1. febrúar 2019

96. SÓLARLAG LUKKU LÁKA

Lukku Láka bækurnar eru í uppáhaldi hjá mörgum og öll eigum við okkar uppáhalds sögur úr þessum vinsæla bókaflokki. Þeir félagar Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny áttu mestan heiðurinn að vinsældum seríunnar og Morris teiknaði í raun fyrstu 72 sögurnar í bókaflokknum áður en hann lést sumarið 2001. Handritshöfundurinn Goscinny hafði hins vegar látist langt fyrir aldur fram árið 1977. Alls eru bækurnar nú orðnar 80 talsins og sú nýjasta, Un cow-boy à Paris, kom út síðastliðið haust. Bókaútgáfan Fjölvi hóf að gefa út Lukku Láka bækurnar árið 1977 í íslenskri þýðingu og bókstaflega dritaði sögunum frá sér af færibandi - svo ör var útgáfan. Alls sendi Fjölvi frá sér 33 bækur úr seríunni, flestar í þýðingu Þorsteins Thorarensens, til ársins 1983 þegar smávægilegt hlé var gert á útgáfu þeirra. Sú pása stóð yfir í 33 ár eða allt þar til Froskur útgáfa hóf síðan að senda frá sér bækurnar á ný á íslensku. Froskur hefur reyndar tekið því heldur rólegar en Fjölvi heitinn gerði og bækurnar hafa nú verið að koma út ein á ári síðan 2016 og sú síðasta, Stórfurstinn (Le Grand Duc - 1973), kom út nú fyrir jólin.
Sögurnar 80 eru eins ólíkar og þær eru margar enda rétt tæplega 70 ár á milli þeirra elstu (La Mine d'or de Dick Digger) frá árinu 1949 og áðurnefndar Un cow-boy à Paris sem gefin var út árið 2018. Stór hluti Lukku Láka bókanna eiga það þó sameiginlegt að enda á þann hátt að Lukku Láki ríður á Léttfeta inn í rauðleitt sólarlagið. Þarna var um að ræða beina vísun í kúrekamyndir úr villta vestrinu en þær voru mjög vinsælar upp úr miðri 20. öldinni. Þar mátti oft sjá einmana söguhetju ríða inn í sólarlagið í lok myndanna. Í fyrstu þremur Lukku Láka sögunum komu þessar sólarlagsmyndir strax við sögu. Þarna var um að ræða sögurnar Arísóna frá árinu 1951 og Gullnáman frá 1949, sem komu út á íslensku í sömu bókinni árið 1979, og Rodéo (í bókinni Allt um Lukku Láka er hún nefnd Hroðreið) einnig frá árinu 1949 en hún hefur ekki enn verið gefin út á Íslandi. Á öllum þessum þremur lokamyndum sést hið sígilda sólarlag en eitthvað voru þó útfærslur Morris á myndunum mismunandi.
Augljóslega var þó ekki komin nein ákveðin regla með þessa tilhögun svo snemma bókaflokksins. Næstu sjö sögur voru til dæmis ekki með þessum endi þó að í sumum þeirra megi finna einhvern samhljóm með þeirri útfærslu. Í sögunum Spilafantinum (Lucky Luke contre Pat Poker  - 1953), Eldri Daldónar (Hors la loi  - 1954) og Þverálfujárnbrautin (Des rails sur la Prairie  - 1957) má finna sambærilegar myndir þar sem Láki ríður á brott, jafnvel syngjandi, en þó án sólarlagsins. Aðrar sögur á þessu tímabili enduðu, að því er virðist, bara einhvern veginn. En frá og með sögunni Lucky Luke contre Joss Jamon Allt um Lukku Láka er hún nefnd Óaldarflokkur Jússa Júmm), frá árinu 1958, verður sú breyting á að sólarlagsmyndin sígilda er komin til að vera. Og það hefur haldist. Hver einasta Lukku Láka bók sem komið hefur út síðan, í opinberu seríunni, hefur endað á þennan hátt. Alls 69 bækur í röð.
Útfærslurnar á sólarlagsmyndunum eru nánast alltaf eins í grunninn en þó eru í einstaka tilfellum gerðar smávægilegar tilfæringar eða breytingar. Lukku Láki ríður yfirleitt Léttfeta í áttina að sólinni, sem er komin hálfa leið niður fyrir sjóndeildarhringinn, og snýr baki að lesandanum. Í bókinni Kid Lucky frá árinu 1995 er þessu þó aðeins öðruvísi farið. Í þeirri sögu er skyggst bak við bernsku Lukku Láka og meðal annars sýnt hvernig leiðir þeirra Léttfeta lágu saman. Hugmyndin með sögunni var að reyna að koma til móts við yngri lesendur teiknimyndasagnanna og seinna hafa verið gefnar út nokkrar bækur í sérstakri seríu sem fjallar um Lukku Láka hinn unga. Í lok Kid Lucky er þessari hefðbundnu sólarlagsmynd stillt þannig upp að hinn ungi Láki og Léttfeti fylgja í fótspor veiðimannsins og gullgrafarans Old Timer sem leikur stórt hlutverk í sögunni. Old Timer sönglar hinn sígilda söng og eflaust á Lukku Láki að hafa lært lagið og textann við þetta tækifæri.
