10. ágúst 2018

71. KEYPT Í SVISS SUMARIÐ 2018

SVEPPAGREIFINN er búinn að vera í sumarfríi undanfarnar vikurnar og eins og svo oft hefur hann verið með fjölskyldunni á flandri í landi Toblerone og osta. Og auðvitað var ekki hjá því komist að versla svolítið af myndasögum. Það hefur svo sem alveg gerst áður. En það verður að viðurkennast að SVEPPAGREIFINN hefur sjaldan verið hógværari í kauphugleiðingum sínum. Hann keypti í rauninni ekki nema 11 myndasögur í þessu sumarfríi sem telst ekki mikið og það er því ljóst að hann á töluvert inni.

Í borginni Biel byrjaði hann á að rekast á myndasögurekka á götumarkaði í miðbænum þar sem töluvert úrval gamalla teiknimyndasagna stóð til boða. SVEPPAGREIFINN hefur alltaf verið duglegur að nálgast vel með farnar og notaðar myndasögur á flóamörkuðum eða götumarkaðstorgum af ýmsu tagi. Þetta hefur auðvitað margoft komið fram á Hrakförum og heimskupörum. Og þarna greip hann með sér nokkra mjög vel með farna, notaða gripi sem mega alveg fá sitt pláss í myndasöguhillunum. Bækurnar voru allar á frummálinu, frönsku, og SVEPPAGREIFINN greiddi ekki nema 5 franka (um 540 krónur) fyrir eintakið en þess má geta að nýjar myndasögur í Sviss eru yfirleitt á verðbilinu þetta 13 - 19 franka (1400 - 2000 krónur). Sviss telst reyndar mjög dýrt land en til samanburðar má geta að sambærilegar notaðar (þ.e. áhugaverðar) myndasögur í Góða hirðinum er langflestar á 1200 kall og nýjar á um 3000 til 3500 krónur. Enn á ný fáum við staðfestingu á því hvað Ísland er ömurlega dýrt.
En til að gera langa sögu stutta þá voru það fimm myndasögubækur sem fjárfest var í þessari fyrstu atrennu sumarfrísins. Fyrsta skal nefna sögu úr bókaflokknum um Blake og Mortimer sem SVEPPAGREIFINN hefur aðeins verið að detta inní en fyrsta sagan í þeirri seríu birtist í myndasögublaðinu Journal of Tintin á árunum 1946-49 og kom fyrst út í bókaformi árið 1950. Sögurnar voru upphaflega eftir belgíska listamanninn Edgar P. Jacobs en eins og margir vita var hann ein af nokkrum hægri höndum Hergés hjá Hergé Studios þegar Tinna bækurnar voru að koma út. Edgar P. Jacobs fór strax að teikna eigin sögur, samhliða vinnu sinni með Tinna hjá Hergé Studios, og bækurnar um Blake og Mortimer slógu í gegn og urðu með tímanum mjög vinsælar í Belgíu og Frakklandi. Bókin sem SVEPPAGREIFINN verslaði heitir Les 3 Formules du professeur Satō, er 11. sagan í seríunni og kom út í bókaformi árið 1977 en þetta var síðasta Blake og Mortimer bókin sem Jacobs gerði áður en hann lést árið 1987. Síðar kom út seinni hluti sögunnar en hana teiknaði Bob de Moor annar kunnur listamaður á vegum Hergé Studios. Það hefði óneitanlega verið gaman að sjá þessar myndasögur gefnar út á íslensku á sínum tíma en bækurnar eru reyndar fáanlegar á dönsku fyrir þá sem vilja kynna sér þær betur.
Næst var það bókin Eric et les Pablitos með knattspyrnuhetjunni Eric Castel. Eric Castel er bókaflokkur sem fyrst hóf göngu sína árið 1979 og SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um í einni af færslum sínum tengdum Heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu fyrr í sumar. Þessi saga, Eric et les Pablitos, er sú fyrsta í seríunni en alls komu út 15 bækur í bókaflokknum. Bækurnar um Eric Castel voru nokkuð vinsælar í Frakklandi og Belgíu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en síðasta bókin í þessari seríu kom út árið 1992. Þessar bækur komu aldrei út á íslensku en margir myndasöguunnendur þekkja kappann eflaust úr skandinavískum teiknimyndablöðum sem stundum var hægt að nálgast hér á landi á síðustu öld.
