29. mars 2018

52. ALVÖRU LISTAVERK Í ÁSTRÍKSBÓK

Það er smá Ástríkur í færslu dagsins enda hafa þær myndasögur, einhverra hluta vegna, verið ansi mikið vanræktar af hálfu SVEPPAGREIFANS á Hrakförum og heimskupörum. Hver er ástæða þess er ekki gott að segja því þær teiknimyndasögur eru alveg úrvals efni og líklega sú sería sem SVEPPAGREIFINN á hvað flestar myndasögurbækur úr en um leið einnig sú sería sem hann á eintök á sem flestum tungumálum. Páskahelgin er auðvitað hafin og þá er reiknað með að hátíðleikinn sé dreginn fram (úr hófi hjá einhverjum) en andlegt framlag SVEPPAGREIFANS til páskahátíðarinnar 2018 er því helgað listagyðjunni.

Flestir hafa líklega einhvern tímann rekið augun í mynd af hinu sígilda og þekkta olíumálverki La Liberté guidant le peuple (Frelsið á götuvíginu) eftir Eugène Delacroix frá árinu 1830 þó hinir sömu þurfi ekki endilega að vera vel að sér í listasögunni. Verkið komst meira að segja nýverið í fréttirnar vegna þess að mynd af því var útilokuð af Facebook vegna nektar. Ekki er ætlun SVEPPAGREIFANS að grafa djúpt í sögu þessa málverks eða þær pælingar sem það stendur fyrir en í meginatriðum var hugmynd listamannsins að verkinu innblásin af þremur stórum og mikilvægum byltingum og almennt er málverkið talið vera eitt helsta tákn um lýðræði Frakklands.
Og svo er það hin stórglæsilega Ástríksútgáfa af verkinu. Þessi mynd birtist í Ástríksbók númer 34 L'anniversaire d'Astérix & Obélix (Afmæli Ástríks og Steinríks) frá árinu 2009 en eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er hér um að ræða tímamótasaga í tilefni 50 ára afmælis kappans. Það þarf varla að taka það fram að þessi bók hefur ekki enn komið út á íslensku. Listamaðurinn Albert Uderzo teiknaði söguna sjálfur og þetta var síðasta sagan sem hann vann en hann er nú orðinn tæplega 91ns árs gamall. Sagan, sem einnig er nefnd Gullna bókin, er frekar óhefðbundin myndasaga og ekki í neinu samræmi við hina eiginlegu tímaröð Ástríks bókanna en almennt féll bókin yfirleitt ekki í kramið hjá aðdáendum seríunnar. Margir líta jafnvel á hana sem einhvers konar aukabók þó hún tilheyri sannarlega bókaflokknum. SVEPPAGREIFINN ætlar svo sem ekki að rekja söguþráð bókarinnar frekar en í henni er ekki aðeins stiklað á stóru um sögu Ástrík, þar sem margar kunnuglegar persónur koma við sögu, heldur er hún einnig tvinnuð við marga atburði úr mannkynssögunni.
En á blaðsíðu 43 birtist þessi óhefðbundna útgáfa af málverkinu La Liberté guidant le peuple og þótt bókin L'anniversaire d'Astérix & Obélix sé ekki beint hápunktur Ástríksbókanna þá er þessi útgáfa Uderzo af verkinu frábær. Þau Steinríkur, Aðalbjörg höfðingjafrú og Ástríkur sjálfur eru í helstu aðalhlutverkum en í forgrunni myndarinnar liggja Rómverjarnir auðvitað eins og hráviði út um allt. Greina má þá Ryðrík, Aðalrík allsgáða þorpshöfðingja og Þrautrík (reyndar bara hægri hendina hans og stafinn) í bakgrunninum og til vinstri sjást hálfhrundar herbúðir frá Rómverjunum. En á upprunalegu myndinni munu þetta vera rústirnar af Notre-Dame dómkirkjunni. Mörg önnur listaverk koma við sögu bókarinnar og má þar til dæmis bæði sjá útgáfu Uderzo af Mónu Lísu eftir Leonardo da Vinci og Ópið eftir Edvard Munch.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!