11. apríl 2020

160. MISTÖK Í TINNA BÓKUNUM - ÞRIÐJI HLUTI

SVEPPAGREIFINN er búinn að vera að dunda sér við að birta mistök úr Tinna bókunum undanfarna daga en nú er komið að þriðja hlutanum af fimm í þeirri færsluröð. Byrjum á sögunni um Leyndardóm Einhyrningsins og sjáum hvað dagurinn í dag hefur skemmtilegt fram að færa.

10. LEYNDARDÓMUR EINHYRNINGSINS
Bls 2 - Í upphafi sögunnar um Leyndardóm Einhyrningsins er Tinni á rölti á flóamarkaði og hittir þar Skaftana sem eru að kaupa hrúgu af göngustöfum. Þeir félagarnir spjalla svolítið saman, verður til dæmis tíðrætt um vasaþjófafaraldur sem virðist vera í gangi en svo skilja leiðir þeirra og Skaftarnir fara sína leið. Þegar þeir ganga burt með stafahrúguna tekst öðrum þeirra, á einhvern óskiljanlegan hátt, að krækja göngustöfunum í tösku sem þeir taka síðan með sér. Með tilliti til stöðu stafsins sem húkkaði töskuna er ekki nokkur leið að krækja óvart í neitt á þennan hátt.
Bls 6 og 13. Tinni kaupir gamalt líkan af skipi á flóamarkaðnum og þegar Kolbeinn kafteinn sér það hjá honum dregur hann Tinna samstundis með sér heim til sín. Þegar Kolbeinn opnar dyrnar inn í íbúðina sína (bls 6) sést greinilega að hurðarhúnninn er hægra megin á hurðinni séð utan frá. Nokkru seinna (bls 13) þarf Tinni aðstoð lásasmiðs til að komast inn í íbúð Kolbeins og þá sést að hurðarhúnninn er allt í einu kominn vinstra megin á hurðina. Og ekki nóg með það, heldur er nú líka komin nýr litur á hana, auk þess er þar komin motta á gólfið sem ekki var á fyrri myndinni.
Bls 7 og 58. Á flóamarkaðnum margnefnda hafði Sigmundur nokkur Sakkarín mikið reynt að eignast skipið og leggur sig fram um að reyna að kaupa það af Tinna. Eftir að skipinu er stolið frá Tinna fær hann auðvitað strax grun um að Sigmundur eigi þar einhvern hlut að máli og fer því hið snarasta heim til hans. Þegar Tinni hringir dyrabjöllunni við útidyrnar heima hjá Sigmundi (bls 7) má sjá að hurðin er ljósbrúnleit á litinn og með einhvers konar látúns handfangi til skrauts á miðjupósti hennar. Undir lok sögunnar þarf Tinni aftur að heimsækja Sigmund Sakkarín (bls 58) en þá er hurðin hins vegar allt í einu orðin græn og látúnsskrautið á miðjupóstinum hvergi sjáanlegt.
Bls 8. Eftir fyrri heimsókn sína til Sigmundar Sakkarín ákveður Tinni að hringja heim til Kolbeins úr símklefa. Hann þarf að bíða fyrir utan símklefann því eldri frú hefur hertekið klefann fyrir sig og hundinn sinn á meðan að rigningarskúr gengur yfir. Á fyrri myndinni sést að handfangið á hurðinni að símklefanum er greinilega nær götunni en á seinni myndinni, þar sem Tinni bíður, sést að húnninn er allt í einu kominn þeim megin sem er fjær götunni. Og ekki nóg með það, heldur er hurðin á símklefanum líka allt í einu komin á hinn endann á honum.
Bls 31 og 56. Þeir fuglsbræður, Þröstur og Starri, koma nokkuð við sögu þessarar bókar en þeir aka um á bláum Ford eins og sést þegar þeir reyna (bls 31) að ráða Brand kollega sinn af dögum. Þarna vantar númeraplötuna framan á bíl þeirra bræðra en seinna (bls 56) þegar Starri flýr á bílnum frá Myllusetrinu sést númeraplatan hins vegar greinilega framan á hægra brettinu.
