26. nóvember 2021

193. Á SÆNSKUM SLÓÐUM TINNA

SVEPPAGREIFINN hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum fengið pósta með fyrirspurnum um ýmislegt sem viðkemur myndasögublogginu Hrakfarir og heimskupör. Stundum hafa safnarar og áhugafólk um myndasögur haft samband og spurst fyrir um einstaka bækur, sem minnst hefur verið á í blogginu, svo eitthvað sé nefnt. En einnig hafa lesendur spurst fyrir um ýmislegt efni, sem þeim finnst forvitnilegt og birst hefur hér á síðunni. Þannig hefur hann til að mynda fengið fleiri en eina fyrirspurn frá Hollandi varðandi grein um Sigga og Viggu og einnig frá Frakklandi um færslu sem fjallar um Yoko Tsúnó svo nýleg dæmi séu tekin. Allt er þetta gott og blessað og SVEPPAGREIFINN hefur reynt eftir bestu getu að aðstoða viðkomandi en það verður þó að viðurkennast að stundum eru þessir póstar verulega "utan þjónustusvæðis". Þá er víst lítið annað í stöðunni annað en að gerast skyndilega mjög upptekinn og gleyma alveg að svara þeim. 

Svo koma einnig póstar af allt öðrum toga. Þegar Gísli Marteinn Baldursson vann að hinum stórskemmtilegu og fróðlegu þáttum sínum um ævintýri Tinna, hjá Ríkisútvarpinu, fékk hann nokkra valinkunna einstaklinga til að ræða við sig um einstaka bækur úr seríunni. Gísli Marteinn hafði þá meðal annars samband og óskaði eftir því að fá að spjalla við SVEPPAGREIFANN um einhverja bókanna í einum þáttanna en hafði ekki erindi sem erfiði. Sá síðarnefndi viðurkennir fúslega að hann er lítið fyrir athyglina og afþakkaði þetta góða boð enda taldi hann einnig að aðrir væru miklu betur til þess fallnir bæði hvað almenna vitneskju og sérfræðiálit varðar.

Stuttu fyrir síðustu jól fékk SVEPPAGREIFINN sendan nokkuð áhugaverðan tölvupóst frá Svíþjóð. Þar var á ferðinni erindi frá forseta Generation T, Björn Wahlberg sem er kunnur rithöfundur, útgefandi og myndasöguþýðandi þar í landi, en þetta munu vera einu opinberu og viðurkenndu Tinna-samtökin á Norðurlöndunum. Starfsemi Generation T er undir viðurkenndri handleiðslu Moulinsart, sem er höfundaréttareigandi að verkum Hergés eins og allir vita, svo þessi samtök eru augljóslega mjög virt. Það er skemmtileg tilviljun að fyrir ekki svo löngu síðan hafði SVEPPAGREIFINN einmitt verið að skoða vefsíðu þessa samtaka. Ekki man hann þó nákvæmlega hvernig það kom til en hugsanlega var einhver á Facebook grúbbunni Teiknimyndasögur sem póstaði þar linki á þessa áhugaverðu síðu. Generation T eru, eins og áður segir, mjög virt samtök og halda úti afar fróðlegu starfi um allt sem viðkemur bókunum um Ævintýri Tinna og höfund þeirra Hergé. Þau skipuleggja ýmsa fyrirlestra og viðburði sem tengjast Tinna og eru í samstarfi við sambærileg samtök í öðrum löndum um heim allan. Sem dæmi um áhugaverða viðburði má nefna að samtökin hafa meira að segja staðið fyrir viskí-smökkun, sem væntanlega hefur þá verið til heiðurs viskí-áhugamanninum Kolbeini kafteini, en einnig má nefna regluleg Tinna-quiz og fyrirlestra með kunnum fyrirlesurum og fræðingum svo eitthvað sé nefnt. Þá má nefna að Generation T hafa jafnvel skipulagt ferðir á heimaslóðir Tinna í Belgíu. Þar hefur verið farið á Hergé safnið í Brussel og Cheverny kastalinn (sem er upphaflega fyrirmyndin að Myllusetri) verið heimsóttur svo dæmi séu tekin. Á heimasíðu Generation T má finna yfirlit yfir starf samtakanna ár hvert og á upptalningunni þar má sjá hve virkur og áhugaverður þessi félagsskapur er.

Frá upphafi hafa Generation T samtökin einnig sent frá sér vegleg ársrit í prentuðu formi eða öllu heldur árbækur sem nefnast Tintinism og innihalda mikið af áhugaverðu og skemmtilegu efni tengdu Ævintýrum Tinna. Árbókin Tintinism hefur undanfarin ár verið heilar 144 blaðsíður að lengd og troðfull af fróðlegum greinum, viðtölum og ýmsu öðru efni af mjög fjölbreytilegum toga. Bók þessi hefur ekki verið seld á almennum markaði og fæst því ekki í neinum bókabúðum og ekki er hægt að panta hana eina og sér beint frá samtökunum. Bókin er hins vegar innifalin í árgjaldi meðlima Generation T sem fá hana senda heim til sín í pósti ár hvert. Útgáfa Tintinism er einhvers konar hápunktur ársins hjá félagsmönnum samtakanna og kemur jafnan út um það leyti sem ársfundurinn er haldinn en það er í kringum afmælisdag Hergés sem er 22. maí. 

