16. ágúst 2019

124. SIGGI OG VIGGA Á ÝMSUM TUNGUMÁLUM

 
Við Íslendingar þekkjum eilítið til hinna einkennilegu myndasagna um Sigga og Viggu sem ættaðar eru frá Hollandi og gefnar hafa verið út í hundraðavís allt frá árinu 1946. SVEPPAGREIFINN er ekki beint par hrifinn af þessum bókum en fyrir mörgum árum tók hann þá afstöðu að dæma þær til eilífðar útskúfunar (eins og hann orðaði það sjálfur einhvers staðar hér á Hrakförum og heimskupörum) og hefur að mestu leyti staðið við þá ákvörðun síðan. Hann hefur þó aðeins fjallað um þessar sögur hér á myndasögublogginu sínu en tíu þessara sagna komu út hér á landi hjá Fjölva útgáfunni á árunum 1989-90.
Á frummálinu heita aðalsöguhetjurnar Suske og Wiske en sögurnar voru hugarfóstur listamannsins Willy Vandersteen sem lést árið 1990. Síðan þá hafa ýmsir komið að sköpun þeirra en bækurnar um Suske og Wiske eru enn að koma reglulega út. Þessar sögur eru merkilega útbreiddar. Alls hafa þær verið gefnar út á rúmlega þrjátíu tungumálum og þær eru til dæmis mjög vinsælar í Asíu. Bækurnar hafa einnig verið gefnar út á öllum Norðurlöndunum (utan Færeyja) en óhætt er að segja að nafngiftir sögupersónanna séu ólíkar eftir löndum. Á íslensku heita þau auðvitað Siggi og Vigga, á finnsku Anu og Antti, á norsku og sænsku Finn og Fiffi og á dönsku nefnast þau Bob og Bobette en í eldri útgáfunum á dönsku hétu þau reyndar einnig Finn og Fiffi. Á þýsku er þetta enn flóknara. Þar kölluðust þau fyrst Ulla og Peter, seinna Bob og Babette, síðan Suske og Wiske en í dag heita þau Frida og Freddie. Og þegar skoðuð eru nöfn þeirra á öllum tungumálunum 33 er óhætt að segja að þau komi úr öllum áttum.
 • Afríska: Neelsie og Miemsie
 • Brabants (hollensk mállýska): Suske og Wieske
 • Danska: Finn og Fiffi (seinna: Bob og Bobette)
 • Enska (Ameríka): Willy og Wanda
 • Enska (Bretland): Bob og Bobette (seinna: Spike og Suzy)
 • Esperantó: Cisko og Vinjo
 • Finnska: Anu og Antti
 • Flæmska (hollensk mállýska): Suske og Wiske
 • Franska: Bob og Bobette
 • Frísneska (hollensk mállýska): Suske og Wiske
 • Gríska: Bobi og Lou
 • Hebreska: Bob og Bobet
 • Hollenska: Suske og Wiske
 • Indónesíska: Bobby og Wanda
 • Írska: Spike og Suzy
 • Íslenska: Siggi og Vigga
 • Ítalska: Bob og Bobette
 • Japanska: ススカとウィスカ (Susuka og Wisuka)
 • Kínverka (tævanska útgáfan): Dada og Beibei
 • Kínverska: 波布和波贝特 (Bobu og Bobete: 1996) og 苏苏和维维 (Susu og Weiwei: 2011-)
 • Latneska: Lucius og Lucia
 • Limbúrgíska (hollensk/þýsk/belgísk mállýska): Suske og Wiske
 • Norska: Finn og Fiffi
 • Persneska: بوبی و بوبت (Bobi og Bobet)
 • Portúgalska: Bibi og Baba (Það er eiginlega næstum því Bíbí og blaka).
 • Portúgalska (Brasilía): Zé og Maria
 • Slóvenska: Spike og Suzy
 • Spænska: Bob og Bobette, Bob og Bobet
 • Svahílí: Bob og Bobette
 • Sænska: Finn og Fiffi
 • Tamílska: Bayankaap og Bayanam
 • Tíbeska: Baga og Basang
 • Þýska: Ulla og Peter (seinna: Bob og Babette/Suske og Wiske/Frida og Freddie)
Þó útbreiðsla bókanna komi á óvart verður að taka það fram að í mörgum tilfella hafa aðeins örfáar sögur komið út á hverju tungumáli. Oft eru það ekki nema um þrjár til tíu bækur. Þó er það ekki algilt og ber að taka það fram að í Finnlandi til dæmis hafa verið gefnar út rúmlega sextíu bækur úr seríunni og rúmlega sjötíu á sænsku.