Bls 38 - 40. Tinna er rænt af skósveinum þeirra Starra og Þrastar og er lokaður niðri í kjallaranum undir Myllusetri sem á þessum tíma er enn í forsjá þeirra bræðra. Þarna niðri er stór viðardrumbur á gólfinu sem Tinna tekst að hífa upp og notar síðan til að brjóta sér leið í gegnum múrsteinsveggi kjallarans. Þessi viðardrumbur lítur út fyrir að vera ansi þungur. Gerum ráð fyrir að hann sé um það bil 25 x 25 cm á þykkt og um 250 cm á lengd. Reiknum með að þetta sé eik og með umreiknaðri eðlisþyngd má gera ráð fyrir að drumburinn gæti verið allt að 120 kíló. Hvernig í ósköpunum fer Tinni að því að lyfta honum upp? Þessi drumbur er aldrei léttari en Tinni sjálfur og miðað við allar forsendur ætti hann því ekki að geta togað hann upp með þunga sínum einum.
Bls 41 og 44. Þegar Tinni hefur náð að brjótast í gegnum múrsteinshlaðinn vegginn, með viðardrumbinum, skríður hann í gegnum gatið og inn í stórt geymslurými sem þar er. Þar sést (bls 41) að drumburinn hefur ekki bara sett gat á vegginn heldur líka rutt um koll skáp, sem staðið hefur upp við hann, og ýmislegt annað dót. Þar með talið er spjót eitt sem hallar út frá skápnum. Svolítið seinna í sögunni (bls 44), eftir eltingarleik við þá fuglsbræður í geymslunni, treður Tinni sér aftur í gegnum opið hina leiðina. Þá sést m.a. að spjótið góða er hvergi sjáanlegt lengur.
Bls 42. Niðri í geymslukjallararnum hefur Tinni falið sig á meðan þeir Starri og Þröstur ráfa um og leita að honum innan um alls konar skemmtilegt skran og drasl. Hann telur sig hafa náð að losa sig við þá bræður þegar gömul gauksklukka fer skyndilega af stað og í kjölfarið birtist þessi myndarammi sem sýnir hægri hönd Þrastar með einhverjum undarlegum lit.
Bls 43. Tinni kemur upp um sig í kjallaranum með klaufalegum hætti og þeir Starri og Þröstur eru samtímis komnir á slóð hans. Þeir byrja að skjóta á hann og Tinni reynir allt hvað hann getur til að trufla eftirför þeirra. Eitt af því sem hann tekur til bragðs er að brjóta gamlan reiknistokk og vonast til að kúlurnar úr honum geti gert eitthvað gagn. Og það gengur svo sem alveg eftir. Reiknistokkurinn hefur að geyma tuttugu rauðar kúlur (fimm stykki í fjórum röðum) og annað eins af svörtum en á seinni myndinni eru rauðu kúlurnar þó að minnsta kosti tuttugu og fimm talsins!
Bls 52. Eltingarleikur þeirra fuglsbræðra við Tinna heldur áfram og berst út í garðinn við Myllusetur þar sem Tinna tekst að lokum að afvopna þá og taka þá höndum. Þeir halda í áttina að setrinu þar sem þjónninn Jósep verður var við þá og tekur til þess bragðs að reyna að yfirbuga Tinna í gegnum opinn gluggann. Jósep nær að koma góðu höggi á hann með priki sínu en telur sig þurfa að slá aftur og þá lemur hann Starra óvart með þungu höggi í staðinn. Þegar betur er að gáð sést hins vegar að staðan á höndum Jóseps, utan um prikið, víxlast á milli myndanna
Bls 53 - 54. Í framhaldinu af þeirri atburðarás er Tinni aftur tekinn höndum en þá kemur Tobbi allt í einu aðvífandi (bls 53) og ræðst á Þröst sem heldur á byssunni. Þarna hafði Tobbi verið á flakki í leit að Tinna allan tímann frá því honum hafði verið rænt á blaðsíðu 35 og var því orðinn heldur drullugur af ferðalaginu. Örfáum myndum síðar (bls 54) er hann hins vegar orðinn tandurhreinn.
Bls 54 - 55. Tinni nær að berja Starra niður sem liggur steinrotaður við höggið en Þröstur, sem í kjölfarið er kominn með skammbyssuna í sínar hendur, fær hins vegar fljúgandi viskíflösku beint í andlitið frá Kolbeini kafteini (bls 54) sem nú er skyndilega mættur á svæðið. Þeir bræður liggja því báðir í valnum þegar Skaftarnir mæta loksins líka. Sköftunum tekst auðvitað að klúðra málunum með þeim afleiðingum að Starri stingur af en Þröstur liggur þó ennþá á stígnum steinrotaður (bls 55). Á síðari myndinni má þó sjá að fæturnir á Þresti hafa ekki bara breytt um stöðu heldur virðist sem hann hafi skyndilega klæðst buxunum hans Starra. Bláu buxurnar hans eru nefnilega allt í einu orðnar brúnar. Eða er þetta kannski Starri sjálfur sem liggur þarna? Nei, hann er sloppinn.
