16. október 2020

176. INNRI KÁPAN Í TINNA BÓKUNUM

SVEPPAGREIFINN mun vera einn af þeim sem ólust upp við að hafa Tinna bækurnar við hendina í æsku. Hann tilheyrir einmitt þeirri kynslóð barna sem biðu í ofvæni eftir næstu Tinna bók frá Fjölvaútgáfunni og man vel eftir þeirri tilfinningu sem fylgdi því að vera búinn að eignast nýjan slíkan dýrgrip. Eflaust eru margir sem geta deilt þessum sömu upplifum úr sinni bernsku. Bókunum var flett fram og til baka og í flestum tilfella voru þær bókstaflega lesnar upp til agna með tíð og tíma. Sjálfur man SVEPPAGREIFINN einnig vel þá tilfinningu þegar hann var að handfjatla þessar myndasögur í kjallaranum í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Og upplifa spenninginn við það að grandskoða kápuna á þeim Tinna bókum sem hann var þá að sjá í fyrsta skipti. Enn þann dag í dag getur hann endurupplifað þær minningar með því einu að rýna í þessar bókakápur. Hann man eftir Dularfullu stjörnunni, Vindlum Faraós og Svaðilför í Surtsey sem "gömlum bókum" og Leynivopninu og Svarta gullinu sem nýjum, áhugaverðum og spennandi. Á þeim tímapunkti vissi hann ekki einu sinni af tilvist bóka eins og Flugrás 714 til Sydney eða Bláa lótusinum. Upplýsingaflæðið var ekki mikið, enda þá enn áratugir í Internetið. Í bæjarferðinni í Mál og menningu gat verið erfitt að velja og oftast bauð fjárhagurinn ekki upp á nema eina eða í mesta lagi tvær myndasögur í einu. Þá þurfti að velja og hafna og stefna frekar á einhverjar hinna bókanna næst, ef ekki var þá komin enn ein ný bókin í viðbót til að glepja einfaldan huga hins unga SVEPPAGREIFA. En þetta hafðist nú samt að endingu og allar Tinna bækurnar náðust inn.
Eitt er það líka annað sem SVEPPAGREIFINN man vel eftir. Hluti af því að lesa Tinna bækurnar, spjaldanna á milli, fólst meðal annars í því að skoða ljósbláröndóttu opnurnar með myndunum innan á bókakápunum og velta því fyrir sér úr hvaða sögu hver mynd væri upprunnin. Og það sem er honum eiginlega minnistæðast er að hann skuli enn muna eftir því að fæstar myndanna, úr þessum opnum, hafi verið með eins ramma. Oft hefur hann rekist á gömul eintök af Tinna bókunum þar sem búið er að krota eða lita eitthvað ofan í þessar myndir en ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess þó að hafa sem barn nokkurn tímann unnið slík helgispjöll sjálfur á sínum bókum. Hins vegar man hann eftir því að hafa reynt að herma eftir, eða teikna í gegn, einhverjar af þessum myndum Hergés með reyndar afar lítt minnisverðum árangri. En á þessum tímapunkti er alla vega orðið nokkuð ljóst að innri kápusíðurnar muni verða umfjöllunarefnið í færslu dagsins.
Það þarf líklega ekki neinn snilling til að átta sig á því að myndirnar á opnunum tveimur komu til sögunnar á einhverjum ákveðnum tímapunkti í útgáfu Tinna bókanna. Þessi útfærsla, sem við hér uppi á Íslandi þekkjum best, hefur af augljósum ástæðum ekki fylgt bókunum frá upphafi seríunnar. Þær myndir voru alls ekki fyrsta útgáfan af innri kápunni. Forveri þeirra hafði verið notuð í rúm tuttugu ár áður en okkar útgáfa sást fyrst en sú myndaröð samanstóð af hvítum myndum teiknuðum á dökkbláum grunnfleti. Þegar Froskur útgáfa hóf endurútgáfu á Tinna bókunum síðastliðinn vetur, með hinum frábæru tunglferðarbókum, kom einmitt í ljós að þær bækur prýddu þessar eldri útfærslu á innri kápunum í fyrsta sinn hér á landi. Gaman að sjá það.
