19. apríl 2019

107. TINNI OG BLÁU APPELSÍNURNAR

Föstudagurinn langi í dag og þess vegna er færsla dagsins svona hæfilega löng og um leið líka hæfilega áhugaverð. En fyrir um það bil ári síðan skrifaði SVEPPAGREIFINN svolítla færslu um fyrstu bíómyndina sem gerð var um Tinna í fullri lengd. Þarna var um að ræða myndina Tintin et Le mystère de la Toison d'Or frá árinu 1961 en hún var reyndar gefin út í dvd formi hér á landi árið 2012 og nefndist þá Tinni og Tobbi - á valdi sjóræningjanna. SVEPPAGREIFINN hendir stundum þessari mynd (reyndar hefur hann ekki enn eignast íslensku útgáfuna) í dvd spilarann sinn og leyfir henni að rúlla með sínu franska tali og sömu sögu má einnig segja um aðra Tinna mynd sem hann á - Tintin et les oranges bleues eða Tinni og bláu appelsínurnar frá árinu 1964. Um þá mynd ætlar SVEPPAGREIFINN einmitt að fjalla aðeins um í þessari færslu en hún var gerð í kjölfarið af Tintin et Le mystère de la Toison d'Or sem hafði notið töluverðra vinsælda í bíóhúsum.
Fyrstu kynni SVEPPAGREIFANS af tilurð þessarar myndar má rekja aftur til ársins 1978 þegar kvikmyndabókin Tinni og bláu appelsínurnar var gefin út af bókaútgáfunni Fjölva ásamt annarri nokkuð sambærilegri bók sem nefndist Tinni og Hákarlavatnið. Á þessum tíma hafði Fjölvi lokið við að gefa út hinar hefðbundnu Tinna bækur og var að hamast við að senda frá sér ýmsar aðrar bækur sem tengdust þeim sögum og höfundinum Hergé. Auk áðurnefndra kvikmyndabóka um Tinna má þar til dæmis einnig nefna einhverjar bækur um Palla og Togga og tvær sögur úr bókaflokknum um Alla, Siggu og Simbó. Kannski mætti líta á þessar teiknimyndasögur allar sem einhvers konar afganga og þær seldust líklega aldrei neitt sérstaklega vel. Til dæmis komu aldrei út fleiri bækur um Alla, Siggu og Simbó frá Fjölva en alls eru bækurnar í þeirri seríu fimm talsins. Aftan á bókakápum einhverra af íslensku Tinna bókunum má sjá að Tinni og Hákarlavatnið og Tinni og bláu appelsínurnar eru kvikmyndabækur númer 1 og 3. Og því má reikna með að Fjölva útgáfan hafi gert ráð fyrir að Tintin et Le mystère de la Toison d'Or yrði seinna meir kvikmyndabók númer 2. Sú bók var hins vegar aldrei gefin út hjá Fjölva útgáfunni og SVEPPAGREIFINN var ekki almennilega meðvitaður um þá bíómynd fyrr en löngu seinna eða eftir að Internetið kom til sögunnar. Tinni og bláu appelsínurnar kom fyrst út í bókaformi í Belgíu árið 1965 en þannig er hún byggð upp á hefðbundum sögutexta og skreytt með ljósmyndum úr bíómyndinni.
Og svo má kannski líka geta þess til gamans að tiltölulega auðvelt er að nálgast ónotuð eintök af Tinna og bláu appelsínunum, ólíkt öðrum Tinna bókum á íslensku, því enn poppa upp heilu bunkarnir af bókinni á hinum ýmsu bókamörkuðum. Síðast rakst SVEPPAGREIFINN á góða hrúgu af bókinni á bókamarkaði Félags bókaútgefenda, undir stúkunni við Laugardalsvöll, á 690 krónur. Það væri því líklega ekki vitlaust fyrir einhvern óðan safnara að hamstra nokkra tugi eintaka af bókinni, svona til framtíðar, því ósköp lítil hætta er á að hún verði nokkurn tímann gefin út aftur á Íslandi.
