2. ágúst 2019

122. ÆVINTÝRI TINNA Á TUNGLINU - ÞRIÐJI HLUTI

Þá er komið að þriðja og síðasta kaflanum um ævintýri Tinna á tunglinu. En SVEPPAGREIFINN hefur verið að tína til efni og fjalla nokkuð ítarlega um þessar bækur, í færslum undanfarinna vikna, í tilefni af 50 ára afmæli mannaðra tunglferða.

Næst er líklega rétt að staldra aðeins við á þeim tímapunkti þegar Tinni stígur fæti sínum fyrst á tunglið. Eldflaugin lendir á yfirborði þess á blaðsíðu 22 í bókinni og á blaðsíðu 25 stígur Tinni fyrstur manna á tunglið. SVEPPAGREIFANUM hefur reyndar aldrei fundist því augnabliki hafa verið gert sérstaklega hátt undir höfði í meðförum Hergés. Í endanlegu útfærslunni í bókinni sést Tinni klifra niður stigann á eldflauginni og í framhaldi af því má sjá (á einni lítilli mynd) hvar Baxter og aðstoðarmaður hans rennsvitna við að hlusta á lýsingu Tinna á því þegar hann snertir yfirborð tunglsins í fyrsta sinn. Næst kemur risastór mynd þar sem Tinni er búinn að ganga um 20 til 30 metra frá flauginni en aldrei sést í bókinni það andartak sem sýnir Tinna snerta tunglið í fyrsta sinn. Einhverjum hefði líklega þótt það miklvægasta augnablik allrar sögunnar en Hergé hefur augljóslega ekki verið á sama máli. Í upprunalegu tímaritsútgáfunni var þessi atburðarás eilítið öðruvísi en bætir þó afar litlu við - reyndar aðeins tveimur myndarömmum.
Fyrstu tvær myndirnar úr myndaröðinni hér fyrir ofan er því ekki að finna í bókaútgáfunni en þá þriðju þekkjum við hins vegar og er hún fyrsta myndin sem birtist efst á blaðsíðu 26 í bókinni. Á fyrri af myndunum tveimur segir Tinni eitthvað á þá leið, "Jæja, það tókst!... Ég hef stigið á yfirborð tunglsins!..." Og síðan á þeirri seinni, "Án nokkurs vafa, í allra fyrsta skiptið frá upphafi mannkynsins, VIÐ HÖFUM STIGIÐ FÆTI Á TUNGLIÐ!..." en þar kemur fyrir bein tilvitnun í titil bókarinnar ON A MARCHÉ SUR LA LUNE. Orð Tinna á þessum tveimur myndarömmum eru reyndar í megindráttum þau sömu og hann lætur frá sér á stóru myndinni í endanlegu útfærslunni af bókinni. Í hinni íslensku Í myrkum mánafjöllum er þýðingin á orðum hans, "Ég hef stigið á tunglið og gengið nokkur fyrstu skrefin. Fyrsti maðurinn á tunglinu. Landkönnun mánans er hafin!" Sú stóra mynd birtist aldrei í tímaritsútgáfunni en við munum eftir henni þar sem hún þekur stóran hluta blaðsíðu 25 í bókinni.
Og benda má á fleiri atriði sem ekki þótti ástæða til að láta fylgja með úr tímaritinu. Neðst á blaðsíðu 31 í bókinni, eftir að ferðalangarnir eru farnir að spóka sig á tunglinu, hefði verið hægt að leyfa löngu atviki (um tvær og hálf blaðsíða að lengd) með Sköftunum að halda sér. Forsöguna að því muna eflaust allir eftir en í henni segir frá því er Skaftarnir fara í rannsóknarleiðangur upp á eigin spýtur, setja m.a. heimsmet í langstökki og finna fótspor, auk þess sem lesendur fá að fylgjast með misgáfulegum samræðum þeirra. Skaftarnir eru í talstöðvarsambandi við samferðamenn sína, þá Tinna, Kolbein og Vandráð prófessor, sem staddir eru í flauginni og nefna við þá þessi spor. Í tímaritsútgáfunni kemur þessi myndaröð hér fyrir neðan næst.
Fyrst má sjá tvær myndir þar sem Skaftarnir eru að velta því fyrir sér hvort þeir séu orðnir villtir, enda sjá þeir hvergi eldflaugina sem er í hvarfi fyrir ójöfnu yfirborði tunglsins. Á þriðju myndinni (sem reyndar kemur einnig fyrir í bókarútgáfunni) er Tinni með hugleiðingar um hvort hugsanlega gæti verið eitthvað bogið við þessi fótspor Skaftanna en prófessor Vandráður hrekur það hins vegar á fyrstu myndinni í næstu myndaröð. Í framhaldi af því hefst síðan einkennileg atburðarás sem er, okkur sem þekkjum bara endanlegu bókaútgáfuna, afskaplega framandi.
