24. ágúst 2018

73. FLIBBAHNAPPUR VANDRÁÐS PRÓFESSOR

Færsla dagsins er óvenju snöggsoðin vegna tilfinnanlegs tímaskorts og almennrar leti. En í Tinna bókinni um Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó má finna leyndan brandara um flibbahnapp Vandráðs prófessors. Á blaðsíðu 8 kemur Vaíla og fylgdarlið hennar með miklum látum í heimsókn að Myllusetri Kolbeins kafteins og á næstu blaðsíðu á eftir birtist þessi bráðskemmtilega mynd. Tinni kynnir prófessorinn fyrir söngkonunni ægilegu og í kjölfarið hneigir Vilhjálmur Vandráður sig yfirmáta kurteisislega að hætti háttvísra herramanna. Við það skýst flibbahnappur prófessorsins út í loftið en fæstir lesenda verða þess þó líklega varir. 
Vilhjálmur Vandráður tekur ekki eftir neinu og það sama má reyndar segja um hina ítölsku söngdívu sem, miðað við orð hennar, misminnir þó eitthvað frægðarverk og afrek prófessorsins sem hann er þekktastur fyrir. Tinni, sem augljóslega er alltaf vakandi fyrir hinu óvænta, sér þó flibbahnappinn yfirgefa prófessorinn og fáeinum myndum seinna má sjá hvar hann, í bakgrunninum, afhendir Vandráði aftur hinn týnda grip.
Gaman að því ...

2 ummæli:

  1. Hver ætli hafi verið tilgangurinn með þessu flugi flibbahnappsins? Örlítið meira líf í rammana?

    SvaraEyða
  2. Já, líklega eitthvað í þá veru en sennilega einnig til að brjóta upp langdregnar og flatar senur í sögunum. Sjálfsagt eru Tinna bækurnar fullar af litlum földum bröndurum í bakgrunninum sem maður hefur aldrei gefið sér almennilega tíma til að uppgötva. Ég ímynda mér þá Kolbein, Vandráð og Skaftana leika þar svolítil hlutverk þó ég hafi ekki skoðað það til hlítar. Kannski er þarna komið efni í nýja færslu?:D Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!