19. mars 2021

187. ÓÚTGEFIÐ HLIÐARSPOR ALLA, SIGGU OG SIMBÓ

Fyrir ekki svo löngu síðan birti SVEPPAGREIFINN færslu hér á Hrakförum og heimskupörum þar sem teknar voru fyrir fáeinar hugmyndir að Tinna sögum sem aldrei urðu að veruleika. Um það allt saman má lesa í færslu hér þar sem fjallað er um eitt og annað um týnd Tinna handrit. Þarna var grúskað í ýmsu efni sem Hergé hafði lagt drög að, sem tilvonandi ævintýrum með Tinna, en komust þó aldrei á þau stig að verða að einhverri alvöru. Þessar hugmyndir allar komust á misjafnlega löng komin stig. Þekktust er auðvitað síðasta sagan, Tintin et l'Alph-Art, sem Hergé var að vinna að þegar hann lést en af öðru efni skal nefna sögu sem hann nefndi Tintin et le Thermozéro. Árið 1960 hafði Tintin au Tibet (Tinni í Tíbet) verið nýkomin út í bókarformi þegar Hergé hóf fyrir alvöru undirbúning að næstu sögu. Fæðing þess handrits varð þó reyndar nokkuð erfið. Hergé hafði fengið hugmynd til að byggja á en grunnurinn að henni hafði orðið til eftir að hann hafði lesið grein í franska tímaritinu Marie-France árið 1957. Þar sagði frá bandarískri fjölskyldu sem hafði orðið fyrir geislun fyrir slysni en fólkið var reyndar fórnarlamb þarlendra yfirvalda við tilraunir með geislavirk efni. Greinin var því í raun uppljóstrun, á þessum leynilegu tilraunum, og var eftir blaðamanninn Philippe Labro. Af þessari afhjúpun blaðsins varð heilmikið hneyksli sem bandarísk yfirvöld reyndu að þagga niður eftir bestu getu. Hergé varð hins vegar mjög heillaður af þessari frásögn og hugðist nota sér hana að einhverju leyti sem grunn að nýrri Tinna sögu. 

Hergé komst þó fljótlega í þrot með hugmyndina og tveimur árum seinna ákvað hann að fá Jacques Martin, höfund seríunnar um Alex hugdjarfa og samstarfsmann sinn hjá teiknimyndatímaritinu Le Journal de Tintin, til að hjálpa sér við að bæta handritið. Hergé varð þó ekki heldur sáttur við þá útfærslu og fékk því næst Greg (Michel Régnier), sem starfaði þá hjá Hergé Studios, til að vinna almennilegt handrit upp úr gögnunum. Í dag er Greg þekktastur fyrir myndasögur sínar um Achille Talon (Alla Kalla) og handritsvinnu að nokkrum sögum um Sval og Val. Greg, sem líklega er óhætt að fullyrða að hafa verið ofvirkur, skrifaði fyrir hann tvö handrit sem hann kaus að nefna Les Pilules og Tintin et le Thermozéro og skilaði honum tveimur dögum síðar. Hergé valdi hið síðarnefnda enda var handritið talið mjög gott og hann hóf að teikna upp söguna samkvæmt því. Verkefnið féll hins vegar um sjálft sig þegar Hergé áttaði sig á því að hann yrði aldrei ánægður með Tinna sögu sem væri eftir einhvern annan handritshöfund en hann sjálfan. Reyndar voru það óskráð lög hjá Hergé Studios að Hergé einn væri ávallt skrifaður fyrir sögum sínum þó fjölmargir aðrir aðilar kæmu yfirleitt að verkefnunum. Það hefði því eflaust litlu breytt þótt handrit Gregs hefði verið notað en handritshöfundurinn fékk alla vega vel greitt fyrir viðvikið.

