7. september 2018

75. HINRIK OG HAGBARÐUR

Þann 11. september (kunnugleg dagsetning) árið 1952 hóf göngu sína nýr myndasöguflokkur í belgíska tímaritinu SPIROU sem nefndist einfaldlega Johan. 30 árum seinna birtust þessar sögur í fyrsta sinn á Íslandi þegar bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér sína fyrstu bók um Hinrik og Hagbarð á íslensku. Þessi saga nefndist Svarta örin eða La Flèche noire á frummálinu en hún var langt frá því að vera fyrsta sagan í upprunalegu seríunni. Þetta var saga númer 12 í bókaflokknum og þegar þarna var komið sögu (árið 1982) voru þá þegar komnar út 22 bækur í þessari vinsælu seríu. Seinna bættust við fjórar sögur en sú síðasta kom út árið 2001.
En líklega er best að byrja á byrjuninni. Þótt áðurnefndur 11. september 1952 sé almennt talinn opinber fæðingardagur seríunnar um þá Hinrik og Hagbarð þá má rekja uppruna hennar nokkur ár fram fyrir þá dagsetningu. Því þann 11. apríl árið 1946 birtist nefnilega í fyrsta sinn í belgíska dagblaðinu La Dernière Heure, sem gefið var út í Brussel, stuttur myndasögubrandari um skjaldsveininn Johan (Hinrik) og ævintýri hans. Þessi myndasaga var mjög einföld og frumstæð að allri gerð, aðeins fjórar myndir án lita og án orða.
Það var belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, eða Peyo eins og hann var ætíð kallaður, sem átti veg og vanda að ævintýrum þessa ljóshærða unglingspilts. Myndasögurnar um Johan birtist öðru hverju næstu mánuðina í La Dernière Heure með hléum ásamt öðrum tilraunaverkefnum listamannsins. Peyo, sem hafði stundað listanám í stuttan tíma í Brussel, fékk einnig eitthvað af verkefnum tengdum auglýsingateikningum en hugur hans stóð þó ávallt til myndasögugerðar. Hann hélt áfram að móta sinn stíl og þróa ýmsar hugmyndir af sköpunarverkum sínum. Fæstar af þeim hugmyndum urðu þó að einhverju bitastæðu. Árið 1949 fór áðurnefnd myndasaga um Johan einnig að birtast í dagblaðinu Le Soir og við það fóru þær að þróast úr stuttum bröndurum og yfir í alvöru samfelldar framhaldssögur. Ýmsar persónur, sem seinna urðu hluti af þessari seríu, fóru að birtast í sögunum og sem dæmi um það má nefna að tiltölulega snemma kom Konungurinn í kastalanum við sögu. Peyo gekk þó illa að að koma sér almennilega á framfæri. Hvar sem hann reyndi fyrir sér fékk hann ávallt höfnun og fæstum þótti teikningar hans nægilega vandaðar eða þroskaðar til birtingar. Sjálfur var Peyo einnig með lítið sjálfstraust á þessum tíma og fannst hann aldrei vera nógu fær listamaður. Þó hélt hann áfram að reyna að koma sér á framfæri enda átti hann einlæga drauma um að geta lifað á þessu skemmtilega áhugamáli sínu.
Árið 1951 hitti hann gamlan vin og samstarfsfélaga, André Franquin, en þeir höfðu starfað saman við teiknimyndagerð hjá kvikmyndaveri CBA mörgum árum áður. Peyo bar sig illa og Franquin, sem fann til með þessum gamla félaga sínum, sá aumur á honum og útvegaði honum verkefni hjá myndasögutímaritinu SPIROU. Þar var Franquin sjálfur búinn að koma sér vel fyrir með velheppnaðar uppfærslu á myndasögunum um Sval og Val og vinsældir þeirrar seríu risu hratt á næstu árum. Þær kröfur sem útgefandi SPIROU, Dupuis, gerði um listamenn sína voru hins vegar enn of miklar fyrir Peyo. Franquin var Peyo því innan handar með leiðsögn varðandi tæknilega vinnu hans og með tímanun öðlaðist hann næga færni við verk sín þannig að þau teldust birtingarhæf. Franquin hjálpaði honum með ýmislegt varðandi myndasögurnar um Johan (Hinrik) og ráðlagði honum til dæmis að breyta háralit hans í svartan en hjá SPIROU birtust allar myndasögur í lit. Hjá dagblaðinu Le Soir hafði Peyo birt heila sögu um Johan sem nefndisLe Châtiment de Basenhau og fyrsta verkefni hans hjá SPIROU fólst einmitt í því að endurteikna þessa fyrstu sögu með faglegum leiðréttingum.
