20. mars 2020

155. VEIRAN ER BÓK DAGSINS

SVEPPAGREIFINN hefur yfirleitt ekki lagt það í vana sinn að detta í dramatískar hugleiðingar í föstudagsfærslum sínum. En hinir fordæmalausu tímar kalla þó á efni sem hæfa þeim óhugnanlegu vikum sem framundan eru. Það þarf nefnilega að leita rúmlega öld aftur í tímann til að finna sambærilegt ástand hér á landi. Já eða reyndar sem heimurinn allur þarf að glíma við þessar stundirnar. Eflaust munu færslur Hrakfara og heimskupara því að einhverju leyti verða litaðar af þessum víðsjárverðu tímum á næstunni. Allt er það þó gert til að létta áhugafólki um myndasögur (og öðrum) stundirnar og getur vonandi um leið dreift huga þeirra sem á því munu þurfa að halda. Það er því algjörlega við hæfi að benda á Sval og Val bókina Veiran, sem kom út hjá Iðunni árið 1984, og er í uppáhaldi hjá mörgum. Sú bók er auðvitað tilvalin í færslu dagsins.
Veiran, eða Virus eins og hún heitir reyndar á frummálinu, var fyrsta bókin í seríunni sem var eftir hina nýju höfunda Tome og Janry og kom einmitt út í Belgíu þetta sama ár - 1984. Þær voru þó ekki ýkja margar Sval og Val bækurnar sem gefnar voru út á Íslandi sama ár og þær komu út í Belgíu. Þessi myndasaga er að vísu ekki í hópi hinna bestu úr seríunni, að mati SVEPPAGREIFANS, en er þó alveg ágætis bók. Það sem skilur eiginlega mest eftir sig hjá síðahafa, við lestur hennar, er sú merkilega uppgötvun að Sveppagreifinn (hinn eini sanni) dundar sér augljóslega, í frítíma sínum, við að búa til framúrstefnulega snjókarla!
Það er því alveg tilvalið fyrir þá sem eru í sóttkví heima hjá sér eða eru jafnvel þegar orðnir veikir (og hafa heilsu til) að sökkva sér aðeins ofan í lestur seríunnar um Sval og Val. Eða einhverja aðra af þeim fjölmörgu bókaflokkum sem verið var að gefa út hér á landi fyrir um fjörtíu árum. Lestur teiknimyndasagna er ekki bara notaleg afþreying heldur léttir hann líka klárlega marga lund.
Landlæknir hefur látið hafa það eftir sér að líklegt sé að hápunktur faraldursins hér á Íslandi muni verða skömmu fyrir miðjan apríl. Páskarnir hafa auðvitað verið tímasettir á þeim slóðum í almanakinu (þ.e.a.s. ef þeim verður ekki aflýst eins og Eurovision!) en SVEPPAGREIFINN hefur gert viðeigandi ráðstafanir varðandi þá. Þá ætlar hann að leggja sitt af mörkum við að reyna að stytta fólki stundir en hann hefur nokkuð lengi, með hléum reyndar, verið að dunda sér við að punkta niður skemmtilega áhugavert myndasöguefni. Ætlunin er að birta það hér um páskana.

En ... æji, förum öll varlega.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir pistilinn. Vel til fundið og nú förum við öll varlega. Ætla að kíkja á þessa bók í kvöld.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér sömuleiðis.

    Ansi væri nú annars gott að hafa eins og einn kláran vísindamann eins og Sveppagreifann hér í raunheimum. Sá væri ekki lengi að finna einhverja góða lausn við Kórónaveirunni með þessu sveppastússi sínu :)

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!