Skaftarnir eru þarna enn í talstöðvarsambandi við Kolbein og ræða í framhaldinu saman um hvar þeir gætu verið staddir. Kafteinninn hefur áhyggjur af því, ef Skaftarnir eru villtir, að súrefnisbirgðir þeirra séu orðnar af skornum skammti og dugi í raun kannski ekki nema í um tuttugu mínútur til viðbótar. Tinni kemur til skjalanna í sömu svifum og brýnir fyrir Sköftunum  að reyna að fara eins sparlega með súrefnið og hægt er en þeir Kolbeinn muni leggja strax af stað þeim til aðstoðar og hafa með auka súrefnisbirgðir. Í sömu svifum reka Skaftarnir augun í efri hlutann á eldflauginni og halda þangað þá þegar en þeir Tinni og Kolbeinn koma út úr flauginni og til móts við þá. Þegar Tinni og Kolbeinn koma auga á þá félaga sína fá þeir skyndilega þau skilaboð frá Skapta að Skafti eigi orðið í miklum erfiðleikum með andardrátt sinn og hann sé alveg við það að fara að missa meðvitund. Tinni sér hins vegar (á síðustu myndunum) að eitthvað annað er ekki eins og það á að vera, stekkur af stað og hrópar til þeirra viðvörunarorðum.
Tinni sér þar hvar Skapti er að losa hjálminn af Skafta en sá skilur ekkert í viðvörunum Tinna. Skafta vanti lífsnauðsynlega súrefni og því finnst Skapta ekkert eðlilegra en að losa um loftlausan hjálminn því það sé hann sem komi í veg fyrir að Skafti geti andað. Tinni útskýrir fyrir Skapta að með því muni hann drepa Skafta og um leið setur hann nýja súrefnisflösku aftan á búning hans og skrúfar rösklega frá. Skafti lifnar strax til lífsins og bregst nær samstundis við með afar undarlegum hlátri og öðrum ófyrirsjáanlegum viðbrögðum. Hann röflar eitthvað óskiljanlegt út í loftið og er augljóslega með óráði. Svo miklu reyndar að hann grípur byssu úr slíðri Tinna, fer að veifa henni á ógætilegan hátt og hleypur síðan af stað burt með vopnið. Tinni tekur samstundis á rás á eftir Skafta og reynir að stöðva hann. Á meðan er Kolbeinn kafteinn í sambandi við prófessor Vandráð og segir honum frá undarlegum viðbrögðum Skafta. Vandráður útskýrir þá fyrir honum að líklega sé flæðið úr súrefniskútnum ekki eðlilegt og Tinni hafi skrúfað heldur of mikið frá súrefniskrananum. Sem hefur þau áhrif að hann óverdósar og þeir þurfi hið snarasta að minnka streymið úr kútnum til að Skafti verði eðlilegur á ný. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki vel kunnugt um hvort þessi hætta af ofskömmtun súrefnis sé raunverulega til staðar og ætlar að leyfa öðrum að kynna sér það betur. En þegar Tinni nálgast Skafta og skipar honum að stoppa, snýr sá sér við og tekur til þess ráðs að beina byssunni að Tinna með hótunum.
Skafti hótar því að skjóta hann til að verja sig og Tinni segir honum að hann geti gert það en bendir honum þó á að losi þurfi öryggið á byssunni. Skafti fer þá að skoða byssuna en á því augnabliki nær Tinni að rífa vopnið úr höndum hans. Rétt á meðan Skafti rífur kjaft og skammast yfir afskiptasemi Tinna notar Kolbeinn tækifærið og skrúfar svolítið niður súrefnisstreymið aftan á búningi hans. Áhrifin eru skjót og fljótlega verður Skafti eins og hann á að sér að vera. Fram til þessa höfðu tunglfararnir aldrei borið byssu í allri sögunni en skyndilega eru þeir báðir, Tinni og Kolbeinn, orðnir vopnaðir sitt hvorri skammbyssunni. Líklega má rekja þessa snöggu vopnavæðingu félaganna til hugleiðinga Tinna um fótspor þau sem Skaftarnir töldu sig hafa fundið en það kemur þó ekki fram í sögunni og hvergi í endanlegu útgáfunni má sjá sambærilegan vopnaburð hjá þeim félögunum. Og reyndar furðar SVEPPAGREIFINN sig á því hvað menn hafi yfir höfuð að gera með byssur í ferðalagi til tunglsins. Einhvern veginn er hann alveg viss um að Neil Armstrong og félagar hafi ekki haft með sér skammbyssur á tunglið sextán árum seinna.
En þetta eru nú einu sinni Tinna bækurnar. Fleiri atvik má tína til. Seinna í sögunni fara þeir Tinni og Kolbeinn í ýmsa rannsóknarleiðangra um nágrenni eldflaugarinnar og í einni slíkri ferð uppgötva þeir félagar áhugaverðan helli sem þeir verða auðvitað að kanna betur. Á blaðsíðu 37 í bókaútgáfunni hefur Tobbi fallið niður um op á hellisgólfinu og runnið niður ísilagða brekku en Tinni fer á eftir hundinum til að freistast til að ná honum upp aftur. Þeim Tobba tekst að klöngrast aftur upp undir opið en þaðan þurfa þeir kaðalspotta til að komast aftur upp til Kolbeins. Kafteinninn er þeim auðvitað til aðstoðar og við munum, úr bókaútgáfunni, eftir nokkrum erfiðleikum hans við að koma kaðalspottanum niður til Tinna. En auk þess finnur Tinni að súrefnisbirgðir hans hafa farið ört minnkandi af allri áreynslunni.