Nýja útgáfan af sögunni Le Châtiment de Basenhau hóf því göngu sína í SPIROU blaði númer 752 sem gefið var út þann 11. september 1952 eins og nefnt var í byrjun. Einhverjar breytingar hafði Peyo þó orðið að gera á upphaflegu sögunni utan þeirra faglegu atriða sem áður var getið. Í henni voru meðal annars atriði sem þóttu of ofbeldisfull og samræmdust ekki þeim kröfum sem gerðar voru til tímarits sem ætlað var börnum. En eftir að ofbeldið hafði verið fjarlægt samþykkti Dupuis að sagan fengist birt.
Næsta saga Le Maître de Roucybeuf hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 804 sem kom út þann 10. september 1953. Í þessari sögu breytist Johan úr skjaldsveini í riddara og í henni kemur einnig fyrir nornin Rakel (sem íslenskir lesendur ættu að muna eftir úr bókinni Stríðið um lindirnar sjö) í fyrsta sinn. Með hverri vikunni mátti greina aukin þroskamerki í teiknistíl Peyo og öll vinna hans við teikningarnar varð smám saman miklu vandaðri og faglegri. Sú vinna skilaði þeim árangri að fyrstu tvær sögurnar fengust gefnar út í bókaformi árið 1954. Þann 8. júlí 1954 hófst síðan þriðja saganLe Lutin du Bois aux Roches, í SPIROU blaði númer 847 en í þeirri sögu urðu aðal þáttaskilin í seríunni þegar villti skógardvergurinn Pirlouit (Hagbarður) kom til sögunnar. Hagbarður flutti úr skóginum ásamt geitinni sinni og yfir í kastalann til Hinriks en upp úr því urðu þeir báðir í aðalhlutverkinu. Frá og með þeirri sögu breyttist því nafnið á seríunni úr Johan í Johan og Pirlouit eða í Hinrik og Hagbarð eins og við þekkjum hana á íslensku.
Á þessum tíma var Peyo búinn að þróa stíl sinn á þann hátt að sögurnur runnu út á færibandi hjá tímaritinu SPIROU. Hinrik og Hagbarður slógu í gegn, sögurnar urðu gríðarlega vinsælar og þær voru jafnharðan gefnar út í bókaformi. Peyo gerðist afkastamikill með eindæmum en frá árunum 1952 til 1961 sendi hann frá sér 19 sögur um þá félaga. La Pierre de lune, Le Serment des Vikings (Með víkingum - Iðunn 1984) og Le Dragon vert komu allar út árið 1955. Enguerran le preux, Sortilèges au château, A l'auberge du pendu, La Source des dieux (Goðalindin - Iðunn 1982) og Veillée de Noël komu allar út árið 1956 en reyndar verður að taka það fram að eitthvað af þessum sögum eru styttri en gengur og gerist. Árið 1957 komu út sögurnar La Flèche noire (Svarta örin - Iðunn 1982), Les Mille écus, Le Sire de Montrésor og Les Anges en árið 1958 kom aðeins út ein saga með Hinrik og Hagbarði en sú var reyndar svolítið merkileg. Sagan hét La Flûte à six trous og í henni voru sjálfir Strumparnir kynntir til sögunnar. Þeir voru þó aðeins aukapersónur í sögunum um Hinrik og Hagbarð og birtust nokkrum sinnum þar en árið 1959 fengu þeir sína eigin seríu í SPIROU og slógu þá virkilega í gegn. Um Strumpana sögu hefur SVEPPAGREIFINN eitthvað aðeins röflað og lesa má um hér.