En fyrstu Tinna sögurnar, sem höfðu að geyma eldri útgáfuna, voru bækurnar Skurðgoðið með skarð í eyra og fyrsta endurteiknaða útgáfan af Tinna í Kongó sem gefnar voru út hjá Casterman útgáfunni árið 1937. Eins og sjá má af þessum myndum koma nokkrar þeirra jafnvel úr upprunalegu Tinna sögunum, þ.e. útgáfunum áður en þær voru endurteiknaðar. Þessi eldri útgáfa hafði því aðeins að geyma teikningar úr fyrstu fjórum Tinna sögunum. Þessari útfærslu af innri bókakápunni kynntust fyrstu kynslóðir þeirra sem söfnuðu og lásu Tinna bækurnar en sama opnan var notuð bæði fremst og aftast í bókunum allt til ársins 1958. Til gamans má geta þess að þann 24. maí árið 2014 var upprunalega teikning Hergés af þessari opnu seld á uppboði fyrir 2,65 milljónir evra. Það munu víst gera um hátt í 400 milljónir íslenskra króna ef einhvern langar að vita það.
En 21 ári og 12 bókum seinna var ákveðið að breyta til. Með útgáfu bókarinnar Kolafarmsins, sem kom út í bókaformi á frönsku í júlí árið 1958, birtist loks þessi kunnuglega útgáfa af innri bókakápunni sem við Íslendingar þekkjum einmitt svo vel. Sú útfærsla er reyndar miklu betur kunn, út um allan heim, hjá öllum þeim kynslóðum sem fæddar eru eftir miðja 20. öldina. Það er aðeins nú á síðustu áratugum sem gamla útgáfan hefur verið dregin aftur fram í sviðsljósið og notuð bæði í viðhafnarútgáfum af Tinna bókunum og þeim allra nýjustu - eins og hjá Froski. Í yngri útfærslunni eru opnurnar settar upp sem veggir með mörgum myndum, af sögupersónum bókanna, hver í sínum ramma. Þessar myndir eru teiknaðar með útlínunum einum í dökkbláum lit en veggurinn á bak við er hins vegar röndóttur í tveimur mismunandi ljósbláum litum. Myndaraðirnar eru samsettar úr teikningum, sem raðað er upp í 141 mismunandi myndaramma, þar sem á fremri opnunni eru myndirnar 69 en 72 á hinni aftari. Myndirnar, sem eru nokkuð misjafnar að stærð, sýna aðallega sögupersónurnar úr bókum seríunnar en þar má reyndar líka finna mynd af Skurðgoðinu fræga og einnig eitt nútímamálverk sem þó kemur ekki fyrir í neinni bókanna. Þetta verk teiknaði Hergé um það leyti sem nýrri opnan var gerð opinber, þegar hann fékk áhuga á nútímalist, og ef grannt er skoðað sýnir það Kolbein kaftein í nýstárlegum formum.
Seint á sjötta áratug 20. aldarinnar fékk höfundurinn Hergé einmitt mikinn áhuga á framandi listum og málaði jafnvel sjálfur verk í þeim anda. Það má vel sjá áhrif þessa áhuga í síðustu bókum hans í Tinna seríunni. En alls eru þarna á opnunum 12 myndir af Tinna. Tobbi, Kolbeinn og Vandráður prófessor sjást síðan á 6 þeirra hver en aðrar af söguhetjum bókaflokksins fá heldur minna rými eða athygli. Helstu bófar seríunnar fá auðvitað einnig sínar myndir eins og aðrir en annars miðast fjöldi og stærð myndanna oftast við aðkomu eða vægi persónanna í bókunum. Á sama hátt virðist útlit eða umfang margra myndarammanna sjálfra stýrast af stétt eða stöðu þeirra sem á myndunum eru. Konungar og prinsar fá íburðamikla og vandaða myndaramma á meðan rammar fátækra og snauðra persóna eru mjög látlausir og einfaldir. Litli svarti, leiðsögudrengurinn Kókó úr Tinna í Kongó  fær til dæmis ekki einu sinni ramma utan um sína mynd og sömu sögu má reyndar einnig segja um nokkrar aðrar sambærilegar, stéttalágar persónur. 
