Síðastliðinn þriðjudag, þann 3. mars, voru liðin þrjátíu og sjö ár síðan belgíski listamaðurinn Georges Remi, eða Hergé eins og hann kallaði sig, féll frá sjötíu og fimm ára að aldri. Hergé var auðvitað kunnastur fyrir hinar víðfrægu Tinna bækur sínar en hann kom einnig að nokkrum öðrum seríum sem þó náðu ekki jafn útbreiddum vinsældum. Samtals hafa Tinna bækurnar nú selst í rúmlega tvö hundruð og fimmtíu milljónum eintaka. Fyrir tveimur árum tók SVEPPAGREIFINN saman nokkuð ítarlega færslu um líf og störf þessa merka listamanns en hana má lesa með því að smella hér. DV var eini íslenski prentfjölmiðillinn sem greindi frá andláti Hergé á sínum tíma en miðvikudaginn 9. mars árið 1983 birtist þessi litla grein í blaðinu á blaðsíðu níu.
Hergé var búinn að vera heilsulítill síðustu árin og reglulega þurft á blóðgjöfum að halda. Í febrúar hafði hann verið lagður inn á sjúkrastofnun og þar fór heilsu hans stöðugt hrakandi en þann 24. febrúar féll hann í dá og komst aldrei aftur til meðvitundar. Hann lést því, eins og áður segir, fimmtudaginn 3. mars um klukkan tíu um kvöldið. Hergé naut gríðarlegrar virðingar fyrir ævistarf sitt út um allan heim en ekki síst í heimalandi sínu Belgíu og einnig Frakklandi. Fjölmiðlar um víða veröld greindu auðvitað frá andláti hans og margir þeirra birtu fréttir þess efnis á forsíðum sínum. Franska dagblaðið Libération birti þannig stóra mynd af Tinna framan á blaði sínu. Það blað er í raun þekkt fyrir að votta þekktu fólki sérstaklega virðingu sína við fráfall þess með einhverju hætti á forsíðum sínum. Á meðal kunnra einstaklinga sem þannig hafa verið heiðraðir má nefna; David Bowie, Muhamed Ali, Leonard Cohen og Díönu prinsessu. Þegar André Franquin lést þann 5. janúar árið 1997 birtist til dæmis risamynd af sorgmæddum Viggó viðutan framan á blaðinu.
Libération
gekk reyndar skrefi lengra en aðrir fjölmiðlar í virðingaskyni fyrir Hergé og tileinkaði hinum
látna snillingi allar blaðsíður sínar, sunnudaginn 6.
mars árið 1983, fyrir nákvæmlega þrjátíu og sjö árum. Eins og áður var nefnt birtist framan á blaðinu risastór mynd af Tinna en þar á forsíðunni gat að líta kunnuglegan svartan bakgrunn með kringlótti, svarthvítri mynd og fyrirsögn þar fyrir ofan þar sem stóð með stórum hvítum stöfum, "FRANCE, RFA VOTES EN 'STOCK".
Í grunninn var þarna verið að vísa í bókakápuna af Tinna bókinni Kolafarminum (Coke en stock) en hin kringlótta mynd kemur hins vegar úr sögunni um Tinna í Tíbet (Tintin au Tibet). Í þeirri bók (á blaðsíðu 44) hafði Tinni örmagnast og Tobbi situr yfir honum og spangólar á hjálp. Í talblöðru Tobba framan á Libération hefur hins vegar verið settur inn textinn, "Tintin est mort" sem myndi þýða á íslensku, "Tinni er dáinn". Og það voru orð að sönnu. Þegar Hergé dó þá dó Tinni með honum. En stjórnendur Libération blaðsins létu sér þó ekki bara nægja að minnast Hergé með mynd á forsíðu sinni. Inni í sjálfu blaðinu helgaði það honum efni á öllum fjörtíu blaðsíðum dagsins með mjög eftirminnilegum hætti. Öllum fréttum, greinum, auglýsingum, veðri og jafnvel sjónvarpsdagskrám dagsins, sem birtust í Libération þennan dag, fylgdu eingöngu myndir við hæfi úr Tinna bókunum. Fyrirsögnin á forsíðunni "FRANCE, RFA VOTES EN 'STOCK" tengdist þannig yfirvofandi Bæjar- og sveitarstjórnarkosningum í Frakklandi og á opnunni, sem sést hér fyrir neðan, var til dæmis verið að fjalla um þingkosningar í Vestur Þýskalandi sem þá voru einmitt nýafstaðnar. Með öllu þessu efni fylgdu, eins og áður segir, kunnuglegar Tinna myndir.
Slík virðing fyrir Hergé, þar sem fjölmiðill heiðraði minningu hans með sambærilegum myndbirtingum, fengi því miður aldrei að viðgangast í dag. Erfingjar Hergés halda því til streitu að höfundarréttarlög séu virt og því virðist vera fylgt svo fast eftir að mörgum þykir reyndar nóg um. Í dag yrði dagblaðið Libération því eflaust lögsótt fyrir svo hryllilega glæpsamlegan verknað.
En það má einnig geta þess til gamans að fyrir fáum árum stóð Libération fyrir endurútgáfu á þessu blaði fyrir þá sem áhuga hefðu á því. Hvert eintak var selt á "hóflegu verði" fyrir aðeins tuttugu og níu evrur að viðbættum sendingarkostnaði og rauk út eins og vel heitar lummur. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort þessi útgáfa af blaðinu sé enn fáanleg en fyrir þá sem áhuga hafa, virðist tiltölulega ósjaldan poppa upp eitt og eitt eintak af upprunalegu útgáfunni á eBay og fleirum sambærilegum vettvöngum. Spurning að skella sér á eintak?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Út með sprokið!