Bls 58 - 59. Nokkrum dögum síðar hittir Tinni Skaftana og saman fara þeir í heimsókn (bls 58) til manns nokkurs er heitir Arkibaldur Argvísi og er grunaður um að hafa vasaþjófnað að nokkuð stóru áhugamáli. Enn á ný má þar sjá hvar hurð opnast í sitt hvora áttina í Tinna bókunum. Fyrst er húnninn vinstra megin og svo á seinni myndinni (bls 59) hægra megin.
Bls 59 - 60. Inni hjá Arkibaldri kennir ýmissa grasa og þar má til dæmis sjá, í einu herbergjanna, heilu hillurnar af veskjum (bls 59) sem hann hefur stolið á vasaþjófaferli sínum. Á fyrri myndinni sést engin hurð innan í hurðarkarminum hægra megin svo gera má ráð fyrir að hún sé staðsett og opin frá vinstri karminum sem sést ekki. En á seinni myndinni (bls 60) er hurðin hins vegar allt í einu mætt hægra megin. Enn einu sinni fara hurðirnar því á flakk í Tinna bókunum.
11. FJÁRSJÓÐUR RÖGNVALDAR RAUÐA
Bls 3 - 4. Eftir að fréttir berast um það að þeir Tinni og Kolbeinn fari senn af stað í fjársjóðsleit fær Tinni heimsókn (bls 3) frá aðila sem telur sig vera afkomanda sjálfs Rögnvaldar rauða. Hann geri því tilkalls til hluta fjársjóðsins þegar hann finnst. Á meðan þeir Tinni og Kolbeinn eru að ræða við manninn birtast skyndilega fleiri sambærilegir kröfuhafar við dyrnar hjá Tinna en þá tekur Kolbeinn til sinna ráða (bls 4) og bókstaflega rekur þá á brott. Það er hins vegar umhugsunarefni hvað varð um fyrsta manninn sem kominn var inn í íbúðina.
Bls 2 og 4. Þegar fyrsti maðurinn, af hinum meintu afkomendum Rögnvaldar, kemur í heimsókn hringir hann dyrabjöllunni heima hjá Tinna (bls 2) eins og siðuðu fólki sæmir. En þegar Kolbeinn kafteinn tekur málin í sínar hendur (bls 4) er dyrabjallan við dyrakarminn með öllu horfin.
Bls 5 - 6. Strax eftir að Kolbeinn hefur losað þá við hópinn koma Skaftarnir í heimsókn og rétt á eftir er dyrabjöllunni enn á ný hringt. Þar birtist sjálfur prófessor Vilhjálmur Vandráður í fyrsta sinn í bókaflokknum. Það sem er undarlegast við þá heimsókn er að á meðan á henni stendur má að minnsta kosti þrisvar sinnum sjá aðra hvora höndina á Tinna þar sem hún er gul á litinn.
Bls 12. Undirbúningar fjársjóðsleitarinnar er í fullum gangi og rétt fyrir brottför skipsins Síríusar koma Skaftarnir í heimsókn um borð. Kolbeinn kafteinn er þar að ræða við þá og kveikir á eldspýtu sem hann heldur á logandi í hægri hendi sinni. Í vinstri höndinni heldur hann hins vegar á eldspýtustokk. Einhver veginn tekst honum samt, á næstu mynd, að skipta út eldspýtustokknum í vinstri hendinni fyrir pípuna sína án þess að leggja frá sér logandi eldspýtuna í þeirri hægri!
Bls 40. Fjársjóðsleitin er í fullum gangi og loksins kemur að því að Tinni finnur sjálfan Einhyrninginn á hafsbotni. Kafarabúningurinn er gerður tilbúinn fyrir hann og Tinni skellir sér strax niður að skipsflakinu. Bæði aftan á baki hans og framan á brjósti má sjá blýlóð (hann er einnig í sambærilegum blýskóm) sem notuð eru til að stuðla að því að hann fljóti ekki bara upp og geti einnig gengið á botninum uppréttur. Þessi lóð eru hengd á hann með keðjum yfir herðar hans en keðjuna vantar hins vegar á stóru myndinni á blaðsíðu 40. Hún er hins vegar sýnileg á öllum öðrum myndum í bókinni þegar kafarabúningurinn er í notkun niðri á hafsbotni.