Fyrstu bókina, 60 gags de Boule et Bill no 1, úr bókaflokknum um Boule og Bill fann SVEPPAGREIFINN einnig á markaðstorginu í Biel en sú sería var ein sú allra vinsælasta sem kom frá Belgíu/Frakklandi. Alls hafa komið út hátt í 40 bækur í þessum bókaflokki og sú síðasta árið 2015. Boule og Bill hófu göngu sína í belgíska myndasögublaðinu SPIROU árið 1962 og nutu, eins og áður segir, gríðarlegra vinsælda. Brandararnir með Boule og Bill voru alltaf hugsaðir sem eins konar evrópskur mótleikur gegn hinum amerísku Peanuts (Smáfólk) myndasögum eftir Charlie M. Schulz en eru hins vegar bara miklu skemmtilegri.
Strumpabókina Histoires de Schtroumpfs frá árinu 1972 rak einnig á fjörur SVEPPAGREIFANS en þar er um að ræða áttundu bók Peyo í seríunni en hún er samansafn einnar blaðsíðu brandara um Strumpana. Í upprunalegu útgáfuseríunni er Histoires de Schtroumpfs staðsett mitt á milli Galdrastrumps (L'Apprenti Schtroumpf  - 1971) og Strumpastríðs (Schtroumpf vert et Vert Schtroumpf - 1973) sem báðar komu út á íslensku hjá Iðunni á sínum tíma. Peyo teiknaði sjö sögur til viðbótar áður en hann lést árið 1992. Tveimur árum síðar tók sonur hans Thierre við keflinu og heldur uppi merkjum föður síns en Strumpabækurnar eru ennþá að koma út. Samtals hefur Thierre teiknað 20 bækur í bókaflokknum en sú nýjasta kom út í mars á þessu ári. Histoires de Schtroumpfs hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu en reikna má með að þess verði ekki langt að bíða að Froskur útgáfa sendi hana frá sér.
Og að síðustu var þarna myndasaga sem SVEPPAGREIFINN verslaði og viðurkennir fúslega að hann hafði ekki haft hugmynd um tilvist hennar. Þarna er um ræða myndasögu sem nefnist Banlieue West, sem er eins konar heiðursbók tileinkuð Lukku Láka, og fjallar um (and?)hetjuna Rocky Luke. Bókin var fyrst gefin út árið 1985 og hefur reyndar verið endurútgefin þrisvar en eintakið sem SVEPPAGREIFANUM áskotnaðist er einmitt úr 1. útgáfunni. SVEPPAGREIFINN minnist bókar (La galerie des Gaffes) sem hann verslaði um páskana í Frakklandi, um Viggó  viðutan, og fjallaði eilítið um hér en þar var um að ræða afmælisbindi í tilefni af 60 ára afmæli Viggós. Í þeirri bók teiknuðu 60 listamenn jafnmarga brandara um kappann honum til heiðurs. Banlieue West virðist hafa að geyma sambærilegt efni en þar eru 42 teiknarar (fæstir þeirra voru reyndar mjög kunnir á þeim tíma) sem heiðra kappann, sem er skjótari en skugginn að skjóta, með einnar blaðsíðu bröndurum. Brandararnir eru margir hverjir nokkuð einfaldir og teiknistíllinn yfirleitt í groddalegri kantinum þar sem of margir listamannanna virðast leggja mestu áhersluna á að muna eftir sólarlagsendinum - I'm poor lonesome cowboy ... osfrv. 
Rocky Luke er teiknaður á marga mismunandi vegu (eðlilega þar sem 42 teiknarar koma við sögu) og um leið á nokkrum mismunandi tímum en þó er villta vestrið oftast sögusvið listamannanna. Reyndar vilja nokkrir höfundanna tengja Rocky Luke við aðra tíma og þar kemur einhvers konar '50s tíðarandi sterkur inn. Mörgum þeirra virðist nefnilega eðlislægt að tengja nútímaútgáfuna af Lukku Láka við reykspólandi ameríska kagga og mótorhjól. Við fyrstu sýn (útlitslega) virðist manni sem hugmyndafræðilega sé þarna um að ræða jaðarlistamenn sem hrífast af finnsku hljómsveitinni Leningrad Cowboys en svo er þó ekki. Sú sveit kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1986. SVEPPAGREIFINN minnist þess að hafa rekist á myndasögur í sambærilegum stíl bæði með Ástríki og Viggó viðutan og svo kannast eflaust margir við hliðarseríuna um Lukku Láka með bókunum L'Homme qui tua Lucky Luke og Jolly Jumper ne répond plusEn þessi myndasaga Banlieue West er eiginlega einhvers konar illa teiknuð Lukku Láka bók fyrir fullorðna. Bráðnauðsynleg samt ...
