8. mars 2019

101. BÍLAKIRKJUGARÐUR BREIÐABLIKS

Það er stutt færsla í dag. En SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að dunda sér við að lesa Steina sterka með fjögurra ára dóttur sinn að undanförnu og það er gaman að segja frá því að ákaflega góður rómur hefur verið gerður af þeim lestri. Fyrst var Rauðu leigubílarnir (Les Taxis rouges - 1960) tekin fyrir og í kjölfarið Sirkusævintýrið (Le Cirque Bodoni - 1969) en nú um stundir fylgist sú litla agndofa með æsispennandi framvindu mála í bókinni um Steina sterka og Bjössa frænda (Tonton Placide - 1968). Sú saga er nú þegar orðin uppáhaldsbókin hennar þrátt fyrir óheyrilegan aragrúa bóka um Bangsímon, Hvolpasveitina og annarra sambærilegra heimsbókmennta uppí hillu. Í það minnsta virðist sem hin ólseigu myndasagnagen föðursins aldna hafi skilað sér rækilega áfram, yfir á næstu kynslóð, heiminum öllum til heilla - hvað sem seinna verður. SVEPPAGREIFINN virðist því vera að gera eitthvað rétt í uppeldinu. En í bókinni um Steina sterka og Bjössa frænda rak SVEPPAGREIFINN augun í myndaramma sem vakti nokkuð kátínu hans. Forsögu þessarar myndar má rekja til þess að Steini sterki var búinn að vera að eltast við harðsvíraðan glæpaflokk, í geysilega hraðri atburðarás, nokkrar blaðsíðurnar á undan. Bófarnir, sem eru reyndar ansi margir, höfðu náð að hrifsa til sín skjalatösku með myndamótum af peningaseðlum furstaríkisins Lindavíu en Steini hefur náð töskunni aftur á sitt vald eftir nokkuð flókið og farsakennt ferli. Að endingu verður nokkurs konar lokauppgjör (í bili) þar sem tveir misyndismannanna ógna Steina úr þyrlu(!) og búa sig undir að ráðast á hann til að taka aftur af honum skjalatöskuna. Steini leggur töskuna hins vegar varlega frá sér, grípur í þyrluna og hendir henni síðan í loftköstum frá sér þar til hún stöðvast innan girðingar hjá BÍLAKIRKJUGARÐI BREIÐABLIKS.
Einmitt! BÍLAKIRKJUGARÐUR BREIÐABLIKS. Þarna hefur SVEPPAGREIFINN grun um að þýðandi bókarinnar Vilborg Sigurðardóttir hafi hugsanlega haft eitthvað með ríg íþróttafélaganna í Kópavogi að gera. Ef svo er hefur þessi bráðfyndni einkabrandari hitt í mark og um leið gefið fylgismönnum HK og ÍK forskot með ódrepanlegum og illafturkræfum minnisvarða um ríg félaganna. Þetta skot á félagið hefur nú verið til skjalfest í bók með Steina sterka í tæp 40 ár og verður varla toppað úr þessu. Eiginlega er þetta aðeins of fyndið.

1 ummæli:

Út með sprokið!