En aftur að hinum áðurnefnda tölvupósti Generation T. Í þessum pósti útskýrði forseti samtakanna fyrir SVEPPAGREIFANUM að í árbókinni hefðu í gegnum tíðina birst greinar sem fjalla um sögu Tinna bókanna á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Úr þessu vildi hann gera bragabót á. Fyrir tilviljun hefði hann rekist á gamla grein frá SVEPPAGREIFANUM, hér á Hrakförum og heimskupörum, sem fjallaði einmitt um sögu Tinna á Íslandi. Þessa færslu má einmitt lesa hér. Í kjölfarið óskaði hann eftir því að fá að endurbirta þýðingu af greininni fyrir næstu árbók og bauð SVEPPAGREIFANUM jafnframt að bæta við einhverjum viðbótarupplýsingum sem fram hefðu komið eftir að færslan var skrifuð. Þessi bón var að sjálfsögðu auðsótt og næstu vikurnar gengu tölvupóstarnir á milli þessara aðila með margvíslegum fyrirspurnum og upplýsingum. 

Það var síðan í seinni hluta maí mánaðar sem árbókin Tintinism 2021 var loksins send til allra meðlima samtakanna sænsku en þetta er í fjórtánda skiptið sem heftið kemur út. Í ár var reyndar ekkert eitt sérstakt þema sem tekið var fyrir en auk þessarar greinar SVEPPAGREIFANS inniheldur árbókin meðal annars skemmtilega grein um pílagrímsferð hins sænska Johans Marcopoulos til Akureyrar. En eins og allir vita leikur höfuðstaður Norðurlands stórt hlutverk í Tinna bókinni Dularfullu stjörnunni. Á Akureyri hitti Marcopoulos meðal annars hinn góðkunna fjölmiðlamann og upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, Svein H. Guðmarsson, en hann mun vera sérlegur áhugamaður um Tinnabækurnar eins og margir vita. Þess má geta að viðtal var tekið við Marcopoulos á sínum tíma sem birtist í fréttatíma RUV en það má sjá hér. En í ritinu Tintinism 2021 má einnig finna fróðlegar greinar um hið fjölbreytilega og skemmtilega málfar Kolbeins kafteins og vangaveltur um franska blaðamanninn Robert Sexé, sem fyrirmyndina að Tinna, svo fátt eitt sé nefnt. Alls er að finna um tuttugu skemmtilegar greinar í árbókinni að þessu sinni. SVEPPAGREIFINN fékk síðan, í byrjun júní, sent frá Svíþjóð eintak af Tintinism 2021 og er að sjálfsögðu afar stoltur af því að eiga efni í þessari árbók hinna virtu, sænsku Tinna samtaka.

SVEPPAGREIFINN hefur svo sem ekki mikla þörf fyrir því að lesa þessa grein sína í árbókinni góðu (hann skrifaði hana jú sjálfur og veit alveg um hvað hún fjallar) en hins vegar er fullt af öðru efni í ritinu sem án nokkurs vafa verður gaman að glugga í. Sjálfur er SVEPPAGREIFINN auðvitað algjörlega ósjálfbjarga á sænska tungu en hefur þó í gegnum tíðina látið sig hafa það að reyna að stauta sig fram úr myndasögum sem honum hefur áskotnast frá Svíaveldi. Töluvert er til af myndasögum sem ekki hafa enn komið út á íslensku og Lukku Láki á sænsku er til dæmis töluvert betri en enginn Lukku Láki. Ekki er honum kunnugt um hvort einhverjir íslenskir Tinna aðdáendur séu meðlimir í Generation T samtökunum en ef tekið er mið af þeim fjölda Íslendinga sem búsettir eru í Svíþjóð, vegna náms eða vinnu, ætti það svo sem ekki að koma mikið á óvart. Þessir helvítis Íslendingar leynast nefnilega nokkuð víða. SVEPPAGREIFINN hvetur allt áhugafólk um Ævintýri Tinna til að skoða heimasíðu Generation T og fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem eru sæmilega læsir á sænska tungu eru þessi samtök, með árbókinni sinni, algjör fjársjóður. Til að gerast félagsmaður þarf ekki annað en að fara inn á heimasíðuna þeirra og hafa samband þar í gegnum tölvupóst. Árgjaldið er 40 evrur (um 6000 kall) sem er lægri upphæð en mánuðurinn af áskrift að Stöð 2.

5 ummæli:

  1. Já, þessi helvítis Sveppagreifi treður sér alls staðar!

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  2. Fyrir nokkrum árum bjó ég í Svíþjóð og rak augun í þessa Tinna "aðdáendaklúbbsíðu" og munaði litlu að ég gengi í klúbbinn, en af einhverjum ástæðum varð ekki af því. Það var helst þetta árblað, Tintinism sem vakti áhuga minn. En ég lét vita af þessu klúbb einhversstaðar hér á Íslandi og kannski það hafi því verið það innlegg sem þú hefur séð einhversstaðar. Og eitthvað af sænskum bókum áskotnaðist mér, Tintin i Tibetfrá carlsen Comics, Den Svarta Ön,og Den mystiska stjärnan frá Tintins Äventyrklubb. Skemmtilegar bækur þær.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Það má einmitt vel vera að það hafi komið frá þér, Villi, þó ég muni það ekki nákvæmlega. En mjög áhugaverður klúbbur.

      Kveðja,
      SVEPPAGREIFINN

      Eyða

Út með sprokið!