15. október 2021

190. VIGGÓ Á VEIÐUM

Það kemur fyrir öðru hvoru að sjaldgæfar teikningar frá helstu listamönnum belgísk/franska myndasögusvæðisins dúkki óvænt upp og eru boðnar til sölu á þartilgerðum vettvöngum. Uppruni þessara mynda er af margvíslegum toga. Stundum gerist það að teikningarnar finnast í gömlum skjalasöfnum, sumar koma úr einkaeigu þar sem viðkomandi listamaður hefur gefið gömlum vini, ættingja eða jafnvel aðdáanda einhverjar skissur á blaði og í rauninni geta þessar myndir hafa komið hvaðan sem er. Þarna eru safnarar að selja dýrgripi sína, eitthvað kemur úr dánarbúum, sumum hefur jafnvel verið stolið einhvern tímann á árum áður og svo eru þessar óvænt fundnu teikningar sem enginn virðist vita hvaðan koma og ekkert er vitað um uppruna þeirra. Sjálfsagt er einnig stór hluti þessara mynda falsaðar þar sem óvandaðir aðilar reyna að koma sviknum verkum í verð. Uppboðsvefir, sem taka að sér að selja þessa gripi, hafa yfir að ráða sérfræðingum sem starfa við að verðmeta þessar teikningar. Þá er eitt helsta hlutverk þeirra auðvitað einnig að kanna hvort um falsanir séu að ræða með því að sannreyna uppruna þeirrra. SVEPPAGREIFINN hefur aðeins minnst á gamlar teikningar, í fáeinum færslum hér á síðunni, sem komið hafa fram í sviðsljósið í seinni tíð. Og þar er skemmst að minnast blaðs með skissum af Viggó viðutan og ungfrú Jóku í frekar óhefðbundnum athöfnum sem sjá má í færslu hér. En það er einmitt teikning af svipuðum toga og úr sömu átt sem SVEPPAGREIFINN ætlar að eyða færslu dagsins í.

En fyrir rúmlega þremur árum birtist einmitt á uppboðsvef einum í Frakklandi (Auction.fr) svolítið subbuleg pappírsörk, með gömlum brandara um Viggó viðutan, sem boðin var til kaups. Þessi óvenjulega örk var reyndar útklippt blaðsíða númer þrjú úr 1883. tölublaði myndasögutímaritsins SPIROU sem kom út fimmtudaginn 16. maí árið 1974 og á henni mátti meðal annars sjá kámuga bletti sem við fyrstu sýn gætu einfaldlega virst vera kaffislettur. Þessi blaðsíða hafði verið klippt út úr tímaritinu og límd á venjulega hvíta pappírsörk af stærðinni A4 og neðst á blaðinu voru handskrifuð skilaboð með penna. Þessar upplýsingar allar væru í sjálfu sér ekkert í frásögu færandi nema fyrir það að úr neðstu myndaröðinni höfðu verið klipptir út tveir af upprunalegu myndarömmunum og inn í eyður þeirra hafði verið bætt við tveimur yngri teikningum. 

Áður en lengra er haldið er þó líklega rétt að staldra eilítið við og sýna fyrst upprunalegu blaðsíðuna í heild sinni eins og hún birtist í SPIROU tímaritinu þennan vordag árið 1974.

Í stuttu máli fjallar þessi brandari um það að vinur okkar Viggó viðutan fær lánaða gamla myndavél frá Snjólfi samstarfsmanni sínum. Hann ætlar að fara með ungfrú Jóku að veiða og fær örugglega tækifæri til að smella þar af nokkrum myndum á vélina. Í veiðiferðinni vill Jóka að Viggó taki mynd af þeim saman og hann kemur því myndavélinni fyrir á gömlum trjábol og setur tímastilli hennar á tíu sekúndur. Síðan hraðar hann sér aftur til Jóku en á leiðinni kemur eitthvað fát á hann sem endar með því að hann steypist á hausinn í þann mund sem vélin smellir af. Myndirnar tala auðvitað sínu máli en á síðasta myndarammanum sést Snjólfur hrósa ungfrú Jóku fyrir hinn stæðilega afla og vísar þar í ljósmyndina framkallaða fyrir aftan sig. SVEPPAGREIFINN var reyndar alveg með það á hreinu að þennan brandara væri að finna í einhverjum af íslensku bókunum um Viggó viðutan - svo kunnuglegur var hann. En svo reyndist þó ekki vera. Hins vegar komst hann að því að brandarann væri að finna á frummálinu í Viggó bókinni Lagafe mérite des baffes, sem einmitt er að finna í bókahillum hans, og auðvitað hafði SVEPPAGREIFINN margoft flett þeirri bók. Íslenskir myndasögulesendur verða því að bíða í nokkur ár eftir að 13. bindið í seríunni um Viggó viðutan komi út hjá Froski útgáfu. 

En snúum okkur aftur að hinni merkilegu pappírsörk af uppboðsvefnum.

Eins og sést á þessari mynd eru hinir áðurnefndu rammar úr neðstu myndaröðinni í óvenjulegri kantinum. Í stað þess að Viggó standi á haus, á því augnabliki sem vélin smellir af, grípur hann óvart utan um Jóku og flettir hana óviljandi klæðum í sömu mund svo eftir stendur hún allsnakin!

