan hlut í að skapa. Í höndum Franquins höfðu þessar persónur allar yfir ákveðinni mýkt að bera sem aðrir teiknarar seríunnar virðast bara ekki geta leikið eftir. Það þarf ekki að nema bara að benda á Bitlu í sögunni hér fyrir ofan til að sýna fram á augljóst dæmi um það. Á meðan Franquin teiknaði hana eins og ljóshærða Birgittu Haukdal lítur hún meira út eins og dúkkan af Birgittu Haukdal hjá Fournier.


Hann vissi alveg sín takmörk þó hann hafi látið til leiðast í þetta sinn. Ef SVEPPAGREIFINN horfir framhjá þessari smámunasemi sinni þá viðurkennir hann alveg að það hafi verið skemmtileg hugmynd að heiðra Franquin með þessum hætti en saga Fourniers var þó kannski ekki alveg nógu góð. Auðvitað er hún bara sex blaðsíður að lengd en það hefði samt alveg mátt gera eitthvað töluvert betur. Þegar sagan var loksins gefin út í bókaformi (sbr. þýsku Am anderen ende angst útgáfuna sem minnst var á hér fyrir ofan) var hún pimpuð upp, endurteiknuð, hreinsuð og lituð öll upp á nýtt. Útfærslan hér fyrir ofan er hins vegar sú sem birtist í SPIROU blaðinu. En að lokum lætur SVEPPAGREIFINN fylgja með stutta sögu þar sem belgíski listamaðurinn Francis (Bertrand) heiðraði Franquin, á hæðnislegan en um leið skemmtilegan hátt, með einni blaðsíðu í tímaritinu. Hér stýrir leiðsögumaður lesendur og gesti í gegnum listasýningu þar sem helstu verk Franquins eru viðfangsefnin og meistaraverkið er að sjálfsögðu Viggó viðutan í hlutverki Mónu Lísu.


Og GLEÐILEGA PÁSKA!

1 ummæli:

  1. Gaman af þessu. Finnst virkilega gaman af því þegar þú þýðir eitthvað sem maður hefur ekki séð áður.

    SvaraEyða

Út með sprokið!