30. ágúst 2019

126. ALEX HINN HUGDJARFI

Í færslu dagsins er ætlun SVEPPAGREIFANS að fjalla eilítið um myndasöguseríu sem ýmist er úthrópuð sem leiðinlegasti bókaflokkur sem gefinn hefur verið út á íslensku eða hún lofuð í hástert og elskuð af aðdáendum sínum. Hér er SVEPPAGREIFINN að sjálfsögðu að tala um hinn metnaðarfulla bókaflokk um Alex hinn hugdjarfa.
SVEPPAGREIFINN hafði alltaf sett þessar sögur á sama stall og myndasögurnar um blaðamanninn Frank eða Guy Lefranc eins og hann heitir á frummálinu. Og til marks um það þá hefur hann til dæmis ávallt raðað bókaflokkununum tveimur saman hlið við hlið í myndasöguhillunum sínum. Þó hann hafi reyndar aldrei lesið þessar myndasögur sem barn þá voru seríurnar einhvern veginn alltaf tengdar saman í huga hans. Þeir félagar SVEPPAGREIFANS sem lásu þessar bækur í æsku töluðu ætíð um sögurnar um Frank og Alex í sömu andránni og fannst reyndar fæstum mikið til þeirra koma. Fordómafull upplifun SVEPPAGREIFANS úr fjarlægð var af svipuðum toga. Teikningarnar voru í sama raunsæisstílnum, bókakápurnar voru mjög sambærilegar og síðast en ekki síst virtust báðar seríurnar jafn hrútleiðinlegar. Það var síðan ekki fyrr en SVEPPAGREIFINN var kominn nokkuð vel á fullorðinsaldur, þegar hann loksins gluggaði aðeins í íslensku útgáfurnar af þessum bókaflokkum, að hann uppgötvaði að listamaðurinn Jacques Martin ætti heiðurinn af þeim báðum. Það var því frekar einkennilegt að sitthvort útgáfufyrirtækið skyldu gefa út þessa bókaflokka hér á landi, Iðunn gaf út bækurnar um Frank en Fjölvi var hins vegar með Alex hinn hugdjarfa á sínum snærum. SVEPPAGREIFINN las síðan aftur bækurnar um Frank í tengslum við færslu sem hann setti hér inn fyrir um einu og hálfu ári síðan en viðurkennir að hafa ekki aftur skoðað bækurnar um Alex. Þessi færsla hér er því ekki byggð á eigin reynslu. SVEPPAGREIFINN sjálfur getur ekki stært sig af neinni annarri reynslu en þeirri þegar hann fletti aðeins í gegnum bækurnar fyrir fáeinum árum og af frekar fráhrindandi upplifun af sögunum í æsku. Lestur teiknimyndasagnanna um Alex eru því komnar á forgangslista SVEPPAGREIFANS.
En það var árið 1948 sem hinn ljóshærði, gallverski unglingspiltur Alix l'intrépide, eða Alex hugdjarfi eins og hann nefndist á íslensku, birtist fyrst á síðum belgíska teiknimyndatímaritsins Le Journal de Tintin. Höfundurinn, Jacques Martin, hafði unnið áður að ýmsum myndasöguverkefnum hjá litlum teiknimyndablöðum en þegar Tinna tímaritið var sett á laggirnar, í september árið 1946, óx það hratt og minni blöðin urðu fljótlega undir í samkeppninni. Þau hurfu því smán saman hvert af öðru og Martin missti starf sitt. Hann hóf þá störf hjá Le Journal de Tintin og vann að ýmsum teikniverkefnum undir handleiðslu þeirra Edgar P. Jacobs og Georges Remi - Hergé. Er hann hafði starfað þar í fáeina mánuði sýndi hann yfirmönnum sínum sýnishorn af fyrstu blaðsíðunum úr sögu sem hann hafði verið að vinna að og nefndi einfaldlega Alix l'intrépide eða Alex hugdjarfi. Og þann 16. september 1948 birtust svo þessar fyrstu síður sögunnar í Le Journal de Tintin (tbl. nr. 38 - 1948) og henni lauk í blaðinu sem kom út þann 17. nóvember árið 1949. Ritstjórum Tinna tímaritsins leyst þó bara rétt mátulega vel á þessa myndasögu í byrjun og höfðu ekkert sérstaklega mikla trú á henni. Sérstaklega var Hergé sjálfur gagnrýninn og taldi söguna ekki líklega til vinsælda. Atburðarásin væri allt of langdregin, flókin og alvarleg, stíllinn væri of staðlaður og nákvæmur og auk þess væri allt of mikill texti í sögunni. En lesendur Le Journal de Tintin elskuðu þessa myndasögu strax frá byrjun og því fékk Martin að halda henni áfram.
Myndasögurnar um Alex urðu því strax mjög vinsælar hjá hinum ungu lesendum Tinna tímaritsins en þær gerast í Rómaveldi á dögum Sesars á 1. öld fyrir Krist. Martin teiknaði ekki bara sögurnar heldur samdi hann einnig handritið að þeim og þær hafa einmitt verið rómaðar bæði fyrir ótrúlega vandvirka teiknivinnu og ekki síður fyrir raunsanna og nákvæma endursköpun á hinum víðsjárverðu tímum Rómaveldisins. Þessar sögur nutu því ekki aðeins vinsælda vegna listrænna hæfileika Martins og afbragðs handrita heldur var fræðslugildi þeirra einnig ótvírædd. Saga númer tvö, Le sphinx d'or (Gullni sfinxinn) hóf göngu sína í blaðinu þann 1. desember árið 1949 og í henni