2. september 2022

213. HIÐ ERLENDA TINNA SAFN SVEPPAGREIFANS

Í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS má finna nokkuð fjölbreytt úrval af teiknimyndasögum. Og einnig ekki. Þar má nefnilega einnig finna töluverðan fjölda af mjög einhæfum safnkosti sem samanstendur af teiknimyndasögum sem eru meira og minna nánast allar þær sömu! Þarna er síðuhafi að sjálfsögðu að tala um Tinnabækurnar sínar tuttugu og þrjár sem finna má á nokkuð mörgum mismunandi tungumálum. Um þær ætlar hann að eyða nokkrum orðum í færslu dagsins.

Ástæða þess að SVEPPAGREIFINN ákvað að ráðast í þessa ákveðnu færslu sína núna var einfaldlega sú að um miðjan ágúst áskotnaðist honum fyrsta Tinna bókin sín á pólsku. Hér er um að ræða hina frábæru bók Kierunek księżyc sem allir þekkja að sjálfsögðu sem Eldflaugastöðina eða Ferðina til tunglsins eins og hún heitir víst í nýjustu íslensku þýðingu Frosks útgáfu. Það var pólskur vinnufélagi SVEPPAGREIFANS sem kom með þessa frábæru gjöf færandi hendi, úr mánaðarlöngu sumarfríi sínu í heimalandinu, og að sjálfsögðu kann síðuhafi honum sínar bestu þakkir. 

Þrátt fyrir að SVEPPAGREIFINN eigi töluverðan bókakost í myndasöguformi, í hillum sínum, hefur það margoft komið fram hér á Hrakförum og heimskupörum að hann líti ekki á sig sem safnara. Teiknimyndasögurnar eru aðeins nauðsynlegur hluti af þessu áhugamáli hans og Tinnabækurnar eru þar auðvitað engin undantekning. Það var reyndar alveg óvart sem þessar Tinnabækur allar fóru að safnast saman í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Einhvern tímann fyrir líklega um tuttugu árum var honum gefinn fullur kassi af teiknimyndasögum, með bókum af ýmsum toga og í allavega ásigkomulagi, en þar mátti meðal annars finna fjórar eða fimm myndasögur um Tinna á dönsku. Síðuhafi var svo sem ekkert að ómaka sig sérstaklega við að losa sig við þessar aukabækur en á þeim tíma var aðaláhersla hans lögð á að eignast allar þær teiknimyndasögur sem gefnar höfðu verið út á íslensku. Dönsku bækurnar fóru því með öðrum myndasögum niður í kassa, voru geymdar þar í nokkur ár og eiginlega hálfgleymdust. Bækurnar voru bara skemmtileg viðbót við hinar Tinna bækurnar og voru ekki ætlaðar til neins sérstaks brúks. Með tímanum bættist jafnt og þétt í myndasögusafnið en allt fór þetta samt jafnóðum niður pappakassa enda voru búsetuúrræði SVEPPAGREIFANS með frumstæðari hætti hér fyrr á árum þar sem búslóð hans var þá oft meira og minna öll í kössum inni í geymslum. Ein og ein Tinna bók á erlendum tungumálum bættust þó við af margvíslegum ástæðum en þær voru aðallega á sænsku og ensku.

Það var síðan fyrir nokkrum árum sem SVEPPAGREIFINN rakst, einhverra hluta vegna, á Tinna í Tíbet á arabísku í Góða hirðinum. Bókin fannst honum það merkileg að hann keypti hana að sjálfsögðu og fjallaði meira að segja svolítið um hana í færslu hér á Hrakförum og heimskupörum nokkrum mánuðum seinna. Þetta var líklega fyrsta erlenda Tinna bókin sem SVEPPAGREIFINN greiddi sjálfur fyrir en fram til þessa hafði hann eingöngu hirt þær útlendu Tinnabækur sem honum hafði boðist gefins. Eftir þetta fór hann að huga alvarlega að því að eignast fleiri bækur úr seríunni á sem flestum tungumálum og var þá helst með einhverja ákveðna sögu í huga. Hann hefur stundum rekist á bloggfærslur frá erlendum Tinna sérfræðingum og söfnurum sem hafa einbeitt sér að einhverri sérstakri teiknimyndasögu á sem flestum tungumálum og hefur jafnvel séð hjá þeim myndir þar sem íslenskum Tinna bókum hefur brugðið fyrir þeirra á meðal. SVEPPAGREIFINN hefur þó aldrei komið því almennilega í verk að safna einhverri einni tiltekinni sögu en á nú nokkrar af Tinna bókunum á fimm til sex mismunandi tungumálum. Þá hefur hann örugglega einnig minnst á það hér á síðunni að fyrir mörgum árum var honum komið í sambandi við erlendan aðila sem var að safna Ástríki í Bretalandi á sem flestum tungumálum. Sem betur fer var SVEPPAGREIFINN hyggnari en svo að bjóða honum eintakið sitt.

