3. ágúst 2018

70. BÍLLINN HANS VIGGÓS

SVEPPAGREIFANN hefur lengi langað til að láta verða af því að kynna sér eilítið bílskrjóðinn sem Viggó viðutan ekur um á og röfla ítarlega um hann hér á Hrakförum og heimskupörum. Það má reyndar deila um hversu fagleg sú úttekt gæti orðið en markmiðið yrði í það minnsta að týna til þær helstu upplýsingar sem hægt er að draga fram til fróðleiks og auðvitað helst að hafa líka svolítið gaman af. En fyrir þá sem ekki vita þá kom Viggó sjálfur fyrst til sögunnar í belgíska myndasögublaðinu SPIROU (númer 985) um mánaðarmótin febrúar/mars árið 1957. Það var listamaðurinn André Franquin sem átti alla tíð veg og vanda af þessum einstaka karakter og smám saman þróaðist Viggó út í að verða ein af vinsælustu myndasögupersónunum veraldar. Öll hans uppátæki voru meira eða minna þess eðlis að ekki var hægt annað en að hrífast með.
En framan á forsíðu SPIROU blaðs númer 1380, sem kom út þann 24. september árið 1964 sást þessi dásamlegi bíll (í Viggó brandara númer 321) fyrsta sinn. Þá óraði líklega fáa fyrir því hversu stóru hlutverki hinn aldurhnigni forngripur ætti eftir að gegna í framtíðinni í myndasögunum um Viggó. Í íslensku bókunum birtist þessi elsti brandari um bílinn í fyrsta skipti í Viggóbókinni Vandræði og veisluspjöll (bls. 31) sem kom út hjá Froski árið 2017. En svona leit sem sagt bíllinn út í fyrstu.
Brandarinn hefst á því að Viggó er að sýna Val bílinn sem hann var þá nýbúinn að kaupa sér og hann endar á því að einn af stimplunum í vélinni slæst alla leið út um grillið á bílnum af sveifarásnum. Viggó hafði tekið það sérstaklega fram að fyrri eigandi bílsins hafi alltaf verið að smyrja hann og augljóslega náði Viggó eitthvað að vanrækja það viðhald þennan stutta tíma sem hann var búinn að hafa bílinn undir höndum. Þarna fengu lesendur SPIROU því strax í upphafi smjörþefinn af því hvers vænta mætti af þessum hrörlega safngrip. Þá hafa glöggir unnendur Viggós eflaust tekið eftir því að í fyrsta brandaranum er bíllinn ekki með sömu felgurnar og seinna varð. Og einnig það að á bílinn vantar líka köflóttu sportrendurnar sem voru einmitt svo einkennandi fyrir gripinn. Í næsta brandara (númer 327) þar sem bíllinn kemur við sögu, þann 5. nóvember 1964, má sjá hvernig þær eru tilkomnar. Bíllinn var nefnilega ekki úrsérgenginn leigubíll heldur púslaði Viggó sportröndunum saman úr gömlum krossgátum sem hann límdi á bílinn. Í framhjáhlaupi má kannski alveg geta þess að þetta var í raun í tísku á tímabili. 
Ekki eru allir myndasögunördar sammála um það hvaða bíltegund sé að ræða. Flestir eru þó á þeirri skoðun að þarna sé um að ræða eldgamlan bílgarm, að gerðinni Fíat 509, sem framleiddir höfðu verið á árunum 1924-29. Þessi ítalska sjálfrennireið var nokkuð vinsæl og um það bil 92.514 eintök af tegundinni runnu fram af færiböndum Fíat verksmiðjunnar á þessum árum. Fíat þessi var reyndar ekkert sérlega kraftmikill, frekar en aðrir bílar á þeim tíma, en 509 týpan var með 22ja hestafla vél. En svo voru til Fíat 509 S sem var 27 hestöfl og Fíat 509 SM sem var hvorki meira né minna en heil 30 hestöfl. Í seinni tíð hefur þróunin orðið sú að þessi bifreiðartegund er eiginlega orðin þekktust fyrir það að hafa einmitt verið bíllinn hans Viggós viðutan.
