22. febrúar 2019

99. ÞAÐ SVÍKUR ENGAN SÓDAVATNIÐ Á AKUREYRI

Það hefur verið svolítið í umræðunni undanfarna viku fréttir af hugmynd sem birtist fyrst í norðlenska vefmiðlinum Vikudagur.is. Þar kom fram að á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu hefði verið ræddur sá möguleiki að reisa styttu af þeim Tinna og Tobba á Torfunesbryggju í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands. Fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um málið síðan og gert málinu skil. Forsögu þessarar hugmyndar má rekja allt aftur til áranna 1941-42 þegar belgíski listamaðurinn Georges Remi, eða Hergé eins og hann kallaði sig, var að vinna að tíundu sögu sinni L'Étoile mystérieuse um myndasöguhetjuna Tinna. Þessa bók þekkjum við Íslendingar auðvitað undir heitinu Dularfulla stjarnan en eins og við öll vitum þá komu þeir Tinni, Tobbi og Kolbeinn kafteinn við á Akureyri í sögunni. SVEPPAGREIFINN skrifaði meira að segja færslu um það hér á Hrakförum og heimskupörum fyrir örfáum árum. Þeir félagar eyddu heilum fjórum blaðsíðum á Akureyri og það er því augljóslega löngu kominn tími til að heiðra minningu þeirra þar á einhvern veglegan hátt. En í fundargerð Akureyrarstofu segir orðrétt;
Sem kunnugt er kom blaðamaðurinn Tinni við á Akureyri í sögunni um Dularfullu stjörnuna. Fram hefur komið sú hugmynd að reisa styttu af Tinna og félögum við Torfunefsbryggju, í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands, til minningar um þessa heimsókn. Stjórn Akureyrarstofu er spennt fyrir því að stytta af Tinna og félögum rísi á Torfunefsbryggju og felur starfsmönnum til að byrja með að kanna hvaða formlegu leiðir þarf að fara gagnvart höfundarrétti og senda formlegt erindi til stjórnar hafnasamlagsins.
Þeir norðanmenn hafa svo sem áður viðrað þá hugmynd að gera einhvers konar minnisvarða um heimsókn þeirra félaga til Akureyrar. Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdarstjóri Akureyrarstofu nefnir það í viðtali við vísi.is að þeir hafi áður verið í sambandi við rétthafa Tinna bókanna í Belgíu vegna hugmynda um að mála myndaramma úr Dulafullu stjörnunni á stóran vegg í miðbænum. Reyndar varð ekkert úr því en hugmyndin var samt alveg þess virði að fá hana.
SVEPPAGREIFINN hefur svo sem oft áður heyrt sambærilegarar hugmyndir um Tinna minnisvarða á Akureyri en mörg okkar sem gleyptu í sig þessar teiknimyndasögur á sínum tíma voru alltaf meðvituð um Akureyrartenginguna. Til er fólk sem ferðast um heiminn gagngert til að heimsækja þekkta staði úr Tinna bókunum og til Akureyrar hafa komið einstaklingar í þeim eina tilgangi. Á Akureyri hittir Kolbeinn kafteinn einmitt Runólf gamlan vin og samstarfsmann af sjónum og saman setjast þeir niður ásamt Tinna á einhverju kaffi- eða öldurhúsa bæjarins. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekkert sérstaklega vel kunnugt um hvort að um marga slíka staði hafi verið að ræða á Akureyri á þessum árum. En þarna ræða þeir félagar málin, fara yfir stöðuna og það er á þessum stað sem Kolbeinn kafteinn mælir hin ógleymanlegu og fleygu orð, "Aaaaaaaah!... Það svíkur engan sódavatnið á Akureyri."
Það er hreint alveg með ólíkindum að þessi snilld hafi ekki verið nýtt á einhvern hátt af akureyriskum markaðsfrömuðum eða hugmyndasmiðum. Eða hefur það kannski einhvern tímann verið gert? SVEPPAGREIFANUM er kunnugt um að báðir gosdrykkjaframleiðendurnir á Akureyri, Sanitas og Sana, hafi framleitt sódavatn á sínum tíma. Og það er í rauninni ófyrirgefanlegt ef fyrirtækin hafi ekki nýtt sér þennan stórkostlega frasa sem þeir fengu beint í hendurnar frá þýðanda Tinna bókanna - Lofti Guðmundssyni. Þessi frasi hlýtur í það minnsta að vera einhvers staðar uppi á vegg  í bænum, á Græna hattinum eða Bautanum. Þó það hafi ekki verið nema á bæjarskrifstofunni. Þetta ætti eiginlega að vera innprentað í skjaldarmerki bæjarins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!