5. apríl 2019

105. VIGGÓFÓNNINN ALRÆMDI

Í færslu þessarar viku er komið að efni sem er SVEPPAGREIFANUM alveg sérstaklega hugleikið enda tengist það hinum stórkostlega bókaflokki um Viggó viðutan. Maður fær það nefnilega á tilfinninguna að allt sem André Franquin, höfundur Viggó bókanna, kom nærri hafi orðið að fjársjóði. Að þessu sinni erum við að sjálfsögðu að tala um hið alræmda strengjahljóðfæri Viggófóninn eða Steinaldarhörpuna eins og gripurinn hefur einnig verið nefndur í íslenskri þýðingu. Það má reyndar líklega alveg deila um hvort að um hljóðfæri sé að ræða en sennilega mætti líka alveg færa rök fyrir einhvers konar annarri skilgreiningu á fyrirbærinu. En hugmyndina að Viggófóninum fékk Franquin frá sérstakri Afríku-hörpu sem var til sýnis á Hinu Konunglega Mið Afríku safni í Tervuren (hluti af Brussel) í Belgíu. Á frummálinu franska nefnist hljóðfærið Gaffophone og kom í fyrsta sinn fyrir í Viggó brandara Franquins númer 449. Sá brandari birtist fyrst á íslensku í bókinni Viggó bregður á leik sem bókaútgáfan Iðunn sendi frá sér árið 1982.
Við fyrstu kynni var Viggófónninn tiltölulega sakleysislegur á að líta þó hann sé reyndar í stærri kantinum en virtist þó ekki vera sá skaðræðisgripur sem hann í raun er. Útlitslega ber verkfærið það með sér að vera blanda af strengja- og ásláttarhljóðfæri og hugsanlega einnig blásturshljóðfæri en þó hefur það ekki sést í meðförum Viggós öðruvísi en sem strengjahljóðfæri. Það er frekar óljóst úr hverju hljóðfærið er smíðað en hinn samanspennti bogi sem heldur strengjunum átta strekktum er gerður úr níðsterkri og sveigðri trjágrein. Sú staðreynd kemur alveg skilmerkilega fram í brandara númer 467, sem margir muna eftir, þar sem Valur tekur það til bragðs að klippa í sundur strengina með klípitöng - hvern af öðrum. Hlutverk strekktu trumbuskinnanna á hliðunum er óljós en þaðan kemur ágiskun SVEPPAGREIFANS um slagverkshluta hljóðfærisins. Holur belgurinn á svo líklega að magna upp hljóðbylgjurnar alræmdu sem strengirnir kalla fram og hleypa þeim út um vítt blástursopið með virkilega afgerandi afleiðingum. Í upprunalegu frönsku útgáfunni af textanum hér fyrir ofan lætur Viggó hafa það eftir sér að grundvallarhugmynd hans um hljóðfærið væri einföld, að skapa titring líkt og í þrumuveðri og með hámarks ónæði. Líklega er óhætt að segja að þau markmið hafi gengið upp.
Augljóslega ber Viggófónninn það með sér að gefa frá sér uuhh... frekar óþægileg hljóð en samt virðist það þó helst víbringurinn af hljóðbylgjunum sem gerir hljóðfærið að því skaðræðistóli sem það er. Afleiðingar hljóðdæmis þessa fyrsta brandara Franquins um Viggófóninn eru þó tiltölulega meinlausar ef tekið er mið af því sem seinna kom fram. Brotin múrhúð úr loftinu af hæðinni fyrir neðan er til dæmis líklega alls ekkert svo slæmt.
Þessi fyrsti brandari birtist í blaði númer 1508 í belgíska myndasögutímaritinu SPIROU þann 9. mars árið 1967 og í rauninni ætlaði Franquin í fyrstu aðeins að teikna tvo eða þrjá slíka um fyrirbærið. Samkvæmt því kemur Viggófónninn þannig tiltölulega seint til sögunnar. Brandarar Franquins um Viggófóninn urðu reyndar heldur fleiri en í heildina urðu þeir samt ekki nema um tuttugu talsins, sem kemur SVEPPAGREIFANUM nokkuð á óvart því hann taldi þá hafa verið töluvert fleiri. Átta þeirra má sjá í bókinni Viggó bregður á leik en stærstur hluti Viggófóns-brandaranna hefur komið út í íslensku útgáfunum. Fáeinir stakir brandarar eða myndir, þar sem hljóðfærið alræmda kemur við sögu, mátti einnig finna í nokkrum tölublöðum SPIROU á þessum árum og í október árið 1967 birtist líka frábær mynd með þeim Viggó, ungfrú Jóku og Viggófóninum á forsíðu tímaritsins. Það varð reyndar í eina skiptið sem fyrirbærið sást þar. Samkvæmt myndinni var því augljóslega einnig hægt að nota hljóðfærið til angurværari verkefna því ungfrú Jóka virðist njóta augnabliksins til fulls og hugsa eitthvað á þá leið, "að því meira sem tónlistin hans leitar upp til hennar - því meira finnst henni hún dragast að Viggó". Ákaflega rómantískt alveg.
