5. ágúst 2022

211. GORMURINN SKREPPUR Í BÆINN

SVEPPAGREIFINN minntist á það fyrir nokkru að næstu færslur hans gætu orðið í einfaldari og fátæklegri kantinum, í náinni framtíð, enda verulega farið að saxast á það efni sem myndasöguforðabúr hans hefur haft að geyma undanfarin ár. Færsla dagsins ber þess einmitt svolítil merki og er því töluvert ódýr þennan föstudaginn. En hún er svo sem ekkert verri fyrir því.

Hún fjallar um gormdýrið úr sögunum um Sval og Val en SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki verið neitt sérstaklega duglegur við að skrifa um þennan óvenjulega förunaut þeirra félaga. Það er því kominn tími á að bæta svolítið úr því. En Gormur birtist fyrst í Sval og Val sögunni Baráttan um arfinn (Spirou et les héritiers) sem André Franquin teiknaði árið 1952. Hugmyndina að sköpun hans fékk Franquin eftir að hafa gluggað í bók eftir Bernard Heuvelmans sem fjallaði um ýmis goðsagnakennd dýr alls staðar að úr heiminum. Höfundurinn trúði því að einhver þessara dýra væru til í raun og veru og út frá þeim punkti ákvað Franquin að skapa sína eigin goðsagnakenndu dýrategund. Með tímanum þróaðist persóna gormdýrsins meira (líkt og samferðarmanna þess) og í Gormahreiðrinu (Le nid des Marsupilamis - 1960) fékk listamaðurinn tækifæri til að sýna og byggja upp þetta velheppnaða sköpunarverk frá grunni. Þar kemur vel fram aðlögunarhæfni þess, hvernig þessi dýrategund lifir og hrærist í frumskógum Palombíu, hvernig gormaparið byggir sér flókin körfuhreiður og kemur síðan upp ungum úr eggjum. Seinna skapaði listamaðurinn enn fleiri eiginleika sem Gormur hafði yfir að ráða en áður hafði reyndar einnig komið í ljós að dýrið lifir jafnt á láði og legi. Franquin hafði þannig búið til alveg nýja dýrategund sem var algjörlega byggð upp eftir hans höfði og það eitt sýnir vel hve gríðarlega skemmtilegu hugmyndaflugi hann hafði yfir að ráða. En hann viðurkenndi líka að hann hefði gert nokkur fljótfærnisleg mistök við sköpun þess. Franquin sá til dæmis alltaf eftir því að hafa látið Gorm tala í Hrakfallaferð til Feluborgar (Les pirates du silence - 1958) og þessi hæfileiki dýrsins var ekki endurtekinn í sögunum sem á eftir komu. Honum yfirsást einnig illa að hafa teiknað gormdýrið með nafla. Eins og sést í Gormahreiðrinu klekjast ungarnir út úr eggjum og Franquin var ekki enn búinn að finna góða ástæðu fyrir tilurð nafla dýranna þegar hann lést árið 1997. Gormdýrið var André Franquin alla tíð mjög kært og eins og flestir Sval og Val aðdáendur vita auðvitað heimilaði hann ekki að Gormur yrði teiknaður áfram í seríunni þegar Jean-Claude Fournier tók við henni árið 1969.

En það er víst best að snúa sér að færslu dagsins. Hér er sem sagt um að ræða stutta, sjaldséða fjögurra blaðsíðna myndasögu sem birtist á síðum 3. tölublaðs franska myndasögutímaritsins Risque-Tout þann 8. desember árið 1955. Risque-Tout var einhvers konar tilraunaverkefni hjá Dupuis útgáfufyrirtækinu sem ákvað að reyna að gefa út metnaðarfullt myndasögublað í stóru dagblaðabroti. Dupuis var auðvitað enn að gefa út SPIROU tímaritið, þar sem sögurnar um Sval og Val birtust, og aðkoma André Franquin að Risque-Tout var því tiltölulega einföld. Blaðið í stóra brotinu entist þó ekki nema í um eitt ár og hætti útgáfu sinni í byrjun nóvember árið 1956. Þetta var fyrsta sjálfstæða saga Franquins með Gormi og í raun aðeins ein af þremur slíkum sem André Franquin teiknaði með honum á þessum árum. Hinar sögurnar birtust sem örsögur í SPIROU tímaritinu og margir muna til dæmis örugglega eftir smásögunni Fælið ekki fuglinn sem kemur fyrir í lok bókarinnar Baráttan um arfinn. Svalur og Valur koma ekki fyrir í þessari sögu en Sveppagreifinn (blessaður kallinn!) birtist hins vegar á síðustu tveimur myndarömmum hennar.

Enn á ný birtir SVEPPAGREIFINN því kolólöglega (og illa gerða) þýðingu á myndasögutengdu efni en það verður bara að hafa það og hann biðst innilega afsökunar á glæpnum.

 Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!