16. nóvember 2018

85. IT'S A LONG WAY TO TIPPERARY

Í dag er hinn alþjóðlegi letidagur myndasögubloggara og færsla dagsins, sem er alveg einstaklega innihaldslítil, litast svolítið af því. En SVEPPAGREIFINN hefur alltaf haft svolítið gaman af bókunum um Fótboltafélagið Fal sem Örn og Örlygur sendi frá sér fyrir tæplega 40 árum síðan og hefur aðeins minnst áður á þessar sögur hér á Hrakförum og heimskupörum. SVEPPAGREIFINN hefur líka nefnt það að þó teikningarnar séu ekki í hæsta (og líklega ekki heldur í næsthæsta) gæðaflokki þá hafi hann samt talsverðan húmor fyrir þessum teiknimyndasögum. Alls komu reyndar ekki út nema þrjár af þessum bókum í íslenskri þýðingu en það var kornungur Ólafur Garðarsson (seinna lögmaður og fótboltaumboðsmaður) sem sá um að snara þessum dýrmæta hollenska menningararfi yfir á okkar ástkæra ylhýra. Um þessar teiknimyndasögur skrifaði SVEPPAGREIFINN fyrir löngu síðan og má lesa meira hér.
Að þessu sinni ætlar SVEPPAGREIFINN nefnilega að kíkja eilítið á eina mynd, úr bókinni um Fal í Argentínu, sem hann er búinn að muna eftir frá því hann sá hana fyrst líklega 11 ára gamall. Á mynd þessari, sem er efst á blaðsíðu 36, má sjá hvar skoska landsliðið í knattspyrnu stormar út af vellinum, haugfullir, kyrjandi gamlan breskan slagara frá því snemma á 20. öldinni. Leikmenn Fals vita hins vegar ekkert hvaðan af þeim stendur veðrið og fylgjast í forundran með Skotunum yfirgefa leikvanginn. Forsaga atviksins úr bókinni er sú að Fótboltafélagið Falur var sent á Heimsmeistaramótið í Argentínu þegar hollenska liðið forfallaðist eftir slæmt flugslys (hvernig eru annars góð flugslys!?) í aðdraganda mótsins. Falur var búið að spila við Pólland, Íran og Perú þegar kom að leiknum við Skotana en eftir um 20 mínútna leik gengu skosku leikmennirnir af velli enda allir meira eða minna gjörsamlega á eyrunum.
Í liði Skotanna voru nokkrir valinkunnir leikmenn og meðal þeirra má nefna þá Jón á röltinu, Finna Ballantine og Harry Haig en þjálfari liðsins var Alli Vat 69. SVEPPAGREIFINN viðurkennir fúslega að hafa ekki verið nógu greindur til að skilja út á hvað brandarinn um nafn þjálfarans gekk en eftir einfalda gúgglun komst hann að því að auðvitað var þetta ein viský tegundin í viðbót. Og til að toppa allt heitir læknir liðsins Krókur (dr. Hook). Lagið sem skoska liðið syngur heitir It's a Long Way to Tipperary og var einhvers konar hvatningarsöngur breskra hermanna þegar þeir lögðu af stað til vígstöðvanna í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Reyndar er lagið írskt og líklega kannast flestir við að hafa einhvern tímann heyrt þennan þekkta söng. Hér má til dæmis heyra þekkta útgáfu af It's a Long Way to Tipperary, með teiknimyndafígúrunni Charlie Brown, frá árinu 1966.
En það sem hinn 11 ára gamli SVEPPAGREIFI hnaut um á sínum tíma var þessi dásamlega neðanmálssetning, sem Ólafur þýðandi skyldi eftir til útskýringar, neðst vinstra megin á myndinni.
Þetta fannst SVEPPAGREIFANUM ægilega fyndið árið 1980 og kúkogpiss brandarar bernskunnar voru þá greinilega enn alls ráðandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!