kom til sögunnar unglingsdrengur að nafni Enak en hann átti síðan eftir að fylgja Alex í mörgum ævintýrum. Upphaflega átti Enak aðeins að koma fyrir í þessari einu sögu en hann varð fljótlega að nauðsynlegum fylgifiski aðalsöguhetjunnar. Líkt og Kolbeinn kafteinn í Tinna bókunum. Þá mátti strax sjá ákveðin þroskamerki á sögunni sjálfri þar sem Martin náði betra jafnvægi á milli texta og mynda auk þess sem teiknivinna hans virtist í stöðugri þróun. Með þriðju sögunni L'lle Maudite (Álagaeyjunni) má segja að fullum þroska hafi verið náð en sú saga er í uppáhaldi hjá mörgum og jafnvel talin sú fyrsta af nokkrum meistaraverkum seríunnar. Upp úr þessu fóru sögurnar einnig að verða eilítið einfaldari og sem dæmi um það notaði Martin nú ekki jafnmarga myndaramma á hverri blaðsíðu og fækkaði myndaröðunum úr fimm og niður í fjórar. Þessar þrjár fyrstu sögur seríunnar hafa allar verið gefnar út á íslensku en vikið verður að því síðar.
Árið 1952 hófust einnig að birtast í Le Journal de Tintin sögurnar um Frank sem minnst var á hér í byrjun en auk þess hélt Jacques Martin áfram öðrum störfum sínum fyrir tímaritið. Um Frank skrifaði SVEPPAGREIFINN meðal annars hér. Hergé stofnaði Hergé Studios árið 1954 en þar var Martin ráðinn listrænn ráðgjafi og var mjög virtur af samstarfsmönnum sínum og því miklvægur hlekkur í þeim hópi listamanna sem unnu að Tinna sögunum. Fyrir vikið urðu sögurnar um Frank fremur stopular og að lokum tóku aðrir listamenn alveg yfir teiknivinnuna að þeim þó Martin héldi áfram að semja handritin. Meðal þeirra Tinna bóka sem Jacques Martin vann að á þessum árum má nefna Leynivopnið, Kolafarminn, Tinna í Tíbet, Vandræði Vaílu og Tinna og Pikkarónanna en auk þess vann hann meðal annars að endurteikningum af gömlum bröndurum um Palla og Togga.
Martin hélt þó alltaf áfram að bæði teikna og semja sögurnar um Alex hinn hugdjarfa en ekki var heldur hjá því komist að draga töluvert úr þeirri vinnu vegna anna hjá Hergé Studios. Fjórða sagan La tiare d'Oribal hóf ekki göngu sína í Le Journal de Tintin fyrr en árið 1955 en fyrstu þrjár sögurnar voru síðan endurunnar og gefnar út í bókaformi á árunum 1956 og 57. Alls voru fyrstu átján sögurnar um Alex hugdjarfa birtar í Le Journal de Tintin eða allt til ársins 1985 en fyrir utan þær allra fyrstu voru þær jafnframt gefnar út í bókaformi tiltölulega jafnóðum og birtingu þeirra lauk í tímaritinu. Jacques Martin hætti störfum hjá Hergé Studios árið 1972, þótt hann héldi reyndar áfram að teikna myndasögurnar um Alex fyrir tímaritið, en vann þó að ýmsum öðrum verkefnum tengdum myndasögum eftir það. Nítjánda og síðasta sagan Le cheval de Troie, sem hann bæði teiknaði og samdi handritið einn að, kom út árið 1988 en þá var heldur farið að hægja á listamanninum enda var hann kominn vel á sjötugsaldurinn og búinn að vera höfundur seríunnar einn í heil 40 ár. Þegar sagan O Alexandrie kom út árið 1996 voru liðin átta ár frá síðustu sögu og aðdáendur bókanna töldu jafnvel að serían væri á enda runnin. Jacques Martin hafði enn verið höfundur handritanna en ýmsir aðrir listamenn höfðu tekið við að teikna sögurnar. Bækurnar fóru aftur að koma reglulega út og Martin hélt áfram að skrifa sögurnar í nokkur ár í viðbót eða allt þar til 29. sagan Le Testament de César var gefin út árið 2010. Hann lést í janúar það ár, á 89. aldursári, í Sviss en þar hafði hann verið búsettur síðustu áratugina.
Bækurnar hafa þó haldið áfram að koma reglulega út eftir dauða Martins og nú eru þær alls orðnar 37 talsins. Sú síðasta, með hinum kunnuglega titli Veni, Vidi, Vici, var gefin út á síðasta ári en reikna má með enn einni nýrri sögunni á þessu ári enda hafa nýjar bækur með Alexi hugdjarfa nú komið út árlega í fjórtán ár í röð. Serían hefur því líklega sjaldan verið vinsælli. Sögurnar virðast í seinni tíð þó ekki jafn vandaðar að gæðum og í tíð Martins en þær þykja nokkuð stirðbusalegri en áður. Alls hafa bækurnar verið þýddar og gefnar út á 15 tungumálum en í hinum frönskumælandi löndum hafa verið seldar meira en 12 milljónir eintaka af bókunum frá upphafi. En serían með Alex hugdjarfa er nú orðin rúmlega 70 ára gömul og bækurnar orðnar 37 eins og áður segir. Og fyrir þá sem hafa þörf fyrir algjörlega tilgangslausan og fánýtan fróðleik má geta þess að titlar 28 af bókunum 37 byrja á bókstafnum "L".

