5. mars 2021

186. ALLI KALLI LOKSINS KOMINN Í LEITIRNAR

Loksins tókst SVEPPAGREIFANUM að verða sér úti um eintak af hinni goðsagnakenndu myndasögu Alli Kalli í eldlínunni. Það er að vísu kannski töluvert orðum aukið að hér sé um að ræða goðsagnarkenndan grip en engu að síður hefur hann beðið eftir að komast yfir þessa bók, af nokkurri eftirvæntingu, í svolítinn tíma. Alli Kalli í eldlínunni fór svo sem ekkert mjög hátt hjá þeim íslensku myndasögulesendum sem drukku í sig þessar bókmenntir á árum áður en engu að síður hefur þessi bók verið svolítið erfið viðureignar fyrir SVEPPAGREIFANN að eignast. Hann rakst reyndar tiltölulega oft á bókina um Alla Kalla, hér áður fyrr, en var þá ekki mikið að hafa fyrir því að grípa hana með sér. Honum fannst ekki taka því að vera að eltast við þessa minni spámenn sem svo auðvelt var að nálgast. Og hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að fletta bókinni í þau skipti sem hann rakst á hana. Alli Kalli í eldlínunni hafði nefnilega einhvern veginn lent svolítið utanveltu í flokki með ómerkilegri myndasögum eins og Stjána bláa, kettinum Felix og Bleika pardusinum. Þessar bækur allar hafa því í gegnum tíðina verið látnar mæta afgangi hjá SVEPPAGREIFANUM enda taldi hann alltaf frekar einfalt að finna þær og fannst ekkert bráðliggja á að troða þeim inn í safnið sitt í myndasöguhillunum. 

Fyrir fáum árum rakst hann hins vegar á myndasögur um hinn sjálfsumglaða Achille Talon á flóamarkaði úti í Sviss og áttaði sig strax á að þar var auðvitað um sjálfan Alla Kalla að ræða. Hann keypti því af forvitni tvær bækur með honum á frönsku og uppgötvaði, í framhaldinu af því, að Achille Talon hefði verið hugarfóstur belgíska handritshöfundarins og listamannsins Greg (Michel Régnier). Og þegar SVEPPAGREIFINN fór að gúggla þessar bækur enn frekar uppgötvaði hann að bókin Alli Kalli í eldlínunni er í sérstöku uppáhaldi hjá myndasögu-, bjór- og sagnfræðingnum kunna Stefáni Pálssyni. Það vakti auðvitað enn frekari forvitni hans og því tók nú við langt tímabil sem gekk út á það að reyna að eignast gott eintak af þessari merkilegu bók. Það hefur reyndar gengið svona upp og niður. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem nokkrum sinnum rekið augun í þessa teiknimyndasögu, á ýmsum þar til gerðum vettvöngum, en einhverra hluta vegna alltaf farið á mis við nægilega gott eintak. Við eftirgrennslan þeirrar bókar hefur hann þó reyndar orðið sér úti um að minnsta kosti tvær bækur í viðbót úr þessari seríu á dönsku.

Að öðru leyti hafði leitin lítinn árangur borið þar til nú í byrjun árs. En þá fann hann loksins þetta líka fína eintak af Alla Kalla í eldlínunni í sjálfum Góða hirðinum - allra bestu bókabúðinni í bænum. Það var Fjölva útgáfan, með Þorstein heitinn Thorarensen í broddi fylkingar, sem gaf út þessa myndasögu fyrir jólin árið 1980. Þorsteinn sjálfur þýddi bókina en þetta varð reyndar eina teiknimyndasagan sem kom út í þessum bókaflokki um Alla Kalla á íslensku. En líklega hefur íslenskum myndasögulesendum ekki litist vel á þessa fyrstu sögu um kappann og þessi bók seldist augljóslega ekki nægilega mikið til að réttlæta frekari útgáfu bóka úr seríunni á íslensku. Fjölvi var þá búinn að klára og senda frá sér allar Tinnabækurnar og Lukku Láki naut einnig orðið mikilla vinsælda en auk þess voru bækurnar um Sval og Val á sama tíma að slá í gegn hjá bókaútgáfunni Iðunni. Einhvern veginn hefur Alli Kalli því lent undir í öllu þessu myndasöguflóði og bækurnar um hann urðu ekki fleiri hér á landi. Það voru reyndar fjölmörg dæmi um það að ein til þrjár bækur úr hverri seríu væru gefnar út á Íslandi áður en útgefendur þeirra gáfust upp. Stærð myndasögumarkaðsins var einfaldlega ekki burðugri en þetta hér á landi.

