SVEPPAGREIFINN hefur aldrei verið nógu duglegur að hrósa Froski útgáfu nægilega, hérna á Hrakförum og heimskupörum, fyrir hennar framlag til myndasöguútgáfu hér á landi á undanförnum árum. Síðuhafi hefur lengi ætlað að setja inn færslu á bloggsíðuna sína til að vekja athygli á þessu frábæra framtaki sem Froskur hefur skilað til íslenskrar myndasöguútgáfu en það sem ýtti loksins við SVEPPAGREIFANUM voru þrjár glænýjar teiknimyndasögur frá útgáfunni sem komu í verslanir núna í júní. Þetta eru Tinna bókin Svarta gullið (bæði harðspjalda og í mjúku kiljuformi), Sval og Val sagan Baráttan um arfinn og níunda Viggó bókin Snúningar og sneypufarir. Allt eru þetta reyndar bækur sem komið hafa út áður hér á landi en eru að sjálfsögðu löngu horfnar úr öllum venjulegum bókabúðum. Það er helst að gömul og lúin eintök af þeim birtist á einstaka nytjamörkuðum eða til sölu á þartilgerðum sölusíðum á Netinu fyrir morð fjár. Bókin um Viggó er reyndar ekki nákvæmlega sú sama og Iðunn gaf út árið 1982 en sú útgáfa hét Viggó - á ferð og flugi og hafði að geyma einhvers konar samansafn af Viggó bröndurum, frá svipuðum tíma, sem ekki var endilega raðað upp í réttri röð. Viggó 9 - Snúningar og sneypufarir er hins vegar í réttri tímaröð og er því tæknilega sú rétta og tilheyrir auðvitað þannig upphaflegu útgáfuröðinni.
Allar eru þessar bækur Frosks með nýrri íslenskri þýðingu og Baráttan um arfinn (1952) hefur að geyma upprunalegu bókakápuna sem ekki var raunin með útgáfu bókarinnar sem Iðunn gaf út árið 1980. Sú bókarkápa, sem íslenskir lesendur þekkja síðan þá, var teiknuð af danska listamanninum Peter Madsen (sem auðvitað er kunnastur fyrir Goðheimabækurnar) og var höfð á norrænu útgáfunni af bókinni sem allar voru gefnar út á þessum svipaða tíma. Um það allt saman hefur SVEPPAGREIFINN fjallað áður og má lesa um hér. Annars má einnig geta þess að í nýju Frosks útgáfunni má sjá tvær heilsíðu myndir sem ekki koma fyrir í Iðunnar bókinni frá árinu 1980.
Í gömlu íslensku útgáfunni má einnig finna örsöguna Fælið ekki fuglinn (Touchez pas aux rouges-gorges) sem er tveggja blaðsíðna saga eftir Franquin og birtist til uppfyllingar aftast í bókinni. Sú saga fjallar um það þegar Gormur tekur að sér að verja rauðbrystingshreiður, fyrir ketti einum, í garði Sveppagreifans og margir muna eflaust eftir úr gömlu bókinni. Fælið ekki fuglinn er frá árinu 1956 og er því fjórum árum yngri en Baráttan um arfinn og á auðvitað ekkert erindi í bókina. Sagan birtist fyrst í SPIROU (blaði númer 936) þann 22. mars árið 1956 og kom síðan fyrir sem aukasaga í bókinni La Mauvaise tête sem ekki hefur enn komið út hér á landi. Sú bók kemur vonandi einnig út hjá Froski á næstu árum - enda ein af uppáhalds Svals og Vals sögum SVEPPAGREIFANS.