 1. Alix l'intrépide - 1956 (Alex hugdjarfi - 1974)
 2. Le sphinx d'or - 1956 (Gullni sfinxinn - 1977)
 3. L'lle Maudite - 1957 (Álagaeyjan - 1981)
 4. La tiare d'Oribal - 1958
 5. La griffe noire - 1959
 6. Les légions perdues - 1965
 7. Le dernier Spartiate - 1967 (Síðasti Spartverjinn - 1978)
 8. Le tombeau étrusque - 1968
 9. Le dieu Sauvage - 1970
 10. Iorix le grand - 1972
 11. Le prince du Nil - 1974
 12. Le fils de Spartacus - 1975
 13. Le spectre de Carthage - 1977 (Vofa Karþagóar - 1977)
 14. Les proies du volcan - 1978
 15. L'enfant grec - 1980
 16. La tour de Babel - 1981
 17. L'empereur de Chine - 1983 (Keisarinn af Kína - 1988)
 18. Vercingétorix - 1985
 19. Le cheval de Troie - 1988
 20. Ô Alexandrie - 1996
 21. Les Barbares - 1998
 22. La Chute d'lcare - 2001
 23. Le Fleuve de jade - 2003
 24. Roma, Roma ... - 2005
 25. C'était á Khorsabad - 2006
 26. L'lbére - 2007
 27. Le Démon du Pharos - 2008
 28. La Cité engloutie - 2009
 29. Le Testament de César - 2010
 30. La Conjuration de Baal - 2011
 31. L'Ombre de Sarapis - 2012
 32. La Dernière Conquête - 2013
 33. Britannia - 2014
 34. Par-delà le Styx - 2015
 35. L'Or de Saturne - 2016
 36. Le Serment du gladiateur - 2017
 37. Veni, Vidi, Vici - 2018
Nokkrar af bókunum um Alex hafa þótt umdeildar en tiltölulega snemma komu fram ásakanir um að í sögunum mætti finna einhvers konar samkynhneigðan undirtón. Bækurnar hafa því nokkuð lengi verið stimplaðar þeirri ímynd. Einhverjir töldu sig hafa þörf fyrir að velta sér upp úr því að hinn ljóshærði unglingspiltur Alex sæjist sjaldan öðruvísi en hálfnakinn og slík ósvinna væri tæpast við hæfi ungra drengja sem að jafnaði voru helstu lesendur myndasagnanna. Og ekki minnkuðu þær hugrenningar við komu Enaks, í bókaflokkinn, sem varð með tímanum einstaklega náinn Alexi og þótti einnig óþarflega klæðalítill.
Reyndar virðast meira og minna allar persónur seríunnar vera hálfnaktar á löngum köflum í bókunum, jafnvel í snjó og kulda. Þarna eru því augljóslega miklar hetjur á ferðinni. Jacques Martin lagði sig fram um að hafa sögusviðið sem nákvæmast og leitaði heimilda úr sígildum bókmenntum en einnig sótti hann fyrirmyndir sínar af sögupersónunum bæði úr klassískri málaralist sem og skúlptúrum af grískum módelum þar sem allir voru meira eða minna hálfnaktir. Sagan segir að hann hafi sjálfur jafnvel gengið svo langt á tímabili að sinna teiknivinnu sinni við sögurnar nakinn til að fá innblástur. Það eitt var líklega næg ástæða til að einhverjir teldu þessar sögur varla við hæfi barna. Jacques Martin var einna fyrstur í belgísk/franska myndasöguumhverfinu til að fara út fyrir þau mörk sem ritskoðun útgefenda um nekt náði til. Allt þetta komst hann upp með og þótti í lagi í nafni sögulegra staðreynda. Sjálfur sagði Martin að aldrei hefði það staðið til að tengja sögurnar samkynhneigð en hann vissi þó af þeirri umræðu. Hans hugmynd hefði aðeins verið að skapa og miðla þeim anda sem einkenndu þennan tíma í sögunni.