En hugmyndin að Tintin et les oranges bleues kviknaði, eins og áður segir, í kjölfarið af vinsældum fyrstu myndarinnar. Myndin var gerð í samvinnu franskra og spænskra framleiðenda og Tintin et les oranges bleues ber þess líka töluverð merki þar sem hún gerist að stórum hluta á Spáni. Leikstjóri hennar var hinn franski Philippe Condroyer og þetta var hans fyrsta bíómynd en myndin hlaut einnig spænska titilinn Tintin y las naranjas azules. Myndin er sjálfstæð og líkt og Tintin et Le mystère de la Toison d'Or er hún ekki gerð upp úr neinni bóka Hergé um Tinna. Handritið gerði André Barret en þó í samvinnu við leikstjórann Condroyer, Rémo Forlani, René Goscinny (sem við þekkjum auðvitað sem handritshöfund Ástríks- og Lukku Láka bókanna) og Jacques Bergier sem annaðist vísindalega ráðgjöf. Þann síðastnefnda fjallaði SVEPPAGREIFINN ekki fyrir svo löngu um. Bergier var nefnilega fyrirmynd Hergé að stjörnufræðingnum Sigmiðli Transvaldurr í Tinna bókinni Flugrás 714 til Sydney og einnig prófessor Sprtschk í Sval og Val bókinni Le voyageur du Mésozoïque en sú saga hefur reyndar ekki enn verið gefin út á íslensku. Þeir Barret og Forlani höfðu einnig gert handritið að fyrri myndinni Tintin et Le mystère de la Toison d'Or. Tintin et les oranges bleues var síðan frumsýnd þann 18. desember árið 1964 en ekki fyrr en þann 10. apríl árið 1966 á Spáni.
En hlutverk Tinna var eins og í fyrri myndinni í höndum hins belgíska Jean-Pierre Talbot en hann var orðinn tvítugur þegar þessi mynd var gerð. Talbot varð seinna þekktur sem hinn eini sanni Tinni en Hergé hafði mikið dálæti á honum í því hlutverki. Þetta voru þó einu kvikmyndahlutverkin sem hann tók að sér um ævina en seinna sneri hann sér að kennslu og varð frumkvöðull að ýmsum málefnum er varðar heilsu og heilbrigðu líferni. Jean-Pierre Talbot er í dag orðinn 75 ára gamall og enn í fullu fjöri. Hlutverk Kolbeins kafteins í Tintin et les oranges bleues var hins vegar í höndum hins franska Jean Bouise. Hann var þá þegar orðinn vel þekktur leikari í Frakklandi og hafði að mestu leikið á sviði en þegar hann hætti störfum í kringum árið 1990 átti hann að baki rúmlega 60 leikhúshlutverk og tæplega 70 hlutverk í bíómyndum. Bouise lék til að mynda bæði í hinum þekktu myndum Le Grand Bleu (The Big Blue) og Nikita í leikstjórn Luc Besson. Jean Bouise er orðinn rétt tæplega níræður að aldri og auðvitað löngu sestur í hinn fræga helga stein.
Það var hinn franski Georges Wilson sem tekið hafði að sér hlutverk Kolbeins í fyrri myndinni en af öllu leikaraliðinu voru aðeins tveir leikarar sem léku í báðum þessum Tinna myndum. Auk Jean-Pierre Talbot var það bara Max Elloy í hlutverki Jóseps sem hafði leikið í Tintin et Le mystère de la Toison d'Or. Af helstu öðrum persónum Tinna bókanna koma bæði Skaftarnir og prófessor Vandráður fyrir í báðum þessum bíómyndum en Vaíla Veinólínó kemur ný til sögunnar í Tintin et les oranges bleues. Þá er allt umhverfi myndanna tveggja líka frekar ólíkt en tökur fóru að miklu leyti fram á Spáni í yfirgefnu klaustri í nágrenni Valencia. 
