29. júní 2018

65. Í TILEFNI HM - BALDVIN VEITVEL

Enn er Heimsmeistaramótið í knattspyrnu innblástur SVEPPAGREIFANS fyrir færslu dagsins og allt er það vegna þátttöku íslenska landsliðsins á mótinu sem reyndar lauk á þriðjudaginn var. Liðið stóð sig frábærlega á sínu fyrsta HM og voru í raun óheppnir að ná ekki að hala inn aðeins fleiri stigum í riðlinum. Næsta mál á dagskrá er hin nýja Þjóðardeild sem fer fram í haust með leikjum gegn Belgíu og Sviss og síðan verður dregið í riðla fyrir næstu undankeppni EM í byrjun desember. Nóg að gera alveg.

En viðfangsefni Hrakfara og heimskupara að þessu sinni er flaggskip þeirra myndasagna sem komu út á íslensku og fjölluðu um knattspyrnu. Þar er auðvitað um að ræða hið stórkostlega fyrirbæri Fótboltafélagið Falur sem SVEPPAGREIFINN fjallaði eilítið um hér. Eða öllu heldur einn af leikmönnum þess - Baldvin Veitvel. Reyndar skal það tekið fram að fagurfræðilega eru myndasögurnar um Fótboltafélagið Fal óttalegt rusl en skemmtanagildi þess er hins vegar óumdeilanlega í hæsta gæðaflokki. Ja ... eins langt og það nær.
Öll vitum við, alla vega þau okkar sem fylgjast eitthvað með knattspyrnu, að fótboltinn gengur út á meira heldur en aðeins það að hlaupa á eftir bolta, sparka í hann endrum og sinnum og að koma honum öðru hverju í þar til gert mark. En til þess að sú aðferð gangi enn betur er ekki úr vegi að innan liðsins séu einstaklingar sem hugsi eilítið. Það er þó ekki alltaf sjálfgefið. Stundum er talað um (þá líklega sérstaklega á meðal anti-sportista) að knattspyrnumenn séu yfirhöfuð ekkert sérlega gáfaðir. Það er að öllum líkindum ekki alveg rétt en jú, líkt og á öðrum vettvöngum eru þeir auðvitað til sem kalla ekki allt ömmu sína í lágmarkssöfnun greindarvísitölustiga. Við þekkjum það vandamál alls staðar í þjóðfélaginu, á meðal tónlistarfólks, fjölmiðlafólks, stjórnmálamanna og svo framvegis. Á sama hátt er líka til bráðgáfað fólk á sams konar áðurnefndum vettvöngum og það gildir auðvitað einnig um knattspyrnumenn. Allir muna til dæmis eftir hinum leggjalanga, brasilíska knattspyrnu- og stórreykingamanni Socrates sem var ekki bara menntaður barnalæknir heldur líka með doktorsgráðu í heimspeki. Hann þótti með eindæmum gáfaður af fótboltamanni að vera. En eins og áður segir ætlar SVEPPAGREIFINN að einblína aðeins á knattspyrnumanninn Baldvin Veitvel hjá Fótboltafélaginu Fal. 
Reyndar fer svolítið tvennum sögum af gáfum Baldvins Veitvel. Í bókunum virkar hann ákaflega gáfaður en líklega má að einhverju leyti rekja það til samanburðarins við aðra leikmenn liðsins. Það skín nefnilega svolítið í gegn að þeir séu fæstir neitt sérstaklega skarpir. Liðið er reyndar byggt svolítið upp á staðalímyndum og þar má til dæmis finna groddann í vörninni (Fauta fant), lata Suður Ameríska sóknarmanninn sem hugsar bara um hárið á sér (Marínó-Marínó Sólbrendó), vængmanninn (Þröst, hann er jú, með vængi) og heila liðsins (Baldvin Veitvel) sem hér er til umræðu. En bæði fremst og aftast í bókunum um Fótboltafélagið Fal má finna kynningar á helstu stjörnum og starfsmönnum félagsins. Þar má lesa eftirfarandi texta um stræðfræðinginn Baldvin Veitvel:
Sem skipuleggjandi er hann einfaldlega frábær. Eitt sinn fyrir langa löngu nánar tiltekið þegar ísöld ríkti, var hann lánaður til Knattspyrnuklúbbs Grenivíkur, og lék þar af mikilli snilld. Þessi glimrandi tvífætlingur vekur þó kvíða með mönnum vegna mikillar nákvæmni. Hann er með skegg sem fær hann til að líta út eins og lærðan vísindamann. Þótt Baldvin telji sig gáfaðan fram úr hófi verður hann líklega að teljast sá einni þeirrar skoðunar. Í hverju skrefi reiknar hann út hvað gerast muni næstu 5 mínútur leiksins.
