30. nóvember 2018

87. UPPÁHALDSMYND Í VIGGÓ BÓK

SVEPPAGREIFINN hefur margoft áður á þessum vettvangi lýst yfir dálæti sínu á snillingnum André Franquin og þeim myndasögum sem hann kom að á sínum starfsferli. Þannig hefur SVEPPAGREIFINN til að mynda minnst á einstakar uppáhaldsmyndir úr bókunum um Viggó viðutan og hefur þegar birt eina slíka mynd úr þeim bókum en hana má sjá hér. Ætlun SVEPPAGREIFANS er að halda áfram að birta nokkuð reglulega þessar myndir hér á síðunni sinni (ókei, ég veit að það eru komnar rúmlega 80 færslur síðan síðast!) en að þessu sinni er komið að einni uppáhaldsmynd úr Viggó bókinni Hrakförum og heimskupörum sem kom út í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1979. 
En eins og væntanlega allir vita þá ganga flestar Viggó bækurnar út á einnar síðu brandara en fyrri hluti þessa brandara gengur út á það að samstarfsmenn Viggós á skrifstofu tímaritsins SVALS, þeir Eyjólfur, Snjólfur og Berti, eru að hafa áhyggjur af því að Viggó sjáist ekki í vinnunni heilu dagana. Þrátt fyrir að hafa séð hann mæta til vinnu á morgnana og fara heim á kvöldin. Þeir félagar fá grunsemdir um eitthvað misjafnt og skriður kemst á málið þegar Eyjólfur minnist þess að Viggó hafi lengið viljað vera einn inn á skjalasafni. Þangað fara þeir félagar til að kanna málið og rekast fljótlega á göng sem grafin hafa verið inni í þá risastóru óreiðu sem skjalasafnið er.
Þangað inn halda þeir með nauðsynlegan ljósabúnað og eftir að hafa skriðið svolítinn spöl inn í göngin koma þeir að ótrúlega notalegu rými inni í skjala- og bókasafninu. Þarna hefur Viggó sem sagt verið búinn að dunda sér við að grafa einhvers konar litla hvelfingu inn í skjalasafnið. Og á þessari dásamlegu teikningu, sem er lokapunktur brandarans, má sjá hvar Viggó liggur steinsofandi og hrjótandi inni í þessum notalega bókahelli á vindsæng ásamt gæludýrunum sínum.
Friðsældin og kyrrðin yfir þessari mynd er með svo miklum ólíkindum að SVEPPAGREIFANN langar helst sjálfum mest til að útbúa sér einhvers konar sambærilegt kósý afdrep á góðum stað. Það má reyndar alveg ímynda sér að ferska loftið sé ekki beint að drepa neinn þarna inni enda eitthvað matarkyns mallandi í pönnunni í anda Viggós og líklega fátt um loftræstingar. En aðalatriðið er auðvitað Viggó sjálfur sem liggur svo hamingjusamur og afslappaður, á koddanum í draumalandinu, með malandi kisu í fanginu. Frábær mynd hreinlega og augnablikið er eiginlega fullkomið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!