9. mars 2018

49. VIGGÓ Í BÍÓ

Nú líður senn að því að bíómynd um Viggó viðutan komi í kvikmyndahús en áætlað er hún verði frumsýnd í Frakklandi þann 4. apríl næstkomandi. Myndin heitir einfaldlega Gaston Lagaffe og aðalhlutverk hennar er í höndum 18 ára stráks sem nefnist Théo Fernandez. Hann hefur leikið nokkur lítil atriði í fáeinum kvikmyndum en þetta mun þó vera frumraun hans á stóra sviðinu. Flestar af þeim persónum sem við könnumst við úr bókum Franquins munu koma við sögu í myndinni en þó mun Valur (og þá um leið væntanlega Svalur) verða vant við látnir enda önnur kvikmynd um þá félaga tiltölulega nýkomin í bíó. 
Það er víst ekki rétt að vera að skapa einhverjar væntingar fyrirfram um þessa Viggó mynd því það gerist til algjörra undantekninga ef slíkar væntingar standast. Það er ólíklegt að hún verði tekin til sýninga hér á landi en hvernig sem fer mun þessi bíómynd verða ómissandi hverjum aðdáanda bókanna um Viggó viðutan. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar stillur úr myndinni en sjónrænt virðist sem ætlunin hafi verið að reyna að ná sem mestu út úr myndasögunum. 
Auðvitað kemur ekki til greina að gera bíómynd um Viggó viðutan án þess að hinn frábæri guli Fíat 509 komi við sögu. Og að sjálfsögðu er það Eyjólfur sem er einhvers konar fórnarlamb í þessu atriði en hann leikur hinn franski Pierre-François Martin-Laval.
Af búnaðnum á þaki gula Fíatsins að dæma og angistarsvip farþega hans má ætla að hér sé á ferðinni sena þar sem einhver af uppfinningum Viggós, tengd vélbúnaði bílsins, komi við sögu. Viggó sjálfur er einbeittur við stýrið en Júlli í Skarnabæ og Berti blindi eiga við einhver örvæntingarfull vandamál að stríða.
Viggó er dýravinur og það þarf ekki að koma á óvart að í myndinni sé atriði þar sem ferfætlingur á borð við kýr kemur við sögu. Ungfrú Jóka er ekki langt undan en hlutverk hennar er í höndum leikkonu sem nefnist Allison Wheeler og er nokkuð þekkt í Frakklandi. 
Í þessu atriði er Viggó í kunnuglegum samskiptum við lögregluþjóninn Njörð en að líkum lætur er sá síðarnefndi þarna í þráhyggju sinni að reyna að sekta Viggó í enn eitt skiptið fyrir ólöglegt athæfi. 
Þetta er ekki alveg í fyrsta skiptið sem Viggó viðutan birtist á hvíta tjaldinu því að í apríl árið 1981 var frumsýnd gamanmyndin Fais gaffe à la gaffe sem reyndar sló ekki í gegn. Myndin var frönsk og André Franquin hafði ekki gefið samþykki sitt fyrir notkun á persónum hennar en leyfði þó að brandarar myndasagnanna og helsta umhverfi yrði notað í myndinni. Persónur hennar fengu því ekki að heita sömu nöfnum og í myndaseríunni þannig að þær fengu allar ný heiti sem sum þó minntu eða vísuðu í upprunalegu nöfnin þeirra. Viggó er þannig nefndur "G" (fyrir Gaston)  og er ekki hafður í sinni hefðbundnu grænu peysu heldur í ljósgulri peysu merktri með "G". Eyjólfur heitir "Prunus" (Prunelle í upprunalegu sögunum), ungfrú Jóka "Penelope" (miss Jeanne) og herra Seðlan nefnist "Mercantilos" (De Mesmaeker). Myndin er illfáanleg og hefur til dæmis aldrei verið gefin út á dvd en enn eru einhvers staðar VHS eintök til á meðal hörðustu aðdáenda Viggós. Einhver af gagnrýnendunum sagði einmitt að það eina góða við myndina væri hve erfitt væri að nálgast eintak af henni og annar sagði að jafnvel bíllinn hans "G" (Viggós) hefði leikið illa.

Hér má sjá myndina Fais gaffe à la gaffe í fullri lengd fyrir þá sem langar að spreyta sig á frönskunni eða hafa ríka þörf fyrir að drepa tímann á leiðinlegan hátt næstu tvær klukkustundirnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!