Forsagan að hugmyndinni, um að nota nákvæmlega þennan bíl fyrir Viggó í myndasögunum, var sú Franquin mundi eftir því að einn af vinum hans hafði verið narraður til að kaupa slíkan bíl Fíat 509 rétt eftir stríð. Sá bíll hafði verið til stöðugra vandræða vegna tíðra bilana og í þau fáu skipti sem hann var í lagi fylgdi honum jafnan reykjarmökkur og kolsvört olíuslóðin. Hugmyndafræðilega var þetta því tilvalinn bíll fyrir þúsundfjalasmiðinn Viggó viðutan og hann átti eftir að verða uppspretta margra stórkostlegra brandara næstu árin. Í rauninni þótti mjög lúðalegt að vera á svo úreltum og gömlum fornbílum á þessum árum (á milli 1960-70) og almennt var gert grín að slíkum druslum. Þetta var auðvitað löngu áður en það komst í tísku að eiga gamla uppgerða bíla og Fíatinn var því tilvalinn fyrir hinn uppátækjasama Viggó viðutan og allt það sem hann stendur fyrir.
Reyndar höfðu fyrst komið upp hugmyndir um að Viggó æki um á franskri glæsibifreið að tegundinni Citroen DS og það hefði nú heldur betur verið SVEPPAGREIFANUM að skapi. En slíkur eðalvagn hefði engan veginn samræmst þeirri ímynd sem búið var að byggja upp um Viggó og Citroen DS hefði aldrei passað við persónuleika hans. Franquin var einstaklega laginn við að teikna bíla og var alveg sérstaklega hrifinn af þeirri gullfallegu og goðsagnakenndu bifreið. Síðar notaði hann hvert það tækifæri sem gafst til að koma Citroen DS á framfæri í sögum sínun og þó Viggó sjálfur fengi aldrei tækifæri til að aka slíkri bifreið þá birtust þær reglulega í bókunum bæði um hann og Sval og Val. Sem dæmi um það má nefna að Franquin sá til þess að Zorglúbb notaði iðulega þennan gullfallega framúrstefnubíl þegar á þurfti að halda í Sval og Val bókunum.
En það verður að viðurkennast að ímyndin með hina síbiluðu og stórhættulegu Fíat 509 bíldruslu Viggós er ákaflega vel heppnuð. Meira að segja svo mjög að bæði tegund og árgerð bílsins er orðin vel þekkt einmitt sem bíllinn hans Viggós eins og áður hefur verið vikið að. Áhugafólk um fornbíla leitast jafnvel eftir því að eignast eintak af þessum sjaldséða bíl til að geta gert hann upp í anda myndasagnanna. Til eru fjölmörg eintök af velheppnuðum uppgerðum bílsins og það þarf ekki nema að gúggla tegundina til fjölmargar myndir af bíl Viggós poppi upp.
Á næstu mánuðum og árum birtist bíllinn síðan reglulega í bröndurunum um Viggó í SPIROU blaðinu og varð eitt af helstu einkennum þessara vinsælu myndasagna. Í myndasögunum var bíllinn ætíð sýndur sem ákaflega hæggengt og óhentugt farartæki sem sífellt var til vandræða. André Franquin var einhvern tímann spurður að því hvort hann hefði ekki ýkt galla bílsins og gert hann öllu verri en nauðsynlegt var. En Franquin sagði svo ekki hafa verið. Dupuis útgáfan hefði í raun og veru orðið sér úti um eintak af eldgömlum Fíat 509, í Marcinelle í Belgíu, þar sem hann hafði gegnt hlutverki hænsnakofa. Fíatinn var gerður nothæfur og hafður sýnilegur við ýmsa viðburði útgáfufyrirtækisins en hin 40 kílómetra hámarkshraðageta bílsins, auk ýmissa annara dyntóttra eiginleika hans, gerði lítið annað en að kynda undir hið frjóa hugmyndaflug Franquins. Þeir sem helst höfðu haft umsjón með bílnum á vegum Dupuis útgáfunnar fengu algjörlega yfirdrifið nóg af honum.
Sá guli varð því með tímanum nokkurs konar fórnarlamb uppfinningaþarfar Viggós og þróaðist jafnvel út í það að verða hálfgert tilraunadýr hans fyrir misjafnlega umhverfisvæna orkugjafa. Einu sinni breytti hann til dæmis bílnum og setti í hann nýtt brennslukerfi, sem hann fann upp, með rafmagnsforhitun fyrir gas. Einhverjir hnökrar voru þó á útreikningum Viggós og bíllinn skaut gneistum, með viðeigandi afleiðingum, í bókstaflegri merkingu. Öðru sinni smíðaði hann kolavél í bílinn (sem afi hans hafði teiknað upp á stríðsárunum) sem hann nefndi Gasógen en sú útfærsla sprakk reyndar í loft upp. Og eftir að hafa endurskoðað hugmyndina varð Gasógen bensínvélin að veruleika. Af öðrum uppfinningum Viggós tengdum bílnum má nefna að í eitt sinn breytti hann Fíatnum í kennslubifreið, með tveimur stýrum, fyrir ungfrú Jóku og svo má SVEPPAGREIFINN til með að minnast á hinn kostulega snjóplóg sem hann setti framan á bílgarminn og átti að bræða snjóinn jafnóðum og Fíatinn þyti í gegnum skaflana.
