13. apríl 2020

162. MISTÖK Í TINNA BÓKUNUM - FIMMTI HLUTI

Þá er komið að fimmtu og síðustu mistakafærslunni úr Tinna bókunum sem SVEPPAGREIFINN ætlar að birta að þessu sinni. Það er víst enn af nægu að taka.

18. KOLAFARMURINN
Bls 6. Þeir Kolbeinn og Tinni koma heim að Myllusetri eftir bíóferð og þá kemur í ljós að hinn gamalkunni Abdúlla, sonur emírsins Ben Kalís úr bókinni um Svarta gullið, er kominn í heimsókn. Abdúlla er auðvitað óþolandi og gerspillt leiðindagerpi sem leggur sig fram um að vera með vesen og gerir enga undantekningu á því þegar Kolbeinn kafteinn er nálægur. Hann tekur sig til og skýtur pípu Kolbeins úr munni hans með pílubyssu. Kafteinninn var hins vegar ekkert að reykja pípuna eða gera sig líklegan til að kveikja í henni þegar Abdúlla skaut henni úr munni hans.
Bls 13 - 14. Hrekkjalómurinn Abdúlla er ekkert hættur. Tinni kemur gangandi heim að Myllusetri (bls 13) og arkar röskum skrefum um beina kaflann frá hliðinu og að aðalinnganginum á höllinni. Inn á milli trjánna meðfram stígnum leynist hins vegar Abdúlla með vatnsbyssu sína og sprautar úr henni óvænt á Tinna (bls 14) svo hann verður holdvotur. Þessi leið eða aðkoma að Myllusetri er sígild í Tinna bókunum og sjónarhornið frá hliðinu og heim að höllinni sést í nokkrum bókum frá reyndar aðeins mismunandi sjónarhornum. Á flestum þeirra mynda sést þessi snyrtilegi stígur, umgjörð hans, trjágróðurinn og svo framvegis. Þegar Abdúlla sprautar úr vatnsbyssunni á Tinna er umhverfið fyrir aftan hann hins vegar allt annað og ekki í neinu samræmi við hin sjónarhornin sem við þekkjum. Hvar er til dæmis beina og snyrtilega grasröndin meðfram stígnum?
Bls 16. Eftir að stjórnarbylting er gerð í Kémed drífa þeir Tinni og Kolbeinn sig til höfuðborgarinnar Vadesda með flugvél. Þegar þangað er komið er þeim meinaður aðgangur inn í landið og eru sendir strax aftur til baka með sömu vél til Beirút. Þessi flugvél er í frumstæðari kantinum fyrir fólksflutninga þannig að farþegar hennar sitja í röðum sitthvoru megin með hliðum hennar. Hægra megin við Kolbein sitja bara fjórir aðrir farþegar en þegar kafteinninn fellur við, eftir að slynkur kemur á vélina, má sjá að farþegarnir þar eru að minnsta kosti orðnir fimm.
Bls 52. Þeir Tinni og Kolbeinn lenda í ýmsum ævintýrum í Kémed en undir lok sögunnar eru þeir allt í einu orðnir skipsráðendur á flutningaskipinu Ramónu á miðju Rauðahafinu. Yfir Ramónu sveimar leitarflugvél á vegum Rassópúlosar og í eitt skiptið sem hún flýgur yfir hleypur Tinni af stað út úr loftskeytaklefanum til að skoða hana nánar. Þegar Tinni stekkur af stað má sjá hvernig snúrurnar frá talstöðinni flækjast utan um hægri fót hans en þegar hann fellur við og liggur á gólfinu sést aftur á móti að vírarnir eru vafðir utan um vinstri fótinn.
Bls 56. Fljótlega eftir að flugvélin hefur verið að sniglast yfir Ramónu verður Tinni var við sjónpípu af kafbát og brátt reyna óvinirnir að hefja tundurskeytaárásir á flutningaskipið. Tinni, Kolbeinn og Úffi verða að hafa sig alla við að verjast þessum árásum og reyndar verða átök kafteinsins við vélsímann svo mikil að það stórsér á honum. Eftir að Kolbeinn er búinn að gera vélsímann að einhverju leyti óvirkann finnur hann sér stóreflis skrúfjárn sér til aðstoðar. Við þau átök sést að vélsíminn er læstur á "hálfum hraða" en örskömmu síðar sýnir hann "fullan hraða".
20. VANDRÆÐI VAÍLU VEINÓLÍNÓ
Bls 1 og 20. Í byrjun sögunnar eru þeir Tinni og Kolbeinn í göngutúr í sveitasælunni (bls 1) í námunda við Myllusetur. Það er vor í lofti, Tinni er meira að segja klæddur í mittisúlpu eða þykkan jakka og Kolbeinn syngur um vorið sem er komið og grundirnar gróa. Samkvæmt því er ekki óvarlegt að áætla að mánuðurinn sé annað hvort apríl eða maí. Aðeins tveimur dögum seinna (bls 20) sést prófessor Vandráður vera að nostra við rósirnar sínar sem virðast vera í fullum blóma. Blómstrandi rósir eru víst full snemma á ferðinni í apríl eða maí - er það ekki?
