8. febrúar 2019

97. NOKKUR HEIMSKUPÖR SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN lumar á ýmsu sem tengist viðfangsefninu teiknimyndasögur og það verður nú að viðurkennast að ekki er það nú allt af hinu fagra. Hann er auðvitað mikill aðdáandi að öllu því sem snýr að belgísk/franska myndasöguheiminum, eins og lesendur Hrakfara og heimskupara hafa eflaust rekið sig á, og reynir (í hófi þó) að sanka að sér ýmiskonar áhugaverðu efni sem tengist því áhugamáli. Myndasögurnar sjálfar  eru auðvitað í fyrirrúmi en svo er einnig svolítið gaman að krydda aðeins og fegra umhverfið eftir megni af ýmsum afurðum sem hægt er að tengja við þessar myndasögur. Eitt af því sem SVEPPAGREIFINN hefur dundað sér ofurlítið við undanfarin árin er að mála (illa) á striga viðfangsefni sem finna má í áðurnefndum teiknimyndasögum. Hann hefur reyndar að mestu haldið því fyrir sjálfan sig eða alla vega innan veggja heimilisins og ekki hefur enn verið amast neitt alvarlega yfir því af öðrum fjölskyldumeðlimum.
Og jú ... hann hefur líka aðeins nýtt slíkar afurðir til jóla- og afmælisgjafa ungviðisins innan stórfjölskyldunnar. Þetta eru engin listaverk, enda SVEPPAGREIFINN með um það bil tólf þumalputta, en það eru svo sem ekki nein flókin vísindi að teikna tiltölulega einfaldar og hreinar línur og fylla síðan inn í myndina með akrílmálningu. Það er alla vega ljóst að SVEPPAGREIFINN  verður seint talinn til eins af gömlu meisturunum og eflaust ekki margir sem hafa lyst á þeirri list sem hann hefur uppá að bjóða. Tilgangurinn hefur því aldrei verið annar en sá að reyna að vekja upp áhuga yngstu kynslóða þessarar ættargreinar á teiknimyndasögum á sama hátt og hann hefur einnig reynt að dreifa til þeirra aukaeintökum af myndasögum sem hafa dagað uppi hjá honum. Þessar málverkaómyndir SVEPPAGREIFANS hlaupa nú svo ekkert á einhverjum tugum en líklega má einhverns staðar finna á bilinu milli sex og átta myndir sem hann hefur málað. Þarna er yfirleitt um að ræða stakar myndir úr Tinna bókunum en einnig minnist hann Gormafjölskyldumyndar sem hann málaði fyrir mörgum árum og gaf ungum frænda sínum.
Tvær þessara Tinna mynda má finna á heimili SVEPPAGREIFANS en ein í viðbót prýðir nokkuð áberandi vegg í sumarbústað fjölskyldunnar fyrir austan fjall. Sú mynd hefur þá sérstöðu að vera unnin upp úr nokkrum mismunandi teikningum úr Tinna bókunum og heildarmyndin af meintri atburðarás þannig fléttuð inn í næsta umhverfi sumarbústaðsins. Reyndar hafa þeir sem séð hafa myndina furðað sig nokkuð á viðveru eldflaugarinnar frægu í sælureit SVEPPAGREIFANS og jafnvel velt því fyrir sér hvort í boði séu ferðir þaðan úr sveitinni til tunglsins.
SVEPPAGREIFINN hefur að vísu aldrei verið almennilega sáttur við þetta verk sitt og hefur oft velt því fyrir sér að mála hana upp á nýtt en þó án þess að breyta heildarmynd hennar. Upphaflega hugmyndin var að reyna að fanga einfaldleika og litablæ bókanna en það hefur honum þó einhvern veginn mistekist og myndin er því ekki að njóta sín eins helst hefði verið á kosið. Þannig hefur SVEPPAGREIFANUM aldrei fundist myndin nægilega trúverðug til að geta hafa komið úr einhverri Tinna sögunni. Líklega  færi henni því best að dýpka og skyggja heildarmyndina og milda um leið litavalið með einhverjum þyngri hætti. Þannig myndi yfirbragð hennar reyndar breytast töluvert yfir í drungalegri blæ en það færi henni þó líklega betur.