Eins og svo oft á þessum árum voru teiknimyndasögur á íslensku gefnar út í samfloti með prentunum á hinum Norðurlöndunum og Alli Kalli í eldlínunni kom einmitt líka út í Danmörku hjá Interpresse útgáfunni fyrir jólin árið 1980. Á dönsku heitir þessi myndasaga August Julius - Kaminpassiar og var önnur bókin í seríunni sem kom út þar í landi. Alls komu út fimm bækur um August Julius á dönsku á árunum 1979-82 en einnig kom út ein þykk vasabrotsbók í svipaðri stærð og Lukku Láka bókin Á léttum fótum. Þá hafa að minnsta kosti fjórar bækur úr seríunni komið út á norsku, þar sem Achille Talon kallast Julius Jensen, og á finnsku nefnist hann Akilles Jänne. Þar er reyndar svolítið óljóst hversu margar bækur úr seríunni um hann komu út. Þá má þess einnig geta að í Hollandi eru þessar myndasögur gríðarlega vinsælar og í heildina hafa fjörtíu bækur úr bókaflokknum komið þar út. Alls hafa bækurnar um Alla Kalla verið þýddar á ellefu tungumálum innan Evrópu en auk þess hefur serían einnig komið út í Indonesíu. Upprunalega heitið á Alla Kalla í eldlínunni er Achille Talon au coin du feu og hún kom út í Frakklandi árið 1975. 

Achille Talon birtist fyrst í 211. tölublaði myndasögutímaritsins Pilote þann 7. nóvember árið 1963. Hið franska Pilote hafði verið í nokkrum fjárhagserfiðleikum, fljótlega upp úr stofnun blaðsins árið 1959, en þegar Dargaud útgáfufyrirtækið tók yfir rekstur þess voru gerðar ýmsar breytingar til hins betra. Hluti af þeim breytingum fólust einmitt í aðkomu Achille Talon og á svipuðum tíma fór Blueberry (Blástakkur) einnig að birtast í tímaritinu. Í tilefni þess að myndasögurnar um Achille Talon hófu göngu sína í Pilote birti ritstjórinn, og handritshöfundurinn afkastamikli, René Goscinny lýsingu á þessari nýjustu persónu blaðsins í vikulegum pistli sínum. Þar sagði hann meðal annars að Achille Talon byggi yfir yfirgripsmikilli þekkingu sem jafnaðist á við alfræðiorðabók ... sem vantaði margar blaðsíður í! Upphaflega var það reyndar Goscinny sjálfur sem bað Greg um að skapa einhverja skemmtilega fígúru til uppfyllingar á síðum blaðsins þegar auglýsendur brugðust. Greg brást snöggt við og á aðeins fimmtán mínútum var hann búinn að fullvinna hugmyndina. Hann ákvað að endurskapa að einhverju leyti þekkta franska myndasöguhetju, frá fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, sem kallaðist Monsieur Poche og var eftir Alain Saint-Ogan. Achille Talon er því að hluta til innblásinn af þeirri persónu í útliti en er reyndar mjög ólíkur honum að öðru leyti. 