Bls 8. Kolbeinn kafteinn snýr sig um ökklann snemma í sögunni og fljótlega kemur ungfrú Vaíla Veinólínó í heimsókn með sitt fríða föruneyti. Hún birtist nokkuð snögglega og kemur kafteinum í opna skjöldu þegar hún læðist aftan að honum þegar hann er að búa sig undir að troða sér í pípu. Þegar Vaíla grípur um höfuð Kolbeins bregður honum svo mikið að hann missir bæði pípuna sína og tóbakspakkann. Hvoru tveggja fellur auðvitað á gólfið en svo hverfur það og sést ekki meir.
Bls 24. Sagan mallar áfram með frekar meinleysislegum og rólegum undirtón enda er bókin Vandræði ungfrú Vaílu Veinólínó oft nefnd Tinna sagan sem ekkert gerist í. Kolbeinn er slasaður heima á Myllusetri en situr uppi með Vaílu og reynir eftir megni að forðast næturgalann frá Mílanó eins og kostur er. Það gengur þó upp og ofan. Í eitt skiptið er Vandráður að dunda sér við rósirnar sínar í garðinum og færir Vaílu eina þeirra að gjöf. Vaíla rekur rósina hins vegar beint upp að nefinu á Kolbeini til að leyfa honum að finna af henni ilminn. Þar er þó fyrir geitungur sem stingur kafteininn og nefið á honum bólgnar strax út í kjölfarið. Vaíla aumkar sig yfir Kolbeini og dregur broddinn út úr nefinu á honum undir vökulum augum blaðamanna frá Múla og Pétri. Líffræðilega gengur þetta hins vegar ekki upp. Geitungar stinga en þeir skilja þó brodd sinn ekki eftir í viðkomandi líkt og býflugurnar gera. Í íslensku útgáfunni er þessu þó öðruvísi háttað enda gömlu Tinna bækurnar á íslensku nokkuð frjálslegar í þýðingum. Þar er viðkomandi fluga (guêpe) einmitt þýdd ranglega sem býfluga en þar með gengur þó lífræðilega atferlið fullkomlega upp. 
Bls 41 og 44. Stóru tröppurnar inn af andyrinu að Myllusetri leika nokkuð stórt hlutverk í Vandræðum ungfrú Vaílu Veinólínó en brotið marmaraþrep í þeim tröppum eru til að mynda bein afleiðing meiðsla Kolbeins. Myndarammar af tröppunum birtast því reglulega í bókinni. En það er svolítið breytilegt í sögunni hversu mörg þrep eru í stiganum þarna í anddyrinu. Við vitum að brotna þrepið er það fjórða neðan frá og því getum við lesið það út að þrepin á fyrri myndinni (Bls 41) eru fjórtán talsins. Á seinni myndinni (Bls 44) sést hins vegar greinilega að þrepin eru sextán.
21. FLUGRÁS 714 TIL SYDNEY
Bls 10. Tinni, Tobbi, Kolbeinn og Vandráður fá óvænt far með einkaþotu milljarðamæringjans Laslo Carreidas til Sydney í Ástralíu. Á leiðinni skorar Carreidas á Kolbein kaftein í sjóorrustu (þ.e. leikinn) sem þeir spila sitjandi ská á móti hvorum öðrum í vélinni. Á nokkrum myndarömmum má sjá appelsínugulan púða sem staðsettur er á hliðarsætunum tveimur hægra megin við Kolbein kaftein. Hins vegar er aðeins breytilegt hvar púðinn nákvæmlega er eða hvernig hann snýr.
Bls 20. Einkaþotu Carreidas er rænt, með aðalsöguhetjum okkar um borð, og vélinni lent á lítilli eyju í Súndíska hafinu sem nefnist Púla-púla Bompa. Þar taka á móti þeim gamalkunnir bófar, þeir Hörður stýrimaður og Robert Rassópúlos. Sá síðarnefndi er aðalglæponinn að þessu sinni en virðist þó vera orðinn að hálfgerðum trúð í þessari sögu. Það sést nokkuð vel þegar hann verður undir í baráttu við litla könguló. Á seinni myndinni sést hvar Rassópúlos ber stóran hringa á litla fingri hægra handar en á hinni myndinni, sem birtist rétt á undan, er engan hring að sjá.