Tvær karlkyns aðalsöguhetjur í teiknimyndasögum hafa reyndar löngun þótt þarft umfjöllunarefni hjá áhugafólki um slíka hluti og ekki þarf að fara lengra en til Tinna bókanna til að finna sambærilegar hugleiðingar til að velta sér upp úr. Þá minnkuðu ekki gagnrýnisraddir siðapostula við útgáfu sögunnar Le dernier Spartiate (Síðasti Spartverjinn), árið 1967, en í þeirri sögu kemur fyrir hin kynþokkafulla og sterka kvenpersóna, drottningin Adréa. Þessi aðlaðandi fertuga kona birtist ekki aðeins skyndilega eins og skrattinn úr sauðaleggnum, á hinu gríðarlega karllæga sviði bókaflokksins, heldur var einnig gefið í skyn að hún drægist á einhvern hátt kynferðislega að hinum 16 ára gamla unglingi Alex. Upp úr því fóru fleiri kvenpersónur nú að birtast meira  í bókaflokknum og með frjálslyndari tímum, tengdum hippamenningunni, má segja að hálfgerð sprenging í formi hálfnaktra kvenna hafi orðið í seríunni. Tímarnir voru þannig að breytast, meira að segja í hinni rammkaþólsku Belgíu. Jafnvel sjálf Kleópatra birtist löngu seinna í sögunni Le Fleuve de jade (2003) þar sem hún girnist Enak sem varla er meira en 14 ára gamall gutti.
En fáeinar bækur um Alex komu út á íslensku eins og áður hefur aðeins verið vikið að. Árið 1974 gaf bókaútgáfan Fjölvi, með Þorstein Thorarensen í broddi fylkingar, út fyrstu söguna - Alex hugdjarfi (Alix l'intrépide - 1956). Á þeim tíma höfðu eingöngu verið gefnar út teiknimyndasögur hér á landi með ævintýrum Tinna. Þessi bók um Alex var því aðeins önnur til þriðja serían sem íslenskir myndasögulesendur áttu kost á að fletta því fyrstu fjórar Ástríks bækurnar komu einnig út um leið og þessi saga um Alex. Ekki fer reyndar neinum sögum um hversu vel þessi fyrsta bók seldist en líklega hefur salan verið heldur dræm því næstu tvær sögur úr bókaflokknum kom ekki út hjá Fjölva fyrr en árið 1977. Það sama ár hófu einmitt margar aðrar bókaseríur göngu sínar á íslensku, bæði hjá Fjölva og Iðunni, og líklega hafa þær flestar orðið vinsælli og selst meira en sögurnar um Alex. En bækurnar tvær sem Fjölvi sendi frá sér árið 1977 hétu Gullni sfinxinn (Le sphinx d'or - 1956), og var önnur bókin úr upprunalegu seríunni, en hin var Vofa Karþagóar (Le spectre de Carthage - 1977) sem var þrettánda sagan og reyndar þá sú nýjasta í bókaflokknum. Árið eftir gaf Fjölvi út bókina Síðasti Spartverjinn (Le dernier Spartiate - 1967) sem var saga númer sjö úr upprunalegu seríunni en næsta bók kom ekki út á íslensku fyrr en þremur árum seinna eða árið 1981. Það var bókin Álagaeyjan (L'lle Maudite - 1957) sem var sú þriðja úr upprunalegu bókaröðinni. Nú liðu heil átta ár þar til sjötta sagan kom út á íslensku en sú bók varð jafnframt sú síðasta sem hér var gefin út. Árið 1988 kom út Keisarinn af Kína (L'empereur de Chine - 1983) sem var sautjánda sagan úr upprunalegu seríunni og þessar sex íslensku Alex bækur komu því á víð og dreif úr fyrstu sautján sögum seríunnar. Sem þótti auðvitað mjög hvimleitt því sögurnar allar tengjast og í bókunum er töluvert vitnað í sögur sem aldrei komu út hér á landi.
