Þær myndasögur sem SVEPPAGREIFINN hefur helst verið að fjalla um, hér á Hrakförum og heimskupörum, eiga flestar uppruna sinn frá Belgíu eða öllu heldur fransk/belgíska málsvæðinu. Þar var helsta vígi evrópskra teiknimyndasagna á 20. öldinni og þaðan komu nær allar þær sögur sem gefnar voru út hér á Íslandi á sínum tíma. Margar þessara myndasagna voru þó, eins og flestir ættu að gera sér grein fyrir, búnar að vera til í áratugi og fara í gegnum margvísleg ferli í gegnum tíðina áður en þær birtust loksins í bók hér uppi á Íslandi. Flestar ef ekki allar höfðu fyrst birst í helstu myndasögutímaritunum (Le journal de Tintin, SPIROU, Pilote ofl.) áður en við sáum þær og oft voru þær jafnvel búnar að ganga í gegnum miklar breytingar á þeim tíma. Það kom nefnilega stundum fyrir að útgefendur teiknimyndasagnanna voru ekki alltaf alveg sáttir við þá niðurstöðu sem höfundar þeirra settu fram í útfærslum sínum á myndasögunum. Það gátu verið margvíslegar ástæður fyrir því. Útgáfufyrirtækin gerðu auðvitað kröfur um fagleg vinnubrögð en oft þurftu þau líka aðeins að grípa inn í ef þeim þótti höfundar þeirra ekki lúta reglum um almennar, eðlilegar og siðferðislegar kröfur. Myndasöguhöfundarnir gátu nefnilega verið misjafnlega frjálslegir eða jafnvel uppreisnargjarnir í sköpun sinni. Sjaldnast þurfti reyndar að grípa í taumana ef efnið þótti klámfengið en oftast var það þegar um einhvers konar ofbeldi var að ræða. Þetta var jú einu sinni barnaefni. Stundum gripu útgefendurnir strax inn í áður en sögurnar birtust í myndasögublöðunum en í öðrum tilfellum sluppu þær í gegnum nálaraugað og þá var þess krafist að gerðar yrðu viðeigandi breytingar áður en þær voru gefnar út í bókarformi.
Dæmi um það birtist í kunnuglegri bók um Billa barnunga (Billy the kid - 1962) úr seríunni um Lukku Láka. Sagan sem kom út á íslensku hjá Fjölva útgáfunni, í þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1978, þykir með þeim betri í bókaflokknum og Maurice de Bevere (sjálfur Morris) sagði hana ávallt hafa verið sína uppáhalds Lukku Láka sögu. Við þekkjum hina hefðbundnu byrjun á sögunni eins og hún kemur fyrir í íslensku útgáfunni. Þar er Billi kynntur aðeins til sögunnar á fyrstu blaðsíðunni með tveimur efstu myndaröðunum áður en sagan sjálf í rauninni hefst. Hér er það ...
Dæmi um það birtist í kunnuglegri bók um Billa barnunga (Billy the kid - 1962) úr seríunni um Lukku Láka. Sagan sem kom út á íslensku hjá Fjölva útgáfunni, í þýðingu Þorsteins Thorarensen árið 1978, þykir með þeim betri í bókaflokknum og Maurice de Bevere (sjálfur Morris) sagði hana ávallt hafa verið sína uppáhalds Lukku Láka sögu. Við þekkjum hina hefðbundnu byrjun á sögunni eins og hún kemur fyrir í íslensku útgáfunni. Þar er Billi kynntur aðeins til sögunnar á fyrstu blaðsíðunni með tveimur efstu myndaröðunum áður en sagan sjálf í rauninni hefst. Hér er það ...
Í upprunalegu útgáfunni frá árinu 1961, sem birtist reyndar í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU, var þessu svolítið öðruvísi farið. Byrjun sögunnar þótti það gróf að höfundunum, þeim Morris & Goscinny, var uppálagt að breyta henni áður en til bókaútgáfu kom árið eftir. Þannig var í raun heilli blaðsíðu kippt úr sögunni. Efsta myndaröðin á fyrstu blaðsíðunni fékk að halda sér en næstu fjórar (neðstu þrjár raðirnar á fyrstu blaðsíðu og efsta röðin á blaðsíðu 2) voru klipptar út. En hér fyrir neðan má sjá fyrstu tvær blaðsíðurnar eins og þær litu út í upprunalegu útgáfunni.
Byrjun sögunnar er auðvitað töluvert öðruvísi svona og líklega má alveg færa réttlát rök fyrir því að láta þessar myndaraðir ekki fylgja með í bókaútgáfunni. Það sem fór einna mest fyrir brjóstið á útgefendunum (Dupuis) var myndaröðin sem sýnir ungabarnið Billa harðneita pelanum í vöggunni, með blótsyrðum og látum, en róast með því að japla á marghleypunni. Þessar
tvær blaðsíður hér fyrir ofan koma úr nýlegri danskri útgáfu af bókinni en fyrir
nokkrum árum var upprunalegu myndarömmunum aftur bætt inn í söguna. Og það er líka gaman að nefna það að í seinni útgáfum hefur bókakápunni á bókinni um Billa barnunga einnig verið lítillega breytt. Lukku Láki aðhylltist nefnilega heilsusamlegra líferni þegar að líða fór á bókaflokkinn og steinhætti allri óhollustu, í formi bæði áfengisneyslu og reykinga, árið 1983. Í staðinn fór hann að japla óhóflega á grasstráum í staðinn. Ástæða þess var reyndar aðallega viðskiptalegs eðils til að byrja með vegna þess að reykingarleysi kúrekans knáa var í raun aðalforsenda þess að Lukku Láka bókunum yrði hleypt inn á hinn risastóra Ameríkumarkað. Útgefendum Lukku Láka bókanna þótti ástæða til að virkja þá hugmynd afturvirkt eins og hægt var en reyndar var svolítið erfitt að gera þá kröfu að allar sígarettur sögupersónanna yrðu hreinsaðar út úr bókaflokknum við endurútgáfu hennar. Því voru bókakápur seríunnar látnar duga og eftir árið 2006 hefur Lukku Láki eingöngu sést með strá í munninum framan á þeim bókum sem endurútgefnar hafa verið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!