21. september 2018

77. BRÚÐKAUP VIGGÓS OG JÓKU?

Færsla dagsins er í styttri kantinum en hún er tileinkuð skötuhjúunum Viggó viðutan og ungfrú Jóku og segir frá meintu brúðkaupi þeirra. Fyrir fáeinum vikum birtist einmitt efni hér á Hrakförum og heimskupörum sem benti til töluvert dýpri kynna turtildúfanna en áður höfðu komið fram. Þar var fjallað um afar náin atlot þeirra en líklega verður að ætla að undir öllum eðlilegum kringumstæðum þá séu athafnir og tilfinningar teiknimyndapersónanna ekkert öðruvísi en hjá öðru fólki. Reyndar kom það aldrei nokkurn tímann fram að til stæði brúðkaup hjá þeim Viggó og Jóku en hér fyrir neðan má sjá hvernig listamaðurinn Jean-Marc Krings hefði getað séð slíka hugmynd verða að veruleika
Þarna má þekkja nokkra af helstu póstum sagnanna um Viggó viðutan og Sval og Val og í raun samansafn þekktra persóna úr smiðju André Franquin. Þar fara auðvitað Viggó og Jóka (hún er bókstaflega ölvuð af hamingju) fremst í flokki en af öðrum gestum má nefna þeirra helsta samstarfsfólk og aðra tengda. Ef talið er frá vinstri uppi á tröppunum má þar sjá þau Sigrúnu, Snjólf í teiknideildinni, herra Seðlan, Eyjólf, Gvend í bókhaldinu, rauðhærða gaurinn á skrifstofunni (sem bæði hefur verið kallaður Berti og Guðni), Val og Sval. Augljóslega er þetta ekki hamingjudagur hjá öllum viðstöddum því þeir Eyjólfur og herra Seðlan eru greinilega í vinnunni og því væntanlega uppteknir af hefðbundnum samningaviðræðum sem eins og svo oft áður virðast farnar um þúfur. Og herra Gvendur er eflaust að velta fyrir sér kostnaði brúðkaupsins. Ætli útgáfufyrirtækið borgi ekki herlegheitin? Neðst í tröppunum á bak við stöpulinn má sjá litla frænda Viggós, sem hlaut reyndar aldrei nafn í þeim bröndurum sem komu út með honum í íslensku útgáfunni, en hann nefndist Gastoon í hliðarbókaflokki sem gefinn var út í Belgíu. Sú "sería" taldi reyndar ekki nema tvær bækur en um hana og fleiri sambærilega bókaflokka má lesa um hér. Uppi á svölunum hægra megin á myndinni má sjá liðsmenn steinaldarhljómsveitarinnar frumstæðu Good vibrations (eða Þrumugosar) sem Viggó stofnaði en reikna má með að bandið hafi tekið lagið í brúðkaupsveislunni.
Bandið skipuðu, auk Viggós, hinn þunglyndi Berti blindi (sem heitir fullu nafni Albert Engilberts), Júlli í Skarnabæ og enskur vinur þeirra sem þó er ekki nefndur á nafn. Á svölunum á meðal hljómsveitarmeðlimanna má líka sjá Palla af skrifstofunni. En á myndinni eru auk þess viðstaddir nokkrir fulltrúar úr dýraríki Franquins. Aparnir hans Nóa, úr samnefndri sögu um Sval og Val, eru þar fremstir í flokki en bæði kötturinn hans Viggós og mávurinn eru auðvitað viðstaddir auk þess sem Gormur og Pési láta sig ekki vanta. Og svo má auðvitað alls ekki gleyma sjálfum André Franquin sem hefur komið sér makindalega fyrir í einskonar heiðurssæti myndarinnar í Túrbot bíl þeirra Svals og Val. En í kringlótta glugganum ofarlega á myndinni gægist út torkennileg vera. Þarna er um að ræða einhvers konar tegund af skrímsli sem Franquin hafði stundum ríka þörf fyrir að skapa og tengdist þunglyndi hans. Á fyrstu árum Viggós sáust stundum myndir á veggjum skrifstofu tímaritsins Svals þar sem ýmsar persónur úr heimi belgísku myndasagnanna fengu lítil hlutverk. Þar mátti sjá plaggöt með myndum af Strumpunum, Ástríki, Boule og Bill, Steina sterka og fleirum en í seinni verkum hans, þegar þunglyndið ágerðist, breyttust þessi plaggöt meira í myndir þar sem einhvers konar skrímsli af öllum stærðum og gerðum sáust.

En látum þessa hroðvirknislegu færslu duga í dag ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!