Rangæingurinn og "fjölfræðingurinn" Þorsteinn Thorarensen þýddi sjálfur allar bækurnar um Alex og það var vel við hæfi því sögurnar tengdust mjög hans eigin áhugasviði sem var auðvitað mannkynssagan eins og hún leggur sig. Fjölvi gaf út mikið af efni sem tengdust veraldarsögunni en fyrst og fremst voru það vinsælustu teiknimyndasögurnar sem skiluðu helstu innkomunni hjá Fjölva. Sennilega tilheyrðu myndasögurnar um Alex ekki þeim flokki en af því að sögurnar tengdust svo áhugasviði Þorsteins þá fékk útgáfa þeirra að fljóta með. Sú útgáfa var því klárlega meira af hugsjón en gróðasjónarmiðum. Vel með farin eintök í bókahillum íslenskra myndasögusafnara og í nytjamörkuðum gefa nokkuð sterka vísbendingu um að þessar bækur hafi ekki verið lesnar upp til agna á sínum tíma. Þar fyrir utan er enn tiltölulega auðvelt að nálgast eintök af þessum bókum úr seríunni og þær kosta ekki handlegg eða tvo. En Þorsteinn Thorarensen skrifaði inngang að fyrstu bókinni, Alex hinn hugdjarfi, þar sem hann segir:
Á hvíldarstundum frá því mikla verki að þýða Veraldarsögu Fjölva hef ég brugðið mér í það að snara einu ævintýri Alexar á íslensku. Sögurnar af Alexi hinum unga og hugdjarfa sveini eru þekkilegar. Þær hafa á sér svip skemmtibókmennta, sem eru fyrst og fremst ætlaðar til afþreyingar og ánægju. En það sem gerir þær svo sérstæðar er vandvirknin og nákvæmnin á öllum sviðum. Auðvitað eru söguhetjurnar skáldskapur, og sum atvik, sem þær rata í ærið ævintýranleg, en þeim er skipað á sögulegt svið með ótrúlegri nákvæmni. Teiknarinn hefur lagt sig fram af mestu snilld að endurskapa hinn rómverska heim og umhverfi og lifnaðarhætti. Húsagerð, búningar og vopnabúnaður, allt er þetta hárrétt. Tökum sem dæmi sérkennilegan brynjubúning Sarmatanna, hann fylgir nákvæmlega fornleifum, sem fundist hafa. Takið líka eftir því, að riddarar ríða á hestbaki án ístaða. Það er líka rétt, því að ístöð voru uppfinning germönsku þjóðflutningatímanna. Sama er að segja um misjafnar tegundir skipa, sem hér koma fram, og risastyttan við innsiglingu á Ródos var raunverulega eitt af sjö furðuverkum heims. Atburðarásin tengist líka sagnfræðilegum viðburðum, herferð Krassusar til Mesópótamíu og valdaátök þau sem hér er lýst eru fullkomlega í stíl við valdabaráttu og samsærisaðferðir Pompeiusar, sem var lýðstjóri um tíma ásamt Sesari. Það er því skoðun mín, að ævintýri Alexar séu ekki aðeins afþreyingarsögur heldur rísi í nákvæmni sinni og natni upp í þroskandi frásögn, sem leiði okkur með sannsögulegu hætti inn á sagnasvið Rómarveldis.
Þýðandi.
Og svo er vel við hæfi að setja endapunktinn á þessa færslu með "áhugaverðum" grip sem heitustu aðdáendur seríunnar um Alex hugdjarfa ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Hér er um að ræða hljómplötuna Alix l'intrépide frá árinu 1960 þar sem fyrsta saga seríunnar er leiklesin með tilheyrandi dramatískri tónlist, ofleik og látum. Og fyrir þá sem ekki láta sér nægja að virða fyrir sér albúmið, eða að hafa bara vitneskjuna um tilurð þessarar plötu, þá er einnig hægt að svelgja ærlega á veigunum með því að hlusta á hana í fullri lengd hér. Góðar stundir.