Þrátt fyrir að hafa augljóslega margt fram yfir aðra leikmenn liðsins, hvað gáfur varðar, er Baldvin þó ekki endilega í uppáhaldi hjá þjálfara liðsins. Það má að einhverju leyti rekja til ákveðins skorts á gagnkvæmum skilningi beggja aðila. Í það minnsta á köflum. Baldvin notar gjarnan svolítið flókin hugtök eða jafnvel formúlur til að skýra sín sjónarmið en þolinmæði þjálfarans eða almennt skilningsleysi hans (sem er reyndar í takt við aðra leikmenn liðsins) hjálpar ekki til. Líklega má einfalda þetta með þeim útskýringum að Baldvin Veitvel sjái leikinn ekki með alveg sömu augum og aðrir og þar af leiðandi skilur þjálfarinn hann ekki. Þetta skilningsleysi kallar á, oftar en ekki, smávægilega árekstra.
En samband þeirra Baldvins og þjálfarans (sem kemur reyndar frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar) er þó oft líka þess eðlis að það ber árangur. Þar kemur að vísu heimska annara leikmanna liðsins aðeins við sögu því að Baldvin virðist á köflum vera sá eini sem skilur hvað þjálfarinn er að fara með fyrirmælum sínum. Í fyrsta leik tímabilsins (í bókinni Fótboltafélagið Falur á heimavelli), gegn Glímufélaginu Hármanni, lendir liðið illilega undir og staðan er 14-0 fyrir gestunum þegar Baldvin tekur af skarið og minnkar eilítið muninn. Ástæðan var sú eina að hann skildi hvað þjálfarinn var að meina.
Og svo er það hin einstaka skottækni Baldvins Veitvel. Þar fara reyndar saman framúrskarandi hæfileikar við að sparka í bolta annars vegar og hins vegar áðurnefndar gáfur hans. Þessir tveir eiginleikar hans nýtast augljóslega ansi vel saman. Í bókinni Falur í Argentínu (með viðkomu á Íslandi) má sjá gott dæmi um vel útfærða aukaspyrnu Baldvins í leik gegn Perú á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Þarna má sjá hvernig skottækni hans er nýtt til hins ítrasta með einföldu kvaðratrótaskoti. Það er líka gaman að sjá hvernig þýðandinn og knattspyrnuumboðsmaðurinn Ólafur Garðarsson leikur sér þarna með orðið "rótarskot." Það væri fróðlegt að sjá aðra leikmenn taka þessa skottækni Baldvins sér til fyrimyndar.
Þessa spyrnuhæfileika sína hefur Baldvin nýtt sér nokkuð í fleiri tilfellum á knattspyrnuvellinum og þeir henta augljóslega vel þar sem mjög erfiðar vallaraðstæður eru til staðar. Í undirbúningi liðsins fyrir Heimsmeistaramótið í Argentínu kemur Falur við á Íslandi og spilar til að mynda þar æfingaleik við KR. Eftir að hafa lent 0-1 undir, gegn Vesturbæjarliðinu, fá leikmenn liðsins þau óvæntu fyrirmæli í leikhléi um að fara að spila fótbolta og Baldvin Veitvel brýtur ísinn með stórkostlega hnitmiðuðu skoti. Með þessari spyrnu má sjá að hann er augljóslega einstakur skotmaður.
En þó Baldvin Veitvel virðist vera einstakur hæfileikamaður er hann þó ekki alveg fullkominn. Í bókinni Fótboltafélagið Falur á heimavelli æfir liðið vítaspyrnur en við þær framkvæmdir eru leikmönnum félagsins nokkuð mislagðar hendur (fætur) og spyrna boltum sínum ítrekað langt út fyrir leikvanginn. Svo mjög að þjálfarinn sér ekki annan kost en að láta þá æfa spyrnurnar með sérstökum bolta, áföstum snúru, til að tryggja það að hann skili sér aftur til leikmannanna. Við vítaspyrnu Baldvins má sjá að tækni hans er ekki óskeikul og ofurlítil reikniskekkja setur spyrnuna í töluvert uppnám.
Þegar rýnt er í menntun Baldvins kemur reyndar í ljós að líklega er hann ekki eins klár og af er látið. Garðyrkjuskólanám hans kemur á óvart og þessi óljósu sex ár hans í framhaldi af því gefur ekkert sérstaklega góð fyrirheit um mjög yfirgripsmikið nám. SVEPPAGREIFINN er reyndar svolítið forvitinn um hversu gamall hann var þegar hann hóf sína knattspyrnuiðkun. Annars er eiginlega eftirtektarverðast að rýna í hinn aðdáunarfulla lotningarsvip sem þeir liðsfélagar Baldvins, Fauti fantur og Þröstur, bera til hans á myndinni hér fyrir neðan.
Útlitslega minnir Baldvin auðvitað á Albert Einstein með blautt hár og hugmyndin um hinn gáfaða knattspyrnumann hefur eflaust átt að styrka þá ímynd. Og SVEPPAGREIFINN efast ekki um að margir af gáfuðustu einstaklingum seinni tíma hafi unnið í ísbúð á einhverju tímaskeiði ævi sinnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!