2. nóvember 2018

83. GRÆNJAXLINN BALDUR BADMINGTON

SVEPPAGREIFINN hefur í gegnum tíðina verið nokkuð hrifinn af myndasögunum um Lukku Láka en það tók hann þó reyndar svolítinn tíma að uppgötva bækurnar almennilega. Það var líklega ekki fyrr en um jólin 1979 sem hann eignaðist sína fyrstu Lukku Láka bók. Fyrstu sögurnar í seríunni höfðu ekki komið út á íslensku fyrr en árið 1977 en um jólin 1979 voru þegar komnar út hátt í 20 bækur. Ástæðuna fyrir því hversu langan tíma það tók fyrir SVEPPAGREIFANN að uppgötva bækurnar má að líkindum rekja til þess að sögurnar um Tinna og Sval og Val gengu fyrir hjá honum á þessum árum og þær bækur fengu því alla athyglina. Á þessum árum eignaðist hann myndasögur aðallega í gegnum jóla- og afmælisgjafir en auk þess hafði hann stundum getað nurlað saman einhverjum aurum og keypt bækur sjálfur. Og þá þurfti að vanda valið. En smám saman fóru aðrar teiknimyndasögur en Tinni og Svalur og Valur að grípa hugann og Lukku Láka bækurnar fóru einnig að safnast saman í bókahillum heimilisins líkt og flestar aðrar myndasögur sem voru að koma út á þessum árum. SVEPPAGREIFINN er reyndar ekki með það alveg á hreinu hvaða Lukku Láka bók hann eignaðist fyrst en þó minnist hann þess að Allt í sóma í Oklahóma, Arísóna og Gullnáman og Rex og pex í Mexíkó hafi allar komið nokkuð snemma inn á borð.
Auðvitað eru Lukku Láka bækurnar ólíkar að gæðum og óhætt er að segja að þær séu eins misjafnar og þær eru margar. Elstu sögurnar eru til dæmis varla alveg marktækar þar sem belgíski listamaðurinn Morris (Maurice de Bévère), sem var einnig handritshöfundur að fyrstu sögunum, tók sér svolítinn tíma til að móta aðalsögupersónuna og um leið að þróa stíl sinn. Morris var mikill áhugamaður um amerískar vestramyndir og í tengslum við þann áhuga skapaði hann kúrekann knáa, sem klæddist fötum í belgísku fánalitunum, árið 1946.  Hann flutti svo til Bandaríkjanna (ásamt m.a. Jijé og Franquin) til frekara listnáms og starfaði til að mynda við myndasögugerð hjá MAD tímaritinu en þar öðlaðist hann aukna reynslu og þróaði stíl sinn enn frekar. Morris bjó í nokkur ár í Bandaríkjunum, setti sig vel inn í sögu hins villta vesturs og notfærði sér það óspart við Lukku Láka sögurnar þegar fram liðu stundir. Árið 1957 kom hinn fransk/argentínski René Goscinny síðan til sögunnar og hóf að vinna að handritsgerð sagnanna en fljótlega eftir það hófust sögurnar á feykilegt flug sem stóð yfir allt þar til Goscinny lést árið 1977. 
Margar Lukku Láka bókanna eru hreint frábærar og skemmtanagildi þeirra á við það besta sem gerist í teiknimyndasögum. Fjölbreytilegur skammtur af aukapersónum gera mikið fyrir seríuna og þar eru þeir Léttfeti og Rattati í stórum hlutverkum en Daltón bræður krydda bókaflokkinn einnig hæfilega með afreksverkum sínum. Það er svo sem ekkert auðvelt að taka út stakar bækur til að velja sem sínar uppáhalds en að mati SVEPPAGREIFANS er hápunktur seríunnar um miðbik hennar eða frá fyrri hluta 7. áratugarins og fram undir lok þess 8. - sem er reyndar alveg dágóður tími og mikill fjöldi bóka. Ein þessara bóka heitir Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1968) en hún kom út hjá Fjölva útgáfunni á íslensku árið 1980 í þýðingu Þorsteins Thorarensen og er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Eftir að hafa rýnt eilítið í sögu Lukku Láka bókanna kemur í ljós að almennt eru bækurnar Grænjaxlinn og Póstvagninn (La Diligence - 1967), sem hefur reyndar ekki enn komið út í íslenskri þýðingu, taldar vera á meðal bestu bóka þeirra Morris og Goscinny og þá um leið auðvitað þær bestu í seríunni allri.