Jafnframt því að í hverri viku birtust nokkrar blaðsíður með Achille Talon, í Pilote tímaritinu, var þeim safnað saman og þær einnig gefnar út í bókaformi eins og hefð var fyrir í fransk/belgiska myndasöguheiminum. Alls komu út hátt í 50 bækur með kappanum á frummálinu og nutu þær töluverðra vinsælda. Fram til ársins 1975 birtist Achille Talon reglulega, á einnar eða tveggja síðna bröndurum, í Pilote en upp úr því fóru einnig að koma fram heilar sögur með kappanum sem voru 44 blaðsíður að lengd. Hann varð fljótlega eitt af helstu flaggskipum blaðsins og svo mikilla vinsælda naut Achille Talon að á svipuðum tíma fékk hann jafnvel gefið út sérstakt tímarit sem var tileinkað honum einum. Það tímarit nefndist Achille Talon magazine og lifði reyndar ekki nema eitt ár, enda þótti það frekar lélegt, en aðeins komu út sex tölublöð af því. Helsta ástæða þess var þó gríðarleg verðhækkun á pappír sem varð í kjölfar þess að olíukreppan skall á um svipað leyti.

En Achille Talon er undarlegur náungi sem finnst ofboðslega gaman að tala og er þá um leið líka eiginlega alveg óþolandi. Hann er heimspekilega þenkjandi og uppfullur af ofmetnum hugmyndum um eigið ágæti en mest af því sem hann hefur fram að færa stýrist reyndar aðallega af innihaldslausu orðagjálfi. Sú munnræpa kemur helst fram í stórum, mörgum og yfirfullum talblöðrum sem fylla oft á tíðum vel upp í myndarammana. Það sem hann hefur helst fram að færa einkennist af fáguðu orðavali, oft krydduðu með menningatengdum og fræðilegum skírskotunum. Nánast allt sem hann segir er hluti af skemmtilegum en lúmskum orðaleikjum sem oft er reyndar erfitt að ná úr frummálinu. Stundum hefur jafnvel verið talað um að svo örðugt sé að átta sig á bröndurunum, í þessum orðaleikjum Achille Talon, að hreinlega þurfi að vera búið að endurlesa bækurnar nokkrum sinnum áður en þeir komast til skila. Þegar lesendur eru síðan loksins búnir að ná orðaleikjabröndurunum eru menn sammála um að sá húmor sé mjög fyndinn. Það er að segja ef hann er ekki of flókinn því það er víst ekki á allra færi að skilja hann. Þannig má kannski segja að myndasögurnar um Achille Talon séu mjög fyndnar þó lesandinn sé ekki alltaf endilega vel meðvitaður um það! Sjálfur sagði Greg einhvern tímann í viðtali að orðagjálfur Achille Talon væri innblásið af einum af eðlisfræðikennurum hans frá námsárunum en hann gat talað klukkutímunum saman í svipuðum anda. Þetta flókna myndasöguefni hefur þó skilað sér á einhvern hátt inn í franskar kennslubækur og meira að segja í nokkrar doktorsritgerðir í Frakklandi, Belgíu og Kanada. Það hefur því væntanlega verið erfitt fyrir Þorstein Thorarensen að reyna að koma þessum orðaleikjum til skila í þýðingunni hans á Alla Kalla í eldlínunni

Sögusvið Achille Talon er mikið til í kringum heimili hans, í úthverfi stórborgarinnar þar sem hann býr, og bókin Alli Kalli í eldlínunni gerist til dæmis nær eingöngu á þeim slóðum. Í nokkrum af bókunum um hann kemur fram að hann búi í París og framan á kápu bókarinnar Achille Talon au pouvoir, frá árinu 1972, má einmitt sjá hvar Eiffelturninum bregður fyrir í bakgrunninum. Annars kemur hann yfirleitt nokkuð víða við og er til dæmis duglegur að bregða sér í sveitaferðir úti í náttúrunni. Skrifstofan þar sem hann starfar er vinsælt sögusvið og einnig bakgarðurinn heima hjá honum og nágranna hans, Hilarion Lefuneste (hann heitir Faraldur á íslensku), sem kemur nokkuð oft við sögu. Lefunete þessi er í eilífum átökum við Achille Talon og reglulegur pirringur þeirra á milli er mjög áberandi í bókunum þó þess á milli séu þeir reyndar perluvinir. Fyrst og fremst byggjast þessi átök þeirra á hvössum orðaskiptum en iðulega eru þó hnefarnir einnig látnir tala. Þess má geta að persónuna Hilarion Lefuneste byggir höfundurinn Greg að miklu leyti á sjálfum sér. Af öðrum af helstu aukapersónum seríunnar má nefna foreldra hans, hinn bjórþyrsta alkóhólista Alambic Dieudonné Corydon Talon (kallaður Pápi) og móður hans maman Talon.

