16. mars 2018

50. TINNI, STING OG SVEPPAGREIFINN

SVEPPAGREIFINN hefur frá unglingsárunum verið nokkur aðdáandi tónlistarmannsins Sting eða Gordon Sumner eins og hann var nú víst skírður í æsku. Sting vakti fyrst athygli sem frontur breska tríósins Police og svo hóf hann sólóferil sem enn stendur þó eitthvað hafi hann haft hægt um sig á tónlistarsviðinu undanfarin árin. Við fyrstu sýn virðist sú staðreynd reyndar koma teiknimyndasögum hið minnsta við. Og þó ... Árið 1987 sendi hann frá sér breiðskífuna ...Nothing Like the Sun sem meðal annars hafði að geyma hið frábæra lag Englishman in New York en á plötunni var einnig lag sem nefnist We'll Be Together. Reyndar verður SVEPPAGREIFINN að viðurkenna að síðarnefnda lagið höfðar engan veginn til hans og er í huga hans því eina leiðinlega lagið sem hann man eftir með þessum frábæra tónlistarmanni. En myndbandið við We'll Be Together vakti hins vegar meira athygli SVEPPAGREIFANS, á sínum tíma, því að í því má sjá hann klæðast forláta Tinna peysu.
Þess háttar peysu, eða einhverja mjög sambærilega, var SVEPPAGREIFANN búið að langa töluvert mikið í síðan hann sá myndbandið fyrst seint á níunda áratug síðustu aldar.
Og þegar SVEPPAGREIFANN langar í eitthvað sérviskulegt þá kemur sér ansi vel að eiga góða og skilningsríka eiginkonu sem kann og getur allt.

Það var reyndar eilitlum erfiðleikum bundið að hefja vinnuna við verkefnið. Fyrst þurfti að finna út úr því hvernig best væri að standa að verkinu því það er víst ekkert sérstaklega heiglum hent (ferlegt þetta tungumál sem við eigum) að prjóna eins og eina Tinna peysu. Það hvernig staðið er að hönnun prjónapeysu, með mynd af Tinna framan á sér, er líklega ekki sterkasta hlið SVEPPAGREIFANS og því er ekki ætlunin að reyna að útskýra tækni- eða verklega hluta vinnunar. Hins vegar sá eiginkonan um það hönnunarferli á sinn einstaka hátt og þegar því var lokið þurfti að velja efni garnsins (sem í þessu tilfelli var hreinræktaður íslenskur rollulopi), liti og helsta útlit peysunnar. Þ.e. að taka ákvörðun um sídd hennar, hvers konar hálsmál átti að vera á henni osfrv. Eitthvað svona allskonar prjónatæknivesen tengt lopapeysum sem SVEPPAGREIFINN kann ekkert að skilgreina. Og síðast af öllu var svo auðvitað að ákveða hvaða mynd skyldi nota. Af tæknilegum ástæðum var tekin sú ákvörðun að myndin af Tinna skyldi vera sem einföldust og aðeins í einum svörtum lit, þ.e.a.s. þeim svarta lit sem sýndi þá aðeins útlínur myndarinnar.

Og þá var komið að ástkærri eiginkonunni að eyða einhverjum vikum (reyndar með hléum) við vinnu sem að miklu leyti snerist um að rekja upp, prjóna aftur, stytta eða lengja hluta peysunnar eftir þörfum, staðsetja Tinna og stækka hann eða minnka, allt eftir sérvisku, sérþörfum og þráhyggju SVEPPAGREIFANS. Auk þess sem þetta virkar allt miklu auðveldara en að framkvæma það. Allt hafðist það þó að lokum hjá eiginkonunni með ómetanlegri þolinmæði og þrautseigju. Og hér má sjá afraksturinn.
Og SVEPPAGREIFINN er svo ánægður með útkomuna að hann hefur sett stefnuna á aðra sambærilega peysu og þá líklega með mynd úr einhverri annarri myndasöguseríu. Hann er reyndar ennþá að velta því fyrir sér hvernig best sé að nefna þessa nýju hugmynd við sína ástkæru ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!