5. júlí 2019

118. MÖGULEGA VERSTA MYNDASAGA SVEPPAGREIFANS

SVEPPAGREIFINN var að glugga í sögu úr bókaflokknum um Hin fjögur fræknu á dögunum og sú bók er hugsanlega, að hans mati, versta teiknimyndasaga sem komið hefur út á íslensku. Það verður víst að taka það fram að SVEPPAGREIFINN er enginn sérstakur aðdáandi þessa bókaflokks og hefur reyndar verið nokkuð duglegur að koma þeirri skoðun sinni á framfæri hér á síðunni. Um það má eitthvað lesa bæði hér og svo hér. Alls voru gefnar út 43 bækur í þessari seríu með Hinum fjórum fræknum og þar af komu fyrstu 26 bækurnar út hér á landi þó ekki hafi þær reyndar verið í réttri röð til að byrja með. SVEPPAGREIFINN safnar þessum sögum, eins og öllum myndasögum sem komu út á íslensku á sínum tíma, og á nú orðið 23 af þessum 26 bókum. Smán saman hafa bækurnar úr seríunni verið að tínast inn í myndasöguhillurnar hans og þessar þrjár sem upp á vantar munu klárlega koma þegar góð og ódýr eintök af þeim finnast. Hann hefur alla vega ekki verið neitt að missa sig neitt tilfinnanlega yfir þeim bókaskorti. En þó sögurnar úr þessum bókaflokki séu að stórum hluta til í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS er ekki þar með sagt að hann hafi lesið þær allar. Á æskuheimili hans voru nokkuð margar af þessum sögum til (þá erum við líklega að tala um 15-16 bækur) og þær voru allar auðvitað lesnar á sínum tíma. En löngu seinna fór hann að fylla upp í þær eyður sem upp á hafði vantað og ekki höfðu verið til á heimili hans í bernsku. Flestar af þeim bókum sem bæst hafa við hefur SVEPPAGREIFINN í rauninni aldrei lesið. Og þá kemur einmitt til sögunnar þessi saga sem hann minntist á hér alveg í byrjun. Hann hafði gripið bókina af einhverri rælni úr myndasöguhillunum og farið að fletta henni og þá varð eiginlega ekki hjá því komist að fórna eins og einni færslu í þessa teiknimyndasögu.
Myndasaga þessi nefnist Hin fjögur fræknu og geimskutlan (Les 4 as et la navette spatiale - 1989) og kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1990 í þýðingu Bjarna Friðriks Karlssonar. Þetta var síðasta sagan í seríunni sem kom út á íslensku og SVEPPAGREIFINN þakkar alveg kærlega fyrir það. Bókin segir frá ... uuhh... segir frá því er Hin fjögur fræknu fá boð, í tengslum við aukna útbreiðslu myndasagnanna þeirra, um heimsókn á ráðstefnu teiknimyndasöguhetja sem haldin er í Kanada! Sá hluti söguþráðsins (Ha? Er söguþráður?) er reyndar með öllu tilgangslaus og virðist hafa það eina hlutverk að staðfesta minnimáttarkennd höfundanna, þeirra Francois Craenhals, Jacques Debruyne og Georges Chaulet, gagnvart öðrum myndasöguhöfundum. Tinna, Sval, Lukku Láka, Viggó, Ástrík og mörgum fleirum sem við könnumst vel við bregður fyrir í bókinni en einnig má þar sjá aðrar kunnar teiknimyndapersónur sem við hér uppi á Íslandi þekkjum kannski ekki alveg jafn mikið. Hallærisheitin voru því orðin vel yfirþyrmandi strax á blaðsíðu 7 og vanmáttur SVEPPAGREIFANS gagnvart aulahrollinum sem greip hann var algjör.