Hergé hafði þó byrjað að teikna upp söguna eftir handritinu og fyrstu átta blaðsíðurnar eru til í nokkuð endanlegri mynd þó þær séu ekki fullteiknaðar. Þá mun hann hafa rissað upp nokkrar grófar heildarútfærslur af sögunni eftir handritinu en engin þeirra var þó komin lengra en á blaðsíðu fjörtíu og þrjú. Löngu seinna komu fram gögn með upplýsingum um að Hergé hefði gert ráð fyrir að andi Kalda stríðsins yrði áberandi í sögunni og atburðarrás hennar myndi berast alla leið til Berlínar. Um söguþráð Tintin et le Thermozéro má lesa meira um í áðurnefndri færslu SVEPPAGREIFANS frá síðasta sumri. En í stað Tintin et le Thermozéro hóf Hergé nú vinnu að annarri sögu sem nefndist Les Bijoux de la Castafiore, sem við þekkjum sem bókina um Vandræði Vaílu Veinólínó, en sú saga kom fyrst út í bókarformi árið 1963. Handrit Gregs, sem var fimmtán blaðsíður að lengd, gleymdist þó ekki. Hergé fannst handritið býsna gott og tímdi ekki að fórna því og hugðist nýta sér það seinna, fyrir teiknimynd um Tinna, en ekkert varð heldur af þeim áformum. Að endingu varð því úr að hann fól félaga sínum, Bob de Moor hjá Hergé Studios, að aðlaga handritið að seríunni um Alla, Siggu og Simbó og hefja þar með vinnu við fjórðu söguna í þeim bókaflokki. Seríuna um þau hafði hann í raun sett á laggirnar, á fjórða áratuginum, eftir beiðni frá franska barnatímaritsinu Coeurs Vaillants. Ritstjóri blaðsins hafði óskað eftir nýjum og spennandi myndasögum frá Hergé þar sem venjuleg fjölskyldugildi væri ríkjandi og þannig hugsuð í anda kaþólskrar trúar. Hergé fannst hann þó alltaf vera of bundinn eða háður fjölskylduþemanu og hætti fljótlega að teikna þessar sögur enda var hann aldrei hrifinn af þessari seríu.

En þau Alla, Siggu og Simbó, eftir Hergé, þekkja íslenskir myndasögulesendur flestir líklega nokkuð vel. Reyndar komu ekki út hér á landi nema tvær af bókunum fimm úr bókaflokknum en sögurnar sjálfar voru þó í rauninni aðeins þrjár. Erfðaskrá auðkýfings og Kappflugið til New York voru þær bækur sem komu út hér hjá Fjölva útgáfunni veturinn 1978 og Þorsteinn Thorarensen þýddi þær. Á frummálinu nefnast þær Le Testament De Mr Pump (1951) og Destination New York (1951) en þetta voru einnig fyrstu tvær bækurnar í upprunalegu seríunni og mynduðu í raun heila sögu. Le "Manitoba" Ne Répond Plus (1952) og L'Éruption du Karamako (1952) komu næstar og mynduðu einnig eina heild en fimmta bókin var stök og nefndist La Vallée Des Cobras. Í ennþá meira framhjáhlaupi má kannski geta þess að sögurnar birtust þó upphaflega í annarri röð, bæði hjá tímaritunum Coeurs Vaillants og Le Petit Vingtiéme, á árunum 1936-39. Handrit Gregs að Tintin et le Thermozéro var því hugsuð sem fjórða sagan í bókaflokknum um Alla, Sigga og Simbó eða Jo, Zette og Jocko eins og þau heita á frummálinu. Bob de Moor byrjaði því að teikna upp söguna en lagði hana þó fljótlega á hilluna eftir að Hergé hafði falið honum öðrum brýnni verkefnum hjá Hergé studios. Í seinni tíð hefur þó komið fram að eitthvað hafi varðveist af þessu teikningum De Moor af sögunni. 