Aðra óhefðbundna sólarlagsmynd má einnig finna í lok sögunnar Le Klondike frá árinu 1996 en sú bók hefur aldrei verið gefin út á íslensku. Þar er reyndar allt algjörlega eftir uppskriftinni nema hvað að það er óvenjulegt að Lukku Láki ríður inn í sólarlagið í snæviþöktu landslagi. Skýringin á því felst í því að sagan gerist að öllu leyti í norðvesturhluta Kanada þar sem Láki endurnýjar meðal annars kynni sín við hina bresku Baldur Badmington og Jósep úr bókinni um Grænjaxlinn (Le Pied-tendre - 1967). Það er ekki langt síðan SVEPPAGREIFINN fjallaði aðeins um þá bók. Le Klondike er eina Lukku Láka bókin sem gerist eingöngu í snjó.
Þá má nefna lokamyndina í sögunni L'Artiste peintre frá árinu 2001 en þó sólarlagsmyndin þar sé frekar hefðbundin er hún samt mjög óvenjuleg. Þar sést hvar ein af persónum bókarinnar, listmálarinn Frederic Remington, málar mynd af Lukku Láka þar sem hann ríður sönglandi sína hefðbundnu leið inn í sólarlagið.
Léttfeti gerir athugasemd við að Remington hefði átt að finna betur viðeigandi sjónarhorn en það var ekki ólíkt honum að tjá sig við þessi tækifæri. Léttfeti hafði oft eitthvað gáfulegt fram að færa á þessum augnablikum. Í íslensku útgáfunum tengjast þessar aðfinnslur oftar en ekki söng Lukku Láka.
Lagið sem Lukku Láki sönglar er aðdáendum bókanna vel kunnugt, I'm a poor lonesome cowboy and a long way from home. Sú útfærsla var ævinlega höfð með sólarlagsmyndinni, í upprunalegu bókunum, á frummálinu franska. SVEPPAGREIFINN á gott úrval Lukku Láka bóka á nokkrum öðrum mismunandi tungumálum og undantekningalaust er þessum áðurnefnda frumtexta leyft að halda sér. Þannig virðist textinn alla jafna ekki vera þýddur eða breytt á neinn hátt á öðrum tungumálum. Við Íslendingar höfum þó nokkra sérstöðu með það. Fáeinum sinnum fékk hinn upprunalegi texti þó reyndar að standa en Þorsteinn Thorarensen, þýðandi og eigandi Fjölva útgáfunnar, fór einnig nokkuð frjálslega með þýðingu sína á textabrotinu. Hér eru allnokkur dæmi um það:
Ég er bláfátæk beljublók og á ekki bót fyrir brók ...
Ég er barasta beljublók sem á ekki bót fyrir brók ...
Ég er skítblönk beljublók, á ekki bót fyrir brók!
Ég er einn kátur kúasveinn á klárnum ferðast einn ...
Æma púr lúnsúm beljurek, faravei frúm húm ...
Fyrir bakhlutann vantar mig bót! En ég hirði ekki um það hót!
Æm a púr lúnsómm kúsmal!
Ég er kærulaus kúasmali ...
Ég er blásnauður kúasmali, berst svo rótlaus um fjöll og dali!
Æma púrr lónsumm kúbein. Long vei frum Bárðardal ...
Ég er kátur kúasmali kyrjandi um beljudali ...
Ég er bláfátækur beljusmali, best er að fara að róla um dali! 
Ég er vesæll vegfarandi vafrandi langt frá heimalandi ...
Ég er kúrekablók, les ekki bók, en drekk bara kók ...
Æm a púrr lúnsúmm kúsmal ...
Þessar útfærslur Þorsteins munu eflaust lifa um aldur og ævi og veita  íslensku Lukku Láka bókunum ómetanlega sérstöðu þegar fram líða stundir en óvíst er að þær hafi fallið í kramið hjá frönsku útgefendunum. Líklega fengu þeir aldrei neitt veður af því enda íslenska upplagið alveg pínulítið. En lagið, I'm a poor lonesome cowcay and a long way from home, kom fyrst fram í sögunni Rodéo (Hroðreið) frá árinu 1949. Lagið er til í raun og veru og leikarinn Gary Cooper hafði sungið það í bandaríska vestranum Along Came Jones fjórum árum fyrr. Og svona hljómar það.
Og til að ljúka þessari tilgangslausu færslu er ekki úr vegi að birta síðustu fimm myndarammana úr stuttri sögu sem birtist í bókinni Allt um Lukku Láka sem aðeins hefur verið minnst á hér fyrir ofan. Sagan nefnist Hringrás lífsins og segir á tveimur blaðsíðum frá því þegar Daltón bræður flýja úr fangelsi og reyna á einum sólarhring að koma sér sem lengst í burtu frá allri siðmenningu. Í lok sögunnar telja þeir sig hólpna, langt frá öllum mannabyggðum. Það er aðeins Ibbi sem áttar sig á því hvar þeir eru staddir og Lukku Láki er því ekki lengi að góma bræðurna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!