Það vekur svolitla athygli að ungfrú Vaíla Veinólínó fær aðeins eina mynd af sér á opnunum tveimur og þau Irma og Ívar Eltiskinn enga. Skýringuna á því má auðvitað rekja til þess að þessar opnur voru teknar í notkun árið 1958, eins og áður var minnst á, en eins og gefur að skilja vantar þar þá myndir úr fjórum síðustu sögum seríunnar. Myndir úr bókunum Tinni í Tíbet (1960), Vandræði Vaílu Veinólínó (1963), Flugrás 714 til Sydney (1968) og Tinni og Pikkarónarnir (1976) birtust því ekki á þessum opnum og var aldrei bætt í hópinn eftir að þær komu út. Af þessari sömu ástæðu má þar til dæmis ekki heldur finna myndir af sjerpanum Terka, Páli Pumpu, Carreidas, Döggu hans Alkasars og Magnsteini múrarameistara svo einhverjar persónur séu nefndar. En alls hafa þessar tvær opnur að geyma myndir af 115 mismunandi einstaklingum og þar af eru 21 þeirra nafnlausir. Flestar myndanna koma af persónum bókarinnar Vindlar Faraós eða 15 talsins og 11 koma úr Föngunum í Sólhofinu en fæstar þeirra eru úr Tinna í Kongó og Svaðilför í Surtsey eða 4 úr hvorri sögu. Og svo kemur auðvitað engin sögupersóna úr síðustu fjórum bókunum eins og áður var getið.
En þessar innri kápur hafa ekki bara verið viðloðandi sjálfar Tinna bækurnar þó upphafið megi rekja til þeirra. Hið sígilda útlit opnanna hafa orðið mörgum hugmyndaríkum listamönnum innblástur og ýmsir hafa dundað sér við að nýta sér þessa þekktu fyrirmyndir í gegnum tíðina við að útbúa sín eigin tilbrigði við stefið. Sumt af þessu efni tilheyrir myndasögum þar sem listamennirnir hafa vottað Hergé virðingu sína ýmist með innri bókakápunum einum eða heilu bókunum. En annað tengist oft skemmtilegum útgáfum þar sem handlagnir einstaklingar hafa eingöngu verið að leika sér svolítið með hugmyndina. Margt af því er einnig nokkuð skemmtilegt.
Og svo ekki sé talað um nýtingu opnanna í hönnunarlegu tilliti fyrir heimilið. SVEPPAGREIFINN fjallaði einmitt einu sinni um veggfóður, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem var í boði fyrir aðdáendur Tinna bókanna og selt var fyrir líklega mörgum áratugum. Að líkindum var þetta betrekk ætlað barnaherbergjum sjöunda eða áttunda áratugs 20. aldarinnar en hætt er við að margir aðdáendur Tinna í dag væru til í að eiga nokkrar rúllur af þeim gersemum fyrir myndasöguherbergið sitt. Og líklega myndu allra hörðustu aðdáendurnir og safnarar bókaseríunnar vilja veggfóðra öll helstu rými heimili síns með þessum myndarömmum.
Og svo er best að ljúka þessari skrautlegu færslu með sýningarrými úr Château de Cheverny kastalanum í Loire Valley í Frakklandi en hann var líklega helsta fyrirmynd Hergé að Myllusetrinu í bókunum um Tinna. Þarna var í gangi sýning, fyrir nokkrum árum síðan (og er kannski enn), tileinkuð seríunni um Tinna og hluta kastalans var meðal annars breytt í þekkt sögusvið úr bókunum. SVEPPAGREIFINN fjallaði til dæmis um baðherbergið að Myllusetri í færslu hér á síðunni fyrir fáum árum. En margir sögulegir munir tengdir bókunum voru til sýnis þarna í Château de Cheverny og eitt rýmið var til að mynda skreytt með myndarömmum úr þessum sígildu opnum. Hér má sjá hluta af þeim veggjum en inn í marga myndarammanna er búið að skipta út myndum og bæta inn þekktum augnablikum í lit úr Tinna bókunum í staðinn. Aldeilis gaman að þessu.

2 ummæli:

  1. Frábær samantekt. Ég hef eytt miklum tíma í að reyna að i finna Tinna veggfóður eftir fyrri færsluna þína. Núna er ég í miklum framkvæmdum heima og er m.a. að gera sjónvarpsherbergi þar sem Tinna veggfóður hefði passað frábærlega.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér, Rúnar.

    Ég vona innilega að þér takist að finna svona veggfóður og endilega leyfðu okkur hinum nördunum að njóta þess með þér ef það tekst :) Ég held að þú ættir að geta fengið einhverja prentsmiðju til að prenta þessa mynd á límfólíu (eins og strætó eru heilmerktir með) en líklega kostar það töluvert.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!