27. mars 2020

156. LITLI LUKKU LÁKI

Enn halda hinir óútreiknanlegu tímar áfram sínu striki og eina vitið í stöðunni er að taka þátt í einföldustu forvörn í heiminum - þ.e. að drullast til að halda sig heima! Á þeim vettvangi er því affarsælast fyrir SVEPPAGREIFANN að demba sér aðeins í myndasögufræðin til að dreifa huganum svolítið. En með fjölbreyttari afþreyingu, tilkomu stafrænnar margmiðlunar og ekki síst almennrar leti og áhugaleysis barna og unglinga, hefur áhugi á teiknimyndasögum dvínað mikið á undanförnum áratugum. Helstu kaupendur þessara myndasagna í seinni tíð hafa verið fólk sem nú er komið á miðjan aldur (eða jafnvel orðið háaldrað) og tilheyrði áður þeim kynslóðum sem lásu þessar bækur í æsku en lítil endurnýjun virðist hafa orðið á lesendahópnum. Því hafa útgefendur myndasagna gert ýmislegt til að reyna að glæða áhuga fólks á þessum afurðum sínum á ný. Hluti af þeirri markaðssetningu hefur til dæmis gengið út á að reyna að byggja upp nýjan grunn af lesendum og helstu markmiðin þar þá verið að ná til yngstu markhópanna. Það þótti til dæmis vænleg aðferð að hefja útgáfu á nýjum hliðarseríum þar sem gömlu myndasöguhetjurnar voru yngdar upp og sýndar algjörlega í nýju ljósi. Bernska hetjanna átti sem sagt að laða að þessa nýju lesendur. Það tókst reyndar ekkert sérstaklega og nýjum lesendum fjölgaði lítið. En nokkrar af þekktustu sögupersónunum fengu þetta nýja barndómshlutverk og SVEPPAGREIFINN fjallaði meira að segja aðeins um þær seríur hér á Hrakförum og heimskupörum fyrir tæplega tveimur árum síðan. Myndasögurnar um Lukku Láka eru af mörgum taldar á meðal þeirra bestu sem franska málsvæðið í Evrópu gaf af sér og þær bækur eru til að mynda í miklu uppáhaldi hjá SVEPPAGREIFANUM. Þannig varð til hliðarserían um Kid Lucky eða Litla Lukku Láka, sem líklega mun aldrei verða gefin út hér á landi, en í dag er þó ætlunin að fjalla aðeins um hana. 
SVEPPAGREIFINN hefur verið nokkuð duglegur við að sanka að sér þessum teiknimyndasögum um Kid Lucky. Gæði þeirra eru reyndar svolítið takmörkuð en síðuhafi hefur þó lúmskt gaman af þeim og hefur því verið að grípa með sér eintök af bókunum þegar hann hefur rekist á þau. Því þótt þessar myndasögur teljist seint til einhverra tímamótaverka þá má ekki gleyma því að þær eru samt auðvitað hluti af Lukku Láka fjölskyldunni. Á alveg sama hátt og myndasögurnar Le Petit Spirou (Litli Svalur) sem íslenskir lesendur fengu elítið smjörþefinn af undir lok tuttugustu aldarinnar. Báðar þessar seríur hafa að geyma efni sem er reyndar ekkert sérstaklega þroskandi en höfundar þeirra telja þær eflaust vera við hæfi þeirra aldurshópa sem komnir eru á hvolpavitsskeiðið. Þá hafa þær að geyma brandara sem eru í hefðbundnu kúk- og pissformi leikskólaáranna og slíkir mannkostir eldast seint af mönnum. Líklega er það einmitt nákvæmlega þetta tiltekna skemmtanagildi sem hinn óþroskaði SVEPPAGREIFI laðast helst að í sögunum. Efni og frásagnarmáti þeirra eiga einnig klárlega að höfða frekar til drengja en stúlkna og sú tilhögun hefði vafalaust geta gengið fullkomlega upp á seinni hluta síðustu aldar. SVEPPAGREIFINN hefur verið nokkuð duglegur að sýna fimm ára dóttur sinni þær myndasögur sem hann var sjálfur að byrja að fletta á hennar aldri og hún er til dæmis þegar byrjuð að glugga aðeins í Tinna bækurnar. En það er nú frekar ólíklegt að hann eigi eftir að ota seríunum um Litla Sval og Litla Lukku Láka eitthvað sérstaklega að henni eða barnabörnunum þegar að því kemur.