Lukku Láka sagan Le Pied-tendre hóf göngu sína í SPIROU blaði númer 1537 sem kom út þann 28. september árið 1967 og var gefin út í bókarformi árið 1968. Sagan segir í grófum dráttum frá breska aðalsmanninum Baldri Badmington sem erfir búgarð einn í villta vestrinu. Baldur ráðgerir að setjast þar að, ásamt einkaþjóni sínum, en nágranni hans Gúmi Gikkur (frábært nafn) ásælist líka jörðina. Gúmi beitir öllum brögðum til að fæla Baldur burt af landareigninni en það er Lukku Láki sem fær það hlutverk að aðstoða hinn enska hefðarmann og verja hann gegn áformum Gúma Gikks. Sagan er innblásin af gamalli bíómynd (Ruggles of Red Gap) frá árinu 1935 en hún fjallar um breskan einkaþjón og dvöl hans í villta westrinu. Mjög spennandi allt saman - eða þannig.
SVEPPAGREIFANUM er ekki almennilega ljóst hvers vegna einmitt þessi bók er í svo miklu uppáhaldi hjá honum. Ætli það sé ekki hinn hábreski Baldur Badmington og einkaþjónninn hans Jósep sem gera þessa frábæru sögu svona skemmtilega. Þeir minna jafnvel eilítið á tvíeykið Jeeves og Wooster sem margir muna eftir úr samnefndum, breskum sjónvarpsþáttum frá því snemma á 10. áratugnum. Í það minnsta eru hinir bresku Baldur og Jósep í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM og þeir eru líka, í hugum margra, í hópi eftirminnilegra sögupersóna Lukku Láka bókanna. Og svo er sagan einfaldlega frábærlega vel teiknuð og ákveðinn blær yfir henni þar sem Morris notar alla lita- og skugga effektana sína á fullkominn hátt. Árið 1965 hafði Goscinny gert handritið að Ástríks bókinni Astérix chez les Bretons (Ástríkur í Bretalandi, Fjölvi - 1974) sem félagi hans hinn franski Albert Uderzo hafði teiknað en þar hafði hann einnig gert svolítið grín að Bretum og breskum hefðum. Margir muna örugglega eftir volga bjórnum, tepásunni og Lundúnaþokunni úr bókinni. Í Grænjaxlinum var sögusviðið hins vegar svolítið nær nútímanum og í þeirri bók koma reyndar líka aðeins við sögu te og bjór en Goscinny fékk þar einnig frábært tækifæri til að gera góðlátlegt grín að breska aðlinum. Uderzo stóð alltaf í þeirri meiningu að Morris hefði haft sig sem fyrirmynd að aðalsmanninum Baldri en Belginn þvertók fyrir það og þóttist aldrei hafa kannast við það. 
Baldur Badmington er hinn holdi klæddur hefðarmaður sem heldur rósemi sinni og háttvísi sama hvað á gengur. Hann leynir töluvert á sér og er engan veginn sá grænjaxl sem skálkar bæjarins (Þurrkverkarbæjar) telja sig vera að taka í gegn. Hinn ódannaði óaldaflokkur Gúma Gikks gerir hvað hann getur til að koma honum úr jafnvægi, með ýmsum tegundum "busavígsla", til að fæla hann aftur heim til Evrópu en Baldur lætur sér fátt um finnast. Hann er öllu vanur úr Oxford háskóla og þegar líður á söguna kemur einnig í ljós að Baldur er ekki aðeins afbragðs skytta heldur líka vel liðtækur í slagsmálum. Hann hafði nefnilega alveg gleymt að taka það fram að hann væri bæði Heimsveldismeistari í veltivigt og skotfimi með skammbyssu. Undir lok sögunnar kemur svo enn í ljós hversu eitilharður hann er því hann sýnir ekki minnstu viðbrögð þegar Gúmi Gikkur hæfir hann með byssukúlu í handlegginn í einvígi.