Í upprunalegu útgáfunni voru erfiðleikarnir, við að ná þeim aftur upp, hins vegar fleiri. Við munum úr bókaútgáfunni þegar þeir Tinni og Tobbi ná til kaðalspottans (fyrstu tvær myndirnar hér að ofan) og Kolbeini tekst að toga Tobba upp til sín strax í fyrstu tilraun. En í tímaritsútgáfunni rennur Tinni hins vegar skyndilega til í þann mund sem hann er að binda Tobba við kaðalspottann. Við það kippir hann kaðlinum óvart úr höndunum á Kolbeini og spottinn endar þannig allur niðri hjá þeim Tobba, sem einnig hafa runnið aftur niður glerhála ísbrekkuna.
Tinni bendir kafteininum strax á, í talstöðinni, að í tungldrekanum (bláa skriðdrekanum (í tímaritsútgáfunni var hann reyndar gulur!) sem þeir ferðast um með á tunglinu) sé auka kaðall en kemst þá að því að talstöðvasamband hans við Kolbein hafi rofnað við fallið og Tinni og Tobbi virðast því vera alveg bjargarlausir. Tinni gefst þó ekki upp og fer aftur upp að staðnum þar sem þeir féllu niður og freistast til að reyna að komast upp með þeirra spotta. Fljótlega kemur þó í ljós að Kolbeinn hefur farið og sótt hinn kaðalinn í tungldrekann og nær að slaka honum niður til Tinna á ný. Framhaldið þekkjum við auðvitað vel úr bókaútgáfunni en á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig tungldrekinn leit út í upprunalegu útgáfunni í Le Journal de Tintin.
Nokkrar fleiri smávægilegar breytingar voru gerðar á sögunni en flestar þeirra sneru þó að einföldum hlutum eins og litabreytingum (tungldrekinn til dæmis), einstaka leiðréttingum í texta, myndum sem voru stækkaðar eða minnkaðar eftir þörfum og svo framvegis. Ein af þessum minni breytingum frá upprunalegu útgáfunni snerist til dæmis um að Hergé uppfærði sjálfsmorðsbréf Wolfs. Eftir að Wolf hafði skotið Boris liðþjálfa fyrir slysni (og um leið bjargað lífi hinna áhafnarmeðlimanna) framdi hann sjálfsmorð eins og allir muna. Með því fórnaði hann lífi sínu til að auka líkurnar á að súrefnisbirgðir flaugarinnar myndu duga hinum til heimferðarinnar. Wolf endaði því eiginlega hvorki sem illmenni né hetja í sögulok en sýndi þó ákveðna iðrun sem bjargaði hinum áhafnarmeðlimunum. Hergé hafði legið undir töluverðri gagnrýni fyrir að láta Wolf taka eigið líf en í hinni strangkaþólsku Belgíu voru sjálfsvíg álitin mikil synd. Þegar sagan kom síðan út í bókarformi hafði Hergé bætt við textann, í bréfi Wolfs, línu þar sem segir að "kannske gæti eitthvert kraftaverk líka bjargað mér"! Með þessu vonaðist hann til að verknaðurinn sem slíkur yrði ekki jafn áberandi eða augljós en Hergé viðurkenndi þó reyndar seinna að hann hefði alltaf séð eftir því að hafa látið kúga sig til að gera þessa breytingu.
En svo er við hæfi að minnast aðeins á tvær nýjar og eigulegar bækur, tengdum tunglferðalagi Tinna og félaga, sem voru að koma út í tilefni þessa 50 ára afmælis mannaðra tunglferða. Tilvalið að versla sér þessar bækur hið snarasta og dunda sér við að skoða þær í rólegheitum þegar fer að rökkva í haust. Fyrst skal nefna, Tintin et la Lune (einnig til á ensku sem Tintin on the Moon), nýja glæsilega, harðspjalda viðhafnaútgáfu af öllu ævintýrinu en þetta er í fyrsta sinn sem bæði bindin og þar með öll sagan er gefin út í einni bók. Og svo má nefna bókina Tintin - Les premiers pas sur la Lune en þar gefur á að líta hina upprunalegu sögu, sem SVEPPAGREIFINN hefur verið að vitna í hér, í fullri lengd úr tímaritinu Le Journal de Tintin frá árunum 1950-53. Hver einasta blaðsíða úr sögunni hefur verið skönnuð upp og uppfærð til nútímans þar sem upprunalegir litirnir njóta sín til fulls í frábærum gæðum. Í inngangi bókarinnar er að finna 32ja síðna vísindalega samantekt eftir Yves Horeau en auk þess er í henni hellingur af ýmsu fróðlegu aukaefni og skýringum.
Og í lok þessarar þriggja færslna umfjöllunar um tunglbækur Hergés er líka alveg tilvalið að rifja upp einn af hinum frábæru þáttum Gísla Marteins Baldurssonar um Tinna. Í þessum þætti fer hann einmitt eilítið yfir þessar tunglbækur með jarðfræðingnum og stjörnufræðikennaranum Sævari Helga Bragasyni - Stjörnu-Sævari. Frábært efni alveg. Hér má finna hann.