Nokkur sýnishorn af blýantsteikningum hans, ásamt skýringum og athugasemdum, birtust til að mynda í ævisögu Bob de Moor en hún var skrifuð Bernard nokkrum Tordeur sem seinna varð yfirskjalavörður hjá Hergé studios. Það hefur auðvitað enginn hugmynd um hver í ósköpunum sá gaur var. En Tordeur þessi skýrði síðar frá því í viðtali að Bob de Moor hefði í raun og veru teiknað upp alla söguna Thermozéro með þau Alla, Siggu og Simbó í aðalhlutverkunum. Ekki hefði þó verið um að ræða fullteiknaða og unna sögu heldur væri hún frekar rissuð upp í grófum dráttum en þó þannig uppsett að tiltölulega einfalt væri að teikna hana upp í endanlegu formi og gefa út. Þá væri einnig auðveldlega hægt að gefa söguna út með skýringum af svipuðum toga og Tintin et l'Alph-Art. Aðspurður af hverju þessar upplýsingar hefðu ekki komið áður fram kvaðst Bernard Tordeur einfaldlega aldrei hafa verið spurður um þær enda hefðu sögurnar um Alla, Siggu og Simbó ekki þótt merkilegar og auðvitað aldrei verið jafn hátt skrifaðar og Tinni. Augljóslega hefur handrit Gregs þó ekki gengið upp með þessum nýju sögupersónum án töluverðra breytinga. Það gefur auga leið að handritið hafi þurft að aðlaga að nýjum og breyttum aðstæðum. Alli, Sigga og Simbó eru ekki Tinni og Kolbeinn og sem dæmi um augljósa breytingu má nefna það að í byrjun upprunalega handritsins koma þeir Tinni og Kolbeinn akandi á bíl að vettvangi bílslyss. Alli og Sigga keyra auðvitað ekki bíl en það gera foreldrar þeirra hins vegar. Hér fyrir neðan má sjá tvö uppköst að fyrstu blaðsíðu sögunnar eins og Bob de Moor sá hana fyrir sér.

Á síðustu árum hafa öðru hvoru komið fram sögusagnir um að þessi Thermozéro saga muni verða gefin út í komandi framtíð í einhverju formi. Og getgátur hafa jafnvel verið um það að Alla, Siggu og Simbó útgáfan, eftir Bob de Moor, yrði þá fyrir valinu. Einhverjar þreifingar voru um þessa útgáfu en samkvæmt upplýsingum frá Casterman útgáfunni hafa þau áform þó verið sett á bið. Benoît Mouchart sem er útgáfustjóri Casterman vill óður og uppvægur gefa út Thermozéro söguna, hvort sem það yrði með Tinna eða Alla, Siggu og Simbó, en líkt og svo oft áður strandar það á leyfi frá rétthafanum Moulinsart stofnuninni. Þar ræður auðvitað ríkjum ekkja Hergé, Fanny Rodwell (og reyndar einnig núverandi eiginmaður hennar Nick Rodwell), og aðeins hún getur heimilað útgáfu af óloknum ævintýrum Tinna en nokkrar deilur hafa staðið á milli þessara tveggja aðila undanfarin ár. Fanny Rodwell hefur, allt frá því Hergé lést árið 1983, staðið föst á því að virða óskir hans um að ekki yrðu gefnar út fleiri Tinna bækur að honum látnum. Þó virðist sem hún hafi heldur mildast í afstöðu sinni gagnvart ýmsu er varðar útgáfurétt Tinna bókanna á undanförnum árum. Sem dæmi um það má nefna, frekar óvænt útspil Moulinsart, þegar gefin var heimild fyrir því að Tintin au pays des Soviets (Tinni í Sovétríkjunum) var loksins gefin út í litaðri útgáfu. Það þótti bera vott um ákveðna þýðu og í seinni tíð virðist sumum sem Rodwell hafi gefið undir fótinn með ýmsar fleiri eftirgjafir þó ekki komi fram hvað um þar er að ræða. 

En þó ný saga um Alla, Siggu og Simbó yrði í sjálfu sér aldrei einhver stórmerkilegur viðburður þá er ljóst að verkefnið hlyti að teljast nokkuð forvitnilegt vegna hinnar upphaflegu tengingu sögunnar við Tinna. Auk þess sem serían er auðvitað upp runnin frá Hergé. Það verður alla vega fróðlegt að sjá hvort eitthvað merkilegt gerist í þessum efnum í náinni framtíð.

4 ummæli:

 1. Takk. Alltaf gaman að lesa þessa pistla þína.

  SvaraEyða
 2. Takk sömuleiðis fyrir innlitið :)

  Kveðja,
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 3. Seinasta saga þeirra er verulega góð og synd að hún hafi ekki verið gefin út hér. Hinar aftur á móti slakna verulega í samanburðinum. Takk fyrir pistilinn, alltaf gaman að lesa.

  SvaraEyða
 4. Ég á síðustu söguna einhvers staðar (á sænsku minnir mig) og hef lesið hana - man samt ekkert eftir henni. En nú er alla vega komin ástæða til að draga bókina fram og lesa.

  Takk fyrir lesturinn :)

  Kveðja,
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!