Bls 21 - 22. Lendingin á Púla-púla Bompa er nokkuð harkaleg og þegar félagar okkar eru reknir út úr flugvélinni stingur Tobbi af og tekur á rás inn í skóginn. Bófarnir skjóta á eftir honum en Tinni reynir þó að aðstoða Tobba eftir mætti. Eftir slagsmálin og baráttuna við að verja Tobba eru félagarnir þó yfirbugaðir og hendur þeirra allra bundnar á bak aftur en í atganginum fer skyrtukragi Tinna allur úr skorðum. Það sést til dæmis greinilega á myndinni hér til vinstri (bls 21) en á hinni myndinni er búið að laga kragann og Tinni því orðinn jafn snyrtilegur og fyrr.
Bls 48. Þegar líður á söguna tekst Tinna og félögum hans að sleppa frá bófunum og leikurinn berst inn í fornt neðanjarðarhof sem þeir finna fyrir tilviljun. Þar niðri koma þeir að innganginum að aðalhluta hofsins en hann er falinn undir styttu einni sem Tinni fær leiðbeiningar um hvernig skuli opna. Þeir komast þar inn og styttan skellur aftur niður að baki þeirra en hattur Carreidas verður hins vegar eftir og klemmist undir henni. Þeir Rassópúlos, Hörður og félagar þeirra koma síðan í humáttina á eftir og sjá hatt Carreidas fastan undir styttunni. Þegar Hörður togar hatt milljarðamæringsins undan henni sést að hann hefur úr á vinstri úlnlið sínum en einhvers konar armband eða ól á þeim hægri. Þegar hann réttir hattinn í áttina að Rassópúlos, til að sýna honum, sést að armbandið er skyndilega komið yfir á vinstri höndina.
22. TINNI OG PIKKARÓNARNIR
Bls 3 og 14. Sagan um Tinna og Pikkarónana gerist að mestu í febrúar en hefst þó hugsanlega undir lok janúar á meðan þeir Tinni og Kolbeinn eru enn staddir heima að Myllusetri. Kjötkveðjuhátíðir eru ætíð haldnar í febrúar en slík hátíð leikur einmitt stórt hlutverk í þessari sögu. Í upprunalegu frönsku útgáfunni má sjá stórt auglýsingaskilti (bls 14) þar sem dagsetning hátíðarhaldanna kemur skýrt fram en reyndar er búið að þurrka þá dagssetningu út í íslensku útgáfunni. Snemma í bókinni (bls 3) á Kolbeinn símtal við Flosa Fífldal en fyrir aftan hinn síðarnefnda má greinilega sjá dagatal á veggnum þar sem fram kemur mánuður með þrjátíu dögum. Sá mánuður er hvorki janúar né febrúar og reyndar þarf að leita fram í apríl til að finna slíkan mánuð.
Bls 9. Í skugga orðaskipta, sem ganga aðallega á milli Kolbeins kafteins og Tapíóka hershöfðingja í gegnum fjölmiðla, sitja þeir Tinni og Kolbeinn saman í borðstofu Mylluseturs einn morguninn og ráða ráðum sínum. Vandráður prófessor situr hins vegar skammt frá þeim og les í dagblaði en í bakgrunninum má einmitt sjá þá Tinna og Kolbein skrafa saman. Á næstu mynd á eftir hrekkur Vandráður svo í kút að þeir Tinni og Kolbeinn eru þeir skyndilega með öllu horfnir.
Bls 10. Hmmm... já síðan kemur í ljós að Kolbeinn sat bara alls ekkert þarna heldur sat hann (samkvæmt seinni myndinni) allan tímann fyrir framan Vandráð!
Bls 12. Eftir að Tapíóka hefur ögrað Kolbeini í nokkra daga stenst kafteinninn ekki freistinguna og ákveður að fljúga til Tapíókapólís ásamt Vandráði prófessor. Á flugvellinum tekur á móti þeim Alvares herráðsforingi. Eitthvað er breytilegt hversu háttsettur Alvares er því yfirleitt hefur hann þrjár stjörnur á rauða fletinum á kraga sínum en á einni myndanna eru stjörnurnar fjórar.
Bls 15 - 16. Þeim Kolbeini og Vandráði er fylgt á áfangastað sinn þar sem þeir fá heila lúxusíbúð til afnota með öllum þægindum. Vandráður bregður sér í bað en Kolbeinn leitar uppi vínskápinn og fer að kanna innihald hans. Þá má sjá að bækurnar í hillunni, sem er vinstra megin við vínskápinn, breyta um lit á milli myndanna en einnig fjölgar um eina bók í hillunni fyrir ofan barinn.
Bls 15 og 22. Íbúð þeirra félaganna er vöktuð með myndavélakerfi þar sem hver myndavél hefur sinn skjá í upptökuherberginu en sjónvarpsskjáirnir eru merktir hverri myndavél með númerum. Þannig sést til dæmis á fyrri myndinni (bls 15) að myndavél númer 1 beinist að vínskápnum. Af hverju sést þá á seinni myndinni (bls 22) að skjárinn sem merkur er 1 snýr að öðru sjónarhorni?