En eftir að Tinni í Tíbet á arabísku var komið í myndasöguhillurnar SVEPPAGREIFANS fór hann að vera meira vakandi fyrir ódýrum, erlendum Tinna bókum á þeim nytjamörkuðunum sem hann rak nef sitt inn í. Þegar hann var erlendis fór hann að grípa með sér bækur sem hann rak augun í á flóamörkuðum og verslunum með notaðar myndasögur og fljótlega var hann einnig kominn með eintök á frönsku, þýsku, spænsku og hollensku. Smám saman vatt erlenda safnið því upp á sig og við bættust einnig fleiri bækur á dönsku og sænsku án þess þó að hann væri að sækjast eitthvað sérstaklega eftir þeim. Eins merkilegt og það er virðist enga norska Tinna bók hafa rekið á fjörur hans frá því þessi eftirgrennslan hófst. Lengi stóð hann reyndar í meiningu um að hann ætti þær nokkrar en við frekari athugun kom í ljós að þær voru allar á dönsku. Enn vantar honum einnig finnska bók en slíkt innlegg er eiginlega alveg bráðnauðsynlegt þó væri ekki nema vegna hinna frábærlega sjónrænu útlistingu á titlum bókanna á því merkilega tungumáli. Tinna bækurnar; Kultasaksinen rapu, Tuhatkaunon Tapaus, Seikkaailu punaisella merellä, Päämääränä kuu og Tintti kuun kamaralla myndu klárlega allar sóma sér vel í myndasöguhillum SVEPPAGREIFANS. Þá væri einnig mjög gaman ef alla vega önnur af þeim tveimur Tinna bókum sem út komu á færeysku enduðu í hillum hans. Þessar tvær bækur komu út á árunum 1987-88 og heita Hin gátuføra stjørnan (Dularfulla stjarnan) og Tignarstavur Ottokars (Veldissproti Ottokars). Það væri aldeilis frábært að eignast þær.

Með tímanum fóru síðan hinar erlendu Tinna bækur smám saman að hrúgast inn, jafnt og þétt, án þess þó að lagt hafi verið eitthvað sérstaklega mikið í að eignast þær. Ja, eiginlega ekki fyrr en eftir að covid tímabilið hófst. Fjölskylda SVEPPAGREIFANS átti þá ekki þann sama kost og áður að ferðast til útlanda en tvær til þrjár utanlandsferðir á ári höfðu áður dugað ágætlega til kaupa á teiknimyndasögum þótt Tinna bækurnar hafi aldrei haft þar neinn sérstakan forgang. Með faraldrinum gafst GREIFANUM þó tækifæri til að prófa sig áfram á nýjum slóðum og fullnægja myndasögukaupaþörf sinni með því að fara að panta sér áhugaverðar bækur að utan. Á þeim tíma tók það póstþjónustuna í heiminum reyndar svolítið langan tíma að koma pökkum sínum á lokaáfangastað en það var samt oft biðarinnar virði. Á þessum vettvangi hafði hann nokkrum sinnum rekist á Tinna á framandi tungumálum og freistaðist þá til að panta sér fáeinar bækur. Hann gætti þess þó ávallt að eyða ekki neinum svívirðilegum upphæðum í þessar myndasögur og keypti til dæmis enga Tinna bók sem kostaði meira en 6 til 8 evrur. Þessi vettvangur gaf honum kost á að kaupa Tinna bækur á kínversku, rússnesku og spænsku. Í safni hans má nú einmitt finna fjórar kínverskar Tinna bækur og þrjár þeirra eru í minna broti og reyndar einnig í mjúkspjalda formi. Aðeins bókin 月球探险 er í þeirri hefðbundnu stærð sem við þekkjum. 

Þá fór hann að biðla til vina og ættingja, sem leið áttu um framandi lendur, um að grípa með sér Tinna bækur eftir því sem aðstæður leyfðu. Þannig var einmitt pólska bókin hans til komin og fóstursonur hans gaukaði einnig að honum þriggja Tinna sagna safnhefti á ítölsku í sumar. Sú bók telur reyndar ekki alveg til jafns við upprunalegu Tinna bækurnar en telst samt með. Í þessum töluðum orðum telur Tinna bóka safn SVEPPAGREIFANS að því er virðist heilar hundrað þrjátíu og tvær teiknimyndasögur. Stór hluti þeirra telur auðvitað íslenskar bækur því metnaður góðra myndasögueigenda (og kannski pínulitilla nörda) er að sjálfsögðu fólginn í því að eiga allar þær útgáfur af Tinna bókunum sem komið hafa út á Íslandi frá upphafi og helst auðvitað í sem allra besta ásigkomulagi. Þessar íslensku bækur telja nú í heildina áttatíu bækur en SVEPPAGREIFINN á þó ekki nema sextíu og tvær af þeim. Íslensku Tinna bækurnar koma mjög hægt inn þar sem framboð þeirra er orðið ansi takmarkað en auk þess hefur síðuhafi ávallt lagt sig fram um að halda fjárveitingunum, til þessara bókakaupa sinna, innan skynsamlegra og eðlilegra marka. Hann myndi til dæmis aldrei borga 25 - 30.000 fyrir Tinna í Sovétríkjunum - sem hann á reyndar fyrir. Erlendu Tinna bækurnar hans eru hins vegar orðnar sjötíu og þær koma töluvert hraðar inn.

Það sem kom SVEPPAGREIFANUM kannski mest á óvart var það að hann á hvorki meira né minna en sautján af þessum tuttugu og þremur Tinna bókum á dönsku. Hann hefur ekki verið að leggja sig neitt fram við að eignast sögurnar eitthvað sérstaklega á dönsku en af einhverjum ástæðum hafa þær bækur safnast mest fyrir hjá honum. Næst á eftir koma þrettán bækur á ensku og tólf á sænsku en af öðrum eru heldur færri. SVEPPAGREIFINN á því núna Tinna bækur á þrettán mismunandi tungumálum og stefnan er að sjálfsögðu sett á að fjölga þeim enn meir með tíð og tíma. Svo er bara spurningin hversu duglegur hann verður við áframhald þessarar undarlegu iðju.

2 ummæli:

Út með sprokið!