7. janúar 2022

196. ZORGLÚBB STYTTAN

Myndasöguinngrip dagsins er ekki af verra taginu enda er það tileinkað hinu frábæra og oft svolítið misskilda illmenni, úr sögunum um Sval og Val, Zorglúbb. SVEPPAGREIFINN hefur svo sem áður fjallað um þessa merkilegu myndasögupersónu, enda er Zorglúbb í töluverðu uppáhaldi hjá honum, og hefur til dæmis skrifað svolítið um hann í fáeinum af færslum sínum hér á Hrakförum og heimskupörum. Þó Zorglúbb sé auðvitað sjálft viðfangsefni þessa föstudags þá er það samt franski listamaðurinn og myndhöggvarinn Samuel Boulesteix sem á skilið alla athyglina fyrir þetta frábært verk sitt sem hann hóf fyrir tveimur árum síðan og er nú nýlokinn við.

Hér er sem sagt um að ræða 95 sentimetra háa brjóstmynd úr bronsi (sem er reyndar aðeins meira en bara brjóstmynd) af áðurnefndum Zorglúbb en styttan er 42 kíló að þyngd. Þetta verk var sérpantað af ástríðufullum myndasögusafnara, sem var fyrst og fremst hrifinn af sérlega slæmum illmennum úr teiknimyndasögum, en þessi stelling hafði verið honum hugleikin í nokkurn tíma. Einhverjir muna eflaust eftir Zorglúbb í þessari klassísku stellingu en hina tilteknu útfærslu er að finna í bókinni Með kveðju frá Z (L'ombre du Z - 1962) og má sjá á blaðsíðu 38.

En hugmyndina þróuðu Boulesteix og myndasögusafnarinn með sér á löngum tíma í samstarfi með vini þess fyrrnefnda, Christophe Coronas, sem hjálpaði til við sköpunarverkið með teikniskissum sínum. Það er nefnilega ekki auðunnið eða einfalt verk að færa einhverja teikningu úr Sval og Val bók yfir í fullunnið þrívíddarverk upp á tæpan metra á hæð en afraksturinn er þó einstaklega vel heppnaður og glæsilegur. Upp úr teikningunum vann Boulesteix svo upp nákvæmt módel af styttunni úr gifsi áður en hægt var að hefjast handa við að smíða sjálft verkið.

Samuel Boulesteix hefur frá barnsaldri verið ástfanginn af hinum töfrandi heimi myndasagnanna og alla tíð, eftir að hann hóf störf við listsköpun sína, hefur hann leitast eftir tækifærum við að vinna styttur af þekktum persónum úr belgísk/franska myndasöguheiminum. Lukku Láki, Mortimer (úr myndasögunum um Blake og Mortimer), Svalur, Valur, Pési og jafnvel hundurinn Rattati hafa allir fengið frábæra skúlptúra af sér og mörg af verkum þessa listamanns má sjá hér á heimasíðunni hans. Með þessari nálgun sinni með teiknimyndafígúrum í höggmyndaformi vill Boulesteix sameina þessa tvo stíla í einhvers konar leit að nýrri fagurfræði, sannfærður um að ekki sé neitt til sem heitir minniháttar list. Í rauninni eru ekkert svo mörg ár síðan að myndasögur eða myndasögugerð voru viðurkenndar sem listgrein og það að sameina þessar tvær listgreinar er því augljóslega mjög heillandi nálgun - að minnsta kosti fyrir unnendur myndasagna.

Þó Zorglúbb styttan sé stakt listaverk sem aðeins var gert eitt eintak af er þó hægt að nálgast afsteypur af öðrum verkum Boulesteix á þar til gerðum sölusíðum. Þarna má til dæmis kaupa afsteypur af áðurnefndum myndasögustyttum en ekki eru þessir gripir þó beint gefnir. Þó virðast margar þeirra vera ófáanlegar í augnablikinu en það segir okkur að virkilega sé eftirspurn eftir svo dýrum hlutum. SVEPPAGREIFINN hefur sjálfur alltaf verið mjög hrifinn af ýmsum aukahlutum sem tengjast þeim myndasögum sem hann hefur aðallega fjallað um hér á síðunni og hefur jafnvel gert sér far um að nálgast ýmsa slíka muni í gegnum tíðina. En auk þess hefur hann hefur jafnvel dundað sér við að mála sjálfur þó sú vinna sé reyndar ekki til fyrirmyndar eða eftirbreytni. Þótt hann sé hrifinn af myndasögutengdum aukahlutum skal það reyndar tekið skýrt fram að SVEPPAGREIFINN er ekki hinn ástríðufulli myndasögusafnari sem pantaði brons-skúlptúrinn glæsilega af myndhöggvaranum Boulesteix. Hann er meira í viðráðanlegu verðunum.

En hér fyrir neðan má sjá myndband af hluta af vinnuferli þessa frábæra listaverks Samuel Boulesteix af Zorglúbb hinum ósigrandi. IGNEL IFIL BBÚLGROZ!!!

2 ummæli:

  1. Skemmtileg tilviljun, ég seldi einmitt Jean hjá Froskur útgáfa styttu af Zorglub fyrir síðustu jól.
    http://www.leirameira.com/431349738?i=181272903

    SvaraEyða
  2. Skemmtilegur pistill. Þessi stelling hjá Zorglúbb er hrikalega flott. Andlitssvipurinn og allt.

    SvaraEyða

Út með sprokið!