7 ummæli:

 1. Á þessar allar en hef ekki lesið neina. Ég var að skoða afrekssögu Rene Goscinny og hann kom meðal annars að Oumpah-pah og það væri gaman að fá umfjöllun um þær sögur.

  SvaraEyða
 2. Hef lesið þessar 10 sem komu út á Íslensku og fannst þær ekki svo slæmar, en hef svo sem engan áhuga á að lesa þær aftur. Einu sinni var alveg nóg. Sumar sögur eru bara þannig að ég les þær einusinni og hef svo engan áhuga á meiru. Þessar eru þannig.
  En Ompa-pa, þær eru alveg sér kafli. Ég er sammála Rúnari að umfjöllun um þær yrðu skemmtileg. Ég á 2-3 af þeim og finnst þ.ær skemmtilegar. En sumt er líkt og i Ástríki enda kom Coscinny að þeim eins og Rúnar sagði.

  SvaraEyða
 3. Held að ég muni það rétt að ég hafi bara lesið þessar tíu bækur tvisvar sinnum. Fyrra skiptið var fyrir um 15-20 árum en hitt skiptið bara fyrir nokkrum mánuðum. Og ég man ekkert eftir þeim annað en að ég lofaði mér því að lesa þessar bækur aldrei aftur. Mér hlýtur því að hafa fundist þær leiðinlegar!

  En hvað Oumpah-Pah sögurnar varðar þá kemur vel til greina að fjalla um þær, einmitt vegna tengingar þeirra við Ástrík.

  Takk fyrir þessar ábendingar. Það er alltaf gott að fá ábendingar um góðar hugmyndir og þessi er það sko klárlega.

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 4. Fyrst maður er byrjaður að koma með hugmyndir þá eru sögurnar um Blástakkana merkilegar. 62 bækur hafa verið gerðar en þær áttu að fylla skarðið sem Lukku Láki skyldi eftir hjá bókaútgáfunni þegar hann færði sig yfir á annan útgáfustað. https://en.wikipedia.org/wiki/Les_Tuniques_Bleues#Albums
  Reyndar minnti mig endilega að ég hafi lesið eitthvað um þá hér en fann það ekki eftir þó nokkra leit.

  SvaraEyða
 5. Les Tuniques Bleues eru Bláfrakkarnir er það ekki? Er staddur erlendis og var einmitt að versla mér bók úr þeirri seríu. Mun alla vega örugglega minnast á hana fljótlega. Man ekki hvort ég hafi nefnt þessar sögur áður en finnst það þó. Kannski er ég eitthvað að rugla.

  BláSTAKKUR (liðþjálfi) mun hins vegar koma nokkuð við sögu í næstu færslu.

  Um að gera að koma með ábendingar og hugmyndir. Er opinn fyrir mörgu og met hvort það passar fyrir hugmyndafræði Hrakfara og heimskupara. Annars er ég alltaf tilbúinn með ca 10 færslur fram í tímann.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 6. Vitaskuld voru það Bláfrakkarnir. Ég á nokkrar á dönsku en ég bjó í 4 ár í Danmörku og keypti teiknimyndasögur á dönsku á útsölum þegar ég var að læra málið. Kynntist þá td. Pondus en tvær bækur með honum voru gefnar út um aldamótin og svo ekkert meira gefið út með honum í rúman áratug. Gaman að heyra að það sé ekkert lát á pistlunum. Hef rosalega gaman af þeim og yfirleitt fylgir eitthvert "google" ferðalag eftir lestur til að kynna sér hitt og þetta.

  SvaraEyða
 7. Pondus er algjör snillingur :)

  Enn og aftur takk fyrir jákvæð komment alltaf hér, Rúnar. Öll ummæli og önnur viðbrögð, eins og að vera linkaður inn á teiknimyndasögu-grúbbuna á Facebook, eru mjög hvetjandi.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!