15. júní 2018

63. Í TILEFNI HM - AÐEINS MEIRA UM VIGGÓ

Færsla dagsins er í styttri kantinum en aðra vikuna í röð er hún tileinkuð þátttöku íslenska landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem hófst í gær. Fyrsti leikur Íslands á mótinu fer einmitt fram á morgun þegar sjálfir Argentínumenn, með Lionel Messi í broddi fylkingar, mæta til leiks í Moskvu. Og líkt og í síðustu viku leitast SVEPPAGREIFINN við að finna fótboltatengda myndasögubrandara í bókunum um Viggó viðutan. En SVEPPAGREIFINN var sem sagt, einu sinni sem oftar, að fletta í gegnum bókina Viggó hinn óviðjafnanlegi (Le Géant de la gaffe - 1972) og fann þar einn af þessum bröndurum Franquins á blaðsíðu 41. Einn myndarammi brandarans bauð hreinlega upp á að verða birtur hér en á honum hoppar knattspyrnuáhugamaðurinn Viggó hæð sína í loft upp, með viðeigandi öskrum, eftir að mark hafði verið skorað í leik sem hann var að hlusta á. Í talblöðrunni í upprunalegu útgáfunni öskrar Viggó reyndar að Gulli hafi skorað en í ljósi þeirra séríslensku aðstæðna, sem þjóðin er að njóta um þessar mundir, sá SVEPPAGREIFINN sér ekki annað fært en að breyta nafni Gulla í Gylfa! Vonandi fyrirgefur bókaútgáfan Iðunn það.
Viggó hinn óviðjafnanlegi var einmitt gefin út hjá Iðunni árið 1978 í þýðingu Jóns Gunnarssonar og á þeim árum var enginn Gulli að gera einhverjar rósir í íslenskum fótbolta, hvorki með landsliðinu né félagsliðunum. Þetta Gulla-nafn er því væntanlega skáldskapur alveg frá grunni en gæti líka hugsanlega hafa verið einhver vinur eða ættingi þýðandans sem hann hefur viljað stríða eða heiðra. Í dag hefði Jón alveg pottþétt sett nafn Gylfa í brandarann.

En afgangur færslunnar er heill brandari úr bókinni Viggó á ferð og flugi (Un Gaffeur Sachant Gaffer - 1969), sem Iðunn gaf út á árinu 1982, þar sem þeir Viggó og Snjólfur sinna áhugamálum sínum á lymskulegan hátt í vinnutímanum. ÁFRAM ÍSLAND!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!