Eftir því sem SVEPPAGREIFANUM skilst þá stóð víst ekki til að Svarta gullið kæmi út hjá Froski fyrr en í haust en eitthvað hafa þær fyrirætlanir breyst og auðvitað er bara algjörlega geggjað að fá myndasögur um Sval og Val, Viggó viðutan og Tinna allar á einu bretti. Og þá er Ástríkur á Korsíku væntanleg fyrir jólin, ásamt einhverjum fleirum titlum, en sú bók hefur ekki komið áður út í íslenskri þýðingu. Það skýrist svo væntanlega þegar að líða fer á haustið hvað fleiri titla Froskur útgáfa kemur til með að bjóða upp á fyrir næstu jól. Frábært framtak og lesendur teiknimyndasagna og safnarar þeirra á Íslandi eiga Froski því virkilega mikið að þakka.
Þegar Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, hóf að gefa út myndasögurnar um Tinna og síðan Ástrík, snemma á áttunda áratug 20. aldarinnar, skapaðist strax grundvöllur fyrir útgáfu þessara vinsælu bókasería fyrir börn og unglinga fyrst og fremst. Íslensk ungmenni höfðu reyndar áður fengið örlítinn smjörþef af teiknimyndasögum, um það bil áratug fyrr, þegar bókaútgáfan Ásaþór í Keflavík lagði út í metnaðarfulla útgáfu á sögunum um Prins Valíant en það var ekki fyrr en léttmetið, í formi Tinna og Ástríks birtist, að myndasöguboltinn fór að rúlla fyrir alvöru á Íslandi. Á næstu árum bættust Lukku Láki og fleiri í hópinn hjá Fjölva og bókaútgáfan Iðunn hóf einnig að gefa út vinsælar seríur með Sval og Val, Viggó viðutan, Strumpunum og mörgum fleirum. Þessa sögu þekkja allir og fáeinar kynslóðir sammæltust um drekka í sig þetta vinsæla bókmenntaform sem teiknimyndasögur vissulega voru. En svo fjaraði smám saman undan vinsældunum og eitthvað annað tók við. Börn og unglingar hættu svo sem ekkert endilega að lesa bækur heldur breyttust lestrarvenjur þeirra bara og annars konar bókaform tók yfir. Hver ástæðan var liggur svo sem ekkert augljóslega fyrir en í það minnsta hættu myndasögur að mestu að koma út á Íslandi í kringum 1991-2 þar sem ekki var lengur neinn grundvöllur fyrir útgáfu þeirra hér.
Einhverjar tilraunir voru reyndar gerðar á næstu árum, hjá metnaðarfullum aðilum, við að reyna að glæða í myndasöguáhuganum en viðbrögðin urðu aldrei nægilega mikill. Þarna var reynt að virkja þær kynslóðir sem drukkið höfðu í sig gömlu góðu bækurnar og markhópurinn var því að mestu orðið fullorðið fólk en líklega var efnið sem boðið var uppá bara ekki nægilega áhugavert. Fólkið virtist einfaldlega frekar vilja framhald af því sem þær kynslóðir höfðu lesið sem börn. Mest var þetta á vegum útgáfu sem nefndist Nordic comics og reyndi einnig að halda úti tímariti sem kallaðist Zeta en allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir metnaðar- og hugsjónafullar tilraunir og drauma virtist útgáfa teiknimyndasagna á Íslandi alveg hafa lognast útaf upp úr aldamótunum.