En svo SVEPPAGREIFINN komi sér að aðalefni þessarar færslu þá var tilgangur hennar fyrst og fremst að reyna að koma út eða losna við mynd sem hann málaði að mestu fyrir löngu síðan. 
Forsagan er sú að einhvern tímann fékk hann þá undarlegu hugmynd að mála upp á nýtt hina kunnu mynd Gunnlaugs Blöndals Stúlku með greiðu, frá árinu 1937, þar sem í stað andlits stúlkunnar væri kominn haus af strumpi. Á þessum tíma bjó SVEPPAGREIFINN mjög ódýrt, í litlu stúdíórými í kjallara á Álfhólsveginum í Kópavogi, í kjölfar Efnahagshrunsins sem margir kannast eflaust eitthvað við. Hann keypti ódýrasta og ómerkilegasta málverkið sem hann gat fundið á striga í Góða hirðinum á 300 kall og hóf að sletta einhverri málningu yfir þá mynd sem þar var fyrir. SVEPPAGREIFINN var auðvitað blankur, eins og svo margir á árunum upp úr hruni, og nýr strigi í sambærilegri stærð hefði líklega kostað hann 3-4000 kall. En fljótlega fór ásýnd Stúlkunnar með greiðuna að myndast á strigagarminum og varð á tiltölulega skömmum tíma nokkuð endanlegs útlits. En reyndar þó án hauss. Þannig á sig komið lá málverkið óklárað í nokkur ár og upplifði meðal annars tvenna flutninga, giftingu og fjölgun mannkynsins um einn. Á meðan beið hið hauslausa stúlkugrey örlaga sinna annars vegar inni í dimmri geymslukompu og hins vegar, nú síðustu árin, í stórum kassa út í bílskúr. Einhverja hluta vegna var ókláraðri myndinni þó aldrei hent.

Í byrjun ársins 2019 poppaði upp heit umræða vegna hinnar upprunalegu myndar Gunnlaugs og stúlkunnar góðu. Sú umræða var tilkomin vegna nektar hennar og annarra sambærilegra verka á veggjum Seðlabankans en viðkvæmri starfskonu stofnunarinnar var eitthvað misboðið berbrjósta ásýnd listaverkanna þar. SVEPPAGREIFINN ætlar sér svo sem ekkert að vera að velta sér upp úr þeirri umræðu en í kjölfar hennar mundi hann eftir blessaðri myndinni út í skúr. Hún var því dregin inn í hús eftir kvöldmat einn daginn í síðustu viku og á hana skellt svolitlum strumpahaus eins og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Eftir líklega um tíu ára ferli er myndin því loksins tilbúin og það sem meira er þá hefur SVEPPAGREIFINN engan áhuga, pláss eða nein not fyrir ósköpin. Strumpur með greiðu óskar því eftir nýjum eiganda sem mætti gjarnan hafa áhuga á myndasögum og ekki síður að hafa svolítið óþroskaðan smekk fyrir myndlist.
Myndin er því ekki beint til sölu en væntanlegur eigandi hennar mætti þó gjarnan vera aflögufær um frjálst framlag sem færi þá í sjóð (sem samanstendur að mestu af andvirði dósa og flaskna) til kaupa á nýju gróðurhúsi eiginkonu SVEPPAGREIFANS. Myndin er 60x80cm að stærð og er reyndar svo illa gerð að "listamaðurinn" fékk snert af málverk við vinnslu hennar. Verkið er ómerkt en SVEPPAGREIFINN er tilbúinn til að árita myndina ef væntanlegur eigandi hennar telur það ekki rýra verðgildi hennar. SVEPPAGREIFINN gerir því ekki ráð fyrir að slegist verði um verkið en áhugasömum aðilum er þó bent á glorzubb@gmail.com.

2 ummæli:

Út með sprokið!