Afköst Peyo á þessum árum voru gríðarleg því að um svipað leyti hóf að birtast enn ein ný sería í SPIROU eftir listamanninn. Þar var á ferðinni myndasaga um Steina sterka (Benoît Brisefer) og það var ekki hjá því komið að sögunum um þá Hinrik og Hagbarð færi fækkandi. Sagan La Guerre des sept fontaines (Stríðið um lindirnar sjö - Iðunn 1983) hóf göngu sína árið í blaðinu í 1959, L’Anneau des Castellac birtist 1960 og Le Pays maudit (Landið týnda - Iðunn 1983) árið 1961. Peyo viðurkenndi að hann hefði orðið fullmikið á sinni könnu og birting á sögunum um Hinrik og Hagbarð voru að miklu leyti lagðar til hliðar á næstu árum enda beindust nú allar áherslur listamannsins að vinsældum Strumpanna. Smásagan Qu’est ce qu’il dit mais qu’est ce qu’il dit? birtist þó í páskablaði SPIROU árið 1964 en síðasta sagan sem Peyo gerði um þá félaga Hinrik og Hagbarð, Le Sortilège de Maltrochu, hóf göngu sína í jólablaðinu árið 1967. Þeirri sögu lauk síðan í febrúar 1970 og kom út í bókaformi seinna sama ár.
Peyo lést árið 1992 en ný saga um þá Hinrik og Hagbarð kom út árið 1994. Hún nefndist La Horde du corbeau og var eftir þá Alain Maury og Yvan Delporte en það var sonur Peyo, Thierry Culliford, sem hafði frumkvæði að því að fá þá félaga til að endurlífga seríuna. Þess má geta að sagan La Horde du corbeau birtist í nokkrum hlutum í Myndasögublaðinu Zeta á árunum 2000-2001. Sagan Les Troubadours de Roc-à-Pic kom út árið 1995, La Nuit des sorciers árið 1998 og La Rose des sables árið 2001. Allar þessar myndasögur voru eftir áðurnefnda höfunda nema sú síðasta þar sem Luc Parthoens sá um handritsgerð. Endurkoma þeirra Hinriks og Hagbarðs þótti reyndar nokkuð misheppnuð og innihald nýju sagnanna frekar þunnt. Þannig að ekki þótti tilefni til að halda útgáfu seríunnar áfram og síðan árið 2001 hafa því ekki komið út fleiri sögur úr bókaflokknum um þá Hinrik og Hagbarð.
En þegar Hinrik og Hagbarður komu til Íslands árið 1982 voru bókaútgáfurnar Iðunn og Setberg þegar byrjaðar að gefa út þekktustu seríur Peyo. Lesendur hér á landi þekktu því bæði Strumpana og Steina sterka en margir þeirra áttuðu sig strax á því að stíllinn á hinum nýju Hinrik og Hagbarðs sögum væri kunnuglegur og eitthvað tengdur fyrrnefndu bókunum. Fyrsta bókin var Svarta örin (La Flèche noire) og það var Bjarni Fr. Karlsson sem þýddi en hann þýddi reyndar allar bækurnar sem komu út á Íslandi í bókaflokknum. Svarta örin kemur úr miðri upprunalegu seríunni, eins og svo oft var með teiknimyndasögur sem út komu á Íslandi á þessum árum, og þannig var í raun með allar fimm bækurnar úr íslenska Hinrik og Hagbarðs bókaflokknum. Síðasta bókin í íslensku útgáfunni, Með Víkingum, er til dæmis sú elsta. En annars voru það þessar fimm sögur sem út komu hér á landi:
  1. Svarta örin - 1982 (La Flèche noire - 1957)
  2. Goðalindin - 1982 (La Source des dieux - 1956)
  3. Stríðið um lindirnar  sjö - 1983 (La Guerre des sept fontaines - 1959)
  4. Landið týnda - 1983  (Le Pays maudit - 1961)
  5. Með víkingum - 1984 (Le Serment des Vikings - 1955)
Bækurnar um Hinrik og Hagbarð eru í töluverðu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og eru í raun þær teiknimyndasögur, sem út komu á íslensku, sem honum fannst einna skemmtilegast að lesa sem krakki. Hinar sögurnar eftir Peyo fannst honum ekki jafn áhugaverðar og alveg sérstaklega var SVEPPAGREIFANUM í nöp við bækurnar um Strumpana. Peyo sjálfur hafði reyndar svipaða sögu að segja. Einhvern tímann lét hann alla vega hafa það eftir sér að Hinrik og Hagbarður hefðu verið hans helsta stolt en vinsældir Strumpanna hefðu hins vegar stýrt forgangsröðinni enda sögurnar margfalt mikilvægari tekjulind.

Ókei bæ ...

2 ummæli:

Út með sprokið!