SVEPPAGREIFINN stóð alltaf í þeirri meiningu að ættarnafn Baldurs, Badmington, væri hluti af heimfærðri þýðingu Þorsteins heitins Thorarensen og væri því rammíslenskur brandari. Þorsteinn fór oft skemmtilega frjálslega með þýðingar sínar á bókunum og Badmington nafnið væri því eins konar útfærsla hans á hefðbundnu bresku aðalsættarnafni. Kensington, Hamilton eða jafnvel Wellington gætu verið ættarnöfn hjá dæmigerðum mönnum af aðalstign en Badmington væri hins vegar íslenska grínútfærslan að því. En svo er þó alls ekki. Í upprunalegu frönsku útgáfunni af Grænjaxlinum heitir hann einfaldlega Badmington (Waldo reyndar) og Þorsteinn er því alsaklaus af ranglega dæmdum hugmyndum SVEPPAGREIFANS.
Hinn trygglyndi einkaþjónn hans, Jósep, er dæmigerður breskur butler. Í upprunalegu frönsku útgáfunni heitir hann Jasper en Þorsteinn ákvað að skíra hann Jósep. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá virðist nafngift hans vera tileinkuð hinum eina sanna Jósepi (Nestor) á Myllusetri úr Tinna bókunum sem Þorsteinn þýddi einnig. Og fyrir vikið stóð SVEPPAGREIFINN lengi í þeirri trú að meira eða minna allir yfirþjónar ættu að heita Jósep. En Jósep, þ.e.a.s. einkaþjónn Baldurs, var áður ráðsmaður í þjónustu 18. hertogans af Limchester og miðað við lýsingar hans á líferni hertogans þá er hann augljóslega öllu vanur. Það kemur sér reyndar vel við störf hans fyrir Baldur Badmington í villta vestrinu því ýmislegt gengur á í sögunni. Hinn háttvísi og ofur kurteisi Jósep lætur sér fátt um finnast en einu sinni í sögunni er honum þó svo illa misboðið að hann hótar að segja sig úr vistinni. Það er þegar að einn af misindismönnum Gúma Gikks hrækir á gólfið á heimili Baldurs og Lukku Láki þarf að hafa sig allan við til að sannfæra hann um að yfirgefa þá ekki á neyðarstundu.
Þegar allt er um garð gengið í lok sögunnar ákveður Jósep hins vegar að yfirgefa húsbónda sinn og freista gæfunnar hinum megin við fjöllin þar sem finna megi gull eins og sand. Og í beinu framhaldi af því má einnig minnast á það að Baldur Badmington kemur fyrir í annarri Lukku Láka bók sem nefnist Le Klondike og var gefin út árið 1996 en sú bók hefur ekki enn komið út í íslenskri þýðingu. Í þeirri sögu hittast þeir Láki aftur eftir að fréttir berast af því að Jósep hafi horfið sporlaust og þeir félagar halda á gullgrafaraslóðir í Klondike í Kanada til að leita að honum. Þess má geta að höfundurinn Yann kom að handritsgerð sögunnar en hann er kunnur fyrir hlut sinn að bókunum um Gastoon (Litla Viggó) og Gormana.
Og alveg í lokin er alveg tilvalið að kíkja á eina villu eða mistök sem Morris gerði í bókinni um Grænjaxlinn. Á blaðsíðu 42, þegar Lukku Láki hefur bjargað Baldri Badmington frá hengingu, má sjá á fyrstu tveimur myndunum í myndaröðinni hvar aðalsmaðurinn tekur af sér vinstri hanskann og slær Gúma Gikk utan undir með honum. Á þriðju myndinni í röðinni má hins vegar sjá hvar hann er að enda við að setja á sig hægri hanskann!
Góðar stundir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!