Sagan um Tinna og bláu appelsínurnar segir í fljótu bragði frá því að prófessor Vandráður hefur sent frá sér bók þar sem hann hvetur vísindamenn til að berjast gegn hungursneyð í heiminum. Í kjölfarið fær hann senda bláa appelsínu frá spænskum kollega sínum, Anténor Zallaméa, en ávöxtinn á að vera hægt að rækta í þurrustu eyðimörkum og þar með að bjarga lífi milljóna manna. Um nóttina er appelsínunni hins vegar stolið og þeir félagar, Tinni, Tobbi, Kolbeinn og Vandráður, ákveða að drífa sig til Valencia á Spáni til að hitta vísindamanninn Zallaméa en honum hefur þá verið rænt og fljótlega fer Vandráður sömu leið. Þeir Tinni og Kolbeinn leita því allra leiða til að finna hina færu vísindamenn aftur og njóta aðstoðar ungra spænskra vina sinna.
Þessi mynd þótti mjög döpur og stóðst engan veginn þær væntingar sem til hennar voru gerðar eftir fyrri myndina. Sú var reyndar ekkert meistaraverk en hún var þó þess virði að tekin var sú ákvörðun að ráðast í gerð annarrar. Handritið að Tintin et les oranges bleues þótti nokkuð hallærislegt og slakt og engan veginn í þeim anda sem einkenndi sögurnar um Tinna. Bara hugmyndin um bláar appelsínur virtist nægja til að gera myndina óáhugaverða og aðdáendur Tinna tengdu myndina aldrei við ímynd hans. Til að mynda virðist hún ekki einu sinni hafa komið til greina til sýninga í kvikmyndahúsum á Íslandi sem þó buðu oft upp á æði lélegt efni. En raunar eru hinar bláu appelsínur algjört aukaatriði í þessari bíómynd. Myndin fjallar minnst um bláu appelsínurnar og atburðarás hennar er komin langt út fyrir það efni löngu áður en hún er einu sinni hálfnuð. Tintin et les oranges bleues þótti því allt að því flopp og hinu slaka handriti var kennt um að ekki var ráðist í gerð fleiri Tinna bíómynda. Og til að undirstrika hina hroðvirknislega vinnu við myndina mátti sjá í henni nokkur klaufaleg mistök sem hjálpuðu ekki til. Í atriði þar sem þeir Tinni og Kolbeinn leita aðstoðar Vaílu Veinólínó má til dæmis sjá hvar skuggi hljóðnemans blasir við á nokkuð áberandi stað. Gerðar höfðu verið áætlanir um þriðju myndina um Tinna sem gerast átti í Indlandi og koma átti út árið 1967 en þær hugmyndir voru snarlega blásnar út af borðinu. Hergé hafði alltaf verið nokkuð ánægður með Tintin et Le mystère de la Toison d'Or en skiljanlega var hann ekki sáttur við Tintin et les oranges bleues. Á vef IMDb fær myndin til dæmis ekki nema 4,8 í einkunn af 10. Ýmislegt var þó gert til að koma myndinni betur til skila og sem dæmi var hluti tónlistarinnar úr myndinni gefin út á hljómplötu. Hergé sjálfur kom til aðstoðar og teiknaði veggspjald sem notað var við að auglýsa myndina og sú sama mynd prýddi einmitt líka umslagið utan af plötunni. Ekki er þó einu sinni víst að það hafi hjálpað neitt til.
Tintin et les oranges bleues var aldrei teiknuð upp í hefðbundnum myndasögustíl af Hergé Studios, frekar en Tintin et Le mystère de la Toison d'Or, en löngu seinna (árið 2004) var þó gerð þokkaleg og auðvitað alveg kolólögleg sjóræningjaútgáfa af sögunni. Nú er vitað um að minnsta kosti tvær ólöglegar útgáfur af Tintin et les oranges bleues í myndasöguformi sem eru mjög sjaldgæfar og erfitt er að nálgast en önnur þeirra var til dæmis aðeins gefin út í 50 eintökum.
Því miður virðist Tintin et les oranges bleues ekki vera aðgengileg í heilu lagi á YouTube en hér fyrir neðan má alla vega sjá smá bút úr henni sem reyndar er eitthvað búið að fikta í.
Ókei bæ.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!