Bls 51. Þeir félagarnir af Síríusi sjá stóran kross á eyju einni og arka strax í land til aðgerða vopnaðir skóflum og hökum. Þeir hefja strax gröft undir krossinum og fljótlega brettir Tinni upp ermarnar á peysu sinni endar svitna vinirnir allir við þessa erfiðisvinnu. Á einni myndanna við gröftinn (bls 51) hefur hins vegar alveg gleymst að hafa ermar Tinna uppbrettar.
Bls 51 - 52. Holan góða undir krossinum er risastór og lauslega mætti áætla að þvermál hennar gæti verið alveg fimm til sex metrar og dýptin hugsanlega um einn og hálfur metri. Þetta er því töluvert stór hola sem hefði átt að rúma kynstrin öll af jarðvegi. En hvert hefur sá uppgröftur allur farið? Líklega hleypur þessi jarðvegur á þónokkuð mörgum rúmmetrum en hann er þó hvergi sjáanlegur neins staðar á holubarminum. Alla vega ekki í því magni sem eðlilegt gæti talist.
12. SJÖ KRAFTMIKLAR KRISTALLSKÚLUR
Bls 3. Kolbeinn kafteinn hefur nú gerst óðalsbóndi og sest að á Myllusetri. Í byrjun sögunnar um Sjö kraftmiklar kristallskúlur kemur Tinni í heimsókn til hans í sveitina. Þeir hittast fyrir utan höllina (bls 3) og ganga síðan saman upp tröppurnar að innganginum. Þar má greinilega sjá að á fyrri myndinni eru þrepin í tröppunum níu talsins en á þeirri seinni eru þau ekki nema átta.
Bls 10. Um kvöldið fara þeir Kolbeinn og Tinni á sýningu í Listahöllinni að Myllufossi (sem heitir reyndar Myllubær á blaðsíðu 7 í þessari bók) þar sem ýmis misáhugaverð skemmtiatriði eru á boðstólum. Á meðal þeirra sýningaratriða sem boðið er upp á er hnífakastarinn Ramón Zarate sem Tinni þekkir reyndar strax sem gamlan kunningja sinn - Alkasar hershöfðingja. Í atriði hans hefur Alkasar kastað hnífum sínum allt í kringum aðstoðarmann sinn Síkító þegar að lokakastinu kemur. Þegar Alkasar hershöfðingi kastar síðasta hnífnum sínum sést hins vegar einn aukahnífur, rétt fyrir ofan höfuð Síkítós, sem ekki hafði verið þar nokkrum andartökum áður.
Bls 12. Á sýningunni koma einnig fyrir hinn indverski fakír Ragdalan ásamt drottningu fjarhrifamiðlanna - Jamílu. Atriði hinnar þeldökku Jamílu gekk reyndar svo nærri henni að hún var alveg búin á því. Þeir Tinni og Kolbeinn hitta Jamílu og fakírinn baksviðs stuttu seinna, á leið sinni til búningsklefa Alkasars, og þá kemur í ljós að hún er ekki jafn dökk á hörund á leggjunum.
Bls 13. Í búningsklefa Alkasars eiga þeir Tinni og Kolbeinn ágætt spjall við hershöfðingjann (hnífakastarann Ramón Zarate) áður en þær drífa sig aftur í sæti sín í salnum til að sjá afganginn af sýningunni. En á veggnum, hjá stól og borði Alkasars, er spegill og við efra, vinstra hornið á honum er mynd sem ekki er eins á litinn á þeim myndarömmum sem hún birtist í.
Bls 22. Þegar líða tekur á söguna fara fræðimenn fornleifaleiðangurs Sanders-Harðhnúts að heltast úr lestinni og veikjast hver á fætur öðrum af dularfullri farsótt. Skaftarnir eru með málið á sinni könnu en njóta aðstoðar þeirra Tinna og Kolbeins. Þeir reyna eftir bestu getu að vakta og fylgjast með þeim leiðangursmönnum sem enn eru heilbrigðir en það gengur illa. Skaftarnir eru einmitt að vakta herra Hornklofa, forstjóra Náttúrugripasafnsins, þegar pósturinn kemur með sendingu til hans. Í fyrstu er pósturinn klæddur svörtum skóm en þeir breytast og verða brúnir.