Bls 23. Þeir Tinni og Kolbeinn ráða ráðum sínum. Sá síðarnefndi hellir sér í glas og dreypir á en prófessor Vandráður sést í bakgrunninum með málverk fyrir aftan sig á veggnum. Á neðri myndinni, þegar Kolbeinn frussar út úr sér áfenginu, sést að myndin fyrir aftan Vandráð er horfin.
Bls 30. Tinni, Kolbeinn og Vandráður prófessor eru komnir inn í frumskóginn þar sem þeir hafa gengið til liðs við Alkasar hershöfðingja og skæruliða hans. Á ferð sinni um skóginn koma þeir meðal annars þangað þar sem Tapíóka hefur látið senda kassa af áfengisflöskum inn í skóginn með fallhlíf. Þar sem þeir Tinni og Alkasar hafa staldrað við má sjá að rauði runninn, fyrir aftan þá upp við stóra tréð, færist skyndilega úr stað eða snarminnkar að minnsta kosti.
Bls 32. Á ferð þeirra um skóginn hittir Tinni gamlan kunningja, Ridgewell, úr bókinni um Skurðgoðið með skarð í eyra. Ridgewell heldur alltaf um stafinn sinn í hægri hendinni nema eitt lítið andartak, þegar hann þarf að heilsa Tinna með handabandi, þá er hann allt í einu kominn með stafinn í vinstri hendina. Augnabliki síðar er stafurinn aftur kominn í hægri hendina.
Bls 47. Ferðalangarnir koma loksins til bækistöðva skæruliðanna, lengst inni í frumskóginum, eftir langt og strangt ferðalag og hitta þar meðal annars fyrir eiginkonu Alkasars hershöfðingja. Þó aðstæður skæruliðanna í skóginum séu nokkuð frumstæðar má þó þar samt finna forláta sjónvarpstæki í híbýlum Alkasars og frú Döggu. Sjónvarpið birtist í nokkrum myndum og þar sést að myndarammi er staðsettur ofan á sjónvarpinu. Á einni myndanna vantar þó þennan ramma. Eða ... kannski gleymdist bara að lita rammann þannig að hann er í felulitunum.
Þá hefur SVEPPAGREIFINN lokið við að hrella lesendur Hrakfara og heimskupara yfir páskana með þessari mistakatörn sinni úr Tinna bókunum. Það skal reyndar tekið fram að það efni sem birst hefur hér síðustu fimm dagana hefur SVEPPAGREIFINN ekki sjálfur verið að dunda sér við að leita uppi heldur er það (óttalegur) samtíningur úr ýmsum þartilgerðum áttum. Og án nokkurs vafa er þetta samansafn af efninu alls ekki tæmandi. Sjálfsagt hafa fjölmörg mistök í viðbót, úr bókunum, farið framhjá vökulum augum Tinna fræðinga út um allan heim. Glöggir lesendur hafa auk þess örugglega tekið eftir því að engin mistök eru tiltekin úr bókunum um Svarta gullið og Tinna í Tíbet. SVEPPAGREIFINN hefur reyndar enga haldbæra skýringu á því. Þá skal getið að sumar af þessum villum Hergés eru klárlega mistök en annað sem hér hefur verið tilgreint hefur sjálfsagt sínar skýringar og má eflaust túlka á alla vegu. Sem dæmi um það má til dæmis nefna þegar Ridgewell úr Tinna og Pikkarónunum (hér rétt fyrir ofan) heldur á staf sínum með hægri hendinni á öllum myndunum nema einni. Hann hefði hæglega getað skipt um hönd rétt á meðan hann var að heilsa Tinna þó það sjáist ekki endilega í sögunni. Myndasöguformið er gallað að því leyti að ýmislegt getur gerst á milli myndanna sem ekki kemur alltaf fram. En vonandi hafa einhverjir haft gaman af þessum páskafærslum og það er aldrei að vita nema SVEPPAGREIFINN tíni til fleiri svona pakka úr öðrum myndasöguseríum þegar vel liggur á honum.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir þessa pistla. Í sumum villum er verið að teygja sig soldið langt en fjölmargt þrælmerkilegt.

    SvaraEyða
  2. Já, algjörlega sammála. Sumt af þessu er klárlega nokkuð langsótt og reyndar sleppti ég líka þónokkrum atriðum sem mér fannst engin ástæða til að vera að eltast neitt við. En mörg af þessum mistökum eru líka stórskemmtileg.

    Kv. SVEPPAGREIFINN

    SvaraEyða

Út með sprokið!