Þessar fimm bækur voru látnar duga í bili á götumarkaðnum í Biel en af því að fjölskyldan hafði aðal aðsetur sitt í nágrenni borgarinnar var SVEPPAGREIFINN reglulega á röltinu í miðbænum vikurnar á eftir. Því ráfaði hann þar endrum og eins um helstu bókabúðir borgarinnar og stórmarkaði og kíkti reglulega eftir því hvort ekki væri eitthvað áhugavert í hillunum. Á einu slíku ráfi rakst hann til dæmis á myndasögu sem heitir Le messager (1995) og er 9. bókin í seríunni um hundinn Rattata (Rantanplan). SVEPPAGREIFINN hefur svo sem flett í gegnum bækurnur um Rattata áður, án þess þó að versla þær, en það verður að segjast eins og er að þessar myndasögur eru harla ómerkilegar. Enda var þessi á tilboði með 50% afslætti. Þarna er um að ræða heilar sögur upp á 46 blaðsíður en ekki stuttir brandarar eins og maður myndi ætla í fyrstu. Hugmyndin er nefnilega í sjálfu sér alveg ágæt því fyrirfram virðist heimska Rattata svolítið vannýtt auðlind sem auðvelt gæti verið að vinna eitthvað úr á skemmtilegan hátt. En höfundum seríunnar virðist þó engan veginn takast að notfæra sér það. Í augum SVEPPAGREIFANS er aðeins verið að reyna að mjólka Lukku Láka spenann (sem reyndar er líka orðinn ansi rýr) með þessari tegund hliðarmyndasagna. Meira að segja teiknistíllinn lítur út fyrir að vera annars flokks. Þó verður að taka það fram að fyrri bækurnar í seríunni gætu verið skárri því einhverra hluta vegna komu út 20 sögur í þessum bókaflokki og þær voru eftir nokkra mismunandi höfunda. Serían virðist þó vera hætt að koma út núna því síðasta bókin er frá árinu 2011.
En nokkrum dögum seinna átti SVEPPAGREIFINN leið til Bern og eins og oft áður keypti hann eitthvað af myndasögum í höfuðborginni. Þar voru gripnar tvær Sval og Val bækur úr þýsku Spezial hliðarbókaseríunni (Série Le Spirou de ... eða Sérstök ævintýri Svals ...) en þarna er um að ræða bókina Das Licht von Borneo (La Lumière de Bornéo á frönsku) og Sein Name war Ptirou (Il s'appelait Ptirou). Das Licht von Borneo, sem er eftir þá Frank Pé og Zidrou og kom út árið 2016, segir frá því að Svalur er hættur störfum sem blaðamaður og snýr sér að rólegri áhugamálum en sagan fjallar að miklu leyti um umhverfisvernd. Hin bókin Sein Name war Ptirou kom út árið 2017 og er eftir Lauren Verron og Y. Sente en þessi saga er sú nýjasta í seríunni. Hún fjallar eiginlega um forsöguna að því hvernig persónan Svalur varð til og enn verðum við að muna að þetta eru sögur eru alveg óháðar upprunalegu Sval og Val seríunni. Báðar þessar myndasögur virka mjög áhugaverðar og vandaðar, þó ólíkar séu, og þær eru líka heldur veglegri en flestar af þeim bókum sem komið hafa út í seríunni. Das Licht von Borneo er tæplega 90 blaðsíður að lengd en Sein Name war Ptirou um 80. Helsti gallinn við þessar þýsku Spezial útgáfuseríu er sá (að mati SVEPPAGREIFANS) að bækurnar eru ekki í sömu röð og í þeirri upprunalegu belgísku og í raun er ekki einu sinni um allar sömu bækur að ræða. Í Spezial röðinni eru bækurnar auk þess miklu fleiri. Misræmið felst aðallega í því að margar af gömlu upprunalegu sögunum (eftir t.d. Rob-Vel, Jije og jafnvel Franquin) eru líka látnar tilheyra þýsku útgáfunni en auk þess má þar til dæmis líka finna bókina Les folles aventures de Spirou sem SVEPPAGREIFINN fjallaði um hér. Sú bók tilheyrir ekki heldur upprunalegu bókaröðinni á frönsku. Þannig eru í belgísku seríunni aðeins komnar út 13 bækur á meðan þær eru orðnar alla vega 25 í þeirri þýsku.
Og svo var það ein myndasaga sem Greifynjan, hinn ástkæri fallegri helmingur SVEPPAGREIFANS, fjárfesti í og mun að sjálfsögðu fá sitt pláss í myndasöguhillum heimilisins. Þar var um að ræða nýjustu bókina í Ástríks seríunni á ítölsku en til gamans má geta að þetta er fyrsta teiknimyndasagan á ítölsku sem kemur inn á heimilið. 
