23. ágúst 2019

125. HLUTVERKASKIPTI BLÁSTAKKS OG LUKKU LÁKA

Íslenskir lesendur þeirra myndasagna sem voru að koma út hér á landi á sínum tíma kannast líklega flestir við Lukku Láka bókina Allt um Lukku Láka sem Fjölva útgáfan gaf út árið 1978 í þýðingu Þorsteins Thorarensen. Bókin er bæði fróðleg og skemmtileg og í henni er stiklað á stóru um ýmsar merkilegar staðreyndir um sögu og tilurð hinna frábæru Lukku Láka bóka. Upprunalega franska útgáfan heitir reyndar 7 Histoires de Lucky Luke og hafði einungis að geyma sjö stuttar sögur eins og nafn hennar gefur til kynna. Sú bók kom út í Belgíu árið 1974 og innihélt samansafn af litlum sögum sem birst höfðu í hinu skammlífa myndasögutímariti Lucky Luke. En í skandinavísku útgáfunni (og þar með talið þeirri íslensku) hafði verið bætt við heilmiklu af aukaefni og bókin þar með gerð að einhvers konar sagnfræðilegu yfirliti um Lukku Láka bækurnar. Sú samantekt var að mestu unnin af hinum dönsku Henning Kure og Freddy Milton. Sá síðarnefndi er kunnur myndasögufræðingur, listamaður og þýðandi en hann þýddi til dæmis bækurnar um Viggó, Sval og Val, Samma og Blake og Mortimer yfir á dönsku á sínum tíma.
Í bókinni Allt um Lukku Láka gátu íslenskir lesendur til dæmis í fyrsta sinn fundið yfirlit yfir allar Lukku Láka sögurnar í réttri röð sem þá höfðu komið út. Þannig gátu þeir ekki bara áttað sig á brenglaðri útgáfuröð íslensku seríunnar heldur líka séð allan þann fjölda bóka um kúrekann knáa sem enn höfðu ekki verið gefnar út hér á landi. Slíkur fróðleikur var ekki á hverju strái á Íslandi á þeim tíma enda enn áratugir í að hægt yrði að gúggla þess konar gersemar. En í þessari merkilegu bók má einnig finna skemmtilegt efni í tilefni af 25 ára útgáfuafmæli Lukku Láka frá því í desember árið 1971. Franska myndasögutímaritið Pilote fékk þá listamanninn Jean Giraud, teiknara Blástakks (Blueberry) sagnanna, til að teikna eina blaðsíðu (bls. 17) úr Lukku Láka bókinni Grænjaxlinn (Le Pied-Tendre) sem komið hafði út árið 1968 en í hlutverk Lukku Láka var kominn Blástakkur liðsforingi. Hreint frábær hugmynd og vel heppnað hjá Giroud en þeir Morris voru góðir vinir enda báðir að vinna hjá blaðinu. Í þakklætisskyni gerði Morris (Maurice de Bevere), teiknari Lukku Láka bókanna, eina síðu (bls. 10) úr sögunni Le mine de l'allemand perdu (Gullnáma Þjóðverjans), sem gefin hafði verið út árið 1969, þar sem Lukku Láki tók að sér hlutverk Blástakks. Vestrasögurnar um Lukku Láka og Blástakk voru báðar að birtast á þessum tíma á síðum Pilote tímaritsins og það voru þannig hæg heimatökin hjá listamönnunum tveimur að víxla þessum hlutverkum en óneitanlega var stíll þeirra ólíkur. SVEPPAGREIFINN hreinlega elskaði þessar síður í Allt um Lukku Láka í æsku en þær má finna á blaðsíðum 24 til 27 í bókinni. Hér má einmitt sjá Blástakk í kunnuglegu hlutverki Lukku Láka úr bókinni um Grænjaxlinn.
Hér er grænjaxlinn Baldur Badmington nýkominn í fylgd Láka (Blástakks) til hins nýja búgarðs síns, sem hann erfði í villta vestrinu, en um þá sögu má eitthvað lesa hér. Reyndar kom bókin um Grænjaxlinn ekki út hjá Fjölva útgáfunni fyrr en árið 1980 en glöggir Lukku Láka lesendur voru þó ekki lengi að tengja þessa opnu við þá sögu. Blaðsíðan sem Morris teiknaði um Lukku Láka í hlutverki Blástakks var íslenskum lesendum hins vegar meira framandi. Um það leyti sem Allt um Lukku Láka var gefin út árið 1978 voru reyndar fyrstu tvær bækurnar um Blástakk liðsforingja að koma út í boði Fjölva en alls sendi útgáfan ekki nema þrjár bækur (númer 3, 4, og 13 úr upprunalegu seríunni) frá sér úr þessari áhugaverðu seríu. Á slóð Navajóa og Týndi riddarinn komu út árið 1978 og Stúlkan í Mexíkó árið 1982. Sögurnar um Blástakk á íslensku urðu því ekki margar en diggustu aðdáendur bókaflokksins hér á landi voru duglegir að nálgast þessar bækur erlendis frá. Þær komu líklega flestar frá Danmörku en allar 29 Blástakks sögurnar hafa verið gefnar út þar í landi. Reynsla íslenskra lesenda af þessum sögum voru því ekki mjög miklar og ekki er einu sinni víst að þeir sem lásu Lukku Láka bækurnar hafi líka lesið bækurnar um Blástakk. Lukku Láki í hlutverki Blástakks í Allt um Lukku Láka var því fyrst og fremst fyndinn þó menn hefðu ekki sama samanburðinn og af Blástakki í hlutverki Lukku Láka úr Grænjaxla bókinni. Þarna fær þó húmor listamannsins Morris að njóta sín, þar sem bæði Daldónar og Léttfeti koma við sögu, og ekki er ólíklegt að handritshöfundurinn René Goscinny hafi einnig haft þar einhverja hönd í bagga.