Ungfrú Jóka er svo sem ekkert að kippa sér mikið upp við þessu óvænta slysi og virðist meira að segja láta sér það í nokkuð léttu rúmi liggja. Hún hrópar jafnvel upp yfir sig, "AAAHHH ... HERRA VIGGÓ!" og er bara nokkuð kát á svipinn. En Viggó bregst aftur á móti frekar vandræðalegur við með hefðbundinni upphrópun sem samsvarar, "ÚPS! HANANÚ?!" Á seinni myndinni, sem skipt hafði verið út, er Viggó hins vegar mættur í framköllunarþjónustu í ljósmyndavöruverslun þar sem glaðhlakkalegur afgreiðslumaðurinn lýsir yfir ánægju sinni yfir veiði dagsins á svipaðan hátt og Snjólfur á upprunalega brandaranum. Viggó sjálfur er aftur á móti hálf skömmustulegur á svipinn.

Á uppboðsvefnum kom það fram að umræddar tvær viðbætur væru teiknaðar með penna og trélitum og að þær væru eftir André Franquin sjálfan. Vakin var athygli á hinum handskrifaða texta fyrir neðan en hann var sagður eftir listamanninn sjálfan og skýrir sögu þessa plaggs. Samkvæmt samanburði á rithöndum eru sterk líkindi til þess að textinn sé frá Franquin kominn. 

Það er víst til lítils að rýna í óskiljanlega, handskrifaða frönsku en þegar þessum texta er snarað sem snöggvast upp á íslensku væri þýðingin á honum í megindráttum eitthvað á þessa leið:

Kæri Jean. Hérna er þessi Viggó brandari eins og hann átti alltaf að vera. Vegna SPIROU varð þó að ... milda hann aðeins. Nú ert þú hinn eini raunverulegi eigandi að Viggó brandara númer 806 eins og hann átti upphaflega að vera. Með bestu kveðjum.

Samkvæmt þessum skilaboðum átti 806. Viggó brandari Franquins því upphaflega að líta svona út. Útgefandi SPIROU tímaritsins, sem var Dupuis, hafi þó komið í veg fyrir að hann birtist í þessu formi í tímaritinu og óskaði eftir því við Franquin að hann breytti honum. Það gerði hann og endanlega útgáfan, eins og við sjáum hana hér ofar í færslunni, birtist að lokum í blaðinu. Einhvern tímann seinna hefur listamaðurinn svo útbúið þessa útgáfu af brandaranum með því að líma myndirnar tvær inn í úrklippu af SPIROU blaðinu og gefið þessum Jean. Nafn eða undirskrift André Franquin kemur þó hvergi fram á þessu plaggi og engin gögn þar eru með staðfestingu á því að hann hafi sjálfur skrifað þessi skilaboð. Sjálfsagt eru þó allar nauðsynlegar upplýsingar og staðreyndir um uppruna skjalsins á hreinu þó þær séu ekki lengur aðgengilegar á sjálfum uppboðsvefnum. Uppruni arkarinnar hlýtur alla vega hafa verið staðfestur með einhverjum hætti því að öðrum kosti hefði hún varla verið boðin upp á þeim vettvangi. Í það minnsta er hvergi minnst á þann möguleika að blaðið gæti verið falsað og einnig virðast að minnsta kosti tveir fyrrum samstarfsmenn Franquins staðfesta upprunalegu útgáfu þessa brandara hans. Ekki kemur fram hvað varð um þessa pappírsörk eða hvort hún yfirhöfuð seldist á uppboðsvefnum. Hvenær Franquin útbjó plaggið er einnig óljóst en tæknilega gæti hann hafa gert það frá því stuttu eftir að þetta 1883. tölublað kom út árið 1974 og allt til þess dag sem hann lést í byrjun árs 1997. Og þá er líka spurningin hver þessi Jean var (er?). Það er reyndar mjög óljóst en einhverjar kenningar eru um að Jean þessi gæti hugsanlega hafa verið listamaðurinn Jean Roba sem þekktastur var fyrir myndasögurnar um Boule og Bill. Þeir Franquin og Roba voru góðir vinir, störfuðu báðir hjá SPIROU og unnu meðal annars saman að nokkrum sögum um Sval og Val. Roba lést árið 2006.

Það er alla vega ljóst að André Franquin hefur verið mjög gamansamur og kannski ekki alveg við eina fjölina felldur í fjölbreytilegri listsköpun sinni. Þessi ljósblái Viggó brandari og hinar erótísku myndir hans af þeim Viggó og ungfrú Jóku bera alla vega vott um töluverðan neðanbeltis-húmor. Eflaust hefur fleirum slíkum listaverkum verið kastað á milli hinna frjóu listamanna sem störfuðu þarna á SPIROU tímaritinu á sínum tíma þó þær kæmu auðvitað aldrei fyrir augu lesenda blaðsins. Það er svo sem ekki ætlun SVEPPAGREIFANS að fara að dæma Franquin sem einhvern perra eftir þessum brandara og jafnframt frábiður hann sér sjálfur allar ásakanir um kvenfyrirlitningu, klámþörf eða öðru því sem viðkvæmum lesendum gæti dottið í hug við birtingu þessa efnis. Þessa útgáfu af brandararnum ber eingöngu að líta á sem skemmtilega viðbót, við persónuna Franquin, sem vekur mann til umhugsunar að hann hafi þrátt fyrir allt verið mannlegur.

6 ummæli:

  1. Vilmundur Kristjansson15. okt. 2021, 13:57:00

    Takk fyrir þennan ágæta pistil og velkominn til baka.

    SvaraEyða
  2. Þakka þér Villi, gott að vera kominn aftur.

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  3. Fróðlegur og skemmtilegur pistill eins og alltaf hjá þér.
    Hjartanlega velkominn til baka.

    SvaraEyða
  4. Takk kærlega, Rúnar

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða
  5. Gaman að þessu!
    Takk fyrir að standa vaktina fyrir okkur á myndasögurófinu :D

    SvaraEyða
  6. Þakka þér Ingi :)

    Kveðja,
    SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!