Forsagan er sú að Greifynjan er búin að vera að læra ítölsku undanfarin misseri og vantaði því einfalt lesefni á því tungumáli, með myndum, til að létta sér námið. SVEPPAGREIFINN átti ekki von á að það yrði neitt stórmál enda myndasöguhillur heimilisins fullar af bókum (ca. 600 stk.) á um tíu til fimmtán mismunandi tungumálum. En við nánari skoðun kom í ljós að ekki ein einasta þeirra var á ítölsku. Á flakki um Ítalíu um páskana hafði  aldrei gefist almennilega tími eða næði til að leita uppi myndasögur á ítölsku en það tækifæri gafst hins vegar betur núna í Sviss. Enda ítalskan eitt af fjórum opinberum tungumálum í landinu. Það er því vel við hæfi að nýjasta sagan heiti einmitt Astérix et la transItalique (sem myndi væntanlega útleggjast á íslensku einhvern veginn sem Ástríkur á ferð um Ítalíu) en hinn ítalski titill bókarinnar nefnist Asterix e la corsa d'Italia.

Svo má ekki gleyma tveimur bókum úr opinberu seríunni með Sval og Val sem verslaðar voru áður en flogið var af stað heim frá Basel. Þar var um að ræða hina umdeildu bók Jagd auf Spirou (Machine qui rêve - 1998) eftir þá Tome og Janry og Angriff der Zyklozonks (Alerte aux Zorkons - 2010) sem var fyrsta sagan sem þeir Vehlmann og Yoann gerðu í seríunni. Jagd auf Spirou fjallar um dularfullt líftæknifyrirtæki sem stundar klónun en sagan er sú síðasta sem Tome og Janry gerðu í seríunni. Bókin hlaut mjög misjafna dóma enda er hún gjörólík fyrri bókum um Sval og Val og í rauninni skipta þeir höfundar þarna algjörlega um stíl í miðjum bókaflokknum. Í sögunni Angriff der Zyklozonks segir frá því að Zorglúbb brýtur óvart tilraunaglös á tilraunastofu Sveppagreifans sem hefur skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa Sveppaborgar. Bókin er í raun aðeins fyrri hluti þessarar sögu en seinni hluti hennar (Die dunkle Seite des Z (La Face cachée du Z - 2011)) gerist að stærstum hluta á tunglinu.
Nú reiknast SVEPPAGREIFANUM svo til að alls séu því komnar í höfn 54 bækur um Sval og Val, í myndasöguhillur hans, úr upprunalegu röðinni en í heildina eru þær orðnar 55 talsins. Í safnið vantar því aðeins bókina Les faiseurs de silence sem var síðasta bók þeirra Nic og Cauvin en hún kom út árið 1984. Eitthvað á SVEPPAGREIFINN af sumum bókunum á fleiri en einu tungumáli en í heildina eru Sval og Val bækurnar hans orðnar 70 talsins. Þar af eru auðvitað allar 36 bækurnar sem komið hafa út á íslensku en reyndar er smá misræmi á milli íslensku útgáfunnar og þeirrar upprunalegu. Og inni í þessari talningu eru bækurnar úr Sérstæðum ævintýrum Svals... ekki taldar með. Þær eru alls orðnar 13 en SVEPPAGREIFINN á enn eftir að eignast 5 þeirra bóka.

Annars er mesta syndin að hafa ekki verið aðeins seinna á ferðinni en í byrjun október ku nefnilega vera von á nýrri sögu, í bókaflokknum um Sérstök ævintýri Svals... eftir hinn mikla meistara Émile Bravo. SVEPPAGREIFINN minntist einu sinni aðeins á eina söguna (Le Journal d'un ingénu) úr bókaflokknum sem hann eignaðist og bullaði einhverja þvælu um hana hér en eins og áður var vikið að eru nú komnar út 13 bækur í þessari skemmtilegu seríu. Le Journal d'un ingénu segir frá fyrstu kynnum þeirra Svals og Vals og hvernig saga þeirra fléttast meðal annars inn í upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar í september 1939. En nú er Bravo sem sagt búinn að vera að dunda sér við það í fjögur ár að teikna 327 blaðsíðna framhald af þessari sögu sem mun líklega koma út í fjórum bindum fram til ársins 2020.
Það má kannski geta þess að í 80 ára afmælisblaði SPIROU sem kom út í vor mátti lesa fyrstu 18 blaðsíðurnar úr þessari nýju myndasögu sem nefnist á frönsku Spirou ou l'espoir malgré tout. Á forsíðu eða öllu heldur kápu afmælisritsins er einmitt teikning Émile Bravo sem gefur forsmekkinn og fyrirheit um það sem koma skal.
Ansi hlakkar SVEPPAGREIFANN til að eignast þessar bækur enda Émile Bravo í miklu uppáhaldi hjá honum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!