En þessi blaðsíða Morris úr Blástakks bókinni Le mine de l'allemand perdu birtist þó íslenskum lesendum löngu seinna þótt ekki sé víst að margir hafi náð að njóta þess. Forsöguna að því má rekja til þess að árið 2000 hóf NordicComics að gefa út myndasögutímarit í áskrift á íslensku en helsti forvígismaður þess og ritstjóri var myndlistamaðurinn Búi Kristjánsson. NordicComics (NC útgáfan) hafði þá nýverið hafið lofsverða útgáfu á myndasögum á ný á Íslandi og sent frá sér fáeinar bækur á svipuðum tíma. SVEPPAGREIFINN mun klárlega eitthvað fjalla um þær sögur í komandi framtíð. Tímaritið nefndist Myndasögublaðið Zeta og uppistaðan af efni þess einkenndist af myndasögum sem gefnar höfðu verið út í Belgíu og Frakklandi, bæði nýlegu og eldra, en einnig mátti þar til dæmis finna sögu með Batman. Framtakið var auðvitað alveg frábært og þær kynslóðir sem lesið höfðu teiknimyndasögur á íslensku á 8. og 9. áratug tuttugustu aldarinnar gátu þannig endurnýjað kynni sín við gamla kunningja. Hinrik og Hagbarður, Strumparnir og Lukku Láki voru kunnuglegir í efni blaðsins en af öðrum myndasögum má til dæmis nefna Titt (Titeuf), Beina (Cubitus), Lárus lánlausa (L'Élève Ducobu) og Sniglana (Joe Bar Team).
Myndasögublaðið Zeta, sem gefið var út í 3-6000 eintökum, varð reyndar ekkert sérstaklega langlíft. En alls komu þó út níu tölublöð af tímaritinu áður en það lagði upp laupana árið 2002. Fyrstu átta tölublöðin voru í nokkuð stóru broti og voru í hefðbundnum myndasögublaðastíl en níunda og síðasta tölublaðið var hins vegar í töluvert öðruvísi formi. SVEPPAGREIFANUM er svo sem ekki vel kunnug ástæða þess en svo virðist sem titli blaðsins hafi einnig verið breytt og læðist því að honum grunur um að einhverjar fjárhagslegar ástæður hafi legið þar að baki. Útgáfa blaðsins hafði verið fjármögnuð með áskriftargjöldum annars vegar og hins vegar með auglýsingatekjum en því miður virðast þær tekjur ekki hafa náð að dekka þann kostnað sem slíkri útgáfu fylgir. Svanasöngur myndasögutímaritsins var því ekki aðeins í formi nýs brots með stífari kápu, sem var um það bil helmingi minna en hin blöðin, heldur var efni þess einnig komið í einfaldara form. Með öðrum orðum ... blaðið innihélt nú einungis eina heila sögu en sú saga var einmitt áðurnefnd Blástakks saga, Le mine de l'allemand perdu, og kallaðist nú Gullnáma Þjóðverjans. En sagan Gullnáma Þjóðverjans er númer 11 í upprunalegu frönsku seríunni.
Því má alveg deila um hvort hér sé um að ræða tölublað af myndasögutímariti eða hreinræktuð teiknimyndasögubók. Það verður einnig að geta þess að ritið innihélt líka tvær eða þrjár auglýsingar auk stuttrar tveggja síðna myndasögu um Lárus lánlausa til uppfyllingar. Reyndar skal það tekið fram að fyrstu sextán blaðsíðurnar úr þessari sögu birtust einnig í Myndasögublaði Zeta númer 3 af 2001 árganginum (8. og síðasta blaðinu úr stóru útgáfunni) en Blástakks sagan Gullnáma Þjóðverjans er hér í heilu lagi og virðist almennt vera skráð hjá íslenskum myndasögulesendum sem venjuleg teiknimyndasaga. Gullnáma Þjóðverjans var þó líklega ekki gefin út í mjög mörgum eintökum en einnig hefur heyrst að afgangnum af upplaginu hafi verið hent eftir dræma sölu þegar hún kom út. Hér er því líklega um nokkuð sjaldgæfan og vandfundinn grip að ræða úr útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi. En það fór samt ekki svo að opnan góða um Blástakk liðsforingja, úr Allt um Lukku Láka, fengi ekki að koma fyrir augu íslenskra lesenda.
Alls eru því sögurnar um Blástakk, sem komið hafa út á íslensku, orðnar fjórar talsins í einhvers konar bókaformi og svo má heldur ekki gleyma að fimmta sagan, Arnarnef (Nez Cassé - 1980) hefur birst í hlutum í myndasögublaðinu NeoBlek en hún er númer 18 úr upprunalegu seríunni

Látum þetta duga í dag. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!