Acille Talon er einhleypur, býr hjá foreldrum sínum og það er því eðlilegt að að þau komi nokkuð við sögu seríunnar. Móðir hans, sem er gamaldags húsmóðir, ber mikla umhyggju fyrir honum, verndar hann eftir bestu getu og hefur stöðugar áhyggjur af líðan hans. Faðir hans er hins vegar af öðru toga. Þeir feðgarnir eru reyndar nokkuð líkir útlitslega utan gríðarlegrar rauðrar hormottu sem sá gamli skartar en lengra nær samlíkingin ekki. Hið yfirþyrmandi bjórþamb föður hans er meðal annars eitt þeirra atriða sem gera það að verkum að Achille Talon á lítið erindi við börn og hinir flóknu orðaleikir ýta ennfremur undir þá skoðun. Í rauninni er það óskiljanlegt að þessi myndasögupersóna hafi ratað í hið vinsæla Pilote tímarit sem var aðallega tileinkað frekar ungum markhópi. Achille Talon telst því klárlega til andhetja og brandararnir um hann minna um margt á Viggó viðutan þó persónurnar séu afar ólíkar. Báðir starfa þeir hjá útgáfufyrirtækjum. Viggó auðvitað hjá tímaritinu Sval (SPIROU) en Achille Talon starfar hjá dagblaðinu Polite (Kurteisi!) sem er auðvitað orðaleikur og afbökun á tímaritinu Pilote sem myndasögupersónan sjálf birtist einmitt í. Samstarfsfólk þeirra beggja verður auðvitað jafnan fyrir barðinu á aðalsöguhetjunum og hjá Polite er það sjálfur René Goscinny sem er ritstjóri blaðsins. Í þessum bókum er Goscinny reyndar teiknaður sem mjög lágvaxinn, skapvondur og tannhvass maður.


Svo föst varð þessi dvergsímynd hans í seríunni að það kom mörgum lesendum Achille Talon í opna skjöldu þegar þeir hittu Goscinny sjálfan í eigin persónu og uppgötvuðu að hann var í raun meðalmaður á hæð. Þá voru þeir Greg og André Franquin, höfundur Viggós viðutan, ágætir félagar og unnu saman við ýmis verkefni hjá SPIROU tímaritinu á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar. Hann var Franquin til dæmis innan handar við handritsgerð að nokkrum sögum um Sval og Val en einnig samdi hann fáein handrit um skötuhjúin Modeste og Pompon fyrir sama listamann. Franquin hafði leiðbeint Greg með teiknivinnu sína þegar sá síðarnefndi hóf störf hjá SPIROU á sínum tíma. Og Greg lét hafa það eftir sér löngu seinna að hæfileikar Franquins hefðu verið slíkir að hann hefði fundið fyrir algjörum vanmætti gangvart listamanninum snjalla. Greg hefði haft það á tilfinningunni að Franquin þyrfti að leiðbeina honum um hvorn endann á teiknipennanum hann ætti að nota, svo lélegur hafði honum sjálfum þótt hann vera í samanburðinum. Seinna heiðraði Greg vin sinn með því að teikna hann inn í eina af sögum sínum um Achille Talon.