Og svo má alls ekki gleyma eiturgassíunni sem Viggó fann upp til að tengja aftan við útblástursrör Fíatsins en sú umhverfisvæna og byltingarkennda uppgötvun kom í veg fyrir að nokkur reykur bærist ... aftan úr bílnum.
Þetta eru bara brot af uppfinningum Viggós sem tengjast tilraunum hans með bílinn. En af öðru efni má nefna að í einum brandaranum var Fíatinn hreiðurstaður fyrir svölufjölskyldu, ekkert ósvipað því hlutverki sem bíldrusla Dupuis útgáfufyrirtækisins hafði áður haft fyrir annars konar fiðurfénað. Á öðrum stað hefur mávurinn hans Viggós fengið að vera húddskraut eða vatnskassastytta framan á bílnum og í einum brandara vildi Njörður lögregluþjónn að aflífa vélina til að losa hana undan kvölum sínum. Fíatinn er nokkuð oft bilaður hjá Viggó. Flautan og bensíngjöfin hafa fests, gírstöngin hefur brotnað af, svisslykillinn hefur brotnað í neyðartilfellum þegar drepa hefur þurft á bílnum við hættulegar aðstæður, bílbelti hefur flækst í drifskaftið og það er svolítið áhyggjuefni fyrir Viggó hversu oft bremsurnar á bílnum eru í ólagi. Fíatinn hefur bæði hafnað uppi í tré og sinnt hlutverki hlaupahjóls og svo hefur bíllinn meðal annars fengið þau verkefni að flytja átöppunarvél, trommusett, olíutunnu, jólatré, Viggófóninn og útilegubúnað.
En þar fyrir utan var bíllinn einnig mjög sýnilegur í myndasögunum þótt hann væri ekki endilega miðpunktur þess sem brandarinn gekk út á. Viggó þurfti auðvitað að komast á milli áfangastaða og stundum fengu ungfrú Jóka eða aðrir samstarfsmenn hans að fljóta með. Vegna slæmrar reynslu sumra vinnufélaga hans af bílnum var það þó oftar en ekki af illri nauðsyn eða jafnvel þvert á vilja þeirra sem þeir þurftu að fá að sitja í. Franquin gekk þá alltaf úr skugga um að allir helstu gallar farartækisins væru sýnilegir (reykur, óhljóð osfrv.) og oft fengu lítil smáatriði eða athugasemdir farþeganna um bílinn að fljóta með. Það gilti þó aldrei um ungfrú Jóku. Hún sá alltaf jákvæðu hlutina í öllu og varð aldrei fyrir þeim áföllum sem þessi slysagildra gat boðið upp á á sama hátt og Valur eða Eyjólfur.
En í lokin er gaman að geta þess að árið 1977 ákvað rekstrar- og markaðsdeild hinna ítölsku Fíat verksmiðja að gera bílskrjóði Viggós hátt undir höfði og gáfu út einhvers konar auglýsingarit honum til heiðurs, La Fantastica Fiat 509 di Gaston Lagaffe, í takmörkuðu upplagi. Í bókinni, sem var 56 blaðsíður að lengd, gat að líta ýmsan fróðleik um þessa merkilegu bíltegund en auk þess var hún með samansafn af bestu bílabröndurum Franquins um Viggó. Vegna hins takmarkaða upplags er bókin í dag eftirsótt af Viggófræðingum og öðrum myndasögunördum. Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast þessa ítölsku bók á ebay og öðrum sambærilegum uppboðsvefum fyrir 200 - 300 evrur.

2 ummæli:

  1. Takk, Rúnar. Held að mér finnist alltaf skemmtilegast að skrifa um Viggó viðutan og svona greinar væru líklega þær sem mér sjálfum finndist áhugaverðast að lesa :D
    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!