En svo kom Froskur útgáfa til sögunnar. Eða öllu heldur franski listamaðurinn Jean Antoine Posocco sem settist að á Íslandi á seinni hluta 20. aldarinnar og byrjaði að gefa aftur út gamalkunnar belgísk/franskar myndasöguseríur í fyrsta sinn í mörg ár. Fyrstu sögurnar hófu að koma út árið 2012 og hjörtu þeirra kynslóða, sem upplifðu blómatíma teiknimyndasagna á íslensku, fóru að slá hraðar þegar bækur með Sval og Val, Ástrík og Viggó viðutan tóku að birtast í bókahillum verslana á ný. Og ekki minnkaði gleðin þegar Lukku Láki, Strumparnir og sjálfar Tinna bækurnar fóru einnig að sjást aftur. Jean Antoine Posocco kynnti ennfremur til sögunnar nýjar seríur sem yngri kynslóðir fengu nú tækifæri til að kynnast en að mati SVEPPAGREIFANS er þó mesti fengurinn í gömlu seríunum. Tinna bækurnar eru sígildar og nýjar þýðingar, útlit og tvö mismunandi brot gera þær ekki bara að safngripum heldur verða eldri útgáfurnar frá Fjölva um leið einnig verðmætari í komandi framtíð. Þær munu aldrei verða endurútgefnar aftur í þýðingum þeirra Þorsteins Thorarensen og Lofts Guðmundssonar. Flestar bóka Frosks með Ástríki og Sval og Val höfðu ekki komið út áður hér á landi og þær stöku bækur úr þeim seríum, sem eru endurútgefnar, hafa verið illfáanlegar í áratugi og hafa nú yfir að ráða glænýjum þýðingum. Engin af Lukku Láka bókum Frosks höfðu komið út hér á Íslandi áður og er því alveg sérstaklega mikill fengur í þeim. Allar þessar nýju teiknimyndasögur eru því vel þegnar og eru hluti af þeirri metnaðarfullu stefnu Jean Antoines að gefa út heilu seríurnar með tíð og tíma. Í fljótu bragði telst SVEPPAGREIFANUM til að bækur þessara gömlu grónu bókasería séu komnar vel á sjötta tug titla hjá Froski og í heildina séu líklega komnar út á bilinu 130-140 teiknimyndasögur alls - hugsanlega fleiri. Þó upplögin séu sennilega ekki jafn umfangsmikil og stóru forlögin voru að senda frá sér hér á árum áður þá er þetta nú þegar orðnir álíka margir titlar og jafnvel fleiri en bæði Fjölvi og Iðunn gáfu út á sínum blómatíma. Það er alveg frábært og Froskur virðist hvergi nærri hættur.
Þó útgáfa þessara bóka hafi farið af stað með miklum metnaði hefur raunsæin ráðið ríkjum frá upphafi. Froskur hefur allt frá upphafi án nokkurs vafa tekið heilmikla áhættu með útgáfunni og skynsemin ráðið því að aldrei hefur verið ráðist í of mikið í einu. Hugsjón er því fyrst og fremst orðið sem kemur upp í hugann þegar Froskur útgáfa er nefnd til sögunnar og því miður er ólíklegt að Jean Antoine Posocco eigi nokkurn tímann eftir að verða ríkur af þessari áhættusömu útgáfu. SVEPPAGREIFINN hvetur því alla unnendur teiknimyndasagna til að flykkjast í bókabúðir og versla sér þessar bækur Frosks útgáfu. Á meðan einhver kaupir og les þessar myndasögur heldur útgáfa þeirra áfram en mun eflaust alltaf verða rekin af hugsjóninni einni og mikilvægt er að Jean Antoine þurfi ekki að borga með sér. SVEPPAGREIFINN setti sér það viðmið fyrir nokkrum árum að versla eina nýja myndasögu á mánuði allt árið en hefur reyndar sjaldnast staðið við þá reglu. Sjálfur kíkti GREIFINN því í Nexus nú í vikunni og verslaði sér allar nýju bækurnar þrjár á einu bretti. Hann sá ekki neitt eftir því og hefur reyndar margoft eytt aurunum sínum í miklu óþarfari hluti í gegnum tíðina. Auðvitað eru myndasögur ekki ókeypis frekar en aðrar bækur en til gamans má geta að bæði Svals og Viggó bækurnar kostuðu í kringum 3500 krónur hvor. Það er svipuð upphæð og SVEPPAGREIFINN greiddi fyrir létt bakkelsi (beikonbræðing, sérbakað vínarbrauð, kaffibolli og kók í plasti) í Bakarameistaranum á meðan hann beið eftir að Nexus opnaði. Bækurnar eru eitthvað dýrari í til dæmis Hagkaup en langbest er auðvitað að heimsækja Froskinn sjálfan í Vatnagörðum og versla þannig beint frá býli.