En í Kanada, þar sem Hin fjögur fræknu eru stödd, lendir óvænt á sama tíma biluð rússnesk geimskutla í grennd við dvalarstað þeirra. Þar um borð eru rússneskir tvífarar hinna fjögurra, ekki ósvipuðum Hinum fjórum frökku sem komu við sögu í bókinni Hin fjögur fræknu og gullæðið. Sá hópur reynir með öllum tiltækum ráðum hvað hann getur til að laga geimskutluna og halda för sinni áfram. Og út á þann punkt gengur söguþráðurinn ... örugglega. En auk þess fléttast inn í söguna skotglaður, þrautþjálfaður útsendari á vegum CIA, að nafni Marbó (sem ku vera einhvers konar afskræming af Rambó), Napóleón keisari og félagar hans úr bókinni Hin fjögur fræknu og loftfarið og auðvitað þeir Loftur og Lárus. En síðastnefndu sögupersónurnar eru álíka leiðinlegar og hundurinn Óskar. Allt þetta hrærist saman í einhvern óskiljanlegan graut sem SVEPPAGREIFINN skilur hvorki upp né niður í. Reyndar er viðveru Hinna fjögurra fræknu í sögunni nokkuð ábótavant á löngum köflum sem undir flestum kringumstæðum hefði gert söguna skárri en svo er þó ekki að þessu sinni. Söguþráðurinn hjá handritshöfundinum Georges Chaulet er alveg frámunalega ruglingslegur og teikningarnar hjá þeim Craenhals og Debruyne hafa líklega aldrei verið verri.
Atburðarásin minnir óneitanlega á þær myndasögur sem SVEPPAGREIFINN, ásamt félögum sínum, var sjálfur að myndast við að reyna að böggla saman sem barn. Það er kannski bara kominn tími á að grafa upp og fórna eins og einni færslu í þau bernskubrek. Þær teiknimyndasögur voru ekki bara (vægt til orða tekið) illa teiknaðar heldur voru þær einnig á einhvern óskiljanlegan hátt svo stefnulausar að lesandinn vissi aldrei hvort sagan var að byrja eða enda! Einmitt þá tilfinningu (auk töluverðu magni af vandræðahrolli) fékk SVEPPAGREIFINN þegar hann var að reyna að bögglast í gegnum Hin fjögur fræknu og geimskutlan. Hin 40 ára bernskubrek SVEPPAGREIFANS geta varla verið mikið verri en þessi ósköp.
En eins og áður segir var þetta síðasta sagan um Hin fjögur fræknu sem gefin var út hér á landi og einhvern veginn hefur maður grun um að þýðandinn, Bjarni Fr. Karlsson, hafi verið dauðfeginn að vera laus undan þeirri kvöð að þurfa að snara fleirum af þessum bókum yfir á íslensku. Það má alla vega reikna með að þær 17 bækur sem upp á vantar og ekki komu út á Íslandi hafi ekki verið í mikið hærri gæðaflokki. Stundum hefur verið talað um að einungis fyrstu 10 bækurnar í seríunni séu þokkalegar en Les 4 as et la navette spatiale er númer 26 í bókaflokknum. En reyndar gerir Bjarni eina meinlega villu við vinnu sína í bókinni. Á blaðsíðu 8 er vísað í atburðarásir úr eldri bókum um Hin fjögur fræknu og bent á fjögur mismunandi atvik með myndum því til stuðnings. Á einni þeirra má sjá hvar Búffi er að traðka á ljóshærðum unglingi og atvikið sagt vera úr bókinni um Hin fjögur fræknu og gullæðið. En hið rétta er að þetta er úr Hin fjögur fræknu og gullbikarinn.
Það er svolítið kaldhæðnilegt að þessi ómerkilega villa þýðandans skuli hafa verið það eina sem SVEPPAGREIFANUM þótti markvert úr allri bókinni.

3 ummæli:

 1. Góður pistill og nú verð ég eiginlega að lesa þessa bók.

  SvaraEyða
 2. Mér fannst alltaf Fal bækurnar verstar af öllu, en er reyndar ekki búinn að lesa þessa.

  SvaraEyða
 3. Hin fjögur fræknu og geimskutlan er eiginlega skyldulesning.

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!