Bls 22 - 23. Á Náttúrugripasafninu má sjá glerskáp vinstra megin við dyrnar að skrifstofu herra Hornklofa en þar fyrir framan eru Skaftarnir að vakta innganginn. Glerskápurinn hefur að geyma margvíslegt úrval af ýmsum tegundum af fiðurfénaði og einnig einhverju öðru. En þó fuglarnir séu uppstoppaðir virðast þeir samt hreyfast, breyta um stellingar og tegundirnar jafnvel breytast.
Bls 25. Þeim leiðangursmönnum Sanders-Harðhnúts sem veikjast fjölgar ískyggilega þrátt fyrir að vera vaktaðir dag og nótt. Tinni bregður sér til Kolbeins að Myllusteri, til að ráða ráðum sínum, og þar hittir Tobbi hinn síamsættaða heimiliskött setursins við tröppurnar innan af anddyrinu. Þar sést að mynstursskreytingarnar á stólpanum hjá tröppunum eru ekki eins á báðum myndunum.
Bls 27 - 28. Þegar aðeins einn leiðangursmanna Sanders-Harðhnúts er eftir heill heilsu ákveða þeir Tinni, Kolbeinn og Vandráður að heimsækja hann og freista þess að taka þátt í að vernda hann. Sá er indjánafræðingurinn Fimbull Fismann og er gamall vinur og skólabróðir prófessors Vandráðs. Hlið og hús prófessors Fismanns er vel vaktað og þegar þeir Tinni, Kolbeinn og Vandráður ganga í bæinn (bls 27) sést til dæmis varðmaður bak við runna undir stóru tré við hlið hússins hjá innganginum. Á seinni myndinni (bls 28) er þetta tré hins vegar með öllu horfið.
Bls 28 - 29. Hús prófessors Fimbulls Fismanns er glæsileg bygging og er meðal annars með grænum gluggahlerum á þar til gerðum stöðum. Við glugga einn, rétt við hornið að aðalinngangi hússins, sést að skástífurnar á gluggahlerunum snúa ekki eins á báðum myndunum. Og þá má einnig sjá, ef grannt er að gáð, að gluggaumgjörðin á bílskúrshurðinni fyrir neðan er engan veginn eins á báðum myndunum auk þess sem pílárarnir á handriðinu til hliðar eru mismargir.
Bls 36 - 37. Um nóttina kemst einhver inn í húsið, prófessor Fismann verður fyrir áhrifum enn einnar kristallskúlunnar og fellur í kjölfarið í dá. Tinni fer að kanna hvernig misindismaðurinn hafi komist inn í húsíð og þá uppgötvar Tobbi að strompurinn sé líklegur kandídat fyrir það. Við rannsókn sína á arninum fá þeir kumpánar væna hrúgu af sóti yfir sig (bls 36) og verða bókstaflega sótsvartir. Að þrífa sótið af sér með vasaklút (bls 37) virðist þó óþarflega auðvelt.
Bls 38 - 39. Þegar Fimbull Fismann fellur í dá er kallað á lækni til að meta ástand hans. Þegar hann skoðar prófessorinn (bls 38) sést að læknirinn er klæddur hvítri skyrtu, rauðri slaufu og svörtum jakka. En eftir að Fimbull hefur sparkað harkalega undir höku læknisins (bls 39), og líklega með því rotað hann, sést að læknirinn er líka kominn í ljósgrátt vesti undir jakkanum.
Bls 40 - 41. Um morguninn er allt í upplausn og ekki batnar ástandið þegar Vandráður prófessor hverfur skyndilega í garðinum. Tinni og Kolbeinn fara út að leita hans og kafteinn11inn er með einglyrnið sitt (bls 40) á hægra auganum líkt og hann hefur verið með meira eða minna alla bókina. En skyndilega (bls 41) er hann ekki lengur með einglyrnið og það sést raunar aldrei aftur í bókunum. Það er eins og Hergé hafi, á nákvæmlega þessum tímapunkti, allt í einu ákveðið að það væri ekkert sniðugt að láta Kolbein alltaf vera með eitthvað helvítis einglyrni á sér.
Næsti kafli í hinum fimm hluta páskafærslu SVEPPAGREIFANS, sem fjallar um mistök í Tinna bókunum, birtist svo á morgun Páskadag. Þá verður fjallað um villurnar í næstu fjórum sögum seríunnar.

2 ummæli:

Út með sprokið!