4 ummæli:

 1. Takk fyrir skemmtilaga frásögn. Vegna hennar tók ég mig til og horfði á Tinna teiknimyndirar um Eldflaugastöðina og Í myrkum Mánafjöllum. Þessar með Felixi Bergsyni. Ekki get ég sagt að þær hafi verið eitthvað ofur skemmtilegar þó bækurnar hafi verið mikil snilld. En ég tók eftir einu, mikið var fellt úr af bröndurum sem voru í bókunum, má þar nefna þegar Kolbeinn kveikti óvart í hlustapípu Vandráðs eða þegar hann spilaði á tölvuborðið í eldflaugastöðinni. Svo var dregið verulega úr drykkju kafteinsins sem sést helst þegar hann drakk sér til óbóta í eldflauginni og yfirgaf hana í kjölfarinu. Það vantaði líka í bréf Wolfs.

  SvaraEyða
 2. Takk fyrir, það er alltaf gaman að fá jákvæð viðbrögð og frábært að sjá hve margir sjá þessar gömlu gersemar á sama hátt og maður sjálfur.

  Ég á (held ég) allar myndirnar sem gefnar voru út á dvd með Felix á sínum tíma en hef því miður ekki gefið mér tíma til að horfa á þær. Spurning að skella sér í það þegar fer að hausta og henda inn eins og einni færslu um þann afrakstur. Annars átti ég líka allar gömlu VHS spólurnar líka með Eggert Þorleifssyni en gaf þær fyrir fáeinum árum - dauðsé eftir því auðvitað.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!