Flestir eiga þeir Viggófóns-brandararnir það sameiginlegt að fjalla um afleiðingar þeirra hamfara eða tortíminga sem óhljóð fyrirbærisins skapar. En sumir eru reyndar líka um þær örvæntingafullu aðgerðir sem samstarfsfólk Viggós grípur til við að reyna að koma í veg fyrir komandi hamfarir. Og það eru eðlileg viðbrögð. Samstarfsmenn Viggós vita ætíð hvert stefnir þegar Viggófónninn er annars vegar. Fyrirbærið á nefnilega meira skylt við stórhættulegt hernaðartæki sem beitir höggbylgjum en frumstætt, heimasmíðað hljóðfæri. Og útlitslega vekur það jafnan nokkra furðu.
Sjálfur áttar Viggó sig ekki almennilega á tortímingarmætti hljóðfærisins og er alls ófeiminn við að feta sig áfram við sköpun einhvers sem oftar en ekki á lítið skylt við tónlist. Sú tilraunastarfsemi fer fram jafnt innan- sem utandyra og afleiðingar eru jafn fjölbreytilegar eins og þær eru margar. Eðlilega eru vandamálin innanhúss tengd þröngum rýmum og óþarflega nálægum veggjum. Þess konar aðstæður henta nefnilega yfirleitt ekki til þeirra tegunda tónlistaflutnings sem varpar þungum hljóðbylgjum frá sér. En utanhúss eru vandamálin af öðrum meiði. Í Viggó brandara Franquins númer 451 frá árinu 1967 kemur til dæmis mjög skilvirknislega fram að það sé ekki ráðlagt að freistast til að prófa að spila á fyrirbærið á palli vörubíls sem er á ferð.
Áhrif Viggófónsins eru svo óendanlega víðtæk að það hálfa væri nóg. Vörubílsgreyið liðast hreinlega niður í frumeindir sínar en alltaf er samt sjálft hljóðfærið jafnheilt þrátt fyrir þann eyðileggingarmátt sem það býr yfir. Það er sterklega byggt og fyrirbærið því að öllu leyti augljóslega stórhættulegt öllu umhverfi sínu. Í bókinni Viggó - Vikadrengur hjá Val má sjá brandara Franquins, númer 491 frá árinu 1967, þar sem jafnvel lítil og nákvæm eftirlíking af Viggófóninum, sem lesandi og aðdáandi Viggós sendi honum, virkar alveg á sama hátt og frumgerðin.
Nokkrir brandarar Franquins um Viggófóninn sem gerast utandyra eru töluvert eftirminnilegir. Margir lesendur bókanna muna eflaust eftir því þegar frosnir rafmagns- og símastaurar losnuðu upp og hófu að dansa í snjónum af völdum höggbylgja tækisins. Þann brandara má sjá í bókinni Viggó bregður á leik og er mörgum minnisstæður. Notkun hljóðfærisins úti við er því augljóslega stórlega varasöm og getur haft margvíslegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þannig hentar Viggófónninn til dæmis engan veginn vel til notkunar í fjalllendi þar sem hætta gæti hugsanlega verið á snjóflóðum. Afleiðingar þess er til dæmis hægt að sjá í brandara númer 552 frá árinu 1970 og birtist í bókinni Viggó - Leikið lausum hala. 
Löngu síðar kom reyndar svolítið babb í bátinn varðandi þennan brandara. Tveir svissneskir vísindamenn, þeir Benjamin Reuter og Jürg Schweizer frá Snjóflóðasetrinu í Davos, greindu frá því að hljóðbylgjur þær sem Viggófónninn gæfi frá sér væru reyndar engan veginn nægilega öflugar til að koma af stað slíkum hamförum sem snjóflóð eru. Þeir ættu nú að vita það með alla Alpana sína. Til að geta framkallað slíkan kraft þyrfti um það bil hundrað sinnum meiri þrýsting. Það að koma af stað snjóflóði með kraftmiklu hljóðfæri er því með öllu óframkvæmanlegt - jafnvel þó það sé Viggófónn. En brandarinn er góður. Hergé hafði einmitt fallið í sambærilega gildru með hnerra Kolbeins kafteins, í Tinna bókinni um Fangana í Sólhofinu, rúmlega tuttugu árum fyrr.
