Það fór víst ekki fram hjá mörgun að hún Elísabet Englandsdrottning dó í síðustu viku (blessuð sé minning hennar). SVEPPAGREIFINN getur svo sem varla sagt að sá atburður hafi hreyft mikið við honum en viðurkennir þó að veröld án Bretadrottningar er vissulega Bretadrottningu fátækari. Sonur hennar Kalli Bretaprins er því loksins orðinn kóngur yfir ríki sínu og þetta er að sjálfsögðu í fyrsta sinn sem SVEPPAGREIFINN upplifir þá lífsreynslu að hafa kóng þarna niðurfrá. Elísabet gamla hafði ríkt í 70 ár á sínum heimaslóðum (sem reyndar ná nokkuð víða) og var krýnd sem drottning í febrúar árið 1952. Þetta var á svipuðum tíma og gullöld fransk/belgíska myndasögunnar var að komast á gelgjuskeiðið þó vissulega hafi verið lítið um tengingar þar á milli. Bresk börn og ungmenni misstu nánast alveg af þessum stórkostlegu menningaverðmætum handan Ermasundsins og einbeittu sér frekar að Paddington, bókum Enid Blyton og öðrum breskum barnaafþreyingum sem skrifari kann ekki að nefna. Ekki minnist SVEPPAGREIFINN þess að hafa rekist á Elísabetu Englandsdrottningu, eða aðra úr konungsfjölskyldu hennar, í einhverjum af þessum frönsku og belgísku myndasögum en vissulega hefði alveg mátt krydda einhverjar þeirra sagna sem gerðust á Bretlandseyjum með aðkomu drottningarinnar. Ástríkur í Bretalandi (Astérix chez les Bretons) gerðist til dæmis 2000 árum of snemma til að hægt hefði verið að réttlæta veru hennar í þeirri myndasögu. En þessir frábæru belgísku listamenn vissu þó alveg af meðlimum konungsfjölskyldunnar hinum megin við sundið. André Franquin var margt til lista lagt og dundaði sér til dæmis við það að rissa upp Kalla Bretaprins (sem nú er auðvitað orðin Kalli kóngur) þó ekki hafi hann þó fengið viðeigandi hlutverk í myndasögum hans.
Sjálfsagt hefur þetta pár Franquins verið aðallega til gamans gert, enda svo frábær listamaður stöðugt með tól sín og tæki við hendina, og hæfileikar hans voru slíkir að honum hefur varla orðið skotaskuld úr að teikna eins og eina eða tvær myndir af prinsinum á fáeinum andartökum. Kalli var (og er auðvitað) líka þannig útlítandi að góðir skopteiknarar ættu ekki að eiga í neinum erfiðleikum með að rissa upp stórkostlega ýktar myndir af honum.
Hér fyrir neðan má einnig sjá blað, með nokkrum fleiri skissum Franquins, þar sem Díönu prinsessu bregður jafnvel fyrir. Hún er reyndar ekki í alveg jafn ýktum hlutföllum og Kalli garmurinn enda ólíkt fríðari ásýndum en þessi fyrrverandi eiginmaður hennar og barnsfaðir. Ekki kemur fram hvenær þessar myndir voru teiknaðar en rétt er að nefna að Díana prinsessa lést aðeins rúmlega átta mánuðum á eftir André Franquin. Bæði létust þau á hinu herrans ári 1997.
Það skal tekið fram að þessar teikningar er að finna í einu af frábærum safnritum þar sem myndir André Franquin er að finna. Þessi bók heitir Tronches a gogo og er hluti af lítilli bókaröð þar sem hinum ýmsu þemum úr safni listamannsins er safnað saman í nokkur skemmtileg hefti í litlu ítölsku broti. Í þessari bók má finna skissur frá listamanninum sem voru mjög ólíkar þeim stíl sem hann var sem þekktastur fyrir. Franquin gat svo sannarlega teiknað meira en bara Sval og Val og Viggó viðutan. Þessar myndir eru gerðar með mismunandi tækni og spanna allt frá skopmyndum, portrettmyndum eða jafnvel eftir ljósmyndum úr tímaritum. Tronches a gogo var gefin út árið 2004 og fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast þessa bók má geta þess að hún er enn fáanleg en upplag hennar var aðeins í 4000 númeruðum eintökum. Það var Marsu Productions sem gaf út þessa bók.
Skemmtilegur og frumlegur pistill. Vissi ekki af þessari tenginu Kalla kóngs við teiknimyndasögur.
SvaraEyðaTakk fyrir, Rúnar. Vonandi verða færslurnar eitthvað innihaldsmeiri í komandi framtíð :)
SvaraEyðaKv.
SVEPPAGREIFINN