6 ummæli:

 1. Skemmtilegur pistill. Hafði gaman af þessum bókum sem krakki. Fannst þær alltaf virkilega vel teiknaðar.

  SvaraEyða
 2. Ég held töluvert uppá Alex en ekki eins mikið uppá Frank, þó mér finnist hann vera sama persónan, bara annar tími. Ég hef lagt mig eftir því að lesa þær á öðrum tungumálum og þá helst á netinu, en hef fundið 2 hér í Svíaríki; Iorix den store og Den Etruskiska graven. Báðar afar skemmtilegar. En ég tel að maður verði að hafa áhuga á heimssögunni til að hafa gaman af þessu sögum. Þær passa mér því nokkuð vel.

  SvaraEyða
  Svör
  1. Vildi bara kvitta fyrir færslunni.

   Eyða
 3. Frábærlega vandaðar og vel teiknaðar sögur en ég náði aldrei neinni tengingu við þær. Var alltaf meira fyrir léttmetið. Þarf samt að lesa þær aftur og gefa þeim tækifæri.

  Sammála þessu hjá þér, Villi, að þér hafi fundist þetta vera sama persónan á mismunandi tímum. En samt báðir frekar karakterlausir.

  Kv.
  SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða
 4. Alex hugdjarfi var í uppáhaldi á yngri árum, nú 45 árum síðar er ég að lesa þessa sömu bók fyrir yngsta drenginn minn, sagan endurbirtist ljóslifandi fyrir mér

  SvaraEyða
 5. Frábært hjá þér að kynna þessar bókmenntir fyrir yngstu kynslóðirnar - það mættu fleiri gera.

  SvaraEyða

Út með sprokið!