24. desember 2021

195. SÍGILD JÓLASAGA ÚR SPIROU

Það er orðið að árlegri venju hjá SVEPPAGREIFANUM að grafa upp jólaefni úr gömlu góðu, belgísku myndasögutímaritunum og birta hér á Hrakförum og heimskupörum í tilefni komandi hátíða. Og á því verður engin breyting þessi jólin. Það var alltaf einhver fallegur blær yfir þessum gömlu myndasögutímaritum og jólablöðin voru alveg sérstaklega notaleg. Efnið að þessu sinni kemur úr 975. tölublað Le journal Spirou, sem í daglegu tali er bara kallað SPIROU blaðið, en þetta tölublað kom fyrir sjónir lesenda sinna fimmtudaginn 20. desember árið 1956. Reyndar hefur síðuhafi áður leitað fanga í þessu tiltekna jólablaði enda var mikið af skemmtilegu efni þar á ferðinni og útgáfa SPIROU, án nokkurs vafa, á hápunkti blómatímabils síns einmitt á þessum árum.

Á meðal þess efnis sem blaðið hafði að geyma má nefna þrjár blaðsíður úr Sval og Val sögunni um Gormahreiðrið, Lukku Láka söguna Lucky Luke contre Joss Jamon (Óaldarflokkur Jússa Júmm) og framhaldssögu með Gil Jordan sem margir gætu hugsanlega kannast við. Af því efni sem SVEPPAGREIFINN hefur áður birt úr þessu jólablaði skal nefna stutta jólasögu um Gorm, og aukasíðu úr Gormahreiðrinu þar sem jólin koma einnig nokkuð óvænt við sögu. Annars réði jólaandinn auðvitað ríkjum í blaðinu og mest allt efni þess, fyrir utan hinar föstu framhaldssögur, snerust á einhvern hátt um hátíðarnar sem framundan voru. 

En það er belgíski listamaðurinn Pierre Culliford, betur þekktur undir nafninu Peyo, sem á heiðurinn að jólamyndasögu þessa aðfangadagsmorguns en hún kemur að þessu sinni úr hinum, oft vanmetna, söguheimi þeirra Hinriks og Hagbarðar. Reyndar fer ekkert fyrir Hinriki í þessari tveggja blaðsíðna jólasögu en Hagbarður leikur hins vegar aðalhlutverkið eins og hann gerir hvað best. Húmor Peyo ræður þarna ríkjum þar sem helstu persónuleikar Hagbarðs fá að njóta sín til fullnustu en auðvitað er jólakærleikurinn heldur ekki langt undan.


SVEPPAGREIFINN óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla með ósk um ljúfar og góðar stundir um hátíðarnar.

4 ummæli:

 1. Flottur pistill. Og gleðilega hátið.

  SvaraEyða
 2. Þakka þér kærlega, Villi og sömuleiðis - Gleðilega hátíð.

  Kveðja,
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 3. Gaman af þessu. Gleðilegt ár og takk fyrir alla pistlana.

  SvaraEyða
 4. Þakka þér sömuleiðis, Rúnar.

  Kveðja,
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!