Hliðarserían um Litla Lukku Láka var reyndar ekki alveg hið fyrsta sem gert var um Lukku Láka á hans unga aldri. Árið 1995 kom út bók sem nefndist einmitt Kid Lucky en tveimur árum seinna var svo sagan Oklahoma Jim, gefin út en þær fjalla báðar um æsku Lukku Láka. Þessar tvær bækur virðast reyndar ekki tilheyra upprunalegu, frönsku Lukku Láka seríunni en eru samt almennt gefnar út sem venjulegar Lukku Láka bækur í öðrum löndum. Þær eru báðar sagðar vera eftir listamanninn Pearce og handritshöfundinn Jean Léturgie. Síðar kom í ljós að á bak við dulnefnið Pearce voru teiknaratvíeykið umdeilda Yann og Conrad. Sá síðarnefndi hefur í seinni tíð verið þekktastur fyrir að hafa tekið við að teikna Ástríks bækurnar árið 2013 eftir að Albert Uderzo settist í helgan stein. Yann er hins vegar kunnur fyrir aðild sína að bókunum um Gormana, sem allir þekkja, og tvær bækur um Litla Viggó (Gastoon) sem slógu reyndar alls ekki í gegn.
En þessar tvær bækur úr Lukku Láka seríunni hafa að geyma sitt hvoru heilu söguna og fjalla um bernsku Láka. Kid Lucky segir meðal annars frá því hvernig hinn munaðarlausi ungi Láki þvælist um villta vestrið með gullgrafaranum Old Timer og einnig hvernig Léttfeti kemur til sögunnar. Í Oklahoma Jim kynnist hann síðan Daltón bræðrum í fyrsta sinn. Áður en sú saga var fyrst gefin út kom reyndar upp ágreiningur, á milli listamannanna og útgefandans Lucky Productions, sem gerði það að verkum að samningar voru riftir og tekin var ákvörðun um að bókin færi ekki í sölu. Franska útgáfan af Oklahoma Jim, sem prentuð var í hundrað og fimmtíu þúsund eintökum, var því ekki seld heldur gefin sem aukaeintak með öðrum bókum sem kaupendur versluðu af Lucky Productions. Af þeim sökum er sú útgáfa mjög eftirsótt í dag af söfnurum. En það er önnur saga.
Kid Lucky bókaflokkurinn sjálfur hóf hins vegar göngu sína undir lok nóvember árið 2011 þegar fyrsta bókin í seríunni, Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy, kom út hjá Dargaud útgáfunni. Það er franski listamaðurinn Achdé (Hervé Darmento) sem á heiðurinn af þessari seríu en hann á svo sem ekki langt að sækja Lukku Láka þekkingu sína. Achdé hafði verið lærlingur hjá Morris og tók einmitt við aðalseríunni um Lukku Láka sjálfan árið 2004, eftir að Morris lést árið 2001, og hefur síðan teiknað átta nýjustu sögurnar í upprunalega bókaflokknum. Bókin Kid Lucky - L'Apprenti cow-boy samanstendur að mestu af einna síðna bröndurum um daglegt líf hins unga Lukku Láka (og æskufélaga hans) í villta vestrinu. Það er ekki ósvipað því formi sem við þekkjum til dæmis úr bókunum um Viggó viðutan og Litla Sval. En þessi fyrsta bók Kid Lucky seríunnar hefst þó á stuttri sex blaðsíðna sögu. Þar segir frá því hvernig kúrekinn Sam finnur brunnar rústir af vagni sem augljóslega hefur orðið fyrir árás indjána og á þeim sömu slóðum finnur hann einnig nokkurra daga gamalt ungabarn. Hann tekur það með sér til heimabæjar síns, Nothing Gulch (allir kannast við Einskisgil), sem er í nágrenninu en þar tekur hinn stjórnsami og ráðríki kráareigandi Martha við barninu. Ungabarnið er að sjálfsögðu Lukku Láki og Martha gengur honum þegar í móðurstað.
Sextíu og fimm árum eftir að kúrekinn knái kom fyrst fram á sjónarsviðið birtust því loksins þau svör um uppruna og fjölskyldu Lukku Láka sem margoft hefur verið spurt um í gegnum tíðina. Nú er Morris, faðir Lukku Láka, auðvitað látinn og því erfitt að spyrja hann hvort þessi nýtilkomni uppruni kúrekans hafi verið í einhverju samræmi við hans eigin hugmyndir. Og kannski voru þær hugmyndir heldur aldrei til hjá honum. Svo má líka vel vera að þetta handrit Achdé hafi verið unnið í fullu samráði við Morris áður en hann lést. Hinar áðurnefndu sögur um Lukku Láka Kid Lucky og Oklahoma Jim, sem fjalla um bernsku Láka, voru unnar undir eftirliti Morris og því má vel vera að hann hafi skilið eftir sig einhverjar leiðbeiningar um uppruna hans. Í þessari sex blaðsíðna örsögu Achdé, í byrjun fyrsta heftisins um Kid Lucky, var því hugsanlegum öllum hugmyndum Morris um uppruna Lukku Láka hent út á hafsauga.