Í SPIROU blaði númer 1559 sem kom út þann 29. febrúar árið 1968 var efnt til samkeppni, á meðal lesenda SPIROU, um smíði Viggófóns í hlutföllunum 1:1. Með öðrum orðum, þarna var sem sagt um að ræða keppni um að smíða fyrirbærið í fullri stærð og á þann hátt að það virkaði. Og verðlaunin voru ekki af verra taginu. Bíll Viggós, eða réttara sagt eftirmynd hans, var í boði fyrir þann aðila sem best tækist til við að smíða alvöru Viggófón. Þarna var um að ræða eldgamlan Fíat 509 sem Dupuis útgáfan hafði orðið sér út um, gert upp og málað í réttum litum. En meira um bíl Viggós má lesa hér. Mikill áhugi var á þessari samkeppni á meðal lesenda blaðsins og þó nokkuð margar útfærslur bárust dómnefndinni. Ein þeirra, sem vóg næstum 130 kíló, var til dæmis send með lest til Belgíu frá Hollandi en önnur útfærsla fékk einnig ansi mikla athygli fyrir að vera ekið um götur Parísar á þaki bíls - auðvitað í anda Viggós. Hvorugt verkefnanna vann reyndar samkeppnina en síðarnefnda útfærslan vakti athygli löngu seinna eftir að gömul fjölskyldufilma af athæfinu var sett inn á Internetið góða.
Eins og áður segir barst mikill fjöldi Viggófóna til dómnefndarinnar en því miður hefur ekki varðveist mikið af þeim fjölda hugmynda sem komu fram í þessari keppni. Hér fyrir neðan má þó finna skýrari mynd af þeirri útfærslu hljóðfærisins sem fram kemur í myndbandinu hér að ofan. Þessi Viggófónn lenti í þriðja sætinu og er eftir franska bræður að nafni Yves og Luc Lebrun.
Því miður fann SVEPPAGREIFINN ekki neinar ljósmyndir af þeim viðfangsefnum sem lentu í tveimur efstu sætunum en lesendum til fróðleiks hlaut Jacques Simon fyrsta sætið og Hermo dal Corso lenti í því öðru. Það hefði óneitanlega verið fræðandi að fá að sjá myndir af þeirra útfærslum. Og að sjálfsögðu hefur Viggófónninn margsinnis verið smíðaður aftur eftir þessa uppákomu. Í tilefni af 60 ára afmælis Viggós árið 2017 var til dæmis efnt til tónleika þar sem ýmsar tegundir af frumstæðum hljóðfærum voru notaðar við flutninginn og þar var að sjálfsögðu sérsmíðaður Viggófónn í aðalhlutverkinu. Sá flutningur vakti það mikla athygli að síðar hefur verið efnt reglulega til sambærilegra viðburða víða um Evópu. Líklega er þó Viggófónninn skemmtilegri í myndasögunum þar sem lesandinn getur látið ímyndunaraflið meira ráða ferðinni.
SVEPPAGREIFINN á alla vega erfitt að ímynda sér það að hann hefði þolinmæði til að sitja heila tónleika undir dulbúnum uppákomum frumlegra nútímatónskálda.
En það er best að ljúka þessu með því að minnast aðeins á það að auðvitað hefur verið gefin út bók með samansafni af tónlistaflutningsbröndurum Viggós. Þar má meðal annars finna alla brandarana þar sem Viggófónninn kemur við sögu en einnig fjöldi annarra sem lesendur kannast eflaust við. Margir muna eftir nokkrum mismunandi bröndurum með Viggó þar sem blásturshljóðfæri koma við sögu en einnig má minnast á eftirminnilegt fiðluatriði með Val og svo spilar Viggó auðvitað svolítið á gítar. Bók þessi heitir Lagaffe en musique og var gefin út af Marsu Production útgáfunni árið 2012. Í bókinni er einnig ýmislegt fróðlegt aukaefni um sögu þessara sígildu brandara, skemmtilegar hugleiðingar og fleira mjög áhugavert aukaefni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!