Þá var Greg einnig aðalritstjóri Le Journal de Tintin (Tinna tímaritsins), á árunum 1965-74, jafnframt því að teikna Achille Talon í Pilote. Greg var auðvitað fyrst og fremst handritshöfundur og eftir hann liggja vel á annað hundrað sögur fyrir marga mismunandi listamenn. Sem dæmi um vinnu Greg má til dæmis nefna kvikmyndahandritið að Tintin et le lac aux requins (Tinna og hákarlavatninu) frá árinu 1972 og handrit fyrir Hergé að Tinna sögunni Tintin et le Thermozéro sem þó var aldrei teiknuð. Um þá sögu fjallaði SVEPPAGREIFINN meðal annars í færslu hér fyrir ekki svo löngu. Sjálfur hóf Greg feril sinn sem myndasöguteiknari og reyndi fyrir sér á ýmsum vettvangi þar en af þeirri vinnu allri urðu myndasögurnar um Achille Talon þó langþekktastur. Eftir hann liggja því um tvö hundruð og fimmtíu verk af ýmsum toga, bæði handritum og teiknivinnu, sem gera hann að einum af áhrifamestu listamönnum belgísk/frönsku myndasögugerðarinnar. Greg lést í október árið 1999.

Eftir að hafa gluggað svolítið í þessar myndasögur um Achille Talon (eða Alla Kalla) verður SVEPPAGREIFINN að játa að hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Brandararnir eru svo sem alveg lipurlega teiknaðir og allt það, þó þeir séu reyndar engin listaverk, en grínið sjálft er ekki að heilla hann. Fyrr í færslunni er minnst á flókna orðaleiki þar sem Alli Kalli fer á kostum í munnræpu sinni og margir lesendur seríunnar lýsa yfir sérstakri aðdáun sinni á þeim. Auðvitað er SVEPPAGREIFINN ekki lesfær af neinu viti á frönsku en með aðstoð Greifynju sinnar tókst honum að stauta sig fram úr nokkrum bröndurum bóka sinna áður en hann gafst upp. Og sömu sögu má segja um dönsku útgáfurnar hans. SVEPPAGREIFANUM fannst húmorinn eiginlega bara þreytandi og honum þótti persónan Alli Kalli bæði leiðinleg og óþolandi - sem hann á reyndar auðvitað að vera. Hugsanlega var eina íslenska bókin, Alli Kalli í eldlínunni, heldur ekki heppilegasta bókin til að byrja bókaflokkinn á hér á landi. Að sumum bröndurum seríunnar var reyndar alveg hægt að brosa svolítið en hreinskilnislega voru það helst textalausu brandararnir sem honum þóttu fyndnir.


Auðvelda skýringin hlýtur því að felast í að SVEPPAGREIFINN sé of einfaldur eða heimskur til að skilja húmorinn. Fjölmargir hafa lýst yfir hrifningu sinni yfir þessari seríu og þar sem hann hafði aldrei áður flett bókinni Alla Kalla í eldlínunni reiknaði hann líklega alltaf með að vera með óuppgötvaðan gullmola í höndunum. Væntingarnar voru því kannski fullmiklar. Ætli að ráðleggingarnar um síendurtekinn lestur bókanna, til að skilja brandarana, eigi því ekki fullan rétt á sér? Hugsanlegt er að SVEPPAGREIFINN verði loksins búinn að ná húmornum í kringum sextugt!

En gott eintak af Alla Kalla í eldlínunni er alla vega loksins komin í myndasöguhillur SVEPPAGREIFANS og það er auðvitað fyrir mestu. 

2 ummæli:

  1. Villi Kristjans7. mar. 2021, 21:54:00

    Ég er sammála þvi hve þessar langlokur Hans Alla Kalla eru þreytandi en það er nauðsynlegt að eiga hana. Hef lesið þessa bók sennilega tvisvar og sumt er ágætt en held ég lesi hana ekki aftur á næstu árum. Svo á ég aukaeintak af þessari bók ofan í allt.

    SvaraEyða
  2. Langlokur eru einmitt rétta orðið yfir þessa munnræpur Alla Kalla.

    En það er auðvitað aðalatriðið, eins og þú segir, að það er nauðsynlegt að eiga bókina og nú eru þær líklega ekki orðnar margar myndasögurnar sem vantar í bókahillurnar hjá mér.

    Kveðja:
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!