29. apríl 2022

204. ÓVÆNTUR GORMS FUNDUR

Færsla dagsins þennan föstudaginn er stutt og snaggaraleg. En hún fjallar um óvæntan fund SVEPPAGREIFANS í Góða hirðinum, á myndasögutengdu efni, sem rak þar á fjörur hans. Hann reynir að kíkja þar reglulega við til að sjá hvort hann rekist ekki á eitthvað sem hann vantar en það er reyndar afskaplega misjafnt hvort eitthvað bitastætt finnist þar lengur. Svo virðist sem þessar helstu myndasögur séu alveg hættar að sjást þar en það er helst að afgangar á borð við; Alex, Frosta og Frikka, Frank og Á víðáttum vestursins villist upp í hillur þess Góða. Meira að segja bækurnar um Hin fjögur fræknu eru eiginlega alveg hættar að sjást þar. Þær fáu myndasögur um Tinna, Sval og Val og Lukku Láka sem berast til Sorpu virðast fara beint í vefverslun Góða hirðisins þar sem auðveldara er að rukka hærra verð fyrir þær. Framboðið á gömlu teiknimyndasögunum hefur því klárlega minnkað enda hafa þeir sem hafa áhuga á þessum bókum verið duglegir að safna þeim á síðustu árum. Þessar myndsögur eru einfaldlega að klárast.

En svo SVEPPAGREIFINN víki aftur að því sem hann ætlaði að fjalla um í þessari færslu þá er það ekki á hverjum degi sem hann rekst á myndbandsspólu (VHS) með Gormi, talsettri á íslensku, í Góða hirðinum. En eina slíka rak á fjörur hans á dögunum. Spólan, sem virðist aldrei hafa verið spiluð, lítur út fyrir að vera gefin út af fyrirtæki sem nefnist Medio og SVEPPAGREIFINN virðist ekki finna neinar upplýsingar um. Það skal reyndar tekið fram að SVEPPAGREIFINN er langt frá því að vera alvitur um það myndefni sem kom út hér á landi tengdum belgísk/frönsku myndasögunum en hann er þó þokkalega meðvitaður um mjög margt af því. Sjálfur átti hann til dæmis sex til átta VHS spólur með Tinna (sem hann losaði sig við fyrir mörgum árum og dauðsér nú eftir því) og veit af bíómyndum með bæði Ástríki og Lukku Láka sem gefnar voru út á þessu sama formi. SVEPPAGREIFINN verður hins vegar að viðurkenna að hann hefur aldrei haft hugmynd um tilvist þessarar Gorms myndbandsspólu og hvað þá hvort þær gætu hugsanlega verið fleiri.

Spólan, sem kallast einfaldlega GORMUR, kom út árið 2000 og hefur að geyma þrjár sögur með íslensku tali sem nefnast Tískukóngurinn, Sirkusinn og Barnfóstran. Við nánari athugun kom reyndar í ljós að allar þessar þrjár sögur er að finna á YouTube og það er því langbest að skella þeim bara hér inn fyrir þá áhugasömu. Fyrst er það Tískukóngurinn en um hana segir aftan á spóluhulstrinu: Frægur fatahönnuður kemur til skógarins í leit að hugmyndum. Honum finnst Gormafeldurinn vel til fallinn í tískufatnað og reynir að handsama Gorminn. Leikurinn berst til borgarinnar, þar sem allt fer á annan endann.

Næst er það Sirkusinn: Síðasti sjálfstæði sirkusinn er í vandræðum. Dýrunum hefur verið stolið og sleppt lausum í skóginum. Gormurinn grípur til sinna ráða og setur upp stórkostlega sýningu til að bjarga málunum.

 

Og að lokum er Barnfóstran: Á ferð sinni um skóginn rekst gormafjölskyldan á lítinn dreng sem hefur stolist burt frá þeim sem átti að gæta hans. Gormaforeldrarnir eiga fullt í fangi með þennan ærslabelg en ungunum finnst hann frábær. Gormarnir hjálpa honum að finna foreldra sína sem hafa lent í ógöngum í skóginum.

SVEPPAGREIFINN man eftir teiknimyndaþáttunum með þeim Sval og Val sem sýndar voru á Stöð 2 um árabil og hugsanlega voru þar einnig sýndir sambærilegar þættir um Gorminn þó ekki minnist hann þess sérstaklega. Einhverjir yngri en miðaldra gætu kannski svarað þeirri spurningu betur. Þá væri einnig gaman að vita hvort myndasöguáhugafólk hafi almennt vitað af þessari vídeóspólu og um leið að reyna að átta sig á því hvort eða hversu vandfundin hún er. Í það minnsta fjárfesti SVEPPAGREIFINN í gripnum (fyrir 100 kall) og ætlar að leyfa sér að eiga hann í fórum sínum til lengri tíma þó líklega muni spólan aldrei verða sett í þar til gert tæki.

2 ummæli:

  1. Skemmtilegt. Alltaf gaman þegar maður finnur "fjárstjóð".

    SvaraEyða
  2. Já og fjársjóðirnir eru enn skemmtilegri þegar maður vissi ekki einu sinni að þeir væru til!

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!