Fyrsta bókin um Kid Lucky gekk það vel að fljótlega var hafist handa við framhald bókaflokksins. Næsta bók seríunnar, Lasso périlleux, kom út árið 2013, Kid Lucky - Statue Squaw árið 2015, Kid Lucky - Suivez la flèche er frá árinu 2017 en nýjasta bókin kom út fyrir jólin 2019 og heitir Kid Lucky - Kid ou double. Achdé hefur því haft þann háttinn á að senda frá sér bók úr Litla Lukku Láka seríunni annað hvert ár en á árunum á móti hafa þá komið út sögur í upprunalega Lukku Láka bókaflokknum. Nú eru því komnar út fimm bækur með Kid Lucky en fyrstu þrjár bækurnar eru allar eins uppbyggðar. Í byrjun þeirra eru fyrst ein sex blaðsíðna saga, þar sem hin eldri útgáfa af Lukku Láka fléttast einnig oft inn í söguna, en afgangurinn af hverri bók samanstendur síðan af einna síðna bröndurum líkt og í fyrsta hefti seríunnar. Í fjórða heftinu, Kid Lucky - Suivez la flèche, er þessu reyndar aðeins öðruvísi háttað en sú bók endar á fimm blaðsíðna jólasögu. SVEPPAGREIFINN er ekki enn svo vel settur að hafa eignast og flett nýjustu bókinni, Kid Lucky - Kid ou double, en reikna má með að uppbyggingu hennar sé háttað á svipaðan hátt og hinum fyrri.
Achdé er höfundur allra bókanna en þær hafa fengið nokkuð jákvæð viðbrögð frá lesendum eftir að þær hófu að koma út. Kaupendur seríunnar eru reyndar ekki sá markhópur sem stjórnendur útgáfunnar hefðu helst óskað eftir en gömlu lesendur hennar virðast hafa tekið bókunum þokkalega vel. Almennt lítur út fyrir að menn séu nokkuð sáttir við teikningar Achdé, hvort sem það er í Kid Lucky eða upprunalegu seríunni, og heilt yfir þykir stíllinn alls ekki svo langt frá Morris. Sjálfur var Achdé mikill aðdáandi Lukku Láka bókanna í æsku og dreymdi sem barn um að verða myndasöguhöfundur. Þegar hann var spurður hvað hann ætlaði að gera þegar hann yrði orðinn stór þá sagðist hann ætla að teikna Lukku Láka. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar ekki verið mjög hrifinn af teikningum hans, í upprunalegu Lukku Láka seríunni, en viðurkennir þó að þær fara batnandi þó enn eigi hann nokkuð í land með að ná Morris. Achdé er klárlega með hæfileika en SVEPPAGREIFINN gerir kröfur. Við erum jú að tala um Lukku Láka.
Serían um hinn unga Láka er hins vegar í sjálfu sér fín og fyndin. Þarna kemur fram alveg ný sýn á Lukku Láka og bernsku hans, í villta vestrinu, gerð ágæt skil með mörgum skemmtilegum bröndurum. Neðst á hverri blaðsíðu má finna svolítið textabrot þar sem fram kemur ýmis fróðleikur eða útskýringar á einhverju efni sem tengist viðkomandi brandara. En það er eiginlega bara í fyrstu bókinni, í sex síðna sögunni, sem eitthvað nýtt um hann kemur fram. Þar er uppruni hans er gerður upp en einnig skýrt frá því hvers vegna hann kallast Lukku Láki. Afgangurinn af seríunni snýst meira um fyndna heilsíðubrandara sem reyndar eru bara nokkuð vel heppnaðir. Þó efni brandaranna tengist oftar en ekki hinum alræmda kúk- og pisshúmor æskuáranna þá er heilt yfir reynt að miðla ákveðnum boðskap til hins unga markhóp seríunnar. Bókaflokkurinn var auðvitað fyrst og fremst skapaður fyrir börn. Litli Lukku Láki er til dæmis frekar sjaldan með byssu við höndina heldur er hann oftar en ekki vopnaður vígalegri teygjubyssu - sem er auðvitað miklu heilbrigðara. Og í seríunni kemur skýrt fram hvers vegna hann hefur ekki ánetjast áfengi líkt og algengt er með suma kollega hans í villta vestrinu úr upprunalegu seríunni.

3 ummæli:

 1. Skemmtilegur pistill og fræðandi.

  SvaraEyða
 2. Takk fyrir þennan pistil. Sammála seinasta ræðumanni, skemmtilegur og fræðandi.

  SvaraEyða
 3. Þakka ykkur :)

  Kv. SVEPPAGREIFINN

  SvaraEyða

Út með sprokið!